Myndræni þátturinn mikilvægur

28.02.2019 | Viðtöl

Myndræni þátturinn mikilvægur

Tanya Helgason útskrifaðist sem kennari í vor og kennir í vetur stærðfræði á unglingastigi. Hún fékk í hittifyrra viðurkenningu úr Minningarsjóði Ásgeirs S. Björnssonar fyrir lokaverkefni sitt til B.Ed.-prófs við Menntavísindadeild Háskóla Íslands fyrir ritgerðina Að læra íslensku og stærðfræði samtímis. Stærðfræðinám nemenda af erlendum uppruna. Tanya er rússnesk og er fjölmenning ofarlega í huga hennar. Tanya reynir í kennslu að leggja áherslu á þörf nemenda af erlendum uppruna en sumir skilja jafnvel litla sem enga íslensku.

Tanya Helgason fæddist og ólst upp í rússnesku borginni Vladivostok. Hún er með próf í alþjóðasamskiptum og eftir útskrift kenndi hún bæði börnum og fullorðnum ensku. „Ég fann að mig langaði til að verða kennari,“ segir Tanya.
Móðir hennar bjó á Íslandi. Tanya heimsótti hana og sótti um að komast í kennaranám í Háskóla Íslands en þar sem hún talaði hvorki né skildi íslensku þá skráði hún sig í staðinn í BA-nám í íslensku fyrir útlendinga. Á þessum tíma hitti hún eiginmann sinn, Hauk Helgason, og saman eiga þau þrjú börn. Þegar hún gerðist íslenskur ríkisborgari breytti hún rússneska nafni sínu Tatiana Sukhovolskaya í Tanya Helgason.

„Mér fannst nauðsynlegt að læra íslensku ef ég ætlaði að búa á Íslandi. Mér hefði ekki liðið vel ef ég talaði ekki íslensku.“


Viðurkenning fyrir B.Ed.-ritgerðina
Eins og þegar hefur komið fram hafði Tanya ánægju af að kenna löndum sínum ensku og hún segir að eftir þrjú ár í íslenskunáminu hafi hún fundið að kennarastarfið væri það sem hún hafði mestan áhuga á. „Mér fannst skemmtilegt að vinna með börnum og sérstaklega unglingum. Ég hugsaði með mér að ég myndi vilja kenna ensku vegna þess að ég er örugglega ekki hæfasta manneskjan til að kenna íslensku eða samfélagsgreinar. Mér fyndist það ekki rétt þrátt fyrir að tala góða íslensku.“

Tanya tók tvö kjörsvið í kennaranáminu – ensku og stærðfræði. „Ég elskaði alltaf stærðfræði þegar ég var krakki, fannst alltaf spennandi að leita að lausnum og brjóta heilann.“

Þegar kom að B.Ed. ritgerðinni ákvað Tanya að leggja áherslu á stærðfræði og fjölmenningu og ber ritgerðin heitið Að læra íslensku og stærðfræði samtímis. Stærðfræðinám nemenda af erlendum uppruna. Tanya fékk í hittifyrra viðurkenningu fyrir ritgerðina úr Minningarsjóði Ásgeirs S. Björnssonar fyrir lokaverkefnið úr B.Ed. náminu. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: „Í ritgerðinni sýnir Tanya gott vald á að vinna með fræðilegan texta og fjallar á þroskaðan en jafnframt agaðan hátt um viðfangsefnið. Hún hefur kynnt sér vel fjölbreyttar rannsóknir og hugmyndir um atriði sem talin eru skipta máli fyrir nemendur sem eru að ná fótfestu í skólakerfi í nýju landi. Um efnið hefur lítið verið ritað á íslensku og ekki með því sjónarhorni sem Tanya velur.“


Tungumál stærðfræðinnar
„Erlend börn í íslenskum skólum sem kunna ekki eða eru ekki góð í íslensku skilja oft ekki hvers er ætlast til af þeim. Ég fjalla um þetta í ritgerðinni. Það er stundum sagt að erlendum nemendum gangi illa í stærðfræði og séu mállausir – þeir eru ekki mállausir heldur er enginn sem skilur þá. Þeir hafa mikið að sýna sem kennarinn er ekki vanur að sjá og hann gerir sér kannski ekki grein fyrir af hverju þeir velja að reikna svona þar sem aðferðir þeirra eru kannski aðrar en á Íslandi. Áherslan á ekki að vera á það sem kennarinn segir heldur hvernig á að leysa málið. Kennarinn á líka að reyna að vera aðeins opnari.“

Í ritgerðinni segir meðal annars: „Þannig er mikilvægt að kennarar skilji og muni hvað erlendir nemendur eru að fást við þegar þeir læra stærðfræði. Þar má nefna skólatungumál og tungumál stærðfræðinnar, það er öðruvísi menning og þar af leiðandi venjur í samskiptum við kennara og samnemendur, tengsl skóla, heimilis og svo framvegis. Því allt þetta hefur áhrif á hvernig venjur nemendur temja sér þegar þeir læra stærðfræði og hvernig mætti hjálpa þeim að aðlagast breytingum. Það er augljóst að stærðfræðikennarar þurfa meiri þekkingu og hjálp til að geta tryggt að allir nemendur í kennslustofunni njóti sín í stærðfræðinámi sínu.“
Tanya bendir einnig á það í ritgerðinni að erfiðleikar fyrir nemendur af erlendum uppruna felist einnig í því að tungumál stærðfræðinnar innihaldi ekki aðeins sérstök orð og hugtök, eins og margfeldi, líkindi, samsíðu og ótal fleiri, heldur líka venjuleg orð sem notuð eru með sérstakri merkingu í stærðfræðilegu samhengi, til dæmis orðið horn. Í ritgerðinni segir: „Þar að auki þarf að læra orðasambönd, setningarfræði og merkingarfræði í stærðfræðitungumáli. Það getur verið stórt verkefni fyrir nemanda með annað móðurmál en íslensku, að skilja, hvað þýðir: Hver er heildin, deila 4 í 8 og fleiri dæmi í þeim dúr. Meira að segja eru tákn stærðfræðinnar notuð á mismunandi hátt frá landi til lands.“

Í lokaorðum segir Tanya meðal annars að kennarar verði að tileinka sér þá hugmynd að allir kennarar geti verið tungumálakennarar ef þess er krafist þar sem stærðfræði- og íslenskunám eigi sér stað samtímis. Hún segir að einnig sé mikilvægt að styðja og hvetja nemendur til að læra móðurmál sitt og viðhalda menningu sinni því virkt tvítyngi sé farsælt bæði fyrir nám og líf barna. Allt þetta þýði að kennarar þurfi að fá viðeigandi fræðslu og stuðning til að geta skipulagt kennslu sína þannig að allir nemendur njóti sín í námi.


Fjórar megináherslur
B.Ed. ritgerðin fjallar að miklu leyti um fjórar megináherslur í stærðfræðikennslunni:
Skiljanlegt inntak. „Það eiga að vera tungumálavinnupallar og kennarinn á að skilja að nemendur eiga fyrst og fremst erfitt með tungumálið og að það hjálpar að gera sýnilegt hvað hugtök þýða; það hjálpar að nota alls konar hjálpartæki myndrænt.“

Kennsla sett í samhengi. „Það á að vera skýrt hvernig viðfangsefnið þann daginn tengist því sem gert var daginn áður og hvernig það tengist því sem á að gera næsta dag. Námið á að vera tengt og skiljanlegt út á hvað það gengur. Hugtök sem nemendur læra til dæmis í rúmfræði eiga líka að hjálpa í algebru.“

Stresslítið námsumhverfi. „Það er mikilvægt að búa til stresslítið umhverfi fyrir nemendur sem tala ekki íslensku og skilja ekki hvað er að gerast. Þeir læra ekkert ef þeim líður illa og ef það eru til dæmis hópumræður. Það er í lagi að leyfa þeim nemendum sem tala sama tungumál að tala saman á móðurmálinu. Það er ekki alltaf slæmt.“
Virk og þýðingarmikil þátttaka í námi. „Það á að leggja áherslu á móðurmál nemenda en móðurmál þeirra skiptir máli í stærðfræðikennslu. Nemendur geta fengist t.d. við námsefni á móðurmáli þeirra eða vinna í ýmsum forritum á móðurmáli, t.d. í GeoGebru.“

Mikilvægi myndræna þáttarins
M.Ed. ritgerðin fjallar svo að miklu leyti um mikilvægi myndræna þáttarins í stærðfræðikennslu – það er að segja mikilvægi þess að hafa kennsluna sem mest myndræna og hvað teikningar hjálpa mikið til að útskýra þannig að allir skilji. „Það er til dæmis erfitt að útskýra með orðum hvað flatarmál þýðir en nemendur skilja það betur ef maður útskýrir það með teikningum. Það sama má segja þegar útskýrt er til dæmis hvað er horn, beint horn og gleitt horn. Það að teikna dæmið í stærðfræðitímum hjálpar nemendum að skilja betur. Eins og máltækið segir: Mynd segir meira en þúsund orð.“

Jafnvægi mikilvægt
Tanya segir að finna þurfi jafnvægi og fara hinn gullna meðalveg. Hún segir að það sé ekki svo einfalt að fara eftir öllum þessum áherslum þegar inn í skólastofuna sé komið. „Maður veit þetta allt saman eins og að tala hægar og sýna sem mest myndrænt en þetta gleymist oft allt saman – maður fer að tala of hratt eða vantar að útskýra eitthvað betur, gerir ráð fyrir að allir séu búnir að skilja þetta því það er kannski kristalskýrt fyrir kennaranum. Ég er til dæmis með nemanda sem skilur ekki íslensku og ég reyni að leggja áherslu á myndir og þá gengur honum betur. Ég er annars stöðugt að þróa áfram hugmyndir við kennslu. Maður þarf að vera trúr sjálfum sér og ekki vera hræddur við að prófa eitthvað nýtt. Það þarf þó að finna jafnvægi og fara hinn gullna meðalveg til að öllum líði vel – bæði kennara og nemendum. Það þarf að þjóna öllum hópnum svo það komi ekki niður á einstaklingi sem væri þá skilinn út undan og endaði að lokum eins og þögull draugur í bekknum.“


Svava Jónsdóttir

blaðamaður