Mikilvægt að taka vel á móti nýjum starfsmanni

08.06.2018 | Viðtöl

Mikilvægt að taka vel á móti nýjum starfsmanni

Agnes Gústafsdóttir stundar meistaranám í leikskólakennarafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og stefnir auk þess á að fá kennsluréttindi á yngsta stigi í grunnskóla.

Hún byrjaði að vinna sem leiðbeinandi í leikskóla þegar hún var 18 ára og ætlaði að taka sér hlé frá menntaskólanámi í hálft ár en hún vann á leikskólanum lengur en hún hafði ætlað sér, eða í níu ár með hléum.

„Ég var svo ótrúlega heppin að lenda á svona frábærum vinnustað. Það tók á móti mér yndislegt fagfólk sem gjörsamlega heillaði mig upp úr skónum þannig að ég staldraði lengur við. Starfsfólkið lagði svo mikið upp úr því að hafa faglegt og flott starf og það bar svo mikla virðingu fyrir leikskólastarfinu. Mér varð strax í atvinnuviðtalinu ljóst hversu mikilvægt og ábyrgðarmikið þetta starf er. Ég fékk mikla fræðslu þegar ég byrjaði, mikið aðhald og umræður voru miklar. Svo fann ég strax að yfirmenn mínir fóru að leita eftir styrkleikum mínum; taka eftir í hverju ég væri góð og þeir hvöttu mig áfram til að rækta það frekar. Ég var send á alls konar námskeið og eftir því sem ég lærði meira og varð betri starfsmaður fékk ég meiri ábyrgð og tók til dæmis listastarfið að mér en yfirmönnum mínum fannst ég vera skapandi. Ég fékk alltaf smátt og smátt meiri ábyrgð og varð einhvern veginn hluti af heildinni.“

Jákvæðir og lausnamiðaðir
Agnes segir að það sem hafi verið áberandi í leikskólanum var hve allir starfsmenn voru jákvæðir og lausnamiðaðir. „Það var alltaf verið að hugsa í lausnum. Það voru aldrei vandamál. Þetta voru bara áskoranir. Það var alltaf verið að leita leiða til að gera betur. Og ef það var eitthvað sem þurfti að bæta þá var gengið í það. Það var þannig stemmning í starfsmannahópnum og menningin á staðnum var þannig að við hjálpuðumst að til að gera starfið betra.“

Agnes segir að samstarfsfólk sitt hafi hvatt hana til að fara í leikskólaliðanám í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ sem hún svo gerði.

„Þegar ég kláraði það þá vildu þau að ég héldi áfram og næði mér í réttindi sem leikskólakennari og svo fór ég í nám í leikskólakennarafræði við Háskóla Íslands,“ segir Agnes en hún segir að hún hafi ekki þurft að taka stúdentspróf til að komast inn í háskólann þar sem hún var komin með nógu margar einingar.

„Ég byrjaði í leikskólaliðanáminu 2008 eftir aðeins hálft ár í starfi og vann fulla vinnu samhliða því. Ég útskrifaðist úr því námi 2011. Ég fór svo í fæðingarorlof en árið 2014 hóf ég nám í leikskólakennarafræðum samhliða fullri vinnu. Ég minnkaði þó fljótlega við mig vinnuna þar sem það er mikið álag að vera í fullu námi og fullu starfi ásamt því að hugsa um fjölskylduna.“

Allt leiðbeinendur
Agnes vann í vetur verkefni í námskeiðinu „Fræði og starf á vettvangi II“ en um var að ræða rannsókn sem framkvæmd var í leikskóla. Hún hélt svo í vetur erindi á morgunverðarfundi RannUng sem vakti mikla athygli en hún talaði um nauðsyn þess að tekið væri vel á móti nýjum starfsmanni sem hæfi störf á leikskóla.

„Við áttum í þessu verkefni að fara í leikskóla og finna einhverja þörf; eitthvað sem þurfti að bæta eða vinna með í samráði við leikskólann og finna svo leiðir til að vinna með það. Svo skrifuðum við um reynslu okkar og hvernig þetta gekk. Við vorum með þessu að reyna að efla okkur sem fagmenn og áttum að vera faglegir leiðtogar í viðkomandi leikskólum. Það var áskorun okkar að reyna að finna hvernig við gætum leitt starfsmannahópinn áfram til að gera einhverjar breytingar til batnaðar í starfinu.“

Agnes segist hafa verið búin að undirbúa sig í margar vikur fyrir allt annað verkefni en það sem hún svo gerði.

„Ég ætlaði að skoða námsumhverfið en þegar ég kom á vettvang sá ég að þörfin var allt önnur. Eftir að hafa rætt við deildarstjórann og starfsmenn á deildinni komst ég að því að deildarstjórinn var sú eina sem var fagmenntuð á þessari deild og aðeins einn annar starfsmaður á deildinni hafði starfsreynslu úr leikskóla. Það voru fjórir starfsmenn á deildinni og þrír af þeim voru leiðbeinendur sem voru nýbyrjaðir að vinna á leikskólanum. Þannig að það var í raun og veru ekki raunhæft að fara að þróa áfram eitthvað starf þegar vantaði allan grunninn.

Þá fór ég að skoða hvernig maður gæti stuðlað að faglegu starfi með nýju starfsfólki. Ég fór að skoða hvað það væri sem skólinn legði áherslu á,“ segir Agnes en rannsóknarspurningin varð: Hvernig er hægt að styðja nýtt starfsfólk leikskóla við að efla fagmennsku sína í hópastarfi?

Hópastarf
Ákveðið var að taka fyrir hópastarf: könnunarleik, kubbastarf og myndsköpun.

„Það þurfti að kynna þetta efni fyrir leiðbeinendunum og leiða þær svolítið í gegnum þetta og fá þær til að taka ábyrgð á stundunum. Ég lagði svolítið upp úr því að hafa umræður og reyna að styðja þær í gegnum þetta þannig að þær myndu gera þetta að mestu sjálfar en ég væri samt til staðar.

Þetta byrjaði alltaf eins fyrir hverja stund; það var fræðsla um viðfangsefni hópastarfsins, svo skoðuðum við efniviðinn sem notaður er og svo tóku þær ábyrgð á stundinni. Ég var þeim innan handar. Við ræddum svo eftir stundina hvað gekk vel og hvað illa og hvað mætti gera betur næst. Þannig endurskoðuðu þær efniviðinn og lærðu út frá því sjálfar í stundinni.

Eitt af markmiðum rannsóknarinnar var að skapa lítið lærdómssamfélag á deildinni. Þrátt fyrir að rannsóknin spanni stutt tímabil fóru þátttakendur í nokkra hringi í því hringferli sem á sér stað í þróun lærdómssamfélags. Það byggðist á sameigin­legri ígrundun starfsfólks í daglegu starfi, oftast með óformlegum samtölum. Fræðsla og fundir leiddu til nýrra vinnubragða og ný vinnubrögð leiddu til reynslu. Sú reynsla var nýtt til að meta starfið, gera endurbætur og skapa nýja þekkingu. Starfsfólk lærði hvert af öðru og sýndi áhuga á að ná betri árangri, það fór að ræða meira saman og ráðfæra sig hvert við annað um hugmyndir sínar og hvernig mætti þróa þær áfram.“

Mikill áhugi
Agnes segir að hún hafi vitað áður en hún byrjaði á þessari rannsókn að tveir af leiðbeinendunum þremur myndu hætta að vinna um áramótin. „Þá var það spurning hvort ég ætti að fylgja þessu eftir eða ekki. Við vildum auðvitað hafa faglegt starf - þótt fólk sé að hætta verður að finna leiðir til að hafa það sem faglegast á meðan það vinnur á staðnum. Börnin eiga skilið að fá það besta. Þannig að við héldum þessu áfram.

Ég sá fljótlega hvað það var mikil þörf fyrir þetta en um leið og ég byrjaði á þessu verkefni þá sá ég aukinn áhuga hjá leiðbeinendunum. Þær fóru að taka meira frumkvæði og það smitaðist út í fleiri þætti heldur en bara þessa þrjá. Þær fengu meira sjálfsöryggi og fundu einhvern veginn tilganginn með þessu sem við vorum að gera og skildu af hverju við vorum að gera hlutina svona. Það opnaðist einhver flóðgátt þegar við byrjuðum á þessu. Ég fann það. Það var endalaust verið að spyrja út í ýmislegt og ég var mikið að leita svara á kvöldin því ég vildi fylgja þessum áhuga þeirra eftir til að geta svarað spurningum þeirra.“

Þarf góða fræðslu
Agnes segir að hún hafi þurft að aðlaga verkefni sitt að leikskólanum og hvernig það passaði starfinu þar.

„Þarna var starfsfólk sem ætlaði að stoppa stutt og þá er kannski ekki lagður eins mikill metnaður í að fræða það. Það er kannski lögð meiri áhersla á að komast í gegnum daginn; komast í gegnum tímabilið og vinna það sem á að vinna.

Mér finnst að það ætti að taka á móti öllum sem koma inn í leikskólana með jafnmiklum metnaði. Það þarf að sýna starfsfólkinu áhuga og að yfirmenn hafi trú á því. Það þarf að fá fræðslu. Góða fræðslu. Það er ekki nóg að rétta því bækling. Það þurfa að vera umræður og það þarf að fylgja þeim eftir. Það vakna oft margar spurningar hjá nýju starfsfólki.

Svo finnst mér mikilvægt að finna styrkleika og áhuga hjá starfsfólkinu og finna leiðir til að efla það í því sem það er gott í. Styrkja það í því og gefa því svo ábyrgð í samræmi við það. Mér finnst áberandi að leiðbeinendur koma inn og eiga bara að gera eins og allir hinir. Þetta þarf að vera meira stigvaxandi en það þarf mikið aðhald ef á að gera þetta vel.“

Ekki sömu kröfur
Agnes segist í raun hafa fengið lítinn tíma til að sinna verkefni sínu á leikskólanum. „Ég var búin að ákveða að ræða um verkefnið á deildarfundum þar sem allir gætu setið saman og rætt málin en oftast var ég með einn eða tvo starfsmenn til að ræða við því það var ekkert hægt að leysa af. Stjórnendur voru allir af vilja gerðir til að láta þetta ganga en vegna veikinda og annarrar fjarveru starfsfólks var það bara ekki hægt.

Þá fór ég að velta fyrir mér hvernig leikskólar sem eru með mikla starfsmannaveltu eigi að fylgja eftir fræðslu til nýs starfsfólks af því að það er mikilvægt. Ég kom þarna inn sem aukamanneskja en samt var erfitt að finna tíma. Ég fór að velta ýmsu fyrir mér í kjölfarið. Samnemandi minn sagði til dæmis að þegar dóttir hennar fór að vinna á pítsustað þá þurfti hún að fara á skyldunámskeið í ákveðinn stundafjölda áður en hún mátti byrja að vinna. Ég fór á barnfóstrunámskeið hjá Rauða krossinum þegar ég var krakki og þar var meðal annars farið í skyndihjálp og hvernig ætti að annast börn. Það virðast ekki vera gerðar sömu kröfur þegar byrjað er að vinna í leikskóla. Fólk er heppið ef það lendir á vinnustað eins og ég gerði þar sem það fær góða leiðsögn og fræðslu. Það var vel mannaður staður en á öðrum stöðum er kannski ekki starfsfólk til að sinna þessu.“

Jákvæðni mikilvæg
Agnes segist telja að sveitarfélögin geti komið til móts við leikskóla með því að styðja þá. „Þau gætu verið með fræðslu almennt um leikskólastarf og regluleg fræðslunámskeið fyrir nýtt starfsfólk af því að það er víða mikil starfsmannavelta. Svo gætu leikskólarnir farið lengra með þetta og skoðað það sem þeir sérhæfa sig í, hvort sem það er til dæmis Reggio-stefnan eða eins og þarna könnunarleikurinn, kubbastarfið og myndlistin. Það ætti að vera hægt að halda námskeið sem myndi gagnast öllum varðandi praktíska hluti. Ég held að það skipti mestu máli að draga úr álagi og gera starfsumhverfið eftirsóknarvert.“

Andinn á vinnustöðum er misjafn og slæmur andi getur haft mikil áhrif. „Í fyrsta starfsmannaviðtalinu sem ég sat í leikskólanum þar sem ég byrjaði að vinna voru lagðar línurnar um það hvernig samskiptum væri háttað. Það var sagt að þar væru vandamál leyst og fólk talaði við hvert annað og ef eitthvað kæmi upp þá væri það leyst strax; það væri ekki í boði að draga starfið niður á þann hátt. Það var lagt mikið upp úr því að hrósa og styrkja hvert annað og menningin á staðnum litaðist af því. Ég held að það sé stjórnandanum að þakka hvernig þetta var því hún fylgdi þessu vel eftir. Mér finnst jákvæðni skipta miklu máli, að fólk sé jákvætt og til staðar.

Það þyrfti að vera meiri stuðningur fyrir starfsfólk almennt og það þyrfti meiri tíma til að funda til að geta byggt upp sameiginlega sýn á starfinu svo starfsmannaveltan verði ekki svona mikil. Það er lýjandi að standa í slíku og það þarf að gera vel við starfsfólk.

Það þarf að hlúa vel að því starfsfólki sem starfar í leikskólunum svo það flosni ekki úr starfi vegna álags eða kulnunar. Það er mikið álag á því fólki sem er nú þegar í leikskólunum og það myndi létta mikið á þeim að geta haldið áfram sínum störfum á meðan aðrir sjá um að koma nýju fólki inn í starfið. Metnaðurinn fyrir því að þjálfa upp nýtt fólk dalar eftir því sem þarf að gera það oftar og örar og það hefur eflaust áhrif á hversu vel það kemst inn í starfið og hversu lengi það staldrar við. Það myndi bæta gæði starfsins töluvert og létta álag ef allt starfsfólk væri vel upplýst því fyrst þá getur það sinnt störfum sínum af fagmennsku.

Ég tel að þörfin á lærdómssamfélagi sé gríðarleg í leikskólum þar sem ekki er mikið af fagfólki og mikið af nýliðum. Með því væri stöðugt verið að viðhalda sameiginlegri sýn og halda áfram að skapa þekkingu með því að læra af öðrum og í samvinnu við aðra. Ég tel að það myndi létta á álagi þegar slík vinnubrögð væru orðin að menningu skólans. Það er mjög mikilvægt að gleyma ekki í amstri dagsins hversu mikilvægt það er að gefa starfsfólki tíma til að ræða saman og þróa starfið áfram. Undirbúningstímar og deildarfundir eru fyrstir að fjúka þegar það vantar starfsfólk og það er áhyggjuefni þegar það vantar oft starfsfólk. Auðvitað þarf að tryggja öryggi barnanna og þeirra hagur á að ganga fyrir í öllu starfi en þá verður að gera sér grein fyrir því hvaða starf á sér stað innan leikskóla þar sem staðan er þannig.“

Viðtalið birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2018.