Mættu vera áhugasamari um aðstæður á vinnustað

07.06.2017 | Viðtöl

Mættu vera áhugasamari um aðstæður á vinnustað

Ásdís Ingólfsdóttir framhaldsskólakennari þekkir vel til vinnuumhverfismála kennara. Hún hefur verið formaður vinnuumhverfisnefndar KÍ síðustu tvö ár og átt sæti í nefndinni í nærfellt átta ár. Ásdís hefur um árabil kennt efnafræði og hagfræði í Kvennaskólanum í Reykjavík og nú er hún að bæta við sig kennslu í fjármálalæsi og frumkvöðlafræði.

Ásdís sat heima í Dymbilvikunni og fór yfir verkefni þegar blaðamaður Skólavörðunnar heimsótti hana til að að ræða kennarastarfið og málefni vinnuumhverfisnefndar.

„Kvennó er góður vinnustaður og það er yndislegt að starfa þar. Það er og hefur alltaf verið mikil framþróun, verið að prófa sig áfram með nýja hluti og kennarar hafa frelsi til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Kvennó var langt á undan öðrum í styttingu náms til stúdentsprófs. Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, sem var skólameistari, vildi láta reyna á þriggja ára nám til stúdentsprófs og það var sett á árið 2009 og fyrsti árgangurinn útskrifaðist árið 2012. Við vorum heppin í upphafinu því við fengum nýtt húsnæði og gátum stækkað skólann. Við lentum því ekki í því, sem margir óttuðust, að með því að skerða námið um fjórðung þá myndi kennurum fækka um fjórðung.“

Ásdís kennir nú frumkvöðlafræði og fjármálalæsi og frá og með næsta hausti bætist þjóðhagfræði við en þetta eru ný fög í skólanum. Hugmyndin var Ásdísar en hún hefur auk þess að leggja stund á jarðfræði og stærðfræði i háskóla, lokið meistaragráðu í viðskiptafræði. „Tímasetningar í mínu lífi hafa oft verið undarlegar og ég lauk viðskiptafræðináminu í október 2008. Þá var það bara „Guð blessi Ísland“ og allir vita hvernig það fór. Þannig að ég hélt mínu striki í Kvennó og hef ekki séð eftir því.“

Báðar þessar greinar njóta vinsælda og Ásdís segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart hversu margir nemendur skráðu sig í kúrsana. „Það er alveg frábært að kenna þessi fög enda nemendurnir alveg frábærir og meðvitaðir um þessi fræði.“

Námsáhuginn er enn til staðar og Ásdís er aftur farin að stunda háskólanám. Hún vinnur nú að annarri meistaragráðunni, að þessu sinni í ritlist. „Ég get hæglega mælt með þessu námi, þetta hefur verið óskaplega skemmtilegt, ekki síst að hitta allt þetta unga fólk sem er svo flinkt og frábært.“

Ásdís hefur þegar skilað fyrri hluta meistararitgerðarinnar, ljóðabók, og nú vinnur hún að gerð sögulegrar skáldsögu og stefnir á útskrift næsta haust. Skáldskapurinn hefur fylgt henni alla tíð og hún skrifaði sitt fyrsta smásagnasafn aðeins átta ára gömul. „Það voru hærri þröskuldar í gamla daga og viðkvæðið var að maður ætti að læra eitthvað sem hægt væri að lifa af. Þess vegna lagði ég kannski ekki skrifin fyrir mig heldur fór í háskóla til að stúdera jarðfræði.“

Álagið þarf að viðurkenna
Við víkjum nú talinu að starfi vinnuumhverfisnefndar en Ásdís er formaður nefndarinnar. Hún segir mörg málefni til umræðu í nefndinni og verkefnin af ýmsu tagi. Streita og álag sem kennarastéttin býr við er eitt af stóru málum nefndarinnar. Kennarar hafa lengi kvartað undan miklu vinnuálagi sem veldur streitu og kulnun.

„Ég vil ekki setja mig í einhverjar fórnarlambsstellingar en kennarar eru margir undir gríðarlegu álagi. Það þarf viðurkenningu á því að kennarastarfið sé álagsstarf. Það eru allir sammála því að leikari eða útvarpsmaður sem flytur sinn daglega þátt á dag séu í fullu starfi, en sem kennari þá stendurðu tímunum saman innan um áheyrendurna og flytur þinn „útvarpsþátt“. Kennarinn þarf að vera vel undirbúinn og ég myndi vilja sjá að þessar starfsaðstæður væru viðurkenndar og umbunað samkvæmt því,“ segir Ásdís.

Ég vil ekki setja mig í einhverjar fórnarlambsstellingar en kennarar eru margir undir gríðarlegu álagi. Það þarf viðurkenningu á því að kennarastarfið sé álagsstarf.

Hópastærðirnar eru annað baráttumál að sögn Ásdísar. „Hópastærðir eru stórt og mikilvægt mál og ég segi stundum að við getum einfaldlega snúið dæminu við og spurt hvaða foreldri finnist í lagi að bjóða barninu sínu upp á að vera alltaf í svo og svo margra manna hópi. Mínir bekkir eru allt upp í 29 nemendur. Fullorðið fólk veit hvaða álag fylgir því að vinna í stóru opnu rými en okkur finnst í lagi að bjóða börnunum okkar upp á slíkt. Minnstu börnin eru mörg hver í leikskólanum í níu klukkustundir á dag sem er lengra en hefðbundinn vinnudagur hjá fullorðnu fólki. Svo tekur grunnskólinn við og þá er algengt að krakkarnir séu í stórum hópum allan daginn, þar sem þau leysa og vinna verkefni jafnvel í hávaða og truflandi aðstæðum,“ segir Ásdís.

Ásdís segir brýnt að huga að vinnuumhverfi nemendanna ekki síður en kennaranna, en grunnskólakrakkar dvelja lungann úr deginum í skólanum. „Við verðum að horfa á þetta sem vinnustað unglinganna líka og stundum er bara ekki nokkur vinnufriður. Svo eru komin ný vandamál, ef svo má að orði komast, börn og unglingar eru mikið á netinu, á Facebook, og búa við meiri streitu en áður.“

Annar streituvaldur eru tölvu- og netkerfi skólanna. Ásdís vakti athygli á þessu í grein sem birtist í Skólavörðunni árið 2015. Þar skrifaði hún meðal annars: „Stafrænt vinnuumhverfi er veruleiki mjög margra í dag og ef tölvukerfi virka ekki getur það haft verulega áhrif á afköst, sem aftur hefur áhrif á starfsfólk og starfsánægju.“

Ég tel að kennarar fylgist vel með tækniþróun og þeir hafa sýnt flott frumkvæði við að nýta til dæmis spjaldtölvur og síma í kennslu en það eru jú tækin sem krakkar nota mest.

„Því miður eru tölvukostur og tölvukerfi víða í molum og slíkt ástand hefur slæm áhrif á skólastarf. Tölvutæknin hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum, um tíma var kennd tölvunarfræði í mörgum skólum og þá var alltaf tölvunarfræðingur á staðnum. Svo var þessu hætt og tölvunarfræðingarnir hurfu á braut. Tölvubúnaður er úr sér genginn víða, uppfærslur valda vandræðum og svo hrynur kannski allt. Tæknimálin eru eilífðarbarátta, kennarar og nemendur kvarta eðlilega þegar þessir hlutir eru ekki í lagi. Ég tel að kennarar fylgist vel með tækniþróun og þeir hafa sýnt flott frumkvæði við að nýta til dæmis spjaldtölvur og síma í kennslu en það eru jú tækin sem krakkar nota mest.

Hver er réttur kennarans?
Réttindamál kennara eru Ásdísi hugleikin þessa dagana og hún ætlar að koma þeim málum á dagskrá vinnuumhverfisnefndar á næstunni.

„Ég hef um langt skeið haft áhyggjur af tryggingum kennara, án þess þó að vera einhver sérfræðingur á þessu sviði. Við þekkjum það hins vegar mörg sem störfum sem kennarar, að æ oftar fara kennarar til dæmis með hópa nemenda til útlanda. Ef eitthvað kemur fyrir þá situr kennarinn í súpunni. Ég held að hér verði að leggjast yfir og skoða hið lagalega umhverfi og einnig velta fyrir sér samfélagsábyrgð. Hver er réttur kennarans og hver stendur með honum ef eitthvað kemur fyrir? Ég held ég geti fullyrt að íslenska ríkið standi ekki með kennaranum. Við getum ekki sætt okkur við að kennarar séu gerðir að sökudólgum, réttur þeirra þarf að vera tryggður. Það þarf að mínu viti að opna þessa umræðu, kalla til sérfræðinga og ræða þetta frá a til ö.“

Hver er réttur kennarans og hver stendur með honum ef eitthvað kemur fyrir?

Mættu vera áhugasamari
Umræða um vinnuumhverfismál er smám saman að aukast að mati Ásdísar, en hún segir kennara mega vera miklu áhugasamari um þennan málaflokk. „Auðvitað hefur þetta verið þannig að meðan kjarabaráttan er aðalmálið og snýst um að kennarar nái að skrimta af sínum launum þá komast hlutir á borð við inniloft og lýsingu ekki á dagskrá. Eitt af því sem hefur þó vakið kennara til vitundar um þessi mál eru sífellt fleiri dæmi um myglu í skólabyggingum.“

Ásdís segir vinnuumhverfisnefndina vinna eftir samþykktum þings KÍ. „Þar má nefna til dæmis gátlista sem við höfum látið gera og snúast um að kennararnir sjálfir skoði eigið vinnuumhverfi. Við höfum prófað þessa gátlista á nokkrum stöðum og vonumst til að geta sett þetta verkefni á fullt næsta haust. Þannig spyrja kennararnir sig hvort vinnuaðstaða sé í lagi, loftgæðin góð, hvernig lýsingu og hljóðvist sé háttað, tæki og tól séu í lagi og svo framvegis. Vonir okkar standa til þess að kennarar fái með þessu verkfæri og geti leitað til næsta yfirmanns vegna þess sem þeim finnst ábótavant. Vonandi verður þetta til þess að hlutirnir færist til betri vegar í skólunum.“

Ásdís segir eina hugmynd að efna til sérstakrar vinnuumhverfisviku. Kennarar, stjórnendur og starfsfólk skólanna myndi þá gefa þessu mikilvæga málefni gaum, finna vankantana og síðan leiðir til lausnar. „Við megum ekki sitja endalaust uppi með að skólar séu fjársveltar stofnanir og við með of lág laun. Þá erum við ekki að búa börnum og unglingum þessa lands umhverfi sem er sæmandi fyrir þessa þjóð. Kennarastarfið er sem slíkt frábært, fjölbreytt og yndislegt en starfsaðstæður og laun þurfa að vera í samræmi við menntun og ábyrgð,“ segir Ásdís Ingólfsdóttir.

Viðtalið birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2017

Viðfangsefni: Vinnuumhverfismál, Kennarar, Kvennó