Börnum er eðlislægt að fikta, skoða og snerta

27.05.2019 | Viðtöl

Börnum er eðlislægt að fikta, skoða og snerta

Fjóla Þorvaldsdóttir, sérkennari í leikskólanum Álfaheiði, segir mikilvægt að börn fái tækifæri til að tileinka sér tæknina í gegnum leik. Spjaldtölvur skili fjölbreyttu og skapandi skólastarfi.

Snjalltæki eru góð viðbót við annað námsefni sem leikskólinn hefur upp á að bjóða. Mikilvægt er að ung börn séu ekki

einungis neytendur stafræns efnis í tækjunum og noti þau sér til afþreyingar heldur læri þau að nýta þennan búnað sem verkfæri og námstæki,“ segir Fjóla Þorvaldsdóttir, sérkennari í leikskólanum Álfaheiði í Kópavogi.

Fjóla hefur áralanga reynslu af innleiðingu á upplýsingatækni í leikskólastarfi, hefur tekið þátt í fjölda þróunarverkefna í þessum málaflokki og í fyrra lauk hún M.Ed prófi með áherslu á tölvu- og upplýsingatækni.

Fjóla segir að þar sem spjaldtölvur hafi verið notaðar í leikskólum hafi þær skilað fjölbreyttu og skapandi skólastarfi. Börnin læri að afla sér þekkingar, vinna úr alls konar efni, búa til stafrænt efni og deila því með öðrum.

„Það er afar mikilvægt að börnin fái tækifæri til að læra á upplýsingatæknina í gegnum leik. Leikurinn er námsleið barna í þessu sem öðru sem þau læra í leikskólanum. Börnum er eðlislægt að fikta, skoða og snerta og þau eiga þess vegna auðvelt með að læra á smáforritin,“ segir Fjóla.

Hún segir stórkostlegt að fylgjast með börnum uppgötva möguleika spjaldtölvunnar þegar kemur að tjáningu. Margmiðlunarbúnaður gerir það að verkum að börnin koma sköpun sinni á framfæri enda mörg smáforrit í spjaldtölvum sem auðvelda sögu- og myndgerð. „Þetta er spennandi tækni og segja má að spjaldtölvur henti börnum vel enda eru þær meðfærilegar og hannaðar til að virka hvar og hvenær sem er. Spjaldtölvur eru ekki einungis með innbyggðri myndavél, búnaði til hljóð- og kvikmyndatöku og búnaði til gagnavinnslu heldur eru þær einstaklega notendavænar fyrir unga notendur.“

Auka úthald og bæta árangur
Fjóla segir börnin dugleg að finna sér efnivið og fái þau hæfilega hvatningu og leiðsögn þá séu þau fljót að finna sér myndefni. „Það er líka skemmtilegt hvernig börn taka myndir frá öðrum sjónarhornum en fullorðnir og engar ýkjur að segja að þau taki oft frumlegri og betri ljósmyndir en hinir fullorðnu. Þau er óhrædd við að gera ýmsar tilraunir með myndavélina og oftar en ekki kemur útkoman skemmtilega á óvart,“ segir Fjóla.

Fjóla hefur lengi sinnt sérkennslu og segir hún tilkomu spjaldtölva hafa haft í för með sér byltingu. „Sérkennarar eru sammála um að spjaldtölvurnar hafi í för með sér fjölbreytta möguleika í vinnu með börnum og einstaklings­miðuðu námi. Spjaldtölvurnar virka afar hvetjandi á börn sem áður var erfitt að fá til samvinnu; þær auka úthald og bæta árangur einstakra nemenda – og þeir fá tækifæri til að vinna á hraða sem hentar þeim.“

Fjóla segir að rannsóknir sýni að spjaldtölvur séu ávallt nýttar á skapandi hátt innan leikskólans. „Snjalltæki eru ekki notuð til afþreyingar í leikskólum hér á landi,“ segir Fjóla.


Þörf á fleiri smáforritum á íslensku

Þegar blaðamaður Skólavörðunnar fékk að fylgjast með kennslustund hjá Fjólu var verið að nota smáforritið Orðagull sem er ætlað til málörvunar. Staðreynd er að flest smáforrit eru á ensku. Er það áhyggjuefni?

„Það er afar sorglegt hve stjórnvöld veita litlu fjármagni til að þýða eða framleiða smáforrit á íslensku fyrir allra yngstu börnin hérlendis. Nýlega sagði Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, frá því í viðtali á RÚV að 58% barna væru byrjuð að nota tölvur og snjalltæki tveggja ára og yngri og að átta prósent þeirra byrjuðu að nota snjalltæki og tölvur fyrir eins árs aldur.

Það segir sig sjálft að börnin eru mun meira en áður í ensku málumhverfi. Þetta verður að laga því við finnum það í leikskólanum að börnin hafa mun meiri færni í fínhreyfingum og aukna vitsmunalega færni, en íslenskur málþroski þeirra er ekki sá sami og áður. Þau þekkja t.d. litina, bókstafina og tölustafina á ensku. Þau vita alveg ótrúlegustu hluti sem þau hafa séð og lært á YouTube, vitneskja sem kannski kemur þeim ekki alveg að sama gagni og góð færni í íslensku,“ segir Fjóla og bætir við að hún dáist að þeim talmeinafræðingum sem leggi það á sig að búa til smáforrit á eigin kostnað – smáforrit sem hafi svo sannarlega komið að góðum notum í leikskólanum.

„Ég hef upplifað það margoft í kennslu hversu mikið gagn þessi smáforrit gera. Þau eru mörg börnin sem hafa lært að bera fram rétt málhljóð með Lærum og leikum með hljóðin svo dæmi sé tekið.“

Mikilvægt að efla starfsþróun
Tækniþróun er ör og sífellt koma fram nýjungar sem kennarar þurfa að tileinka sér. Fjóla er spurð hvaða augum hún líti þennan þátt starfsins. „Það er afar mikilvægt að menntayfirvöld og sveitarfélög viðurkenni þörf leikskólakennara til starfsþróunar. Það er staðreynd að innleiðing á spjaldtölvum og öðrum tæknibúnaði til kennslu verður engin ef leikskólafólk, og þá er ég að tala um allt starfsfólk, fær ekki tækifæri til þess að læra á tæknina og hvernig hægt sé að nýta hana í kennslu ungra barna. Leikskólarnir geta gefið ungum börnum tækifæri til að fást við hvetjandi og örvandi viðfangsefni.“

Fjóla segir engan vafa leika á því að tæknin geti ýtt undir sköpunarkraft barna, forvitni, tjáningu og fróðleiksfýsn. „Við getum með uppbyggilegri og markvissri tækninotkun búið börnin okkar undir nám og þátttöku í tæknivæddu samfélagi.“

Spjaldtölvur og upplýsingatækni hafa að mati Fjólu ekki verið nægjanlega vel nýtt í leikskólum hérlendis. Eins og áður var vikið að þá er ástæðan einkum sú að þekkingu og reynslu skortir meðal starfsfólks leikskólanna. Fjóla segir starfsfólk leikskólanna kalla eftir auknum stuðningi og ráðgjöf í þessum efnum.

„Mig dreymir um að menntayfirvöld hér á landi fari svipaða leið og var farin í Noregi, en þar í landi á að setja 200 milljónir norskra króna í starfsþróun leikskólastarfsfólks með það að markmiði að koma norskum leikskólum inn í framtíðina. Norðmenn stefna að því að allir sem vinna í leikskólum hafi hæfileika og getu til að kenna börnum að takast á við tækni framtíðarinnar. Ég myndi vilja sjá sömu þróun hér á landi,“ segir Fjóla Þorvaldsdóttir, sérkennari og sérfræðingur í upplýsingatækni.


============================
Fjóla heldur úti vefnum Fikt, sem er námsvefur um upplýsingatækni ­fyrir kennara í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla. Slóðin er fikt.kopavogur.is.

Viðtalið við Fjólu birtist fyrst í Skólavörðunni, 1. tbl. 2019. Lesið blaðið hér.

Viðfangsefni: Leikskólinn, Smáforrit, Snjalltæki