Með óbilandi áhuga á skóla- og menntamálum

27.05.2016 | Viðtöl

Með óbilandi áhuga á skóla- og menntamálum

Elna Katrín Jónsdóttir stóð í framlínu kennarasamtakanna um langt árabil. Margir muna eftir Elnu í erfiðum samningaviðræðum og verkfallsátökum en hún var einnig leiðtogi og hugsjónakona í skóla- og mennta­málum almennt. Elna yfirgaf Kennarahúsið fyrir skemmstu og var kvödd með virktum; samstarfsfólk sér á eftir traustum vinnufélaga og baráttujaxli.

Blaðamaður Skólavörðunnar hitti Elnu yfir kaffibolla á dögunum. Ferill Elnu hefur verið viðburðaríkur og tekur til fjölmargra þátta og framfaraspora í sögu kennarastéttarinnar, skóla- og menntamálum. Elna var formaður Hins íslenska kennarafélags, varaformaður KÍ og formaður Félags framhaldsskólakennara. Síðustu ár starfaði Elna sem sérfræðingur hjá FF og var leiðandi í gerð kjarasamninga. Elna var fyrst spurð hvað stæði upp úr þegar horft væri um öxl.

„Ef ég horfi til baka þá er ef til vill merkilegt að alla mína tíð í forystu kennarasamtakanna þá sinnti ég skóla- og menntamálum með hægri hendinni og kjaramálum með þeirri vinstri. Ég hef alla tíð haft óbilandi áhuga á skólamálum, kennaramenntun og kennarastarfinu almennt. Ég vildi aldrei sleppa hendinni af þeim málaflokkum þótt krafan um starfskrafta í kjarasamninga­viðræðum yrði oft ofan á vegna þess að það var eins og að bjarga verðmætum,“ segir Elna.

Elna var andlit kjarabaráttunnar um langt skeið og átök á vinnumarkaði gera að verkum að fólk verður áberandi í fjölmiðlum. En var hún strax viss um kjaramálin væru hennar svið?

„Já, það gerðist mjög fljótt. Það má segja að í stóra verkfalli BHM árið 1989 og í baráttunni sem fylgdi aðdraganda verkfallsins, að þá atvikaðist það þannig að ég sat í stjórn Hins íslenska kennarafélags (HÍK) og hafði gert í tvö ár þegar röð ýmissa tilviljana varð til þess að ég var komin í fimm manna viðræðunefnd fyrir hönd BHM-félaganna sem voru að eiga við samninganefnd ríkisins. Án þess kannski að hafa verið beinlínis að sækjast eftir því þá varð þetta mín eldskírn,“ segir Elna þegar hún rifjar upp hin erfiðu átök árið 1989.

„Ég hugsa að viðræðurnar sem leiddu til samninga og verkfallsloka hafði verið með þeim erfiðustu sem fólk hafði farið í gegnum en á það ber að líta að fullur samningsréttur aðildarfélaga BHM var svo ungur á þessum tíma, hafði fengist árið 1987. Fólk hafði því ekki nema tvö ár til að æfa sig áður en það var komið í hörð átök, langt og erfitt verkfall – með því að setja stefnuna á að reyna að jafna laun háskólamenntaðra sérfræðinga hjá hinu opinbera við laun háskólamenntaðra sérfræðinga á almennum markaði.“

Kjaramálin urðu upp úr þessu eitt meginverksvið Elnu. „Já, það er rétt en ekki vegna þess að áhugasvið mitt eða verksvið hafi takmarkast við það heldur vegna þess að oft er hægt að fá úrvalslið af fólki til að sinna skóla- og menntamálum þá er það að sama skapi ekki eins auðvelt þegar stefnumótun í kjaramálum og hörð kjarabarátta er annars vegar. Átök í samningamálum reyna til dæmis á þol gagnvart því að láta kalla sig öllum illum nöfnum eða bera sig út. Þetta er einfaldlega sú hlið á starfi stéttarfélaganna sem færri gefa kost á sér til nokkurrar lengdar eða finna í sér að gera að sínu sviði.“

Ég hafði sterka sannfæringu fyrir því að kennarafélögin skyldu sameinuð.

HÍK og gamla KÍ hefja samvinnu
Elna segir að í aðdraganda kjarasamninga árið 1989 hafi kennarasamtökin; HÍK og Kennarasamband Íslands heykst á að sameinast í ein samtök. Um miðjan níunda áratuginn stóðu yfir alvarlegar tilraunir til að sameina þessi tvö félög en ekki tókst að stíga skrefið til fulls. „Upp úr þessu var þó ákveðið að efna til samvinnu um mótun stefnu í kjarasamningum kennara. Tekist var á í stjórn HÍK, sem á þessum tíma var næststærsta aðildarfélag BHM, um hvora leiðina væri betra að fara fyrir kennara; að gera kennarasamninga í félagi eða samfloti við starfsfélaga, sem voru í KÍ, en þeir voru ýmist að kenna í grunnskólum eða starfsmenntaskólum eða samsama sig hugmyndafræði, sem þá var að verða ofan á innan stjórnar BHM, að setja stefnuna á launaleiðréttingu frá þeim mismun sem var á launum háskólamenntaðra sérfræðinga hjá ríkinu annars vegar og á almennum markaði hins vegar. Það var tekist á um þetta í stjórn HÍK og ég var sjálf í hópi þeirra sem eindregið óskuðu eftir að gera kennarasamninga. Ég hafði sterka sannfæringu fyrir því að kennarafélögin skyldu sameinuð.“

Elna Katrín ásamt Aðalheiði Steingrímsdóttur, varaformanni KÍ, og Önnu Maríu Gunnarsdóttur, sérfræðingi hjá Félagi framhaldsskólakennara. Myndin var tekin í kveðjuhófi Elnu fyrr í vetur.


Tilraunir til að sameina kennarafélögin stóðu yfir árin 1984 til 1986 og fljótlega varð sú viðleitni ofan á að vinna náið saman að samningagerð. En átök um stefnu héldu áfram og svo fór að HÍK ákvað að taka þátt í samfloti flestra félaga BHM um gerð kjarasamninga. „Þegar sú stefna varð fyrir valinu þá var enginn vafi mínum huga að vinna skyldi samkvæmt því. Lýðræði gildir í félögum og meirihlutinn ræður. Það var sjálfsagt mál að einhenda sér í verkin frekar en að setjast út í horn og vera í fýlu,“ segir Elna.

Elna varð formaður HÍK árið 1993 og framundan voru enn einir kjarasamningar. „Þessi tími var lærdómsríkur en því miður voru fyrstu kjarasamningarnir sem ég stjórnaði fyrir félagið á hinum svokallaða þjóðarsáttatíma þar sem ekki var ætlast til að nokkrar einustu kjarabætur kæmu í hlut kennara. Þetta var tími niðurlægingar fyrir alla þá sem höfðu fjárfest í háskólamenntun og störfuðu hjá hinu opinbera. Kennarar voru þar ekki einir á báti.“

Samstarf kennarafélaganna hélt áfram næstu árin. „Fram að því að ákvörðun um sameiningu félaganna var tekin með formlegum hætti þá var sú viðleitni mjög mikilvæg í mínum huga að stilla saman strengi og reyna að vera samstiga í málefnum kennarastarfsins og varðandi kjaramálin. Árið 1995 fórum við svo raunverulega saman í aðgerðir og kjarasamninga. Okkur tókst að rífa okkur upp úr eymd þjóðarsáttatímans og vinna saman af einurð.“

Kennarasamband Íslands, núverandi samtök, voru stofnuð 1999 með því að gamla Kennarasamband Íslands og Hið íslenska kennarafélag gengu í eina sæng. Þar með voru grunnskólakennarar, framhaldsskólakennarar og starfsmenntakennarar sameinaðir í einu félagi en leikskólakennarar bættust í hópinn árið eftir.

Elna segir eitt stærsta úrlausnarefnið við sameininguna hafi verið að finna starfsmódel sem hentaði starfseminni. Stofnað var stéttarfélag til þess að taka af öll tvímæli um samningsrétt og önnur mikilvæg atriði. Félagslegt skipulag hins nýja Kennarasambands skyldi þó vera þannig að innan sambandsins störfuðu býsna sjálfstæð aðildarfélög – sem er það fyrirkomulag sem við þekkjum í dag. Við stofnun Kennarasambandsins varð Elna varaformaður og formaður FF en embætti formanns KÍ gegndi Eiríkur Jónsson.

„Ég tel að við höfum valið rétt módel fyrir starfsemi KÍ. Við sáum fyrir okkur að innan vébanda KÍ myndu starfa félög á sviði kennslu, skólastjórnunar og ráðgjafar. Við erum reyndar ekki með hið síðastnefnda vegna þess að það hefur ekki þótt praktískt. Hins vegar var, að mínu mati, algjör nauðsyn að veita svigrúm fyrir sérstök stjórnendafélög, alveg á sama hátt og það var nauðsynlegt að veita svigrúm fyrir sérstök félög eftir skólastigum. Þegar ég tala um svigrúm þá meina ég það í þeim skilningi að fólk hefur alltaf möguleika til að sameinast um hvaðeina á sama tíma og aðildar­félögin búa við ákveðið sjálfstæði. Enda var gamla slagorðið: Samstaða í skólamálum – sérstaða í kjaramálum,“ segir Elna.

Slagorðinu var að sögn Elnu ekki ætlað að reisa veggi heldur undirstrika þá skoðun að margt í skólamálum, svo sem námskrárgerð, málefni kennarastarfsins, menntun nemenda væri þess eðlis að hægt væri að draga býsna stórar línur langt yfir mörk skólastiganna. „Þannig gæti hið nýja KÍ barist sem eitt afl í skólamálum, málefnum kennaramenntunar, símenntunar og velferðar nemenda svo dæmi sé tekið.“

Mismunandi menning reyndist flókin
Spurð hvort þessi markmið hafi öll gengið eftir segir Elna svo vera að mörgu leyti. „Þegar ég lít um öxl þá finnst mér þó að okkur hafi ekki tekist nægjanlega vel að hjálpa hvert öðru að ná lengra í kjaramálum hverju sinni. Fljótlega eftir sameiningu okkar innan KÍ og þrátt fyrir mikla viðleitni til að setja fram kjarastefnu sem gæti gengið fyrir fleiri en eitt félag þá var að engu að síður svo að framhaldsskólinn var mjög fljótlega enn kominn í harðar kjaraaðgerðir. Á þessum tíma var ég varaformaður KÍ og formaður Félags framhaldsskólakennara þannig að mér var málið mjög skylt. Okkur tókst ekki að byggja sameiginlega þennan spjótsodd sem þurfti og berjast saman. Teknar eru sjálfstæðar ákvarðanir innan aðildarfélaganna og viðsemjendur eru misjafnir,“ segir Elna.

Skrifað undir kjarasamning í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Við hlið Elnu er Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum.

Hún segir það hafa komið á daginn að það væri flókið verk að fást við mismunandi menningu skólastiganna og einnig misjafna menningu viðsemjenda. Framhaldsskólinn fór í mikla kjarabaráttu árið 2001 og í kjölfarið verkfallsaðgerðir. „Það skapaðist alveg einstök samstaða meðal allra félagsmanna að við yrðum að fara í hart vegna þess að staða launamála væri niðurlægjandi og það hefði verulega slæm áhrif á skólastarf í landinu og virðingu fyrir því og störfum kennara almennt. Á þessum tíma hefði auðvitað verið heppilegra að við hefðum verið í þeirri stöðu að grunnskólinn og framhaldsskólinn hefðu verið samtaka í aðgerðum. Atvikin haga því svo að framhaldsskólinn fer einn í aðgerðirnar. Ég segi þetta ekki til að gagnrýna persónur, stjórnir eða ráð heldur bara til að benda á þarna varð, hugsanlega í fyrsta skipti, ákveðið rof. Framhaldsskólakennarar borga með sjö vikna verkfalli hina gríðargóðu samninga sem náðust. Þessir samningar eru bestir í sögunni á eftir samningunum sem við gerðum 2014. Þetta voru merkilegir samningar en þeir kostuðu, sem fyrr segir, sjö vikna verkfall.“

Líklega hefur undirstaðan í kjarabaráttu okkar verið að sýna að kennarastarfið verður aldrei gott og gæðamikið starf ef launin eru svo slæm að þú þurfir að kenna meira en samviska þín býður þér. Slæm kennaralaun eru ávísun á verra skólastarf og því þarf að gera vel við skólana, kennara og nemendur.

Talið berst aftur að sameiningu félaganna og segir Elna að gamla KÍ hafi lagt inn mjög þroskaða starfsemi á sviði skóla- og félagsmála. HÍK hafi fyrir sitt leyti komið með sterka og mótaða sýn á algerri nauðsyn þess að lyfta launum kennara myndarlega og starfshefð frá BHM um svolítið vísindalega kjarabaráttu. „Það er afar mikilvægt að undirbúa kjarasamninga vel og alla mína forystutíð höfum við hafið undirbúning ári áður en samningar renna út. Okkur fannst þetta ekkert merkilegt á árum áður en ég tel við höfum svolítið brotið blað með þessu. Við undirbúning þarf að finna ákveðna leið og brjóta henni brautina, skoða vel hvaða rök og hvað stefnu skal reka í hverri samningalotu.“

Elna segir það besta sem gæti komið fyrir kennarastéttina væri að laun væru það góð að fólki þyrfti ekki að vinna sér til óbóta. „Líklega hefur undirstaðan í kjarabaráttu okkar verið að sýna að kennarastarfið verður aldrei gott og gæðamikið starf ef launin eru svo slæm að þú þurfir að kenna meira en samviska þín býður þér. Slæm kennaralaun eru ávísun á verra skólastarf og því þarf að gera vel við skólana, kennara og nemendur.“

Mikilvægt að berjast fyrir réttindum nemenda
Kynningarstörf og útgáfumál voru eitt af stórum hugðarefnum Elnu meðan hún starfaði hjá KÍ. „Ég hafði frá upphafi mikinn áhuga og sterkar skoðanir á hvernig við ættum að kynna sambandið, hvernig við ættum að „selja hugmyndina“ og ­hvernig við fengjum félagsmenn til að gera Kennarasambandið að sínu. Starfsmódel KÍ er skemmtilegt að því leyti að þeir sem veljast til forystu innan sambandsins hafa möguleika á að beita sér persónulega með sínum félögum og eða á sviðum sem hugur þeirra stendur til. Það má segja að veldur hver á heldur í þeim efnum en KÍ á að geta virkað sem deigla hugmynda á mismunandi tímum; jafnt deigla hugmynda innan úr sambandinu sem og að taka til sín hugmyndir úr umhverfinu.“

Réttindi og hagmunir nemenda voru einnig Elnu afar hugleiknir í starfi fyrir KÍ. „Við tókum mjög þakksamlega við þessari sterku skólamálahefð frá gamla KÍ. Umfjöllun um nemendur og umhyggja fyrir þeirra hag og velferð var mjög ríkjandi. Þetta samrýmdist mjög vel hugmyndum mínum um jafnrétti og lýðræði í skólastarfi – einhverjum kann að þykja þetta hljóma klisjukennt – en það er mikilvægt að það séu tvö jafnþung lóð á vogarskálunum; annars vegar barátta fyrir bættri kennaramenntun og aukinni virðingu fyrir störfum kennara og hins vegar virðing fyrir nemendum og þeirra námi. Tekist hefur að bæta úr ýmsum málum en ég tel enn að ekki ríki jafnrétti til menntunar á Íslandi.“

Framhaldsskólanám kostar enn fullt af peningum að sögn Elnu og hún segir eldgömlum markmiðum um nægilegan styrk í stoðþjónustu skólanna ekki náð, svo sem námsráðgjöf og aðgangi að sálfræðingum.

„Ég kann best að tala um framhaldsskólann og ef horft er yfir langt tímabil má sjálfsagt segja að aðgangur að náms- og starfsráðgjöf hafi batnað en því miður á framhaldsskólinn enn langt í land með að veita nemendum þá umgjörð og stuðning um sitt nám sem nauðsynlegt er. Það er hart vegið að framhaldsskólanum þessi árin; niðurskurðurinn hefur aldrei hætt, og alveg sama virðist hve þjóðarhagur batnar, enn er gengið í skrokk á framhaldsskólanum. Að sjálfsögðu kemur þetta niður á nemendum vegna þess að framhaldsskólinn þarf enn að draga saman seglin. Ég efast ekki eitt augnablik um að svipuð dæmi mætti taka bæði um leik- og grunnskólastigið.“

Breytingar á kennaramenntun vöktu víða atygli
Elna átti sæti í nefnd um framtíðarskipan kennaramenntun á árunum 2005-2006. „Niðurstaða þessarar nefndar varð stofn í lögum um kennaramenntum. Þetta var metnaðarfullt verkefni sem vakti athygli á hinum Norðurlöndunum og í mörgum Evrópulöndum. Ástæðan var sú að hér á landi var komið á kröfu um meistarapróf ­fyrir kennara á skólastigunum þremur. Það er afar sérstakt og ég veit ekki um aðra þjóð sem gerir menntunarkröfur með þessum hætti en þori þó ekki að fullyrða það,” segir Elna.

Nýja löggjöfin þótti merkileg að sögn Elnu og einkum sú niðurstaða að fólk þurfi ekki minni menntun til að kenna smávaxnara fólki. Ég varð sjálf fljótt sannfærð um þetta væri rétt leið. Ég stýrði skólamálum innan KÍ á þessum tíma, las mikið um menntamál í ýmsum löndum og vann á Evrópuvettvangi fyrir KÍ. Ég tók eftir því eða menntunarsérfræðingar í stórum löndum, svo sem Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og víðar virtust vera að komast að svipaðri niðurstöðu en hún var sú að ef ekki væri vel búið að yngstu nemendunum, á leikskólastiginu, þá færi ekki vel þegar ofar drægi.“

Samstaða varð um meistaraprófsleiðina í menntun kennara. Framþróunin heldur áfram og Elna segir verki sem þessu aldrei lokið. „Við þurfum enn að vinna að því skilgreina hvert inntak kennaramenntunar á að vera og KÍ þarf að vera á vaktinni á hverjum tíma og hafa ákveðnar skoðanir á hvernig löggjöf um kennaramenntun og framkvæmd hennar á að vera. Þá má nefna baráttumál sem ekki hafa fengið nægilega góða niðurstöðu en það er kennsluþjálfun kennaranema í kennslustofunni."

Mín sannfæring er þetta sé spurning um peninga, háskólarnir sem mennta kennara hafa barist í bökkum og þeim gengur illa að fá viðurkenningu á kostnaðar­samari þáttum kennaramenntunarinnar – svo sem vettvangsnáminu. Ég efast ekki um að það sem er gert í þessum efnum er vel gert, það er bara of lítið. Hægt hefur gengið undanfarin ár við að auka og efla símenntun kennara, þar með talið aðstöðu þeirra til að stunda símenntun og framhaldsnám samhliða starfi. KÍ má ekki missa sjónar á þessu og ef sambandið er ekki beðið um þátttöku þá ber því að blanda sér að eigin frumkvæði í málið. Þetta á við öll baráttumál kennarasamtakanna og ég held að styrkur okkar hafi oft og tíðum verið sá að bíða ekki eftir að vera beðin heldur taka frumkvæðið og vekja athygli á þeim stefnumálum sem við teljum mikilvæg,“ segir Elna Katrín Jónsdóttir.

Greinin birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2016.

Viðfangsefni: Kjarabarátta, Kennarasamband Íslands, Verkföll, Skólamál, Réttindi nemenda