Ferðast með hristidollu og verja deginum í sveitinni

04.12.2017 | Viðtöl

Ferðast með hristidollu og verja deginum í sveitinni

Þeir fjölmörgu Íslendingar sem flutt hafa til Danmerkur á liðnum árum og öldum hafa iðulega rekið sig á að sinn er siður í landi hverju. Þótt þjóðirnar séu skyldar og margt líkt með þeim er þó ýmislegt með öðrum hætti hjá Dönum en heima á Fróni. Það á til dæmis við um marga leikskóla.

Leikskólar í sveitarfélaginu Kaupmannahöfn eru tæplega fjögurhundruð. Margir þeirra eru jafnframt það sem Danir nefna vuggestue en þar getur barn dvalist upp að þriggja ára aldri en þaðan liggur leiðin í leikskólann. Folkeskolen, hefðbundin skólaganga, tekur svo við árið sem barnið verður sex ára.

Starfsemi leikskólanna í Kaupmannahöfn er ekki öll með sama sniði. Margir þeirra eru það sem kalla mætti hefðbundna, þar sem börnin mæta á morgnana og fara heim síðdegis. En þar eru líka annars konar leikskólar.
Um það bil 60 leikskólar í borginni eru það sem kallað er á dönsku udflytterbørnehave. Þá mæta börnin á ákveðinn brottfararstað að morgni og fara síðan með rútu á tiltekinn stað fyrir utan borgina og dvelja þar yfir daginn. Svo er haldið heim með sömu rútunni síðdegis.

Sums staðar gildir þetta fyrirkomulag alla virka daga en einnig eru dæmi um að starfseminni sé þannig háttað að einungis hluti hópsins fari í rútu hverju sinni og aðrir nemendur séu „heima“. Þannig fer hvert barn kannski burt úr borginni eina viku í mánuði en er svo „heima“ hinar þrjár vikurnar. Í enn öðrum leikskólum er dvölinni utanbæjar og heima skipt jafnt. Svo má nefna tilbrigði sem felur í sér að leikskóli hafi afnot af rútu tiltekna daga í hverjum mánuði.
Rumlepotten, sem kannski mætti kalla hristidolluna, er sérútbúin rúta með eldhúsi, snyrtingu, stól með áföstu borði (sem hægt er að breyta í rúm) og aðstöðu til að þurrka föt o.fl. Fjórtán leikskólar í Kaupmannahöfn nota hristidollu og þá fara börnin kannski nokkra daga í senn burt úr leikskólanum; rútan fer í dag á ströndina, á morgun út í skóg, daginn eftir á þriðja staðinn og fjórða daginn enn annað.

Tíðindamaður Skólavörðunnar í Kaupmannahöfn hitti foreldra tveggja leikskólasnáða. Fyrst foreldra Úlfs Birkis Bjarnasonar sem er fimm ára og er í udflyttebörnehave þar sem farið er úr borginni alla virka daga. Foreldrar hans, þau Hafrún Elma Símonardóttir og Bjarni Davíð Guðmundsson, fluttu ásamt Úlfi og eldri bróður hans, til Kaupmannahafnar í desember 2015 og búa skammt frá Österport lestarstöðinni. Úlfur fékk strax í ársbyrjun 2016 pláss í leikskóla. Hafrún og Bjarni sögðust ekki beint hafa verið að leita að svona leikskóla og þau hefðu svo sem ekki vitað mikið annað en að börnin færu úr bænum alla daga. En þetta var það sem þeim var boðið.

Maturinn í leikskólanum var sérkapítuli í byrjun
Hefðuð þið valið svona leikskóla ef annað hefði boðist?
Nei, það hefðum við ekki gert, einfaldlega af því að við þekktum þetta ekki. Í dag myndum við ekki hika við að velja svona leikskóla og mælum með því við hvern sem er. Eini gallinn er að ef barnið veikist og verður að fara heim á miðjum degi þá tekur langan tíma að sækja það. Við vorum aðeins efins í upphafi en eftir að hafa farið í heimsókn ákváðum við að slá til, vitandi að ef þetta gengi ekki væri hægt að skipta um skóla. Við vorum aðeins hikandi þegar okkur varð ljóst að börnin væru úti nánast allan daginn en því var okkar maður ekki vanur. Maturinn var líka sérkapítuli í byrjun, mjög mikið lífrænt ræktað og frábrugðið því sem Úlfur var vanur. Makríll, kjúklingahjörtu, linsubaunasúpa og náttúrlega rúgbrauð, sem Úlfur var ekki vanur að borða, að minnsta kosti einu sinni í viku og fleira sem hann þekkti ekki. Þarna er kokkur en á flestum leikskólum koma börnin með nesti til dagsins.

Hann hefur væntanlega ekki kunnað neitt í dönsku?
Nei, en það kom fljótt. Hann byrjaði í janúar og það var fremur kalt. Hann þurfti að venjast því og eitt það fyrsta sem hann lærði í dönsku var „mér er kalt“ en í dag er hann fyrstur út og síðastur inn.

Hálf níu til fjögur alla daga
Leikskóli Úlfs er tengdur, ef svo má segja, vuggestue skammt frá heimili hans. Foreldrar geta komið með barnið áður en rútan kemur og það bíður þá þangað til klukkan er orðin. Rútan fer á slaginu hálf níu og ef barn er ekki komið hafa foreldrarnir um tvennt að velja, að hafa barnið heima eða keyra sjálf með það í sveitina. Rútan sem börnin fara með er alltaf sú sama og sömuleiðis bílstjórinn og leikskólakennararnir sex sem fara með börnunum og eru með þeim yfir daginn. Á leiðinni í sveitina er lesin saga en þegar þangað er komið fara allir út að leika sér. Svæðið er stórt og kirfilega afgirt, og leikskólasvæðið er fast við bóndabæ þar sem eru hross, fé og svín.

Er dagurinn skipulagður?
Nei, mjög lítið. Þarna er margt hægt að gera en börnin verða sjálf að hafa ofan af fyrir sér. „Stóra“ fólkið stýrir mjög lítið. Hópurinn skiptist eiginlega í þrjár deildir, 25 börn í hverri, og hver deild fær einu sinni í viku svokallaðan báldag.

Báldag?
Já. Á svæðinu er lítið hús þar sem er kveikt bál og börnin skera niður grænmeti og sjá svo um eldamennskuna. Stundum er líka poppað og þá er hinum deildunum boðið með. Þetta er mjög skemmtilegt og það finnst alltaf á lyktinni af fötunum þegar verið hefur báldagur.

Vel á minnst – hafa þau föt til skiptanna með sér?
Þau hafa skáp þar sem þau geyma föt til skiptanna ef á þarf að halda og líka regnföt og þess háttar.

Mjög mikið eftirlit
Tíðindamaður Skólavörðunnar var viðstaddur einn daginn þegar rútan kom til baka með Úlf og öll hin börnin. Þegar hleypt er út úr rútunni, rétt fyrir fjögur, stendur einn kennarinn með ,,kladda“ og kallar upp nafn barns sem stendur í dyrum rútunnar og þá gefur sig fram einhver sem starfsfólkið þekkir (foreldri, eða afi og amma) og tekur við barninu. Ef enginn er til að taka við barninu fer það með einum kennaranna inn í húsið þar sem vuggestuen er og bíður þar eftir þeim sem sækir, en börnin mega vera þar til klukkan fimm. Þegar lagt er af stað er merkt við börnin á sama hátt, og greinilegt að þarna er mjög nákvæmt eftirlit.

Á síðasta ári leikskólagöngunnar eru börnin í svokallaðri skolegruppe sem er undirbúningur fyrir að byrja í grunnskólanum. Þau fara þá í heimsóknir í skóla, kynnast bókstöfunum og tölustöfunum og stíga fyrsta skrefið frá leikskólanum.

Kristján og Kastaniehuset
Eftir að hafa rætt við þau Hafrúnu og Bjarna hitti tíðindamaður Skólavörðunnar Kristínu Kristjánsdóttur. Hún býr ásamt manni sínum, Gísla Galdri Þorgeirssyni, og syni þeirra, Kristjáni Galdri, á Norðurbrú.

Kristján Galdur er fjögurra ára og byrjaði í vor í leikskólanum Kastaniehuset. Í þessum leikskóla er fyrirkomulagið þannig að börnin fara þriðju hverju viku út í sveit en eru svo hinar tvær ,,heima“. Kristín sagði að þau hefðu valið þennan leikskóla vegna þessa fyrir­komulags. Þegar farið er í sveitina er lagt af stað frá leikskólanum klukkan níu og komið til baka um klukkan hálf fjögur, en aksturinn tekur hálftíma hvora leið. Í Kastaniehuset eru fjórar deildir og fer Kristján alltaf með sama hóp jafnaldra sinna í sveitina, en þeir eru ekki allir á sömu deildinni heima í skólanum.
Kristín sagði þau hafa heyrt góða hluti um þetta fyrirkomulag en að þau hefðu ekki viljað fara alla leið, þannig að Kristján færi alltaf úr bænum.

Hvernig tók hann þessu?
Hann tók þessu mjög vel og hann hlakkar alltaf til að fara í sveitina. Það er fyrst þegar börnin eru orðin fjögurra ára sem þau fá að fara í sveitina og það er viss áfangi. Þessi ,,stóru“ fá kort, með mynd, svona eins og starfsmannakort á vinnustöðum. Börnin verða að muna eftir að hafa kortið meðferðis. Kortið fá þau sent í pósti ásamt sérstöku skjali sem staðfestingu þess að nú séu þau tilbúin fyrir þennan áfanga.

Er dagurinn í sveitinni mjög skipulagður?
Nei, en hins vegar er lögð áhersla á ákveðna hluti eftir árstíma. Það getur t.d. verið froska- eða mauraþema svo ég nefni eitthvað, en annars hafa börnin mjög mikið frelsi. Þarna í sveitinni er alltaf sama starfsfólkið og sami bílstjórinn sem ekur rútunni.

Er kokkur á staðnum?
Nei, þau fara með nesti sem er útbúið í leikskólanum. Þau fara með aukaföt í byrjun vikunnar en svo eru pollagallar, allir eins, í sveitinni.

Er Kristján Galdur þreyttari þegar hann kemur úr sveitinni en þegar hann er ,,heima“ í leikskólanum?
Já, miklu þreyttari. Greinilega miklu meiri ,,vinna“ en að vera í borginni. Á síðasta ári leikskólans fara börnin ekki í sveitina, þá eru þau í skolegruppe. Það er sama fyrirkomulagið og tíðkast í öllum leikskólum.

Myndirðu mæla með svona leikskóla eins og Kastaniehuset?
Já. Tvímælalaust.

Við þetta er engu að bæta öðru en því að tíðindamaður Skólavörðunnar heyrði ,,hljóðið“ í nokkrum dönskum foreldrum sem eiga börn á leikskólum sem starfræktir eru með sama eða svipuðu sniði og því sem hér hefur verið lýst. Þeir lýstu allir mikilli ánægju með fyrirkomulagið.


Borgþór Arngrímsson

Blaðamaður Skólavörðunnar í Kaupmannahöfn
Viðfangsefni: Leikskólinn, Kaupmannahöfn