Væntingar félagsmanna eru mikil áskorun

12.12.2018 | Viðtöl

Væntingar félagsmanna eru mikil áskorun

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir og Hjördís Alberts­dóttir tóku við stjórnartaumum í Félagi grunnskólakennara síðastliðið vor. Þorgerður Laufey er formaður félagsins og Hjördís varaformaður. Þær hafa haft í nógu að snúast síðan þær hófu störf í Kennarahúsinu; fyrsta verk þeirra var að landa kjarasamningi fyrir félagið og síðan hafa önnur verkefni verið ærin. Þorgerður Laufey og Hjördís settust niður með ritstjórum Skólavörðunnar og ræddu fyrstu mánuðina í starfi.

Þið tókuð við formennsku og varaformennsku í Félagi grunnskólakennara síðastliðið vor og fenguð stórt verkefni í fangið, að gera nýjan kjarasamning fyrir félagið. Hvernig var að hefja störf við samningaborðið?

HJÖRDÍS: Þetta var auðvitað svolítið brött byrjun en það tók viku að ljúka gerð kjarasamningsins eftir að við tókum formlega við embættum. Ég var enn föst í minni kennslu fyrir norðan og komst ekki á alla samningafundina. En jú, það má kannski segja að þetta hafi verið nokkurs konar eldskírn fyrir okkur.

ÞORGERÐUR LAUFEY: Leikreglurnar eru þannig að formaður félagsins er jafnframt formaður viðræðunefndarinnar sem fer fyrir samninga­nefndinni. Kosningar í stjórn FG fóru fram snemma árs og áður en við tókum við embættum gekk fyrri stjórn frá kjarasamningi sem var felldur í atkvæðagreiðslu. Við tókum raunverulega við samningaviðræðunum áður en aðalfundur félagsins fór fram í maí enda er betra að þeir sem taka við samningagerð og er ætlað að koma samningi til framkvæmda séu jafnframt í viðræðunefndinni. Þannig að við vorum byrjaðar að vinna áður en við tókum formlega við.

HJÖRDÍS: Þetta verkefni kom á okkar borð á meðan ég var enn í fullri kennslu í Reykjahlíðarskóla. Það fór því svo að ég mætti ekki að fullu til starfa í Kennarahúsinu fyrr en kennslu lauk síðasta vor. Maður stekkur ekki burt fyrr en önninni er lokið.

Nýi kjarasamningurinn var borinn undir félagsmenn um mánaðamótin maí-júní. Mikill meirihluti félagsmanna samþykkti samninginn eða 74% þeirra sem greiddu atkvæði. Voruð þið sáttar við niðurstöðuna?

ÞORGERÐUR LAUFEY: Við getum verið ánægðar með þessa niðurstöðu en við erum ekki síður stoltar af því sem er kannski ekki sýnilegt. Þegar verið er að kjósa til starfa í félaginu þá bjóða margir sig fram og það er ekkert launungarmál að við Hjördís buðum okkur báðar fram til formennsku í FG. Það er ekki sjálfgefið að þeir sem eru kosnir og þeir sem eru ekki kosnir falli saman og geti unnið saman. En þannig er það í okkar tilfelli.

Þekktust þið ekki áður?

HJÖRDÍS: Nei, það gerðum við ekki. Ég verð að segja að okkur fyrstu kynni hafa gengið mjög vel og þetta hefur verið ánægjulegt. Við erum ólíkar og bætum hvor aðra upp.

ÞORGERÐUR LAUFEY: Kostir Hjördísar eru miklir og eitthvað sem maður hefði kosið að hafa með sér. Það er rólyndi, hún er fylgin sér og tekur vel utan um fólk. Hún íhugar vel hlutina.


Félagið á að vera fyrir félagsmenn
Þið hafið verið á ferð og flugi og hitt marga kennara víða um land. Hvernig hefur ykkur tekist að ná sambandi við félagsmenn þessa fyrstu mánuði ykkar í embætti?

HJÖRDÍS: Það er afar mikilvægt að halda góðum tengslum við félagsmenn og heyra hvað brennur helst á þeim. Við höfum því farið víða þessa fyrstu mánuði í embætti og lært mikið. Það má segja að búið sé að hrifsa okkur af „gólfinu“ og við þurfum tengingu við kennarana. Við höfum fengið mjög góðar móttökur og átt mörg gagnleg og góð samtöl við okkar félagsmenn.

ÞORGERÐUR LAUFEY: Þótt við Hjördís séum nýjar í þessu hlutverki þá erum við báðar reyndir kennarar og við höfum lengi lifað og hrærst í kennslunni. Við finnum fyrir væntingum meðal félagsmanna um að við stöndum okkur. Það leiðir hugann að því hversu mikil áskorun það er að taka að sér svona hlutverk. Við þurfum oftsinnis að setja okkur strax inn í mál, oft einstaklingsmál sem þola enga bið. Við erum afar þakklátar fyrir að fólk skuli telja sig geta leitað til félagsins enda á félagið að vera fyrir félagsmanninn.

Þá hafa heimsóknir okkar í skóla víða um land verið lærdómsríkar. Ég hef sjálf unnið í litlum skóla og stórum skóla en ég hef til dæmis aldrei verið kennari í litlu sveitarfélagi þar sem nálgunin er önnur. Við höfum svo víða fundið hvernig grunnskólinn er hjartsláttur samfélagsins. Sveitarfélag sem hefur á að skipa góðum grunnskóla og ánægðum kennurum fær í staðinn gleði inn í samfélagið.

HJÖRDÍS: Félagsmenn gera kröfu til þess að við séum tilbúnar í öll verkefni og við höfum lært mikið þessa fyrstu mánuði. Það er nánast alltaf önnur okkar úr húsi og annirnar eru meiri og fjölbreyttari en ég bjóst við. En hver dagur er mjög ánægjulegur.

Á nýju ári bíður það ykkar að gera nýjan kjarasamning. Er undirbúningur hafinn að þeirri samningagerð?

HJÖRDÍS: Þetta er náttúrlega endalaus fjallganga þegar kemur að gerð kjarasamninga. Við höfum haldið samráðsfundi og munum að sjálfsögðu halda fleiri slíka.

ÞORGERÐUR LAUFEY: Það er stutt á milli kjarasamninga stundum. Ég hitti kennara úti á landi sem velti því fyrir sér hvort þessi eilífa samningagerð, að kjósa um samninga o.s.frv. gerði kennarastéttina svolítið þreytta. Við værum alltaf í baráttu.

Við munum að sjálfsögðu leggja okkur fram við samningaborðið. Ég get alveg sagt að reynsla mín í þetta nýja hlutverk kemur ekki af gólfinu sem kennari heldur er það miklu frekar reynsla mín sem manneskju og reynsla mín af því að vita og fylgjast með hvað brennur á okkur kennurum á hverjum tíma. Þannig má segja að hæfni mín til að sitja við samningaborðið komi úr ólíkum áttum.

Ég hef líka oft haft á orði að það sé jafnmikilvægt að gera kjarasamning og að koma honum til framkvæmda. Þá á ég við að tryggja þarf að samningurinn gefi það sem hann átti að gefa og rætt var við samningaborðið. Það gengur ekki upp að standa í ágreiningi um einhver atriði í samningi og ætla sér bara að semja um þau næst. Þetta hefur því miður verið svolítil lenska í þessum málaflokki.

Í núgildandi kjarasamningi eru fjölmörg atriði sem við þurfum að ná til framkvæmda. Því hefur verið haldið fram að kjarasamningur grunnskólakennara sé svo flókinn. Það er að hluta til rétt enda erum við oft að semja um marga ólíka hluti. Við erum að sjálfsögðu að semja um kaup og kjör okkar félagsmanna en á sama tíma erum við að kannski að semja um ákveðin atriði í starfsumhverfinu sem jafnvel eru þegar bundin í lög. Við höfum verið að blanda þessu saman og semja um hluti sem þegar er að finna í lögum, svo sem vinnuverndarlögum.

Við þurfum að taka betur utan um grunnstoðirnar sem halda félaginu okkar saman. Þar á ég við félagslega trúnaðarmannakerfið sem hefur það hlutverk að sjá til þess að kjarasamningum sé fylgt og öryggistrúnaðarmannakerfið sem fer inn á vinnuverndarlöggjöfina. Þá eru ótaldir skólanefndarfulltrúar, sem eru kennarar og eiga sæti í skólanefndum í hverju sveitarfélagi fyrir sig, og hafa það hlutverk að stýra skólunum. Þessar þrjár stoðir eru allar jafnmikilvægar.

HJÖRDÍS: Vinnan við kjarasamninginn, á milli kjarasamninga, er mikið meiri en ég hefði getað ímyndað mér. Ég sit í skólamálaráði og er formaður skólamálanefndar FG. Skólamálanefndin okkar hefur hist þrisvar og við erum komin ágætlega á veg með að móta stefnu. Eitt af því er að koma á samstarfi okkar og skólamálanefnda annarra skólastiga; annarra félaga hér í Kennarahúsinu. Þar sjáum við fyrir okkur að ræða málefni sem brenna á öllum kennurum.


Góður taktur skólaársins
Hvernig hafa vistaskiptin farið í ykkur? Skrifstofuvinna hefur tekið við af fjölbreyttu starfi í skólastofunni og skólanum. Saknið þið skólans og nemendanna?

HJÖRDÍS: Ég sakna nemandanna minna mikið og ég fer í gamla skólann minn reglulega og fæ þá gríðarlegan söknuð í hjartað. En viðbrigðin eru kannski ekki svo mikil. Þetta er líkt kennarastarfinu að því leyti að annirnar eru miklar á hverjum degi og maður hefur varla tíma til að sinna vinnunni fyrir vinnunni. Það er mikið að gera hér og það er mikið að gera í skólanum.

ÞORGERÐUR LAUFEY: Ég held að munurinn á því að vera kennari og formaður FG sé ekki svo gríðarlegur. Nú erum við að fara inn í jólin og það er einhver taktur sem félagsmenn okkar sigla líka eftir. Skóladagatalið er líka svolítið inni í okkur. Það gefur okkur þessa siglingu sem skólinn býður upp á því þótt þú sért að koma fimmta veturinn í röð til kennslu þá mætirðu alltaf ferskur að hausti, með autt blað. Það gildir það sama hér. Ég held að við finnum meira fyrir þessum öldugangi heldur en til dæmis stéttarfélög sem eru með reglulegra ár og þar sem vinnutíminn fer eftir þessum rauðu dögum.

Boðin um að koma inn í skólana fylgja líka svolítið þessum takti. Þetta er góður taktur.

Lokaorð?

ÞORGERÐUR LAUFEY: Við finnum til ábyrgðar í störfum okkar fyrir Félag grunnskólakennara; að efla stéttarvitund og vekja kennara til vitundar um mikilvægi kennarastarfsins og eflingu fagmennskunnar í sjálfum sér. Við þurfum að taka utan um kennara og minna þá á að starfið sem þeir inna af hendi á degi hverjum er mjög mikilvægt.


Viðtalið við Þorgerði og Hjördísi var birt í Skólavörðunni, 2. tbl. 2018. Lesið blaðið hér.