Samvinna er lykillinn að öllu saman

12.12.2018 | Viðtöl

Samvinna er lykillinn að öllu saman

Kolbrún Þ. Pálsdóttir starfaði á vettvangi skóla- og frístundastarfs sem fagmanneskja og stjórnandi áður en hún gerðist fræðimaður, rannsakandi og háskólakennari. Hún á fimm börn og hefur tekið virkan þátt í foreldrasamstarfi, ekki síst á framhaldsskólastigi. Það leynir sér ekki að hún hefur brennandi áhuga á að taka þátt í að efla menntun þeirra fagstétta sem halda uppi menntakerfi landsins.

„Ég vann á leikskólum frá 18 ára aldri samhliða námi og vissi að ég stefndi á störf innan menntageirans. Ég ákvað samt að reyna að skilja heiminn aðeins betur og lauk fyrst BA námi í heimspeki þar sem maður fær þennan breiða grunn og heildstæðu sýn til manneskjunnar og samfélagsins; hvert við stefnum og hvað skiptir máli í lífinu. Heimspekin hefur nýst mér vel og mótaði í raun sýn mína á menntun. Hún gaf mér einnig tækifæri til að kenna um hríð í heimspekiskóla fyrir börn. Að loknu meistaranámi í menntunarfræðum fór ég að vinna hjá Reykjavíkurborg; fyrst sem forstöðumaður í skóladagvist sem þá var og hét og síðar hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar sem deildarstjóri barnastarfs og tók þátt í að móta og innleiða starfsemi frístundaheimila fyrir 6-9 ára börn. Þar heillaðist ég af þessum tengslum og þessari heildstæðu sýn til menntunar þar sem unnið er með börn og ungt fólk bæði á formlegum og óformlegum vettvangi og stuðlað að alhliða þroska þeirra og velferð. Ég starfaði á þeim vettvangi í nokkur ár og áttaði mig á að það var lítið skrifað og talað um mikilvægi óformlega námsins og það vægi sem frístundastarf getur haft í lífi barna og ungmenna.

Ég ákvað því að fara í doktorsnám og rannsaka hlutverk og markmið frístundaheimila út frá sjónarhóli barnanna sjálfra, frístundaleiðbeinenda og kennara. Þetta var mjög skemmtilegt og spennandi viðfangsefni.“ Kolbrún fór samhliða doktorsnáminu að kenna við Háskóla Íslands og fékk í kjölfarið fasta stöðu sem lektor og síðan dósent í tómstunda- og félagsmálafræði.

Áskorun
Kolbrún sótti um stöðu forseta Menntavísindasviðs fyrr á þessu ári. Hún segir að sér hafi fundist spennandi áskorun að fá að taka þátt í að móta og þróa þá menntun sem boðið er upp á við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og að vera talsmaður menntavísinda. Menntavísindasvið varð til þegar að Kennaraháskólinn sameinaðist Háskóla Íslands árið 2008.

„Það er mikil gróska í rannsóknum á sviði menntunar og hér eru stundaðar þverfaglegar rannsóknir sem skapa þekkingu er skipta samfélagið miklu máli. Mér finnst mikilvægt að kynna námið vel svo að fólk viti af því fjölbreytta námi sem er í boði. Það eru margar leiðir til kennaranáms í dag en við bjóðum líka upp á nám í uppeldis- og menntunarfræði, tómstunda- og félagsmálafræði, þroskaþjálfafræði og íþrótta- og heilsufræði.“ Kolbrún segir að doktorsnemum hafi fjölgað mikið á síðustu árum sem sé jákvætt og styðji við rannsóknir og nýsköpun á sviði menntunar.

Kolbrún segir að nýja starfið leggist vel í sig. „Auðvitað er staðan alvarleg hvað varðar skort á nýliðun í kennarastéttinni. Það er krefjandi verkefni sem við þurfum að takast á við saman. Ég finn að það er ákveðin vitundarvakning í samfélaginu. Við þurfum virkilega að íhuga hvernig við styðjum við bakið á skólakerfinu, menntakerfinu og fagfólkinu og hvernig við löðum ungt fólk og fólk á öllum aldri til að velja sér kennslu sem framtíðarstarf. Við erum að fá inn mjög breiðan nemendahóp – sumir koma beint úr framhaldsskóla en við fáum líka fólk sem hefur aflað sér annarrar menntunar og áttar sig síðan á að það hefur áhuga á að starfa með börnum og ungu fólki og fer því í nám við Menntavísindasvið.“ Einn af helstu styrkleikum námsins er, að sögn Kolbrúnar, einmitt nemendurnir sjálfir, áhugi þeirra, drifkraftur og fjölbreytt reynsla og hún telur mikilvægt að virkja þá til þátttöku í náminu.

Margar vígstöðvar
Aðsókn í leik- og grunnskólakennaranám dalaði verulega eftir að kennaranámið var lengt úr þremur árum í fimm. Kolbrún bendir á að árið 2012 þegar breytingin kom til fullra framkvæmda hafi orðið helmings fækkun á fjölda útskrifaðra kennara. Hún segir að tekist hafi að snúa þróuninni við á síðustu tveimur árum en á þeim tíma hafi aðsókn í leikskólakennaranám t.d. aukist um 86% og grunnskólakennaranám um 36%. „Það er auðvitað mjög jákvætt en við þurfum samt að sjá mun fleiri sækja í kennaranám. Norðmenn hafa glímt við svipaðar áskoranir og tóku ákvörðun um fjárhagslega hvata til kennaranáms og þetta tel ég að við þurfum að skoða vel hér á landi.“

Kolbrún segir að það þurfi að vinna á mörgum vígstöðvum þegar kemur að því að fjölga kennaranemum. „Námið þarf að vera aðlaðandi og áhugavert og við þurfum að vekja athygli ungs fólks á þeim möguleikum sem kennarastarfið gefur til að hafa áhrif til góðs í samfélaginu. Hefja þarf kennarastarfið til vegs og virðingar og vekja athygli á öllum vaxtarsprotum og styrkleikum sem búa í skóla- og frístundastarfi hér á landi. Sérstaða okkar menntastefnu felst meðal annars í þeirri heildstæðu sýn sem endurspeglast í grunnþáttum menntunar: læsi, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti, heilbrigði og velferð, sjálfbærni og sköpun. Við verðum að standa vörð um fjölbreytt skólastarf þar sem áherslan er á valdeflingu, hæfni og þroska nemenda á breiðum grunni, læsi í víðum skilningi, list- og verkgreinar, heilsueflingu og félags- og tilfinningaþroska – í raun menntun til farsældar. Við eigum að vera stolt af íslensku menntakerfi, þannig verður um leið eftirsóknarvert að starfa innan þess.“

Fagmennska í sífelldri þróun
Kolbrún leggur áhersla á að lagður sé grunnur að fagmennsku kennara í náminu en að í raun sé menntun þeirra ævilöng. „Fagmennska byggist upp á þremur þáttum. Það er í fyrsta lagi þekking á viðfangsefninu og í öðru lagi verkleg þjálfun eða hæfni, það að kunna vel til verka. Þriðji þátturinn er svo ekki síður mikilvægur en það er sjálf hugsjón starfsins: þetta siðferðilega innsæi sem felst í hvað það er að vera góður fagmaður, hver eru gildi starfsins, hvaða hugsjónir búa þarna að baki og hvert sé meginhlutverk kennarans. Þetta þarf að fléttast saman í náminu öllu. Fagmanneskja fullmótast ekki í tveggja til fimm ára háskólanámi heldur tekur við áframhaldandi þróun og við þurfum að hlúa að lærdómssamfélagi skólanna sjálfra. Kennarar eru sífellt að afla sér nýrrar reynslu og þekkingar; fylgjast með, læra og þróa nýjar aðferðir. Gerðar eru ríkar kröfur til kennara af hálfu stjórnvalda; það er búið að móta aðalnámskrá og það er búið að móta hæfniviðmið og lykilhæfni og það koma alls konar tilskipanir um námsmat og annað slíkt sem kallar á vinnu, endurskoðun og breytingar. Þetta er gríðarlega flókið og fjölbreytt starf sem kennarar sinna og margir boltar sem þeir halda á lofti í daglegu starfi.“

Hér kemur mikilvægi starfsþróunar inn og Kolbrún vill sjá mun skýrari aðkomu háskólanna að því að bjóða upp á námskeið, fræðslu og ráðgjöf til starfandi kennara. „Vissulega koma kennarar mikið til okkar í framhaldsnám og stök námskeið en starfsþróun kennara þarf að taka mun fastari tökum, til dæmis með því að skilgreina hana betur sem eitt af verkefnum háskólakennara og veita til þess fjármagni.“

Menntun kennara
Kennaranám hefur tekið miklum breytingum í áranna rás samfara breyttum tíðaranda og heimi. „Það sem hefur gerst undanfarin misseri er að fjölbreytni er meiri, sveigjanleiki hefur aukist og námsleiðum hefur fjölgað – eins og ég minntist á áðan þá erum við til dæmis með námsleiðir fyrir fólk sem hefur lokið öðru námi sem er þá nám sem tengist faggrein eða námssviði sem nýtist til kennslu hvort sem um er að ræða leik-, grunn- eða framhaldsskóla.“
Kolbrún segir að sú ákvörðun að lengja kennaranámið í fimm ár hafi verið mikilvæg til að auka faglega hæfni kennara í takti við auknar kröfur til skólanna. „Við erum að útskrifa fagfólk og sérfræðinga sem leiða þróun skólastarfs og þarf alltaf að vera að endurnýja þekkingu sína og þróa nýja starfshætti. Þetta var djarft og framsækið skref sem mun skila árangri til lengri tíma litið, efla kennarastéttina og íslenskt menntakerfi.

Við verðum alltaf að vera á tánum og við hættum aldrei að þróa kennaranámið. Það er mikilvægt að námið og inntak þess sé skipulagt í samstarfi við skólana, kennarana, hagsmunaaðila og fagfélögin og síðast en ekki síst nemendur okkar. Nemendur hafa til að mynda kallað eftir auknu vettvangsnámi og þegar hafa verið stigin skref í þá átt.
Eitt sem ég legg ríka áherslu á er að kennaramenntun, líkt og annað fagnám, þróast og mótast í samstarfi við samfélagið og hagsmunaaðila.“ Kolbrún bendir á að á Menntavísindasviði þurfi að leggja grunn að samvinnu allra þeirra fagstétta sem sviðið menntar. „Þessar fagstéttir þurfa allar að vinna saman í menntakerfinu og ég tel ýmis sóknarfæri liggja í því að leiða ólíka nemendahópa markvissar saman meðan á náminu stendur.“

Heildstæð sýn á menntun
Kolbrún segir að samvinna og heildstæð sýn sé lykillinn þegar kemur að menntun. „Skólar og kennarar bera ekki einir ábyrgð á velgengni nemenda, velferð þeirra eða þroska. Foreldrar eru lykilaðilar og einnig annað fagfólk sem starfar bæði innan og utan skólanna. Það þarf að líta heildstætt á líf barna og ungmenna. Við vitum að börn sem eiga undir högg að sækja, börn sem standa höllum fæti félagslega eða eru með fötlun eiga það til að lenda utanveltu í kerfinu. Við erum öll sammála um að skólakerfið og menntakerfið eigi að koma til móts við þarfir allra og að allir eigi að fá að njóta sín. Í félags- og tómstundastarfi eru fjölmörg tækifæri til þess að styrkja og vinna með börn og ungmenni á þeirra forsendum. Við vitum að betri árangur næst til dæmis í Danmörku og Svíþjóð þar sem skóla- og frístundastarf er orðið samofnara. Nemendum sem eiga erfitt uppdráttar í skipulögðu skólastarfi getur gengið gríðarlega mikið betur í frístundastarfinu þar sem þeirra styrkleikar fá notið sín. Svo getur það verið öfugt, sum börn geta átt erfitt með að afla sér vina, njóta sín ekki í frjálsu umhverfi og þurfa markvissa þjálfun í samskiptum og félagatengslum.“

Kolbrún viðrar að lokum hugmyndir sínar um framtíðarskólann. „Skóli framtíðar á að leggja höfuðáherslu á þá þætti menntunar sem börn og ungmenni geta síður öðlast í gegnum tölvur og tæki. Hér á ég við viðfangsefni eins og samskipti, félags- og tilfinningaþroska, lýðræði, verklegt og skapandi starf, siðvit og gagnrýna hugsun. Skólinn á að hverfast um virka þátttöku nemenda og efla skilning þeirra á náttúru og samfélagi með sterkri tengingu við nærumhverfið. Auðvitað eigum við að nýta hið stafræna umhverfi markvisst til náms og kennslu, ekki síst í hinum ólíku faggreinum. En menntun er ekki fyrst og fremst tæknilegt viðfangsefni, heldur siðferðilegt. Þess vegna er það svona flókið. Ég hef mikla trú á þeim krafti sem býr í ungu fólki hér á landi og endurspeglast í skóla- og frístundastarfi. Það er ástæða til að við horfum bjartsýn til framtíðarinnar.“

Viðtalið við Kolbrúnu birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. 2018. Lesið blaðið hér.


Svava Jónsdóttir

blaðamaður