Kann vel við birtuna og garðastúss sumarsins

16.05.2017 | Viðtöl

Kann vel við birtuna og garðastúss sumarsins

Ingileif Ástvaldsdóttir segir fátt betra en að skíða niður brekku í geggjuðu færi og góðu veðri. Ingileif er í tveimur saumaklúbbum, leshring og klúbbi kennslukvenna.

Hver: Skólastjóri Þelamerkurskóla í Hörgárdal og varaformaður Skólastjórafélags Íslands.

Hvað er efst á baugi hjá Skólastjórafélaginu þessa dagana?
Við áformum við vinnufund með formönnum svæðafélaga og nefndarfólki okkar í haust. Þann sama dag er ætlunin að vera með málþing þar sem fjallað verður um íslenskar rannsóknir á störfum skólastjórnenda og kennslufræðilega forystu í daglegu starfi þeirra. Í september tökum við, ásamt FSL á móti kollegum okkar frá hinum Norðurlöndunum á árlegum fundi NLS Ledarforum. Umfjöllunarefni þess fundar verður kennslufræðileg forysta og skóli 21. aldarinnar. Svo erum við farin að huga að árlegri námstefnu félagsins og aðalfundi sem haldin verða í Reykjavík í október.

Hvernig leggst vor og sumar í þig?
Vor og sumar leggjast alltaf vel í mig. Ég kann vel við birtuna, ylinn og garðastússið sem fylgja þessum árstíma.

Ætlarðu að ganga á fjall í sumar?
Já, þetta sumar verður engin undantekning á því. Nú þegar hef ég merkt tvær gönguferðir inn á dagatalið mitt. Önnur er um Hornstrandir og hin um Laugaveginn.

Í hvaða klúbbum ertu?
Ég er í tveimur saumaklúbbum sem hittast reglulega. Annar segist vera bútasaumsklúbbur og kennir sig við Húsabakka. Hinn er venjulegur saumaklúbbur kvenna sem tóku mig að sér þegar ég flutti til Dalvíkur á sínum tíma. Svo er ég formlega í leshring um menntamál og í klúbbi kennslukvenna.

Hvaða bók er á náttborðinu?
Þær eru margar, eiginlega tveir staflar og sá þriðji í Ipadinum og símanum. Ég hef nýlega lokið við Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Svartalogn eftir Kristínu Marju Baldursdóttur er efst í bunkanum núna og Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup eftir Murakami. Í Ipadinum er ég að hlusta á The Nightingale eftir Kristin Hannah. Í símanum var ég að ljúka við að hlusta á og lesa á víxl bókina Hacking Education. 10 quick fixes for every school eftir Mark Barnes og Jennifer Gonzalez. Hún er hagnýt og það er hægt að koma mörgu af því sem þar er kynnt strax í verk og án mikillar fyrirhafnar.

Uppáhaldsfagið þitt í grunnskóla?
Móðurmál. Skemmtilegast fannst mér samt þegar kennarinn las fyrir okkur á meðan við æfðum formskrift.

Hundur eða köttur?
Kisa. Ein sérlunduð býr hjá okkur núna sem við köllum Ingveldi fagurkinn. Hún eltir mig í skólann á morgnana og krummarnir sem við ölum á matarafgöngum fylgja okkur.

Hvað gerirðu á laugardagsmorgnum?
Fer hægt og snemma á fætur, borða morgunmatinn rólega, blaða í gegnum Twitter, les eða gríp í handavinnu þar til ég fer út að hlaupa lengstu hlaupaæfingu vikunnar.

Hvaða tónlist er best að dansa við?
Diskó, auðvitað!

Ef þú mættir taka íslensku þjóðina í kennslustund hvað myndirðu kenna?
Ég myndi halda bekkjarfund um réttindi og skyldur okkar við hvert annað og hvað hvert okkar getur lagt af mörkum til að bæta umræðuhefðina.

Hvað er best í heimi?
Það toppar fátt að skíða niður brekku í geggjuðu færi og góðu veðri.

Facebook eða Twitter?
Twitter. Mæli með sunnudagsmorgni með menntaspjalli og góðu mjólkurkaffi.

Ingileif Ástvaldsdóttir var „félaginn“ í Skólavörðunni, 1. tbl. 2017