Sambandið þarf að vera í stöðugri þróun

01.06.2018 | Viðtöl

Sambandið þarf að vera í stöðugri þróun

Formaður Kennarasambands Íslands er ekki bara pólitískur forystumaður kennara, hann er einnig framkvæmdastjóri sambandsins sem veltir hundruðum milljóna króna á hverju ári, heldur úti viðamikilli starfsemi, er með fjölda starfsmanna í vinnu og sinnir þéttriðnu neti kjörinna fulltrúa af öllum skólastigum.

Þessu embætti sinnti íþrótta- og menntunarfræðingurinn Þórður Á. Hjaltested frá árinu 2011 til loka sjöunda þings KÍ sem haldið var dagana 10. til 13. apríl. Útsendari Skólavörðunnar hitti Þórð stuttu eftir þingið, þar sem hann var í óða önn að ganga frá skrifstofu sinni og gera hana tilbúna til að hýsa Ragnar Þór Pétursson sem tekið hefur við forystu Kennarasambandsins. En hvernig kom það til að Þórður bauð sig fram til forystu í Kennarasambandi Íslands?

„Það þarf í raun að horfa allt til ársins 1982 þegar ég hóf störf sem kennari til að leita skýringa á því,“ segir Þórður. „Frá fyrsta degi lagði ég mig fram um að vera vel inni í kjarasamningum og réttindamálum kennara sem leiddi til þess að ég var kosinn trúnaðarmaður í Varmárskóla árið 1997. Ég var í því embætti árið 2000 þegar umdeildir kjarasamningar grunnskólakennara voru samþykktir og í framhaldi var mér falið að koma athugasemdum samkennara minna við samninginn á framfæri á aðalfundi Félags grunnskólakennara sem og á þingi KÍ skömmu síðar. Ég hafði talsverða reynslu af félagsstörfum og var ekkert hræddur við að kveðja mér hljóðs, bæði til að bera fram spurningar en einnig til að vekja athygli á hlutum sem mér og samkennurum mínum fannst að þyrfti að skoða betur. Ég lagði í málflutningi mínum áherslu á að vera málefnalegur og kannski þess vegna var ég í framhaldi hvattur til að gefa kost á mér í stjórn Félags grunnskólakennara. Sú tillaga bar fremur bratt að þannig að ég ákvað að gefa aðeins kost á mér í varastjórn félagsins og fékk það góða kosningu að ég endaði sem fyrsti varamaður en skömmu síðar var ég orðinn aðalmaður eftir að einn úr stjórninni gerðist skólastjóri og skipti þar með um stéttarfélag.

Á þessu kjörtímabili voru stór mál í vinnslu, það stærsta örugglega kjarasamningarnir sem voru gerðir árið 2004 eftir sjö vikna verkfall. Það var mikil eldskírn fyrir mig því ég var ekki aðeins í samninganefnd félagsins heldur starfrækti ég verkfallsmiðstöð í Reykjavík með Ólafi Loftssyni. Þegar ég horfi til baka finnst mér að við sem fórum fyrir félaginu á þessum tíma höfum staðið okkur vel, enda var þarna samið um 30% kjarabætur þrátt fyrir að samninganefnd sveitarfélaga hafi upphaflega komið að borðinu með tilboð um rétt rúm 15%.“

Átti ekki von á að sigra
„Líklega hafa fleiri verið á þeirri skoðun að við höfum staðið okkur vel því þegar ég bauð mig fram í stjórn FG árið 2005 hlaut ég yfirburðakosningu. Þar var ég jafnframt kosinn fulltrúi Félags grunnskólakennara í stjórn Kennarasambands Íslands. Ég var skipaður varaformaður FG þennan tíma sem þýddi að ég starfaði í Kennarahúsinu.

En hvernig kom það til að þú bauðst þig fram í formennskuna 2011? „Á þeim tímapunkti hafði aðeins Elna Katrín Jónsdóttir, þáverandi varaformaður KÍ, gefið kost á sér í embættið. Ég hafði unnið mikið með Elnu og vissi að þar færi afar hæf kona með mikla reynslu sem gerði allt vel sem hún tæki að sér. En hún hafði einnig verið lengi í forystu KÍ og ég heyrði í kringum mig að mörgum þótti kominn tími til breytinga. Mér fannst ótækt að ekki yrði kosið í embættið og því gaf ég kost á mér og ef ég á að vera hreinskilinn þá átti ég ekki von á að sigra. En það fór svo að lokum að í kosningum þar sem um 70% félagsmenna kusu sigraði ég með tæplega 200 atkvæða mun. Ég endurnýjaði síðan umboð mitt árið 2014 og hef því setið sem formaður í sjö ár og er afar þakklátur fyrir það traust sem félagsmenn KÍ hafa sýnt mér með því.“

SALEK, mikil vinna en lítill ávinningur
Ef þú horfir til baka yfir þessi sjö ár, hvað stendur upp úr? „Eitt kemur strax upp í hugann sem bæði var tímafrekt og erfitt, en það er svokallað SALEK samstarf. Upphaf þess má reka til stöðugleikasáttmálans sem var gerður í kjölfar hrunsins, en þar samþykktu KÍ og BHM að krefjast ekki launahækkana í allt að þrjú ár. Þegar efnahagsástandið fór að batna var auðvitað farið fram á að kjörin yrðu leiðrétt. Það reyndist mjög þungt og á sama tíma efndi þáverandi ríkissáttasemjari, Magnús Pétursson, að frumkvæði BSRB til samstarfs meðal aðila vinnumarkaðarins með það að markmiði að bæta og straumlínulaga vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Það samstarf átti síðar eftir að hljóta þetta nafn, SALEK. Í þetta fór gríðarlega mikil vinna þar sem meðal annars var farið í að skoða hvernig þessum málum væri háttað hjá nágrönnum okkar í Skandinavíu.

Eftir þá yfirferð var niðurstaðan sú að við þyrftum að búa til okkar eigin módel. Við sem sinntum þessum málum fyrir hönd KÍ áttuðum okkur snemma á því að stóri gallinn í því kerfi sem m.a. ASÍ, SA og ríkið vildu innleiða, sem gekk út á að opinberir starfsmenn fengju mælt launaskrið sjálfkrafa í launaumslagið en ekkert umfram það, var sá að þar með væri búið að negla niður þá launaröðun sem fyrir var í landinu. KÍ lagði því til að launaröðun mismunandi stétta yrði kortlögð, hverjir ættu að vera með hæstu launin, hverjir þeir lægstu og hvernig röðunin yrði þar á milli. Eftir það mætti koma á þessu norræna módeli. Því miður var strax mikil andstaða við þessar áherslur okkar og því fór sem fór. Í þetta allt fór gríðarleg vinna og ofboðsleg orka, sem að endingu skilaði ekki þeirri niðurstöðu sem við vonuðumst eftir.“

Lífeyrismálin reyndust erfið
Annað stórt mál voru lífeyrismálin, ekki satt? „Já, það var hitt stóra málið sem segja má að hafi hafist á árinu 2009 þegar KÍ undirritaði ásamt öðrum landssamtökum launafólks svokallaðan stöðugleikasáttmála. Sáttmálinn varð að lokum mikil málamiðlun og fól m.a. í sér grein 9 sem fjallaði um jöfnun lífeyrisréttinda allra landsmanna án þess að þar væri tilgreint hvernig framkvæmdin ætti að vera. Í kjölfarið var stofnuð nefnd til að fjalla um málið og voru niðurstöður hennar tilbúnar árið 2013. Þar var lagt til að réttindin yrðu jöfnuð þannig að bæði ASÍ og stéttarfélög opinberra starfsmanna þyrftu að samþykkja breytingar. Þær fólust meðal annars í að heildargreiðsla inn í lífeyrissjóði á almennum markaði yrði hækkuð í áföngum upp í 15,5% en á móti yrðu réttindi opinberra starfsmanna skert þannig að þau yrðu að endingu þau sömu og á almennum markaði.

Fulltrúar opinberra starfsmanna í nefndinni neituðu skiljanlega að skrifa undir skýrsluna fyrr en búið væri að semja um málið við bandalög og stéttarfélög þeirra. Í framhaldi gerðist fátt í málinu um nokkurra missera skeið en um miðjan ágúst 2016 voru fulltrúar KÍ, BHM og BSRB kallaðir til fundar í fjármálaráðuneytinu þar sem okkur var tjáð að gerðar yrðu breytingar á kerfinu á næstu mánuðum, með eða án aðkomu okkar. Í því fólst auðvitað sú hótun að stjórnvöld myndu breyta lögum um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna einhliða. Niðurstaðan var að þrátt fyrir að við vildum ekki breyta kerfinu ákváðum við að betra væri að taka þátt í vinnunni sem þarna var að hefjast og reyna að hafa áhrif á niðurstöðuna, frekar en að segja okkur frá verkefninu.

Í framhaldi var farið í mjög stífa vinnu og á endanum náðist niðurstaða sem við töldum okkur geta búið við, en hún tryggði að engar skerðingar yrðu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna næstu tuttugu árin hið minnsta. Því til viðbótar var lífeyriskerfið að fullu fjármagnað út þann tíma. Við bárum þessa niðurstöðu undir stjórnir og samninganefndir allra aðildarfélaga KÍ sem voru að lokum sammála okkur um að þetta væri illskásta niðurstaðan. Undir þetta samkomulag var skrifað 19. september 2016 og í framhaldi var í fjármálaráðuneytinu sett saman lagafrumvarp. Þegar það loksins birtist endurspeglaði það ekki samkomulagið og í kjölfarið mótmælti KÍ frumvarpinu og dró til baka stuðning sinn við málið í heild. Svo fór þó að lokum að frumvarpið var samþykkt á Alþingi og þar er ég á því að menn hafi ekki farið heiðarlega fram. Ég tek því undir ályktun nýafstaðins þings KÍ þar sem stjórnvöld eru hvött til að breyta lögum um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna í fyrra horf, þannig að þau verði að fullu tryggð eins og var fyrir lagasetninguna.“

Skólakerfið er gott
Talið berst nú að skólamálum og skólakerfinu. „Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að við séum með gott skólakerfi, góða skóla og gott starfsfólk. En við sem þjóð þurfum samt sem áður að gæta að okkur því við höfum ekki verið að efla skólana eins og við ættum að gera. Það vantar til dæmis ennþá fjármagn þannig að skólar landsins standi jafn vel og þeir gerðu árið 2008. Ef við ætlum að halda áfram að vera í fremstu röð meðal þjóða þá þurfum við að vinna í að efla einstaklinginn, efla hugvit og hækka menntunarstig í landinu. Mér finnst augljóst að til að svo geti orðið þurfum við að efla menntakerfið í heild sinni langt umfram það sem gert hefur verið.

Í því sambandi hefðum við átt að læra af Finnum sem ráðlögðu Íslendingum eftir hrun að styrkja menntakerfið í stað þess að draga þar saman, því þannig myndu menn vinna sig hraðar út úr vandanum. Við reyndum að benda á þetta en því miður töluðum við fyrir daufum eyrum. Það var reyndar reynt að hlífa menntakerfinu þannig að niðurskurðurinn þar varð minni en víða annars staðar í hinum opinbera rekstri, en þó tel ég að allt of langt hafi verið gengið. Það eru til dæmis sláandi tölur sem hagfræðingur KÍ hefur safnað saman, sem sýna að ef við skoðum fjárframlög til menntamála á hvern mann hér á Íslandi, þá vantar í dag milli 15 og 16 milljarða inn í skólakerfið til að framlög verði jafn há og þau voru árin fyrir hrun. Þar er ég að tala um allt skólakerfið, frá leikskóla upp í háskóla auk tónlistarskólans. Þetta er augljóslega eitthvað sem þarf að skoða.

En þetta snýst ekki allt um fjármuni. Vandinn er að einhverju leyti að við erum með menntakerfi sem erfitt er að breyta. Þegar á reynir fer hver að passa sitt sem hefur leitt til þess að ríkisstjórnir og ráðherrar virðast ekki hafa haft dug eða þor til að stíga stór skref í þá átt að breyta kerfinu og þar með efla það. Ég er líka á því að við þurfum að efla kennaramenntunina og leita allra leiða til að auka áhuga ungs fólks á kennarastarfinu. Þar þarf ekki bara að bæta ímyndina heldur þurfa stjórnvöld að horfast í augu við að þau þurfa bæði að hækka laun og bæta vinnuaðstæður kennara. Það er brýnasta verkefnið framundan í menntakerfinu og þolir raunar enga bið. Kennarastarfið þarf að vera alvöru valkostur og það er ólíðandi að ungt fólk sjái sér ekki fært að starfa við kennslu vegna þess að það telur sig ekki geta framfleytt sér á kennaralaunum. Til viðbótar eykur vinnuálagið og vinnuumhverfið á vandann sem leiðir til þess að allt of fáir eru í kennaranámi í dag, sem er auðvitað verulegt áhyggjuefni.“

Kennarar hafa skýra sýn
„Ef við horfum til framtíðar tel ég að það séu risavaxin verkefni framundan. Fyrir utan þessi mál sem ég hef þegar nefnt, þ.e. hækkun launa, bættar vinnuaðstæður, minna álag o.s.frv., þá þarf núverandi forysta einnig að huga að uppbyggingu KÍ. Ég hef beitt mér fyrir ákveðnum breytingum á skipulagi Kennarasambandsins síðustu ár, til dæmis í tengslum við úttekt sem fyrirtækið Capacent gerði árið 2015. En því starfi er aldrei lokið og gott skref í tengslum við það var stigið á nýafstöðnu þingi, þegar tillaga um að skipa milliþinganefnd var samþykkt, en hún hefur það verkefni að huga að framtíðaruppbyggingu KÍ. Ég bind miklar vonir við starf nefndarinnar enda þarf samband eins og KÍ stöðugt að huga að því hvað sé hægt að bæta og hverju þurfi að breyta. Ég sé fyrir mér að á þessu kjörtímabili verði meðal annars skoðað hvort Kennarasambandið geti átt sterkara samstarf við BHM, hvort hægt sé að efla samstarf við kennara í háskólum landsins o.s.frv.“

Talað hefur verið um nýafstaðið þing KÍ sem átakaþing. Hvernig heldur þú að Kennarasambandið og forystan komi til leiks að því loknu? „Já, það hefur auðvitað verið í umræðunni en ég er ekki viss um að það sé rétt. Ég fékk á tilfinninguna að ekki hafi verið tekist sérstaklega mikið á um málefnin og á þinginu fóru fram mjög góðar umræður um öll okkar helstu baráttu- og hagsmunamál. Þó að átök hafi orðið um ákveðnar tillögur og einnig um núverandi formann, þá varð niðurstaðan að endingu sú að forystan sem nú tekur við keflinu er með sterk skilaboð frá þinginu um hvert skuli stefna.“

Ætlar að sinna Íþróttasambandi fatlaðra
Hvað bíður þín persónulega eftir að KÍ sleppir? „Ég er nýlega orðinn sextugur og dett fljótlega inn á 95 ára regluna, þannig að ég nýt þeirra forréttinda að geta farið á lífeyri ef ég svo kýs. En það er aldrei að vita nema eitthvað spennandi bjóðist og þá skoða ég það bara. En núna horfi ég sérstaklega til þess að ég hef starfað sem sjálfboðaliði fyrir Íþróttasamband fatlaðra í tugi ára og var nýlega kjörinn formaður sambandsins. Þó það sé ekki launuð staða hlakka ég til að hafa meiri tíma til að sinna þeim verkefnum sem þar bíða. Því til viðbótar hef ég einfaldlega lofað mér að eyða meiri tíma í sjálfan mig, vera duglegri við að fara út að ganga og hreyfa mig og passa upp á heilsuna.“

Viðtalið við Þórð birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2018. Lestu blaðið hér.

Aðalbjörn Sigurðsson

blaðamaður
Viðfangsefni: Kjarabarátta, Kennarasamband Íslands, Skólamál