Rúmlega 600.000 áhorf

07.05.2019 | Viðtöl

Rúmlega 600.000 áhorf

Gauti Eiríksson, raungreinakennari og umsjónarkennari í Álftanesskóla, hefur á undanförnum árum útbúið YouTube myndbönd tengd náttúrufræði- og stærðfræðikennslu sem hafa hjálpað bæði nemendum hans og öðrum nemendum, hér á landi og erlendis. Þá hefur hann bætt við myndböndum um önnur efni á síðuna sína.

Gauti Eiríksson er úr Reykhólasveit og kynntist stórkostlegri náttúrunni þar þegar hann var að alast upp. Hann flutti suður til að stunda menntaskólanám og stundaði svo nám á náttúrufræðibraut við FVA (Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi).

„Ég var kominn með algert ógeð á skóla þegar ég kláraði stúdentspróf með herkjum árið 1996. Ég ákvað eftir stúdentspróf að vera í einn vetur fyrir vestan og fór að vinna í þörungaverksmiðjunni um sumarið. Íþróttakennarinn í skólanum í Reykholti var í fæðingarorlofi, auk þess sem það vantaði náttúrufræðikennara, en ég hafði verið að þjálfa í ungmennafélaginu heima og því fannst skólastjóranum upplagt að fá mig til að kenna íþróttir, sund og náttúrufræði. Ég fór að kenna um haustið en það hafði ekki hvarflað að mér að fara í þetta starf eða að þetta starf ætti við mig. Ég hafði svo sem ekki skap í það heldur og það tók veturinn að læra að hemja það. Ég var rúmlega tvítugur þarna og átti það til að vera pínu skapbráður – en í dag er ég það alls ekki.“

Gauti flutti til Reykjavíkur eftir þennan vetur og hóf nám í líffræði við Háskóla Íslands. „Ég hafði fundið að kennslan átti við mig en mér fannst líffræðin ekki eiga eins vel við mig og hóf ári síðar nám við Kennó og tók stærðfræði og líffræði sem sérsvið þar og útskrifaðist árið 2002. Ég fór að kenna í grunnskóla í Hafnarfirði, þar sem ég kenndi í þrjú ár, og fór svo að kenna við Álftanesskóla þar sem ég er búinn að kenna í nærri því 14 ár. Ég er raungreinakennari í 7. - 10. bekk og svo kenni ég mínum umsjónarbekk, sem í vetur er 9. bekkur, stærðfræði og náttúrufræði en ég byrjaði með þau í 7. bekk.“

Ýktur í upphafi
Gauti fór haustið 2013 ásamt þáverandi skólastjóra Álftanesskóla á ráðstefnu í Keili um vendikennslu. „Ég vissi mjög lítið um þetta annað en að vendikennsla snerist um myndbönd. Ég hef lengi viljað skoða nýjar leiðir í kennslu eins og í upplýsingatækni og tók ég þátt í því fyrir rúmum 10 árum að þýða stóran forritapakka í náttúrufræði. Þegar ég gerði tilraunina með forritin þá notaði ég þau og glósur. Ekkert annað. Krakkarnir fengu ekki einu sinni bók þannig að ég var áður búinn að gera tilraunir með eitthvað annað en kennslubækur. Þessi ráðstefna í Keili stóð yfir í heilan dag og voru þar bæði íslenskir og erlendir fyrirlesarar og vinnustofur og á leiðinni heim hugsaði ég með mér að þetta væri eitthvað sem mig langaði til að skoða og spurði skólastjórann hvort ég mætti ekki prófa. Það var svona hálfur mánuður í skólasetningu og það tók mig nokkra daga að finna út úr tæknilega hlutanum; hvernig ég myndi framkvæma þetta og hvernig ég vildi gera þetta. Ég er búinn að venda hverjum einasta náttúrufræðitíma síðan. Það var rosaleg vinna í byrjun en ég bý ekki til myndbönd fyrir hvern einasta tíma í dag af því að ég á orðið svo mikið efni. Ég byrjaði þó ekki alveg strax að búa til myndbönd fyrir stærðfræðitíma af því að ég gat ekki gert allt í einu.“

Gauti segir að hann hafi í upphafi verið svolítið ýktur í þessu – hann nýtti myndböndin í tímum og lagði eingöngu áherslu á þau og reyndi að láta nemendur vinna sem mest í tímum. „Í dag er ég farinn að blanda saman vendikennslu og beinni kennslu. Þetta er þó svolítið breytilegt á milli árganga. Ég kenni mjög mikið beina kennslu í 7. bekk en mjög lítið í 10. bekk af því að þeir nemendur eru orðnir meira sjálfbjarga.“

Orðskýringamyndbönd
Gauti segist hafa byrjað á að gera hefðbundin kennslumyndbönd í náttúrufræði sem séu eins og innlögn í grunninn. „Þar eru glærur með texta og myndum sem ég tala yfir eins og ég sé að kenna á töflu. Ég er búinn að taka nánast allt námsefnið í náttúrufræðinni þannig fyrir í 7. til 9. bekk og meira að segja nokkrar bækur sem er hætt að kenna. Síðan hef ég gert svipað efni í stærðfræði fyrir 7. til 10. bekk. Svo fór ég fyrir nokkrum árum að gera orðskýringamyndbönd bæði í náttúrufræði og stærðfræði.

Ég er kominn lengra með það í stærðfræði en ég fékk þróunarstyrk í þá vinnu. Þar tók ég hvert einasta hugtak og fór í gegnum orðalistann í öllum kennslubókum sem ég fann og á meðan ég var að kenna punktaði ég hjá mér ef ég átti eftir að taka eitthvað fyrir. Þetta eru rúmlega 650 orðskýringamyndbönd tengd stærðfræði og ég er búinn að gera vel yfir þúsund svona myndbönd í náttúrufræði. Það eru miklu fleiri greinar í náttúrufræði þannig að hún er miklu víðfeðmari heldur en stærðfræðin.“

Mismunandi litir
Gauti segir að orðskýringamyndböndin í stærðfræði séu mjög einföld. „Mér finnst vera heppilegra að nemendur þekki myndböndin í sundur. Taflan í orðskýringarmyndböndunum í stærðfræði er dökkgræn en í hefðbundnum stærðfræðimyndböndum er hún svört. Hún er hvít í orðskýringamyndböndum um náttúrufræði. Í náttúrufræði eru mismunandi litir fyrir mismunandi greinar þannig að nemendur sjá hvaða grein er um að ræða.“

Gauti segir að engar ljósmyndir séu í þessum orðskýringamyndum heldur tali hann, skrifi og teikni. „Ástæðan fyrir því að ég er ekki með ljósmyndir þarna er einfaldlega tvíþætt. Ég er einfaldlega fljótari að vinna þetta svona og höfundarréttarmál myndu flækjast fyrir ef ég myndi nota myndir sem aðrir hafa tekið. Ég pældi ekki mikið í þessu þegar ég var að gera fyrstu myndböndin og bara gat það ekki af því að ég var að flýta mér en ég hef ekki í mörg ár búið til myndband nema nota mest mínar eigin ljósmyndir.“

Spilunarlisti
Gauti hefur gert um 2.550 myndbönd í allt og er með um 5-7.000 áhorf í hverri viku og segir hann að fólk í tæplega 60 löndum horfi á myndböndin. Gauti segir að það skipti máli að foreldrar geti horft á myndböndin með börnum sínum.

„Ég er kominn með rúmlega 600.000 áhorf. Ég veit að íslenskir krakkar í útlöndum nota þetta líka en ég er með fleiri tegundir af myndböndum. Ég hef til dæmis verið að búa til það sem ég kalla ítarefnismyndbönd þar sem ég tek myndir úti í náttúrunni og útskýri það sem þar sést. Ég flokka myndböndin í spilunarlista en það er eina leiðin til að halda utan um þetta því þetta er svo mikið.

Einn spilunarlistinn kallast „Af hverju?“ en þá hef ég tekið myndir úti og svara því til dæmis af hverju regnbogi myndast og af hverju kemur haglél. Ég er líka farinn að setja inn í spilunarlistann myndbönd undir spurningunni „Hvernig?“ og nýlega bjó ég til dæmis til myndband sem kallast „Hvernig virkar myndavél?“. Þetta tengist náttúrufræði óbeint. Ég er líka með spilunarlista sem heitir „Ísland“ en þau myndbönd hef ég tekið út um allt land; stundum segi ég ekki neitt, stundum segi ég eitthvað örlítið á íslensku og stundum eitthvað örlítið á ensku og stundum segi ég eitthvað á báðum tungumálum í sama myndbandinu. Þar er ég til dæmis með myndbönd af norðurljósunum.“

Viðtalið við Gauta birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2019.

Svava Jónsdóttir

blaðamaður