Íþróttabrautir hafa jákvæð áhrif

24.08.2017 | Viðtöl

Íþróttabrautir hafa jákvæð áhrif

Íþróttabrautir til stúdentsprófs eru í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og Framhaldsskólanum á Laugum, og nú er verið að endurvekja íþrótta- og heilbrigðisbraut í Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Þar að auki bjóða Borgarholtsskóli og Flensborgarskólinn í Hafnarfirði upp á svokallað afreksíþróttasvið, sem ætlað er afreksfólki í íþróttum sem vill stunda sína íþrótt samhliða bóknámi. Á hinum hefðbundu íþróttabrautum er hins vegar ekki krafist sérstaks bakgrunns eða getu í íþróttum, heldur eru þær ætlaðar öllum þeim sem hafa áhuga á íþróttakennslu eða vilja undirbúa sig fyrir nám í tengdum greinum á háskólastigi, líkt og sjúkraþjálfun eða íþróttasálfræði.

„Þetta nám býður upp á mun fjölbreyttari starfsvettvang heldur en fyrir 35 árum, þegar ég var að læra. Þá varðstu bara að verða íþróttakennari. Þú varst aldrei að dýpka skilning þinn á þjálfun. Þó ég sjálf hafi farið mikið út í þjálfun þá hef ég orðið að sjálfmennta mig í því. Núna er þetta öðruvísi. Maður getur til dæmis valið um það í Háskólanum í Reykjavík að fara annað hvort í þjálfun eða kennslu,” segir Petrún Björg Jónsdóttir, kennslustjóri á íþróttabraut FG, en hún hefur kennt við skólann í 12 ár.

Blaðamaður Skólavörðunnar ræddi við kennslustjóra og kennara á íþróttabrautum FG, FB og FÁ og fékk að kynnast starfinu sem þar er unnið. Um er að ræða þrjár öflugar konur sem eru hoknar af reynslu í kennslu og þjálfun, ásamt því að hafa gert það gott í hinum ýmsu íþróttagreinum á sínum yngri árum.

Allar eru þær sammála um að það þurfi fleiri skylduáfanga í íþróttum á framhaldsskólastigi, en telja íþróttabrautirnar, og fjölbreytt úrval íþróttaáfanga, þó hafa jákvæð áhrif á nemendur á öllum brautum.

Dýpka eigin getu og læra leikreglur
„Fyrst og fremst höfum við byggt námið upp þannig að við séum að undirbúa þessa krakka fyrir að fara í íþróttafræðinginn eða íþróttakennarann. Við höfum mælst til þess að þau bæti við sig náttúrufræði og eðlis- og efnafræði ef þau eru að hugsa um að fara í sjúkraþjálfarann eða aðrar sambærilegar greinar,“” segir Petrún um það hvernig náminu er háttað í FG. Námið á brautinni getur einnig verið góður grunnur fyrir uppeldistengdar greinar á háskólastigi.

Nemendur á brautinni taka bæði áfanga í íþróttafræði og íþróttagreinum, en síðarnefndu áfangarnir byggja á því að nemendur læri að kenna öðrum ákveðna íþrótt, ásamt því að dýpka eigin getu og læra leikreglur. „Þetta er það sem helst einkennir brautina hjá okkur. Svo fara þau í starfsþjálfun hjá íþróttafélögum eða í grunnskólanum við hliðina á. Þá bætist við heilbrigðis- og næringarfræði sem eru ekki skylduáfangar á öðrum brautum, þó mér finnist að þeir ættu að vera það. Þar fá þau grunnþekkingu í næringarfræði sem allir hafa gott af.“

Strax á fyrstu önninni fara nemendur í sérhæfða áfanga brautarinnar og taka þá í bland við hefðbundna bóknámsáfanga. „Við kennum ekkert mjög marga íþróttagreinaáfanga, en erum með mjög djúpa og góða kennslu í þeim greinum sem við kennum. Svo höfum við gert samning við leikskólann við hliðina á skólanum og krakkarnir þaðan koma einu sinni í viku og nemendurnir sinna þeim,“ segir Petrún.

Áhuginn er að aukast
Þó að um fjölbrautakerfi sé að ræða eru nemendur á íþróttabrautinni töluvert meira saman en gengur og gerist á hefðbundum stúdentsbrautum, að sögn Petrúnar. Fyrir vikið myndast gjarnan þéttur hópur og góður andi á íþróttabrautinni.

„Hún hefur vaxið mikið brautin. Það er alltaf að bætast við hana og áhuginn hefur aukist verulega undanfarið. Síðustu tvö ár höfum við til dæmis þurft að hafa tvo hópa í þjálffræðiáfanganum hjá okkur, sem segir okkur að það sækja fleiri um en áður.“

Petrún Björg Jónsdóttir


Á síðasta ári komu rúmlega 50 nemendur inn á brautina en að jafnaði eru um 70 til 80 nemendur skráðir á hana. Íþróttabrautin var tekin í gegn og endurskipulögð við breytingu á námskrá sem tók gildi árið 2015. Þá var íþróttagreinaáföngum til að mynda fjölgað og þeir dýpkaðir, að sögn Petrúnar.


Forréttindi að hreyfa sig frítt
„Við höfum kannski ákveðna sérstöðu í FG, sem tengist ekkert endilega íþróttabrautinni, en við erum eini framhaldsskólinn sem náði að halda inni átta einingum í íþróttum á öllum brautum.“ Nemendur á íþróttabrautinni taka þó einungis fjórar einingar í íþróttum, enda eru þau heilt yfir að sprikla mun meira en aðrir nemendur.

„Nemendur á öðrum brautum geta reyndar klárað íþróttir á fjórum önnum en við reynum að hafa þetta þannig að það séu forréttindi að fá að koma í hreyfingu þrisvar í viku. Það eru nefnilega forréttindi að fá að hreyfa sig frítt undir leiðsögn. Flestir klára þetta meira eða minna með gleði og nemendurnir fá algjörlega að velja hvað þeir vilja gera. Ég kenni til dæmis jóga þrisvar í viku, þar sem nemendur geta dýpkað skilning sinn. Þannig verður þetta ástundun, ekki afplánun,“ segir Petrún sposk á svip.

„Það að hafa íþróttabrautina hefur jákvæð áhrif á hreyfingu nemenda innan skólans. Við leggjum ekki áherslu á að berja áfram íþróttamanninn, frekar hina sem þurfa að fá hreyfinguna,“ bætir hún við.

Alltaf að fá sterkari nemendur

Líkt og áður sagði er íþróttabrautin í FG er fyrir alla þá sem hafa áhuga á undirbúa sig fyrir nám í íþróttakennslu, íþróttafræði og öðrum tengdum greinum á háskólastigi, en ekki er gerð krafa um líkamlega getu nemenda. „Þetta snýst um að þjálfa nemendur í að geta kennt. Auðvitað þarf að hafa einhvern grunn, en nemendur þurfa ekki að vera afreksíþróttafólk. Við erum alltaf með einhverja afreksíþróttamenn í skólanum hjá okkur, en mér finnst þeir ekki leita í þetta nám,” segir Petrún og heldur áfram:

„Við erum alltaf að fá sterkari nemendur. Það var svolítið þannig hérna áður fyrr að krakkarnir sem vissu ekkert hvað þeir vildu læra leituðu á íþróttabrautirnar. Það er ekki þannig í dag. Auðvitað slæðist einn og einn þannig með, en meirihlutinn hefur virkilegan áhuga og ætlar að gera þetta vel. Maður sér það mjög vel á einkunnunum sem eru orðnar hærri en áður.“

Flestir á jafningjagrundvelli í blaki

Svava Ýr Baldvinsdóttir hefur kennt íþróttir við Fjölbrautaskólann í Breiðholti í tvo áratugi eða svo. Hún hefur ekki fundið fyrir auknum áhuga á íþróttabrautinni síðustu ár, líkt og kollegi hennar Petrún, í Garðabænum. Henni finnst áhuginn frekar koma í bylgjum. „Það eru toppar og dalir í þessu, eins og flestu öðru, en brautin er alltaf vinsæl.”

Á íþróttabrautinni er lögð áhersla á að nemendur öðlist skilning og þekkingu á almennri hreyfingu, ýmsum íþróttagreinum og líkamsvitund.


Svava Ýr Baldvinsdóttir


„Við bjóðum upp á íþróttafræðiáfanga. Þar er grunnurinn þjálfun barna, sem allir fara í. Samhliða því taka nemendur blak sem íþróttagrein, en við völdum blakið því þar eru flestir á jafningjagrundvelli. Það eru fleiri sem hafa æft fót-, hand- eða körfubolta og því eru fleiri sem koma inn án grunns í blaki. Stundum koma reyndar inn afreksíþróttamenn í blaki, eins og á þessari önn þegar við vorum með tvær landsliðsstelpur, en það bara hjálpar okkur.“

Nota styrktarþjálfun fyrir fatlaða nemendur
Yfirleitt eru þrjár til fjórar íþróttagreinar í boði á hverri önn, alltaf ein boltagrein og ein spaðagrein. Þá hefur verið boðið upp á óhefðbundnari íþróttagreinar, líkt og karate og júdó. Jóga er einnig í boði fyrir nemendur á öllum brautum. Nemendur á íþróttabrautinni taka svo fjölda annarra íþróttatengdra áfanga, þar á meðal íþróttasögu.

„Nemendur á íþróttabrautinni þurfa líka að skila starfsnámi og við höfum boðið upp á að þeir fari og aðstoði aðra nemendur á starfsbrautinni hjá okkur,” segir Svava en á starfsbrautinni eru nemendur sem þurfa sérstaka aðstoð við námið, til dæmis vegna þroskaskerðingar eða fötlunar. „Það er rosalega góður skóli. Við notum styrktarþjálfun til dæmis mjög mikið fyrir fatlaða nemendur.“

Að sögn Svövu geta nemendur á öðrum brautum tekið áfanga á íþróttabrautinni sem valáfanga, en í flestum tilfellum þarf einhvern undanfara. Ákveðinn kjarni myndast hins vegar gjarnan á íþróttabrautinni vegna þess hve nemendur eyða miklum tíma saman í skylduáföngum brautarinnar.

Svava segir þau í FB sérstaklega stolt af góðri aðstöðu, bæði við skólann sjálfan og á svæðinu í kring. „Við erum með glænýja World Class stöð hérna við hliðina á, eina þá flottustu á landinu. Svo auðvitað íþróttahúsið, sundlaugina og gervigrasið á Leiknisvelli. Útivistarperlan í Elliðaárdal er svo hérna rétt fyrir neðan.“

Vill fleiri skylduáfanga í íþróttum
Líkt og Petrún kom inn á telur Svava að fjölbreytt val íþróttaáfanga við skólann ýti undir aukna hreyfingu nemenda. Hún vill engu að síður sjá fleiri skylduáfanga í íþróttum á framhaldsskólastigi, enda skili hreyfingin sér í bættum námsárangri.

„Í ljósi allrar þessarar umræðu í þjóðfélaginu um hvað hreyfing sé mikils virði, bæði andlega og líkamlega, til að sporna við kvíða og ofþyngd og stuðla að almennu heilbrigði, þá er það ósk okkar að hver einasti framhaldsskólanemi sæki hreyfingu tvisvar í viku, allar annirnar. Þann fjölda eininga sem nú er skylda að taka, er hægt að klára á einu og hálfu ári,“ segir Svava ákveðin. Það fer ekki á milli mála að þetta er henni hjartans mál.

„Úrvalið hjá okkur í FB er það mikið að það eiga allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Við tökum nýnema inn í fast prógramm þar sem við kynnum íþróttirnar fyrir þeim og reynum að gera þá sjálfbæra í hreyfingu. Svo tökum við bóklega þáttinn og kennum þeim gildi réttrar næringar og að hreyfa sig. Allir nemendur eiga að fara í þetta. Þegar þessum grunni er lokið geta þeir valið sér nákvæmlega það sem þeir vilja.“

Íþróttabraut endurvakin í FÁ
Í haust munu fyrstu nemendurnir hefja nám á nýrri íþrótta- og heilbrigðsbraut til stúdentsprófs í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Undirbúningur við brautina hefur staðið yfir í töluverðan tíma og mikil eftirvænting ríkir hjá Guðríði Guðjónsdóttur íþróttakennara, sem síðustu mánuði hefur verið á haus við skipulagningu námsins, ásamt góðu teymi. Gurrý, eins og hún er alltaf kölluð, hefur kennt við skólann frá árinu 1985.

Að sögn Gurrýjar var Fjölbrautaskólinn í Ármúla lengi leiðandi á sviði íþróttakennslu í framhaldsskólum hér á landi, eða allt þar til íþróttabrautin var lögð niður árið 1998 vegna breytinga á aðalnámskrá. Í kjölfarið var aðeins hægt að bjóða upp á þrjár námsbrautir til stúdentsprófs. Þegar lögum um framhaldsskóla var svo breytt árið 2008 opnaðist aftur sá möguleiki að bjóða upp á meiri fjölbreytni í námsleiðum til stúdentsprófs.
Nýja brautin hentar öllum þeim sem hafa áhuga á íþróttum og heilbrigði og vilja undirbúa sig fyrir áframhaldandi nám í tengdum greinum á háskólastigi.

Guðríður Guðjónsdóttir


Sérhæfðari en aðrar brautir

„Með þessu erum við að nýta betur skólann og það sem er til staðar. Okkar sérhæfingu, þessa góðu kennara og aðstöðuna. Af því að við erum með heilbrigðisskólann hérna þá erum við með kennara sem eru sérmenntaðir í ýmsum heilbrigðisgreinum, til dæmis náttúrufræði og sálfræði. Á gömlu brautinni vorum við íþróttakennararnir að kenna þetta allt saman án þess að vera sérmenntuð í greinunum. Nú tekur sérmenntað starfsfólk þessar greinar, en við tökum þjálffræðina og íþróttagreinarnar og það sem við kemur þeim,,“ segir Gurrý, sem er ekki bara menntaður íþróttakennari með áratuga starfsreynslu, heldur líka gömul landsliðskempa, en hún spilaði með landsliði í bæði hand- og fótbolta á sínum yngri árum.

Gurrý segir brautina sérhæfðari en aðrar íþróttabrautir að því leyti að hún tengist heilbrigðisgeiranum betur og geti þar af leiðandi veitt betri undirbúning fyrir fjölmargt nám á heilbrigðissviði, hvort sem um er að ræða sjúkraþjálfun, sjúkranudd eða jafnvel hjúkrunarfræði – og hugsanlega læknisfræði, með því að bæta við sig raungreinum. Svo sé hún auðvitað góður grunnur fyrir íþróttakennarann, kennaranámið og einkaþjálfun. Vonast er til að þessi sérstaða muni laða fjölbreyttari hóp en áður inn í námið.

Bindur vonir við sama eldmóð og áður

„Ég upplifði það þegar ég kenndi á íþróttabrautinni hérna áður, þegar ég sat fyrir framan hóp nemenda sem voru að læra hjá mér þjálffræði, knattspyrnu eða sundfræði, að það drukku allir í sig það sem ég var að segja. Það var í raun alveg sama hvað ég var að kenna. Þetta var þeirra val og áhuginn leyndi sér ekki. Það var svo rosalega gaman að kenna þessum krökkum,“ segir Gurrý og brosir þegar hún rifjar upp eldmóðinn og áhugann í nemendum sínum. Hún bindur vonir við að þannig verði þetta líka á nýju brautinni.

Viðtökur við nýju brautinni hafa verið góðar, bæði utan skólans og innan, en starfsfólkið er mjög ánægt með að verið sé að endurvekja íþróttabrautina. Teymið sem hefur unnið að því að skipuleggja námið á brautinni telur að hún muni styrkja innviði skólans, enda séu samlegðaráhrifin mikil með bæði náttúrufræðibrautinni og heilbrigðisskólanum.

Verða meðvitaðri um eigin heilsu
Uppbygging náms á brautinni er þannig að fyrstu annirnar eru að miklu leyti samsettar af hefðbundnum bóknámsgreinum, en nemendur taka þó einhverja áfanga þar sem sérstaða brautarinnar kemur fram. „Við höfum sett okkur þau markmið að nemendur fari í áfanga sem tengjast heilbrigði og íþróttum strax á fyrstu önninni. Það er til dæmis verklegur áfangi sem heitir eigin þjálfun þar sem þau læra að þjálfa sig sjálf, efla þol, styrk, snerpu og liðleika.”

Á síðari stigum námsins verður valið meira, að sögn Gurrýjar. „Ef nemendur vilja til dæmis kynnast því að vera með hreyfikennslu í leikskóla, að vinna með fötluðum eða hvernig er að vera aðstoðarþjálfari í einhverju félagi, þá erum við með góðar tengingar og höfum möguleika á að senda krakkana í starfsnám,“ segir Gurrý.

Hún telur að nýja brautin muni hafa jákvæð áhrif á aðra nemendur skólans sem hafa kost á því að taka sérhæfðu áfangana sem hluta af vali eða íþróttaáföngum. Endurvakning brautarinnar er að vissu leyti viðleitni af hálfu FÁ til að gera nemendur sína meðvitaðri um eigin heilsu og tryggja sér betra líf til framtíðar, og á sama tíma mótvægisaðgerð við samdrátt í íþróttakennslu á framhaldsskólastigi.

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

skrifar:
Viðfangsefni: Framhaldsskólinn, Íþróttabraut