Stétt sérkennara að deyja út

08.01.2019 | Viðtöl

Stétt sérkennara að deyja út

Árni Einarsson hefur helgað nemendum með sérþarfir ríflega þrjátíu og fimm ára starfsferil sinn. Þegar hann hóf störf árið 1985 urðu fatlaðir fyrir mun meiri fordómum en í dag, hann varð m.a. vitni að því þegar hópi þeirra var meinaður aðgangur að sundlaug á höfuðborgarsvæðinu. En tímarnir breytast og þjónusta við fatlaða hefur aldrei verið öflugri en um þessar mundir. Árni hefur þó enn áhyggjur, nú af því hversu fáir kennarar fást til að starfa með þessum viðkvæma nemendahópi.

Það er leit að fjölbreyttari nemendahópi en í Klettaskóla í Reykjavík. Skólinn er sérskóli og nemendur þar glíma við misalvarlegar fatlanir og þroskahamlanir. Síðustu þrjú ár hefur Árni Einarsson verið skólastjóri á þessum einstaka vinnustað en þangað er ég einmitt mættur til að ræða við hann starfið, skólakerfið og daglegu verkefnin. Ég á hér persónulegra hagsmuna að gæta því dóttir mín er greind með dæmigerða einhverfu og hóf nám við skólann í haust. Á mér brenna því fjölmargar spurningar þegar ég sest niður með Árna í litlu fundaherbergi í skólanum og við hefjum spjall okkar.

„Í skólanum eru um 130 nemendur og nánast jafn margir starfsmenn, þar af um 50 kennarar. Við hefðum gjarnan viljað hafa þá fleiri en okkur hefur reynst mjög erfitt að finna kennara. Það sækja engir um þegar við auglýsum og ég hef sérstakar áhyggjur af því að háskólarnir eru ekki að útskrifa kennara sem sérhæfa sig í að vinna með þessum nemendahópi. Það er því ekki útlit fyrir að ástandið batni, nema síður sé. Þetta er ekki alls staðar svona og við höfum fengið hingað kennaranema frá Evrópu í starfsnám. Allt þetta hefur leitt til þess að síðustu ár höfum við ráðið hingað færri kennara en áður en við reynum að mæta því með því að ráða aðrar háskólamenntaðar stéttir, t.d. þroskaþjálfa. Við skipuleggjum þá starfið þannig að unnið sé í teymum sem í eru t.d. kennari, þroskaþjálfi, stuðningsfulltrúar o.s.frv.“ segir Árni.

Nemendahópurinn hefur breyst
Klettaskóli tók formlega til starfa árið 2011 en hann byggir á gömlum grunni enda varð hann til við sameiningu Öskjuhlíðarskóla og Safamýrarskóla. „Báðir þessir skólar voru sérskólar fyrir fatlaða nemendur,“ segir Árni. „Skömmu fyrir sameininguna voru inntökuskilyrðin í skólana hert talsvert sem þýðir að nemendur þurfa að glíma við alvarlegri fatlanir en áður til að fá að stunda nám hér. Raunar er það þannig að ég held að enginn af þeim 120 nemendum sem voru í gamla Öskjuhlíðarskóla myndu fá pláss í Klettaskóla eins og hann er starfræktur í dag.

Það er greinileg þörf fyrir skólann enda hefur nemendum hér fjölgað jafnt og þétt síðustu ár. Þeir eru í dag 130 talsins en upphaflega var gert ráð fyrir að hér myndu um 90 nemendur stunda nám. Þetta þýðir að við glímum við ákveðið plássleysi, en þó að skólinn hafi nánast algerlega verið endurbyggður hefur kennslurýmið lítið sem ekkert stækkað. Mörgum nemendum hér fylgir mikill búnaður þannig að við þurfum mikið pláss, en þrátt fyrir ákveðin þrengsli er erfitt að kvarta, enda er hér við skólann til dæmis glæný sundlaug og íþróttaaðstaða.“

Lærður sérkennari
Árni byrjaði kennsluferilinn árið 1985 og tilviljun réði því að hann hóf störf hjá Þjálfunarskóla Ríkisins sem staðsettur var við hliðina á Kópavogshælinu. „Margir fatlaðir höfðu fram til um 1980 ekki gengið í skóla en upp úr því urðu ákveðin straumhvörf. Skólakerfið var opnað fyrir þessum nemendum en einnig var stofnað til fullorðinsfræðslu fyrir þá sem höfðu aldrei fengið skólagöngu. Til að sinna þeim hópi var komið á laggirnar nokkrum skólum, þar á meðal Þjálfunarskólanum, sem er grunnurinn að því sem í dag heitir Fjölmennt. Ég starfaði við Þjálfunarskólann í nokkur ár við að skipuleggja starfsemina en fór þaðan í Brúarskóla sem er sérskóli fyrir börn með hegðunarfrávik. Þar starfaði ég allt þar til ég réði mig til starfa hér. Þannig að þó það hafi aldrei verið planað þá hef ég verið í þessari sérkennslu alla tíð og svo fór að ég sérhæfði mig í faginu og er lærður sérkennari.“

Faglegra starf
Það segir sig nokkuð sjálft að það hlýtur að vera gríðarlegur munur á þeirri þjónustu sem fötluðum nemendum er veitt er í dag og því sem var þegar Árni var að hefja störf. „Augljóslega og í raun má í því sambandi nánast tala um byltingu. Þjónustan í dag er miklu meiri, starfið faglegra og það hafa orðið alls konar jákvæðar breytingar. Til að skýra muninn segi ég stundum frá því þegar ég var að vinna í Þjálfunarskólanum. Nemendurnir höfðu margir lítið tekið þátt í samfélaginu en voru samt vel sjálfbjarga. Þeir höfðu lítið við að vera þannig að við ákváðum að kenna þeim að nota sundlaugina sem var rétt hjá skólanum þarna í Kópavogi. Við fórum með hóp af fötluðu fólki í sund, ég og íþróttakennari sem var að vinna með mér á þessum tíma. En þar sem við sátum í heita pottinum, í annað skipti sem við mættum í laugina, þá kom forstöðumaðurinn, rak okkur upp úr og sagðist ekki vilja sjá þetta fólk í lauginni. Þetta var árið 1985 eða 1986. Ég fór að reyna að kvarta, skrifa bréf og svona, en það voru ekkert mikil viðbrögð. Þetta myndi ekki gerast í dag.“

Tæknin breytir miklu
Mikill búnaður fylgir nemendum Klettaskóla sem skapar fjölmörg verkefni fyrir starfsmenn skólans. „Við erum stöðugt að vinna með og innleiða nýja tækni sem oft tengist boðskiptum, enda eru þau lykilþáttur í náminu hér. Eitt dæmi er að einn starfsmaður skólans hefur sérhæft sig í augnstýribúnaði fyrir nemendur sem hafa ekki möguleika á að tjá sig öðruvísi en með því að nota augun til að stjórna tölvu. Sá starfsmaður er í fararbroddi á þessu sviði á Íslandi enda tekur hann þátt í viðamiklu samstarfi erlendis, sækir mikið námskeið o.s.frv. Klettaskóli innleiddi snemma spjaldtölvur enda geta þær hjálpað nemendum við boðskipti, við erum að innleiða atferlisþjálfun og hópur starfsmanna vinnur nú út frá ákveðinni nálgun í félagsfærnikennslu. Þannig að verkefnin eru mörg og við erum stöðugt að skoða einhverjar nýjungar enda skiptir það miklu máli í svona starfi.“

Í frímínútum með nemendum
Það hefur vakið athygli að Árni stendur úti á hverjum morgni með öðrum starfsmönnum og tekur á móti nemendum sem streyma í skólann um og upp úr klukkan átta. „Ég reyni að mæta snemma í vinnuna enda nýtist tíminn fyrst á morgnana vel, ég næ að fara í tölvupóstinn o.s.frv. en svo tek ég einmitt alltaf á móti nemendunum hér á morgnana enda finnst mér það mjög skemmtilegt. Þrátt fyrir ótal verkefni legg ég líka áherslu á að taka tíma í að vera úti í frímínútum með nemendum og þannig í tengslum við þá.“

Að lokum berst talið rétt sem snöggvast að skóla án aðgreiningar. Hvaða skoðun hefur Árni þar? „Skóli án aðgreiningar virkar víða mjög vel og margir nemendur sem áður voru settir í sérúrræði standa sig vel í almenna skólanum í dag. Ég þekki það frá því ég var að vinna í Brúarskóla, þar sem voru nemendur með hegðunarerfiðleika, að fyrir kennara getur verið mjög strembið að takast á við nemendur með alls konar frávik, fatlanir o.s.frv. Þannig að til hliðar þurfum við að hafa skóla eins og Klettaskóla. Til að sinna nemendum sem best þurfum við að hafa fjölbreytt úrræði.“

MYNDATEXTI: Þegar Árni getur fer hann út í frímínútur með nemendum. Hér er hann með Magdalenu Ósk Aðalbjörnsdóttur, dóttur greinarhöfundar.

Viðtalið birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. 2018. Lesið blaðið hér.

Aðalbjörn Sigurðsson

blaðamaður