Verðum að vera skapandi í öllu sem við gerum

10.09.2018 | Viðtöl

Verðum að vera skapandi í öllu sem við gerum

Skólavarðan heimsótti Ólafsfjörð á fallegum vetrardegi í febrúar og spurði Láru skólameistara hvernig hefði verið að stofna menntaskóla frá grunni og hver væri lykillinn að farsælli skólastjórnun.

„Ég held að svarið við því sé margþætt en mín skoðun er sú að það skipti máli að þér þyki vænt um starfsfólkið, viljir hlúa að því og berir hag þess fyrir brjósti – að starfsfólkið skipti þig í alvörunni máli,“ segir Lára.
Hún segir mikilvægt að skólastjórnendur séu vakandi yfir velferð starfsfólksins. „Þá batnar kennslan og samskipti kennara og nemenda verða góð. Ef kennurum líður vel þá endurspeglast það yfirleitt í að nemendum líður vel. Annað sem skiptir mig máli er að mér líður vel í starfi vegna þess að starfsfólkið hlúir líka að mér. Þetta gengur nefnilega í báðar áttir.“

Lára segist ekki koma að málum með fyrir fram mótaðar skoðanir. Hún segir mikil­vægt að kennarar og starfsfólk fái tækifæri til að tjá sig um fagleg málefni skólans og annað í starfseminni sem þarf að ræða. „Mínar ákvarðanir eru oftast afleiðingar en ekki orsök. Ég tek ekki bara ákvörðun út í loftið heldur fer af stað ferli sem endar í ákvörðun. Það er að mínu mati mikilvægt að hlusta á öll sjónarmið, fá viðbrögð við hugmyndum og vinna sig þannig að niðurstöðu.“

Reiknað með tíu en sjötíu sóttu um
Eftir að hafa gengið um skólabygginguna í fylgd Láru er ljóst að skólinn er vel búinn og starfsaðstaða kennara er til mikillar fyrirmyndar. Það er hugsað fyrir öllu og kennararnir sjálfir ráða til dæmis hvaða tölvubúnað þeir nota og hvernig þeirra prívataðstaða er. Hljóðvist í byggingunni er afar góð og segist Lára hafa lagt mikið upp úr þeim þætti strax í upphafi. „Kennararnir og starfsfólk hafa mismunandi þarfir þegar kemur að vinnuumhverfi og ég hlusta eftir öllu slíku. Þeir ráða mikið sjálfir eigin vinnuaðstöðu og tölvu- og tækjabúnaði sem þeir telja nauðsynlegan.“

Menntaskólinn á Tröllaskaga var stofnaður árið 2010 og í upphafi var áætlað að innan við tíu nemendur myndu sækja skólann fyrsta kastið. Þeir urðu reyndar sjötíu strax á fyrstu önn.

Lára var eini starfsmaður skólans fyrstu mánuðina og setti saman sýn skólans og drög að brautakerfi. Hún ætlaði sér svo sem aldrei að verða skólameistari.

„Ég stundaði meistaranám í listljósmyndun í San Francisco á árunum fyrir hrun og satt að segja hafði ég látið mig dreyma um að þurfa ekki að vinna framar í framhaldsskóla. Mig langaði að vinna við listljósmyndun og hafði gert viðskiptamódel til að láta það ganga upp þegar hrunið skall á. Sú áætlun gekk því ekki upp og ég var skyndilega í þeirri stöðu að mig einfaldlega vantaði vinnu til að framfleyta mér. Ég sótti um fjölda starfa og á endanum fór svo að ég var ráðin í stöðu skólameistara hér,“ segir Lára og bætir við að ráðningin hafi bæði falið í sér létti og verið ákveðið áfall. „Ég var auðvitað ánægð að vera komin með vinnu en um leið fannst mér erfitt að þurfa að flytja frá börnunum, fjölskyldunni og félagslífinu. En það var ekki um annað gera en stökkva á þetta tækifæri.“

Nýr menntaskóli var á teikniborðinu og eins og Lára orðar það þá var hún í raun með autt A4 blað fyrir framan sig.

„Þetta var auðvitað óskastaða því ég áttaði mig fljótlega á því að enginn ætlaði að segja mér hvernig skólinn ætti að vera. Ég var bara með autt blað og svo það sem var albest – nýja námskrá,“ segir Lára.

Erum mikið og-fólk
Lára hafði einn mánuð til að skrifa námskrá og kynna skólann fyrir fólki í byggðarlaginu og sannfæra það um hvernig þetta ætti allt saman að vera. „Ég varð bara að standa keik og segja: svona á skólinn að vera. Annars er mín eftiráskýring sú að það hafi hjálpað mér mikið að vera kerfisfræðingur, en ég vann lengi við forritun í tölvugeiranum. Svo er ég með meistaragráðu í menntunarfræðum og aðferðafræði og þegar þarna er komið er ég nýbúin að ljúka meistaragráðu í listum. Ég átta mig allt í einu á að ég er með menntun og reynslu í þremur stoðum menntunar; listum, félagsvísindum og raungreinum – og er þannig ekki bara ein tegund af skólamanni.“

Lára segir listmenntunina hafa gert það að verkum að hún ákvað strax að búa til konsept fyrir skólann; hvað á þetta að vera, hvert erum við að fara og hvernig ætlum við að vera? „Ég setti mér strax markmið um að skólinn ætti fyrst og síðast að vera skapandi og stuðla að frumkvæði því ef samfélag eins og hér á Ólafsfirði á að lifa af þá þarf fólk að geta sýnt frumkvæði í stað þess að bíða eftir að einhver komi og skaffi eitthvað. Við þurfum að vera skapandi í öllu sem við gerum, þurfum að þora og sýna áræðni. Þannig var mín sýn í upphafi og hefur ekkert breyst.“

Auglýst var eftir kennurum um mitt sumar 2010 og segir Lára að fjöldamargar góðar umsóknir hafi borist. Lára segist hafa lagt sig í líma við að ráða ólíkt fólk af báðum kynjum, á mismunandi aldri og frá ólíkum stöðum. „Ég lagði mína sýn á borðið og reyndi síðan að velja fólk sem féll að henni. Það var ánægjulegt að sjá hversu margt hæfileikafólk sótti um og úr varð starfsmannahópur sem er afar fjölbreyttur og ólíkur innbyrðis. Það gerir að verkum að hópurinn þarf að vanda til samskipta og komast að niðurstöðu fremur en að það myndist klíkur. Við berum virðingu hvert fyrir öðru og ræðum okkur að niðurstöðu í hverju máli,“ segir Lára. Frá upphafi hefur starfsmannahópurinn síðan ráðið ferðinni og mótað framtíðina hverju sinni.

Starfsmannavelta hefur verið í algjöru lágmarki síðan skólinn tók til starfa, en einn kennari hefur látið af störfum og flutt burt af öðrum ástæðum. Lára segir mikilvægt að tryggja atvinnuöryggi og ekki þýði að bjóða upp á skert starfshlutfall.

„Fólk þarf að geta verið í fullu starfi og helst að vera það sem ég kalla og-fólk, þ.e. með menntun á meira en einu sviði. Það á við um alla kennara hér,“ segir Lára.

Sveigjanleiki er í hávegum hafður í Menntaskólanum á Tröllaskaga og Lára segir mikið lagt upp úr endurmenntun og símenntun kennara. „Kennararnir eru og hafa alltaf verið mjög duglegir að sækja sér menntun og vegna þess hvernig kerfið okkar er þá geta hlutirnir gengið upp þótt kennarar bregði sér af bæ og sæki námskeið annars staðar í nokkra daga.

„Við erum með vikulotur og því er hægt að hnika náminu aðeins til ef þarf en oftast er það þannig að kennararnir halda uppi kennslu þótt þeir séu fjarri. Það fóru til dæmis tólf kennarar á námskeið til Skotlands í fyrra án þess að það hefði áhrif á nemendur. Við komumst að því að þetta væri hægt eitt skiptið sem veður hamlaði kennslu hér í sjö daga. Nemendur létu ekki ástandið ekki trufla sig, þeir voru með innlagnirnar og þurftu bara aðstoð við að leysa verkefnin. Svo kom í ljós að þeir höfðu verið í sambandi við kennarana í gegnum netið alla dagana og öll skilaverkefni voru á sínum stað á tilsettum tíma.“

Besta námskráin fyrir framtíðina
Nemendur Menntaskólans á Tröllaskaga eru þjálfaðir í öguðum vinnubrögðum og hver vika er lota þar sem ljúka þarf ákveðnum verkefnum. „Vikutakturinn hefur í för með sér að nemendurnir læra strax að þeir verða að stunda námið jafnt og þétt. Hér þýðir ekki að ætla að redda hlutum fyrir lokapróf því það eru engin slík. Þetta vinnulag verður nemendum tamt og engin spurning að það nýtist í því námi sem tekur við.“

Fjórða iðnbyltingin er mikilvægur þáttur í framtíðarsýn skólans að sögn Láru. „Við vinnum markvisst að því að þjálfa nemendur undir komandi tæknibreytingar og ég hugsa að ekkert land í heiminum búi yfir jafngóðri námskrá í þeim efnum og við gerum. Námskráin okkar er sveigjanleg, við getum búið til og breytt fögum og áherslan er á þekkingu, leikni og hæfni sem við getum beitt í samfélagi framtíðar. Með því að kenna þessi vinnubrögð í staðinn fyrir staðreyndanám, læra nemendur samvinnu og samstarf, læra að finna út úr hlutum, læra að leita sér þekkingar, leysa verkefni og vera skapandi. Þetta rímar algjörlega við lykilorð 4. iðnbyltingarinnar,“ segir Lára.

Kennarahópurinn sækir mikið af námstefnum og námskeiðum þar sem fjallað er um komandi breytingar. Tæknin skipar stóran þátt í skólastarfinu og til marks um það segir Lára að nemendur noti um og yfir 150 forrit í náminu.

„Sá fókus sem mér er ofarlega í huga er að beina nemendum að því að læra það sem þeim finnst ánægjulegt. Þeir eru ekki að læra eitthvað í dag sem þeir munu vinna við það sem eftir lifir ævinnar, þannig að hin þekkta sálarangist unglinga sem vita ekki hvað þeir vilja verða á ekki lengur við. Við vitum ekki hvernig störfin verða eftir kannski 15 ár.

Mikilvægast er að mínu mati að kenna vinnulag þar sem nemendur læra að uppgötva hluti sjálfir, treysta á sjálfa sig og leysa verkefnin með sínu nefi,“ segir Lára.

Viðtalið birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2018. LESIÐ BLAÐIÐ HÉR.

Viðfangsefni: Framhaldsskólar, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Menntaskólar