Krakkar eru bestir í toga aðra krakka að bókum

14.03.2016 | Viðtöl

Krakkar eru bestir í toga aðra krakka að bókum

Hvetja þarf krakka til að lesa bækur og kveikja þarf áhugann snemma á lífsleiðinni. Þetta er meðal markmiða Barnabókaseturs Íslands þar sem Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur stendur við stýrið. Barnabókasetur efnir til Siljunnar, myndbandakeppni um bækur, í öllum grunnskólum landsins í vetur.

„Við getum fengið börn til að lesa og það er hægt að vekja lestraráhugann en það kostar tíma, fé og fyrirhöfn,“ segir Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og dósent við Háskólann á Akureyri. Brynhildur er líka ein þeirra sem leiða starf Barnabókaseturs Íslands sem er staðsett á Akureyri.

„Barnabókasetrið var stofnað árið 2012 í kjölfar mikillar umræðu um minnkandi lestur barna og unglinga. Þá tóku Háskólinn á Akureyri, Amtsbókasafnið og Minjasafnið á Akureyri sig saman ásamt Rithöfundasambandinu, Síung, Ibby og Félagi fagfólks á skólabókasöfnum og bjuggu til batterí sem ætlað er að vinna að rannsóknum á barnabókum og lestri barna, en fyrst og fremst að hvatningu til lestrar,“ segir Brynhildur.

Forvígismenn Barnabókasetursins hafa að sögn Brynhildar ekki setið auðum höndum; efnt hefur verið til málþinga, haldnar ráðstefnur og upplestrarstundir fyrir fjölskyldur. „Við höfum líka unnið að varanlegum verkefnum og má þar t.d. nefna „járnbækurnar“ sem er að finna hér í miðbæ Akureyrar. Hátt í þrjátíu barnabækur prýða ljósastaura þannig að hægt er að lesa eina opnu úr hverri bók. Bækurnar eru frá ýmsum tímabilum, eftir konur og karla, sumar þekktar og aðrar ekki. Með þessu viljum við hvetja fjölskyldur til að sameina útivist og lestur með nýstárlegum hætti. Þetta hefur virkað alveg þrælvel,“ segir Brynhildur.

Barnabókasetur hefur líka staðið fyrir farandsýningu sem ætlað er að kveikja áhuga foreldra á að lesa barnabækur, rifja upp sínar uppáhaldsbækur úr æsku og búa til notalega lestrarstemningu heima fyrir. „Lestraráhuginn byrjar heima og sýningunni er ætlað að styðja við það. Það er gaman að segja frá því að þegar sýningin var fyrst sett upp í Amtsbókasafninu þá fann starfsfólkið þar áþreifanlega fyrir meiri aðsókn í barnadeildina. Fólk var að koma með barnabörnin og við náðum að brúa kynslóðabilið svolítið. Ég held að þetta sé leiðin að börnunum; jákvæð nálgun í gegnum foreldra og vini í stað þess að hvatning til lestrar komi alltaf ofan frá. Lesturinn á ekki að vera „bara“ verkefni skólanna heldur er ákjósanlegt að við vekjum upp lestrargleði með samverustundum fjölskyldunnar. Það má segja að við séum að rífa lesturinn út úr því sem þú gerir einn úti í horni, lestur er ekki endilega einkamál. Við getum setið saman og lesið með börnunum, farið út að lesa eða talað saman um bækur.“

Krakkar vilja umræður um sínar bækur
Brynhildur segir þá sem hafa stundað rannsóknir á barnabókum og lestrarvenjum barna hafa komist að því að íslenskir krakkar séu ekki mjög góðir þegar kemur að því að tala um það sem þeir lesa.

„Þarna vantar okkar krakka ákveðna þjálfun. Ef við berum saman íslenska og danska bókaorma þá kemur í ljós að hinir dönsku standa betur að vígi þegar kemur að vitund um hvers vegna er gott að lesa bækur og þeir eiga auðveldara með að tjá sig um lesturinn. Við vitum hins vegar að íslensk börn langar að gera þetta; kannanir hafa sýnt að börn hér á landi sakna þess að eiga ekki samræður við fullorðna um það sem þau eru að lesa. Þetta er mikilvægt atriði, að mínu mati, ekki bara fyrir foreldra heldur líka fyrir kennara. Það er ekki nóg fyrir börnin að fá bók í hendur og lesa, heldur langar þau til að foreldrar og kennarar lesi bókina líka og þannig geti þau rætt innihaldið og spáð í hvað gerist. Ég held að leshringir og bókaklúbbar í skólum gætu verið sniðug leið til að fá fram þessar umræður og auka þannig lestraráhugann, því hann er smitandi,“ segir Brynhildur og bætir við að ekki sé nóg að afhenda börnum bækur og hvetja þau til að lesa.

„Það er auðvitað jákvætt en við þurfum líka að vita hvaða bækur eru að koma út, kynna okkur höfundana og geta talað við börnin um þeirra bókamarkað.“

Það er ekki nóg fyrir börnin að fá bók í hendur og lesa, heldur langar þau til að foreldrar og kennarar lesi bókina líka og þannig geti þau rætt innihaldið og spáð í hvað gerist.

Myndbandakeppnin Siljan í grunnskólum á landsvísu
Barnabókasetrið efndi til skemmtilegrar myndabandakeppni, sem kallast Siljan, í grunnskólum í Eyjafirði í fyrra. Skilyrði var að myndböndin tengdust tiltekinni íslenskri bók og segir Brynhildur þátttökuna hafa verið góða. „Aðdragandann að Siljunni má rekja til þess að við fengum styrk frá Barnamenningarsjóði til þess að gera tilraunir með netsjónvarpsþætti um barnabækur, þætti sem væru fyrir börn og unnir af börnum. Við auglýstum og kynntum Siljuna í skólum og á skólabókasöfnunum og fengum í kjölfarið fjölbreytt og skemmtileg myndböndum. Krakkarnir sýndu mikið hugmyndaflug og kunnáttu við gerð myndbandanna,“ segir Brynhildur.

Félag bókaútgefenda styrkti keppnina þannig að skólabókasafn sigurvegaranna fékk 100 þúsund króna bókaúttekt. „Markmiðið var auðvitað að hvetja börn til að lesa, tala um bókina sína og nota jafningjafræðslu til að fá önnur börn til að lesa. Það hefur sýnt sig að það er mjög virk leið til að efla lestraráhuga að krakkarnir sjálfir togi aðra krakka áfram. Hitt stóra atriðið var að finna leið til að rétta hlut skólabókasafna, þótt ekki væri nema eins eða tveggja safna í senn, því söfnin eru mjög fjársvelt,“ segir Brynhildur, en þess má geta að sigurvegararnir fengu peningaverðlaun.

Siljan fer aftur af stað á nýju ári og segir Brynhildur að nú verði blásið til keppni á landsvísu. Stefnt sé á keppni í tveimur flokkum; 5. til 7. bekk annars vegar og 8. til 10. bekk hins vegar. „Við ætlum að skýra línurnar aðeins í keppninni því nú geta nemendur í 176 grunnskólum tekið þátt, en í megindráttum verður fyrirkomulagið eins og síðast. Við munum kynna keppnina í skólunum og á skólabókasöfnunum; kennurum er frjálst að nota þetta sem skólaverkefni en aðallega er keppnin þó hugsuð fyrir krakkana sjálfa; þeir kunna á tæknina í símum og spjaldtölvum og ráða alveg við verkefnið.“

Náum árangri með jákvæðni
Brynhildur segist bjartsýn á að hægt sé að efla lestraráhuga barna og unglinga. „Það gerist samt ekki án fyrirhafnar og ég er svolítið hrædd um að við séum að eyða of miklum tíma og peningum í tæknilegu hliðina í skólakerfinu, sífelld próf, sem veldur því að lestrargleðin mætir afgangi. Þetta er slæm stefna að mínu mati, því ef við kennum börnunum aftur og aftur að taka sama prófið þá munu þau ef til vill skora hátt, en ef við hlúum ekki að áhuga þeirra á lestri þá munu þau ekki lesa,“ segir Brynhildur.

Hún gagnrýnir umræðuna um að börn lesi ekki og að strákar lesi ekki. „Að mínu mati náum við ekki árangri ef við höldum áfram að leggja ofuráherslu á að strákar lesi ekki bækur. Þessi skilaboð, einkum til stráka, eru slæm og hafa tvennt í för með sér; þetta stimplar strákana og gefur þeim afsökun fyrir að lesa ekki og dregur úr sjálfstrausti þeirra og löngun til að teygja sig í lesefni. Neikvæð nálgun af þessu tagi mun ekki skila neinu.“

Lestraruppeldið þarf að hefjast snemma og vill Brynhildur helst sjá það hefjast strax í mæðraskoðuninni. Hún segir Barnabókasetur, ásamt Borgarbókasafni, Bókmenntaborginni og Félagi bókaútgefenda, hafa fyrir fáeinum árum gefið út fræðslubækling sem var dreift í ungbarnaeftirlitinu. Bæklingurinn bar yfirskriftina Lestur er lykill, komdu með í hugarflug og að sögn Brynhildar var honum ætlað að hvetja foreldra til að sinna lestraruppeldi.

Að mínu mati náum við ekki árangri ef við höldum áfram að leggja ofuráherslu á að strákar lesi ekki bækur. Þessi skilaboð, einkum til stráka, eru slæm og hafa tvennt í för með sér; þetta stimplar strákana og gefur þeim afsökun fyrir að lesa ekki og dregur úr sjálfstrausti þeirra og löngun til að teygja sig í lesefni.

„Það þarf að vanda til verka og eitt af því sem þarf að laga er rekstur skólabókasafnanna en þau urðu fyrir harkalegum niðurskurði í hruninu, niðurskurði sem hefur ekki gengið til baka. Samdrátturinn í bókakaupafé er gríðarlegur, að jafnaði um 50 prósent í krónutölu, enn meiri ef verðhækkanir á bókum eru teknar með í reikninginn. Dæmigerður 450 barna skóli kaupir nú 100 til 150 færri bækur á ári. Þetta hefur svo haft áhrif á útgáfu barna- og unglingabóka.“

Brynhildur segir barnabókaútgáfu hér á landi öfluga en þó sé áhyggjuefni hversu fáar íslenskar bækur koma út fyrir yngstu börnin og unglinga. „Sex íslenskar bækur ætlaðar unglingum komu út í fyrra og tólf þýddar. Alls eru þetta 18 bækur og unglingar sem lesa mikið eru búnir með þær allar í febrúar.“

Skólabókasöfnin eru lífæð barnanna því þar hafa þau aðgang að bókum. „Það þarf verulega að bæta rekstur skólasafnanna sem eru á forræði sveitarfélaganna. Á sama tíma og söfnin búa við skert fjárframlög til bókakaupa er ríkisvaldið að setja peninga í læsisátak sem byggist á tæknihyggju. Það er pólitískt snúið að koma skólasöfnunum á réttan kjöl en afar mikilvægt því þau eru lykill að lestraráhuga barna,“ segir Brynhildur Þórarinsdóttir.

Frétt um Siljuna – myndbandaverðlaun

Greinin birtist í Skólavörðunni, 7. tbl. sem kom út í september 2015.