Tjáning og samræður eru lykill að árangri

31.05.2019 | Viðtöl

Tjáning og samræður eru lykill að árangri

Um eitt hundrað börn með annað móðurmál en íslensku stunda nám í grunnskólum Akureyrar. Þau hafa ólíkan bakgrunn og þarfir þeirra í skólanum eru margs konar. Helga Hauksdóttir kennsluráðgjafi hefur síðustu sjö árin unnið við að halda utan um þessa nemendur og vera kennurum og foreldrum til ráðgjafar og aðstoðar.

Blaðamaður Skólavörðunnar heimsótti fræðslusvið Akureyrar fyrir skömmu og fékk Helgu Hauksdóttur til að segja frá

starfi sínu, áskorunum og framtíðarsýn. Hún var fyrst spurð af hverju hún hefði sóst eftir starfi kennsluráðgjafa á sínum tíma.

„Mér fannst tímabært að skipta um starf og mig langaði ekki að verða gamall skólastjóri sem allir væru orðnir þreyttir á. Mér þótti sú ákvörðun að leggja niður móttökudeildina hér í bæ afar spennandi og í raun má segja að ég hafi elt erlendu nemendur mína í Oddeyrarskóla út úr skólanum. Ég sótti um starfið og er afar þakklát fyrir að hafa fengið það,“ segir Helga og bætir við að mikill áhugi á fjölmenningu og kennslu barna með annað tungumál hafi líka gert útslagið.

Helga segir það hafa verið pólitíska ákvörðun að leggja móttökudeildina, sem áður hafði verið kölluð nýbúadeild, niður. Það hafði í för með sér að börn með annað móðurmál en íslensku fóru eftir það í sína hverfisskóla.

„Þegar hin svokallaða nýbúadeild var sett á stofn árið 2001 voru sárafáir erlendir nemendur hér og svo var fyrstu árin, yfirleitt um 20 krakkar í deildinni. Um 2006 tók þessum börnum að fjölga mjög, einkum pólskum krökkum. „Þegar margir krakkar af sama þjóðerni eru í sömu bekkjardeild er mjög eðlilegt að þau haldi saman og tali sitt móðurmál. Um leið minnkar stundum áhuginn á að kynnast öðrum bekkjarfélögum og að leggja sig fram við íslenskunám,“ segir Helga. „Þó svo að móttökudeildir hafi ýmsa kosti var ég mjög sammála því að erlendir nemendur færu í sína hverfisskóla. Við þurfum að huga vel að félagslegri stöðu þeirra og vinatengslum og það er best að gera það í því hverfi sem þau búa í. Þau eiga að vera eðlilegur hluti af öllu skólastarfi allra skóla.“

Helga segir að fyrsta daginn í nýju starfi þá hafi hún fengið skrifborð og stól. „Starfið var óskrifað blað og það var auðvitað svolítið spennandi. Ég hafði tekið nokkra kúrsa í fjölmenningu við menntavísindasvið HÍ í meistaranáminu mínu og hafði lengi haft brennandi áhuga á þessum málaflokki. Hulda Karen Daníelsdóttir var mér stoð og styrkur í upphafi og ég hélt líka áfram að læra um kennslu íslensku sem annars máls. Auðvitað er maður oft svolítið einn í þessu starfi og það er enginn að gera nákvæmlega það sama innan vinnustaðarins,“ segir Helga.


Fljót að læra að bjarga sér
Helga segir að tala nemenda sem hafa íslensku sem annað mál hafi verið svipuð síðustu árin. Starf Helgu felst meðal annars í því að fara í alla skólana, hitta kennara og styðja við þá faglega. Auk þess sinnir hún kennslu nemenda sem eru í eldri deildum grunnskólans og eru að fóta sig í nýjum skóla og hjálpar þeim að ná grunntökum á íslensku. Samstarf við foreldra og aðstoð við þá er einnig hluti starfsins og oftast mjög ánægjulegur.

„Þessi hópur er mjög breiður og krakkarnir hafa mismunandi bakgrunn. Þau eru á öllum aldri, sum eiga erlendar rætur en eru alin upp hérlendis og þurfa litla sem enga aðstoð í íslenskunni á meðan önnur flytja hingað og eru á byrjunarreit í íslensku. Svo er hópur sem elst upp hjá foreldrum sem þekkja fáa eða enga Íslendinga og margt af erlenda fólkinu okkar talar bara ensku í vinnunni. Það er því stundum erfitt að finna hvata og tækifæri til að læra nýtt mál, þó svo að það sé oftast lykillinn að því að samlagast nýju samfélagi og kynnast íbúum,“ segir Helga.

„Ég dáist alltaf að þessum börnum, þau eru svo ótrúlega dugleg og oftast fljót að ná tökum á daglegu máli þannig að þau geti bjargað sér. Hins vegar skortir oft á dýptina og þar reynir verulega á okkur kennara að útskýra fyrir þeim flóknari hugtök námsgreina.“


Kennsluaðferðirnar hafa tekið breytingum
Spurð hvort það reyni ekki á kennara að kenna börnum sem ekki skilja íslensku segir hún svo vera. „Það er líka gild spurning hvort ekki þurfi að mennta kennara betur, þannig að þeir geti sinnt þessum hópi. Mín skoðun er sú að kennarar þurfi oft meiri aðstoð inni í kennslustofunni í upphafi og langbest væri ef við gætum haft kennara í nokkurs konar verkefnastjórastarfi, þannig að það þurfi ekki að telja kennslustundir og þeirra hlutverk væri að styðja við kennsluna og fylgja krökkunum eftir fyrstu mánuðina, þannig að við séum ekki henda þeim beint í djúpu laugina,“ segir Helga.

Hún bendir á að erlendir nemendur sem koma hingað þurfi mikla aðstoð fyrstu mánuðina og þetta eigi til dæmis við kvótaflóttamenn sem hafa sest að á Akureyri. „Við kenndum sýrlensku fjölskyldunum sem hingað komu með því að skipta þeim í tvo hópa fyrstu vikurnar; börn og fullorðna. Það gekk ágætlega, við höfðum túlk, og það var gaman að sjá hvað krakkarnir sérstaklega voru fljótir að læra að bjarga sér.“

Aðferðir og leiðir við íslenskukennsluna hafa breyst töluvert á síðustu árum, segir Helga. „Blessunarlega leggjum við alltaf meira og meira upp úr tjáningu; að hvetja krakka til að tala. Það er svo mikilvægt að þau leggi í að biðja um orðið og segja sína skoðun og skiptir engu þótt þau tali ekki kórrétt mál. Við þurfum á sama tíma að brýna fyrir íslensku krökkunum að tala ekki ensku við erlenda nemendur. Ég reyni sífellt að benda íslensku krökkunum á að þeir séu líka íslenskukennarar og þurfi að hjálpa erlendu krökkunum að byggja upp sinn orðaforða.“

Helga segir erlenda nemendur oftast fá að sleppa við dönsku og í staðinn fái þau sitt eigið móðurmál metið og aukna íslenskukennslu. Það sem hefur breyst, að sögn Helgu, er að áður fyrr voru erlendir krakkar mest teknir úr tímum þegar lesgreinar voru á dagskrá – og settir í íslenskutíma í staðinn.

„Nú reynum við að hugsa þetta öðruvísi. Þessi börn eins og önnur þurfa að koma sér upp faglegum orðaforða og við megum ekki ræna þau þeirri þekkingu sem boðið er upp á í greinum á borð við sögu, líffræði og samfélagsfræði. Við verðum að halda áfram að þróa leiðir svo þessi börn fái notið þessara kennslustunda, þau skilji hvað fram fer og geti í framhaldinu aflað sér frekari þekkingar – til dæmis með því að lesa sér til á sínu eigin móðurmáli eða ensku, á netinu. Ég sé líka marga kennara fara skemmtilegar leiðir, eins og að nota quiz forrit með nemendum í kennslu hugtaka námsgreina.“

Að tala og hlusta
Helga segir mikla vinnu að baki í að aðlaga ýmiss konar námsefni – til dæmis hafi verið gerðir útdrættir og orðalistar á pólsku í mörgum lesgreinum á unglingastigi. Þar hafi margir kennarar lagt hönd á plóg og verið mjög duglegir við að deila vinnu sinni, svo að hún nýtist sem flestum.

„Við reynum líka að útvega samsvarandi námsefni á öðrum tungumálum þegar það er hægt. Þá geta erlendir nemendur verið með íslensku kennslubókina en haft stuðning af sambærilegri bók á sínu móðurmáli eða ensku. Ég tel að okkur sé að fara fram í þessu og kennarar leita fleiri leiða en áður – auðvelda leiðin að taka þessa krakka út úr kennslustund er ekki lengur gild. Ég hef séð kennara auka við verklegt nám og efna oftar til umræðna um námsefnið, hvort tveggja hjálpar erlendu nemendunum,“ segir Helga og bætir við að vissulega sé þetta allt hægara sagt en gjört – en við séum vonandi á réttri leið.

„Þetta er mikil vinna fyrir kennara, þeir þurfa þjálfun og æfingu til að byrja með en á móti kemur að þetta er líka gefandi og skemmtilegt.“

Helgu er hugleikið að efla samræðulist í grunnskólanum. Spjaldtölvur eru í boði í grunnskólum Akureyrar og nýtast þær til margra hluta í náminu. „Við verðum samt að gæta að því að setja krakka ekki of mikið fyrir framan tölvur, sem getur verið þægilegt á ýmsan máta, en þá missa þau af tækifærinu til að tala saman og ekki síður tækifærinu til að hlusta á íslensku. Ég reyni alltaf að tala eins mikið og ég get við erlenda nemendur sem ég hitti. Það dugir oft að spyrja einfaldra spurninga eins og hvað ætlarðu að gera eftir skóla í dag? Eða þótti þér gaman í fótboltanum í gær? Það er nefnilega svo mikill sigur fyrir sjálfstraust þessara barna að geta tjáð hugsanir sínar og hafa svo hugrekki til að rétta upp hönd og segja: ég skil ekki,“ segir Helga.


Bækur í staðinn fyrir útlanda-súkkulaði
Nemendur með annað tungumál en íslensku búa misvel þegar kemur að kennslu í þeirra eigin móðurmáli. Kennsla af þessu tagi er ekki lögbundin og segir Helga að þetta sé misjafnt eftir stöðum en langoftast sé þessi tungumálakennsla í höndum sjálfboðaliða, oft foreldra barnanna. Sveitarfélög styðji oft við þessa kennslu með því að láta í té í húsnæði og kennslugögn. Þannig sé staðan til dæmis á Akureyri og boðið sé upp á kennslu í pólsku einu sinni í viku og eins fer fram kennsla í arabísku einu sinni í viku í einum grunnskóla bæjarins. „Við höfum aðstoðað eftir megni, þau fá að ljósrita hjá okkur og fleira í þeim dúr.“

Helga kveðst brýna fyrir foreldrum erlendra barna að tala móðurmálið heimavið. „Það er mikilvægt að það sé lesið fyrir börnin á þeirra móðurmáli, þau heyri málið og við hvetjum krakka til að hafa skemmtilega bók á sínu móðurmáli í töskunni. Það er hluti af yndislestri sem felur í sér að krakkar lesa sér til skemmtunar. Það er ekki sanngjarnt að á meðan íslensku krakkarnir lesa spennandi bækur þá séu erlendu nemendurnir kannski að lesa einhverja byrjendabók með efni sem ekki höfðar til þeirra. Þau þurfa líka að njóta yndislestrar og geta gert það á sínu eigin móðurmáli,“ segir Helga.

Framboð af barna- og unglingabókum á erlendum tungumálum hefur aukist að sögn Helgu. Pólski sendiherrann kom til dæmis færandi hendi í fyrra og gaf fjölda bóka. Þær voru allar skráðar í Gegni og ganga nú barna á milli með milligöngu skólasafnanna.

„Almenningsbókasöfnin standa sig ágætlega og ég hef átt gott samstarf við bókasafnið í Árborg en það er móðursafn þegar kemur að pólskum bókum. Þaðan er hægt að fá bækur um hvaðeina; kennslubækur og líka skáldsögur og ævintýrabækur á pólsku,“ segir Helga.

Hún segir suma kennara á Akureyri líka hafa tekið upp á þeirri nýbreytni að koma með barnabók frá útlöndum í stað þess að koma með súkkulaði á kaffistofuna að lokinni utanferð. Kiddi klaufi á pólsku barst einmitt með þessum hætti til Akureyrar nú fyrir skemmstu.

„Við eigum að bera virðingu fyrir móðurmáli okkar erlendu barna. Með því að bjóða þeim að koma með bækur á sínu máli inn í skólann erum við að sýna þeim og uppruna þeirra virðingu. Um leið viðurkennum við að skólinn er ekki lengur einsleitur og að við búum í samfélagi fjölmenningar,“ segir Helga Hauksdóttir.


Viðtalið við Helgu Hauksdóttur birtist fyrst í prentútgáfu Skólavörðunnar, 1. tbl. 2019. Lesið blaðið hér.

Viðfangsefni: Grunnskólinn, Íslenska sem annað tungumál