Verkstjórn í stað töflukennslu

26.01.2018 | Viðtöl

Verkstjórn í stað töflukennslu

Hildur Sigurðardóttir hefur starfað sem grunnskólakennari með hléum síðan 1970 og orðið vitni að þróun skólastarfsins á þessum tíma. Þegar hún hóf störf í Breiðholtsskóla haustið 1972 var t.d. kennt á laugardögum. Hún segir margt mjög vel gert í íslensku skólakerfi en ýmislegt megi þó gera betur. „Það þarf að setja aukna fjármuni í skólakerfið.“

Hildi Sigurðardóttur dreymdi um að verða íþróttakennari og vinna sem flugfreyja á sumrin en þá var sumarfríið rúmir þrír mánuðir

„Svo urðu raðir tilviljana til þess að ég fór í Kennaraskólann. Á þessum tíma fór fólk í skólann eftir landspróf eða gagnfræðapróf sem var þá fjögurra ára nám. Krafist var stúdentsprófs örfáum árum seinna. Ég held að Kennaraskólinn hafi verið dálítið eins og almennur framhaldsskóli með talsverðri kennslufræði. Íslenska var kennd og stærðfræði sem og enska, danska og þýska. Einnig var kennd samfélagsfræði, saga, náttúrufræði, jarðfræði, íþróttir og tónmennt.“

Hildur útskrifaðist árið 1970.

„Þetta voru góð ár en maður verður kennari fyrst og fremst af reynslunni.“

Kennsluferillinn hófst í Flatey á Breiðfirði en þá var einungis kennt í þrjá mánuði á ári í litlum skólum sem þessum; þar kenndi ég níu börnum á öllum aldri og með fáar námsbækur, Íslandskort, heimskort og ofurlitla krítartöflu. Ég sat við upphækkað, gamalt kennarapúlt og var með kerti og olíulampa þegar tók að dofna á loftljósinu. Krakkarnir í Flatey voru einstaklega vel að sér í dýrafræði, eðli málsins samkvæmt, og sérstaklega öllu því sem snerti fugla. Þeir gátu bent út á sjó og sagt að þarna væru teistuungar frá síðasta vori. Það hefðu borgarbörnin ekki getað gert. Í Flatey lærði ég afskaplega margt nýtt og á þessi dýrðarstaður enn sterk ítök í mér. Í kennarastarfinu er maður alltaf að læra og mér finnst ég vera að læra enn þann dag í dag ekki síður en áður og þá er ég nú aðallega að hugsa um tæknimálin – en svo lengi lærir sem lifir.“

Sérkennaranám

Fljótlega eftir Flateyjardvölina fékk Hildur starf í Breiðholtsskóla og kenndi þar í fimm ár - og þar kennir hún aftur í dag.
„Þetta var alger bylting miðað við skólann í Flatey; hér í Breiðholtsskóla var meira að segja fjölritunarvél og sprittstensilvél. Þá var það þannig að maður var kannski með einn bláan stensil sem síðan fór í vélina og þá prentuðust verkefnin út í bláu. Ef maður vildi vanda sig mikið var hægt að bæta rauðum og grænum lit við og það var nú eitthvað fyrir forfallinn föndrara eins og mig.“

Hildur flutti með fyrrum eiginmanni sínum og tveimur sonum til Svíþjóðar árið 1979. Þar bjuggu þau í sex ár. Hildur kenndi íslenskum nemendum íslensku í nokkrum sveitarfélögum þar ytra auk þess að stunda nám í sérkennslu og útskrifaðist hún sem sérkennari frá Kennaraháskólanum í Malmö árið 1983.
„Ljósritunarvélar voru í skólunum í Svíþjóð og það fannst mér vera alger bylting en þær voru komnar í íslenska skóla þegar við fluttum aftur til Íslands.“
Það bættist í strákahópinn í Svíþjóð og þá, árið 1984, fékk ég heils árs barneignarfrí. Tveimur árum síðar þegar til Íslands var komið og fjórði guttinn fæddist voru það sex mánuðir sem þótti harla gott.“

Íslenska og smíði
Hildur hóf aftur störf við Breiðholtsskóla eftir að til Íslands kom.

„Ég var íslenskukennari á unglingastigi í mörg ár sem var ótrúlega gefandi, skemmtilegt og lærdómsríkt fyrir mig.“
Hún lærði síðar smíðakennslu í Kennaraháskólanum. „Ég blandaði þessu svo saman - ég kenndi eldri krökkunum íslensku og þeim yngri smíði. Það var holl tilbreyting að kenna bæði eldri og yngri krökkum.“

Frá því að Hildur komst á eftirlaunaaldur fyrir nokkrum árum hefur hún verið ráðin til eins árs í senn og í vetur er hún í tæplega 50% starfi sem heimilisfræðikennari.

„Ég kenndi í fyrravetur skapandi skrif og ensku í 4. bekk sem ég hafði aldrei kennt áður og árið þar á undan kenndi ég samfélagsfræði í 8. og 9. bekk. sem ég hafði heldur ekki kennt áður. Ég tek það að mér sem út af stendur á haustin ef svo má að orði komast.“

Breyttir kennsluhættir

Breiðholtsskóli var þrísetinn skóli fyrsta árið sem Hildur kenndi þar og var þá kennt til hádegis á laugardögum.

„Ég kenndi dönsku fyrir hádegi og tók svo við öðrum bekk klukkan 13:50 sem var þriðja hollið í þeirri stofu og var bekkurinn í skólanum til klukkan fimm; þetta er náttúrulega eitt af því sem var öðruvísi í þá daga.“

Myndvarpar voru komnir til sögunnar þegar Hildur hóf störf í Breiðholtsskóla og þá notaði hún þar til fyrir fimm árum þegar skjávarpar leystu þá af hólmi.

„Skjávarpar eru náttúrlega gjörbylting; maður getur sýnt það sem er að gerast úti í heimi og farið inn á Google Earth, en við notuðum okkur það nokkuð í samfélagsfræðinni.

Farið var að nota tölvur í tímum fyrir aldamótin síðustu og það má segja að bylting hafi orðið í slíkri kennslu hin síðari ár. Tölvur eru fyrst og fremst notaðar sem verkfæri til upplýsingaöflunar og til kynninga á verkefnum, ritgerðasmíða og myndbandagerða. Próftaka og kannanir fara nú í auknum mæli fram á tölvum. Upplýsingatæknin hefur fest sig í sessi og er komin til að vera.“

Hildur segir að bein kennsla – töflukennsla – í öllum námsgreinum hafi minnkað mikið með tilkomu internetsins. „Nú er meira um hópavinnu og aukin áhersla lögð á sjálfstæð vinnubrögð. Það er mikið um að nemendur leiti upplýsinga á netinu og nýti sér upplýsingatækni við verkefnagerð, sem er náttúrulega samþætting námsgreina.
Í Breiðholtsskóla er upplýsingaver sem er mjög mikið notað en þar fer fram gríðarlega framsækin kennsla í hvers konar verkefnagerð. Þá fáum við oft utanaðkomandi fyrirlesara sem fræða nemendur nánar og segja frá sinni vísindagrein. Þessir fræðimenn hafa greinilega kveikt áhuga nemenda á viðfangsefninu.“

Fleiri námsgreinar
Kenndar eru mun fleiri námsgreinar en þegar Hildur byrjaði að kenna og nefnir hún m.a. trúarbragðafræði, útikennslu og lífsleikni. „Lífsleiknin er mjög þörf námsgrein því þar er m.a. tekið á eineltismálum, samstarfi og vímuefnavörnum þar sem við á.

Í unglingadeildinni okkar er í vetur boðið upp á ýmsar valgreinar svo sem skapandi skrif, umferðarfræðslu, leiklist, bolta og íþróttir, skólahreysti, textílmennt, skák og myndmennt. Þar að auki er boðið upp á sjálfsstyrkingu í 10. bekk.“

Á miðstigi eru börnin í leiklistarhópum og sýna metnaðarfullar leiksýningar í lok námskeiðsins. Þá má nefna fjölbreyttara úrval námsbóka miðað við áður. „Úrval námsbóka er meira í flestum námsgreinum auk alls netefnisins.“

Skóli án aðgreiningar
Hildur nefnir skóla án aðgreiningar sem dæmi um það sem ekki var þegar hún byrjaði að kenna.

„Við erum að taka við börnum sem áður voru í sérskólunum en skóli án aðgreiningar er umdeilanlegur, aðallega fyrir þær sakir að undirbúningur fyrir þær breytingar hefur verið af mjög skornum skammti. Það hefði þurft að undirbúa skólastarfið svo mikið betur fyrir þessa breytingu. Á hinn bóginn er það tvímælalaust hollt fyrir börn að sjá að við erum ekki öll eins og það þarf að taka tillit til þeirra sem skera sig úr á einhvern hátt. Við þurfum öll að koma til móts við þessi börn og finna okkur í hinni nýju stöðu. Það er tvennt sem mér finnst sérstaklega að þurfi að bæta en það strandar ævinlega á fjármagni til skólanna. Menntaðir sérkennarar þurfa að vera við hlið hins almenna kennara og hinn almenni kennari verður að fá aukna menntun í sérkennslu með hliðsjón af þessum breyttu skólaháttum. Við þurfum að fá meiri stuðning og fræðslu um hvernig við eigum að kenna þessum nemendum. Allt þetta kallar á aukið fjármagn sem ráðamenn virðast ekki hafa skilning á.“

Nemendum af erlendum uppruna hefur fjölgað undanfarin ár og segir Hildur að það einnig kalli á breytingu skólastarfsins. Breytingar á stjórnunarháttum hafa orðið á þessum tíma. „Þegar ég hóf störf í Breiðholtsskóla var hér skólastjóri og yfirkennari. Nú eru í skólanum skólastjóri og aðstoðarskólastjóri og þrír deildarstjórar í 50% stöðum.“

Hildur nefnir að skólaárið sé mun lengra nú en þegar hún byrjaði að kenna en þá fengu nemendur um þriggja mánaða sumarfrí.

Góðir kennarar
Hildur er spurð hvað einkenni góðan kennara.

„Hann þarf að mínu mati að búa yfir mikilli þolinmæði, festu, áhuga á námsefninu, hlýju og mannkærleika auk þess sem ekki sakar að hann sé hugmyndaríkur og spaugsamur. Fyrir lifandis löngu var einn sona minn með íslenskukennara í framhaldsskóla sem hann var mjög hrifinn af. Ég spurði hvað væri svona gott og merkilegt við þennan tiltekna kennara. Svarið var einfalt: „Hann er svo rosalega heimilislegur.“ Þetta svar sagði mér margt um hvernig ungmenni upplifa góðan kennara og hve nauðsynlegt það er að vera hlýr og afslappaður auk þess að vera fær í að miðla sínu námsefni.
Það þarf náttúrulega að miðla námsefninu á áhugaverðan hátt þannig að börn finni tilgang með að læra; ef maður er að kenna eitthvað sem börnin finna ekki tilgang í er það dálítið borin von í raun og veru því tilgangurinn skiptir svo miklu máli. Þess vegna finnst mér svo gaman að kenna heimilisfræði því afraksturinn er kominn til þeirra í lok tímanna. En heimilisfræðin snýst ekki bara um að baka og elda því í þessum tímum fer fram margvísleg almenn umræða, meðal annars um matarmenningu og siði í öðrum löndum og borðhald. Við ræðum einnig mikið um hreinlæti, matarsóun, plastmengun og náttúruvernd í beinu framhaldi.“

Læsi
Hildur segir að það þurfi að efla læsi. „Það er mjög brýnt mál því það að vera vel læs er lykillinn að öllu námi. Það þarf að viðhalda móðurmálinu – og gott betur en það – og efla læsi.

Byrjendalæsi og Pals var innleitt hér í skólanum fyrir nokkrum árum með mjög góðum árangi. Það lýsir sér í betri námsárangri sem nýlegar kannanir hafa leitt í ljós.

Það má aldrei sofna á verðinum gagnvart móðurmálinu okkar. Þar erum við skólafólkið í lykilstöðu ásamt fjölmiðlunum. Þessi vísa er aldrei of oft kveðin.“

Sjálfstraust
Hildur segir að sér finnist það vera sér mikið lán að hafa valið kennarastarfið.

„Ég hef kynnst dásamlegu fólki í skólanum mínum. Fyrir utan nemendurna hef ég eignast marga af mínum bestu vinum hér innan veggja skólans, bæði kennara og annað starfsfólk. Það gleður mig þegar ég sé að fyrrverandi nemendum okkar gengur vel; en ég get auðvitað ekki fylgst með öllum. Við erum að undirbúa nemendur undir lífið og það er náttúrulega stærsta áskorunin að undirbúa þá undir framhaldsnám. Breiðholtsskóli er mjög góður skóli og það er okkar stærsta markmið í raun og veru að skila nemendum héðan sem öflugum einstaklingum; ekki bara öflugum námsmönnum heldur líka fólki með sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Það eflir sjálfsvitund krakka, eins og allra annarra, að ná árangri. Ef við getum hjálpað þeim að ná settu marki er til einhvers unnið.“

Viðtalið birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. 2017.

Svava Jónsdóttir

blaðamaður
Viðfangsefni: Grunnskólinn