Létum drauminn rætast

21.06.2017 | Viðtöl

Létum drauminn rætast

Freyja Dögg Frímannsdóttir segir frá því hvernig er að ala upp þrjú ung börn í Lundi í Svíþjóð, en tvö barnanna eru í leikskóla en það þriðja í grunnskóla. Freyja og eiginmaður hennar fluttu frá Akureyri til Svíþjóðar fyrir tæpu ári og kunna lífinu vel í sænsku samfélagi.

Það telst ekki til sérstakra tíðinda þótt fólk taki sig upp og flytji til útlanda. Fyrir viðkomandi fjölskyldu, eða einstakling, er það hins vegar stór ákvörðun að flytja með allt sitt hafurtask og setjast að í öðru landi. Að pakka búslóðinni, selja jafnvel íbúðina, kveðja ættingja, vini og góða granna og setjast að í nýju landi er mikil breyting. Að baki slíkri ákvörðun geta legið margar og ólíkar ástæður. Stundum tengjast slíkir flutningar atvinnu, en þess eru mörg dæmi að fólk sem missir vinnuna leiti á ný mið. Sumir sjá ekki fram úr skuldunum og ákveða að freista gæfunnar í öðru landi í þeirri von að þar gangi betur að láta enda ná saman. Ástæðurnar fyrir því að fólk ákveður að flytja milli landa eru margar og ólíkar.

Síðastliðið sumar tóku ung hjón með þrjú börn sig upp og fluttu frá Akureyri til Lundar í Svíþjóð. Þetta voru þau Freyja Dögg Frímannsdóttir og Orri Gautur Pálsson og að baki þeirra flutninga var hvorki skuldabasl né atvinnuleysi. Tíðindamaður Skólavörðunnar, sem búsettur er í Kaupmannahöfn, brá sér yfir sundið og hitti Freyju Dögg á heimili fjölskyldunnar í útjaðri Lundar. Erindið var að fræðast um reynslu þeirra hjóna og dætranna þriggja af því að setjast að í nýju landi.

Að dæmigerðum íslenskum sið var gestinum strax boðið upp á kaffi. Eftir stutt spjall um menn og málefni var spurt hvað hefði orðið til þess að þau Freyja og Orri ákváðu að taka sig upp og flytja til Svíþjóðar.

Svíþjóð var augljóst val
„Maðurinn minn ólst upp í Svíþjóð frá sex ára aldri og þangað til hann var orðinn ­sextán ára. Faðir hans var þá í framhaldsnámi í læknisfræði og fjölskyldan bjó í Västerås, skammt frá Stokkhólmi. Síðar vorum við Orri, sem starfar sem forritari, í háskólanámi hér í Svíþjóð og í Kaupmannahöfn. Við fluttum til Íslands árið 2005 og höfum alla tíð talað um að flytja aftur út, annað hvort til Svíþjóðar eða Danmerkur. Við eigum þrjár dætur, Dísu sem er sjö ára, Kötu fjögurra ára og Mæju eins árs. Ef við ætluðum að láta verða af því að flytja var ekki seinna vænna, áður en stelpurnar yrðu of stórar til þess að rífa þær upp frá vinum og skóla. Þannig að við ákváðum bara að láta vaða.“

Og völduð Svíþjóð!
„Já, það var kannski ekki síst tungumálið sem réði því. Maðurinn minn talar auðvitað sænsku reiprennandi og ég reyndar líka. Við vildum líka fara til lands þar sem við ættum auðveldara með að komast inn í samfélagið. Við þekkjum vel til hérna og eigum hér vini þannig að þetta var nokkuð augljóst val.“

Og þið ákváðuð að setjast að í Lundi.

„Já. Við vildum vera í Suður-Svíþjóð þar sem við eigum bæði ættingja og vini í Kaupmannahöfn sem við höldum sambandi við. Lundur var eiginlega tilviljun, en okkur bauðst hérna raðhús til leigu. Við teljum okkur heppin því hér er mikill skortur á húsnæði og húsnæðisverð er hátt, talsvert hærra en í Malmö. Við erum hins vegar búin að kaupa hús í Höllviken, litlum bæ suður af Malmö, og flytjum þangað í sumar.

Orri hafði sótt um tvö störf og bauðst annað þeirra, hjá stóru hugbúnaðarfyrirtæki í Malmö. Svarið kom daginn eftir að yngsta dóttirin fæddist og við ákváðum að kýla á það. Eftir á að hyggja hentaði tímapunkturinn vel, því ég var í fæðingarorlofi og gat þess vegna sinnt dætrunum en þetta var auðvitað mikil breyting fyrir þær. Orri fór á undan okkur og var búinn að ganga frá því er varðaði búsetuflutninginn. Það gekk allt greiðlega, en við áttum bæði sænska kennitölu og kannski flýtti það fyrir. Ég hélt áfram í fæðingarorlofinu, tíminn sem ég var búin að nota heima dróst einfaldlega frá og hér var svo reiknað út hvað ég ætti að fá greitt, það er svipað og á Íslandi en þó örlítið meira. Fæðingarorlofið hér er lengra en heima, ég átti rétt á árs fæðingarorlofi hér og get tekið hluta af orlofi eiginmannsins en hann á svo eyrnamerkta þrjá mánuði. Þá verður hann að taka áður en sú stutta nær átta ára aldri.“

Hvað með heilbrigðisþjónustuna?
„Fljótlega eftir að við fengum kennitöluna, sem tók skamman tíma, kom bréf frá heilsugæslunni hér í hverfinu þar sem okkur var tilkynnt að nú værum við komin þar á skrá. Við erum ekki með sérstakan heimilislækni heldur pöntum bara tíma ef á þarf að halda. Það gengur allt mjög greiðlega. Yngsta dóttirin er í ungbarnaeftirliti sem er nánast eins og á Íslandi, bæði varðandi bólusetningar og annað.“

Móttökur í sænsku skólakerfi
Nú víkjum við talinu að skólunum.
„Skólagangan hefst árið sem barnið verður sjö ára, ári síðar en á Íslandi. Þegar barnið er sex ára getur það farið í ­„förskoleklass sem er ekki skylda en nánast öll börn byrja þar. Þessi ,,förskole” er á sama stað og grunnskólinn. Dísa var búin með 1. bekk á Íslandi og var ekki beint ánægð með að fara aftur í 1. bekk.“

Hvernig fannst þér hún standa að vígi miðað við jafnaldrana hér?

„Mér þótti hún standa vel, þrátt fyrir að hún hefði ekki tungumálið. Þetta var auðvitað erfitt fyrst, en í þessum skóla eru börn af mörgum þjóðernum. Í Dísu bekk eru 22 nemendur en í skólanum eru tveir 1. bekkir. Það er fastur bekkjarkennari og svo nokkrir aðstoðarkennarar. Skóladagurinn byrjar kl. 8.20 og lýkur kl. 13.40. Börn geta byrjað daginn á frístundaheimili í skólanum, og þangað geta þau líka farið eftir að skóladeginum lýkur. Langflestir foreldrar nota frístundina og ég held að dóttir mín hafi í haust verið sú eina í bekknum sem ekki fór þangað eftir skóla. Hún hlakkaði mjög til þegar ég færi að vinna því þá færi hún með hinum í frístundina. Í frístundinni er allt mögulegt gert, mikið verið úti, svo er litað og bakað svo eitthvað sé nú nefnt. Þarna eru krakkar frá 1. bekk upp í 5. bekk.“

Hvað með heimanám?

„Það er talsvert heimanám, lestur og ýmis verkefni sem þarf að skila. Náið er fylgst með verkefnaskilunum og ef þar verður misbrestur á fá foreldrarnir skilaboð um það og athugasemdir.“

Foreldrafundir?

„Foreldrafundir eru einu sinni til tvisvar á önn og síðan eru einstaklingssamtöl með foreldrum og barni, eitt að hausti og annað að vori. Áður en einstaklingssamtalið, eða fundurinn, fer fram er barnið búið að svara ýmis konar spurningum og efni þeirra svo rætt á fundinum.

Mig langar að nefna eitt sem mér fannst athyglisvert þegar Dísa var að byrja í skólanum. Það er hvernig tekið var á móti henni sem útlendingi. Fyrst fór hún í eins konar stöðumat á skólaskrifstofunni niðri í bæ. Þar var hún, sem reyndar talaði enga sænsku, látin lesa og hitti hjúkrunarkonu og það var farið yfir hlutina. Hún fékk að vita að þetta mat gæti tekið frá því að koma á hverjum degi í tvær vikur eða lengur eða bara eitt skipti, eins og varð raunin með hana. Þetta er til þess að finna hvar viðkomandi passi inn. Ef um er að ræða nemendur sem koma úr allt öðru umhverfi og aðstæðum geta þau semsagt þurft að sækja tíma í tvær til þrjár vikur, áður en skólinn sjálfur byrjar. Þegar Dísa byrjaði svo í skólanum fékk hún strax auka sænskukennslu, einu sinni í viku. Þá var hún tekin út úr bekknum og svo var metið hvort hún þyrfti að fá aðstoð inni í bekknum, sem ekki reyndist nauðsynlegt. Hún á sænskar vinkonur, sem hún leikur sér við og búa hérna í nágrenninu.“

Hvað með íslenskukennslu í skólanum, er slíkt í boði?

„Já, samkvæmt lögum hér eiga allir erlendir nemendur rétt á að fá kennslu í sínu móðurmáli. Dísa fær einu sinni í viku kennslu í íslensku. Þetta eru einkatímar því hún er eini Íslendingurinn í þessum skóla. Kennarinn er Íslendingur sem fer á milli skóla, sinnir semsagt mörgum skólum. Kennslan er annars með svipuðum hætti og heima, en þó er mun meira um að kennt sé utandyra, bæði t.d. stærðfræði og náttúrufræði.“

Fer hún með nesti í skólann?
„Nei, það er matur í skólanum, bæði hressing á morgnana og svo hádegismatur. Það er foreldrum að kostnaðarlausu og mér hefur sýnst maturinn vera fjölbreyttur og Dísa er mjög ánægð með hann.“
Þurftuð þið að kaupa skólabækur og annað sem tilheyrir skólagöngunni?

„Þessari spurningu er fljótsvarað. Það þurfti ekki að kaupa neitt, hvorki bækur né annað. Ef börnin fara á frístundaheimilið þarf að greiða gjald, mun minna þó en á Íslandi. Yngri stelpurnar tvær eru á leikskóla og fyrir það þarf að borga. Ég hef reiknað út að það sem við borgum hér fyrir þetta, leikskólann og frístundina, er um það bil fjórðungur þess sem sambærilegt kostar heima (á Akureyri).Skólaárið er frá 19. ágúst til 10. júní, ein vika í haustfrí og önnur í svonefnt vetrarfrí á vorönninni.“

Svo eigið þið eigið tvær yngri dætur?

„Já, þær eru báðar á leikskóla hér í hverfinu og eru mjög ánægðar. Hér eiga öll börn rétt á leikskólaplássi frá eins árs aldri og ekkert sem heitir að þau þurfi að vera heima vegna veikinda á leikskólanum. Það hefur vakið athygli okkar foreldranna að þær tvær eldri tala oft saman á sænsku þegar þær eru að leika sér. Við reynum að passa upp á íslenskuna og tölum alltaf íslensku hér heima.

Mér þykir rétt að geta þess að við fáum barnabætur með þeim tveim yngri, samtals 3.800 sænskar krónur á mánuði. Þetta er ekki tekjutengt og er meira en það sem við borgum fyrir gæsluna. Launin hér í Svíþjóð eru ívið lægri en heima en okkur finnst hins vegar meira verða eftir í veskinu. Það ríkir að mínu mati líka meiri skilningur á vinnustöðum gagnvart foreldrum heldur en heima. Aftur á móti er fyrsti veikindadagur hér ekki launaður.“

Að lokum, þú ert sjálf nýbyrjuð að vinna.

„Ég var svo heppin að fá vinnu hjá IKEA, það gerist ekki sænskara. Starfsheitið er sérfræðingur á samskiptasviði og ég sinni samskiptum við fjölmiðla um allan heim.“

Með þessum orðum er botn sleginn í viðtalið.

Viðtalið birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2017.

Borgþór Arngrímsson

Blaðamaður Skólavörðunnar í Kaupmannahöfn
Viðfangsefni: Leikskólinn, Grunnskólinn, Sænskt skólakerfi