Auka vit tíundubekkinga á fjármálum

19.11.2018 | Viðtöl

Auka vit tíundubekkinga á fjármálum

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá skipta peningar máli. Það er víst betra að eiga pening en að skulda, betra að græða en að tapa og betra að hafa vit á peningum og fjármálum en að vita ekki neitt – eins og á svo sem við um flesta hluti. Vandinn er að í aðalnámskrá og í skólakerfinu almennt er ekki nægilega mikið framboð af fjármálakennslu. Það stafar ekki af áhugaleysi kennara eða almennu þekkingarleysi heldur er þeim einfaldlega ætlað að kenna annað.

Því eru dæmi um ungmenni sem hefja þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa grundvallarþekkingu á fjármálum. Hvernig les maður út úr launaseðli? Hvað er lífeyrissjóður? Hvað er yfirvinna? Eða dagvinna? Má borga manni jafnaðarkaup? Hvað eru vextir? Er ekki í fínu lagi að kaupa nýjan I-phone á VISA-rað? Eru þessi smálán ekki bara þægileg og einföld?

Leiðir fjármálavit
Árið 2007 funda Samtök fjár­mála­fyrirtækja fyrst með þáverandi menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, vöktu athygli á litlu vægi fjármálafræðslu í aðalnámsskrá grunn- og framhaldsskóla og buðu fram aðstoð sína. Sumarið 2008 hafði ráðherrann samband við samtökin og óskaði eftir aðstoð SFF við að útbúa námsefni í fjármálalæsi. Hrunið setti strik í reikninginn og ekkert gerðist í verkefninu um tíma. Árið 2011 tekur SFF málið aftur upp með nýjum menntamálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur sem leiddi til þess að ráðherrann tilnefndi stýrihóp þar sem m.a. fulltrúar fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða, sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Heimilis og skóla, Námsgagnastofnunar og Neytendasamtakanna áttu sæti. Hópurinn skilaði árið 2014 skýrslu til menntamálaráðherra sem innihélt tillögur um aðgerðir. Þar kom fram að kennarar teldu vanta tíma inn í þegar pakkaða stundaskrá til að koma fyrir kennslu í fjármálalæsi og að auka þyrfti stuðning við kennara og útbúa námsefni. Einnig benti hópurinn á að bæta þyrfti kennslu um fjármál inn í aðalnámskrá. Á allt þetta hlustuðu forsvarsmenn Samtaka fjármálafyrirtækja en í staðinn fyrir að bíða eftir stjórnvöldum var ákveðið að ýta úr vör verkefni sem í dag heitir Fjármálavit. Fyrst á dagskrá var að ráða starfsmann til að leiða verkefnið og fyrir valinu varð Kristín Lúðvíksdóttir. Hún hóf störf hjá SF árið 2014 og leiðir Fjármálavit enn þann dag í dag.

„Fyrsti veturinn fór í að gera námsefni og við fengum nokkra kennaranema frá Háskóla Íslands til að helga lokaverkefni sín fjármálalæsi. Það tókst svo vel að við erum ennþá að nota þessi verkefni öllum þessum árum síðar,“ segir Kristín þegar spurt er um hvernig verkefninu var ýtt úr vör. „Við leggjum ennþá áherslu á námsefnið og náðum þeim ánægjulega áfanga í fyrra að gefa út kennslubók sem heitir „Fyrstu skref í fjármálum“ eftir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins. Í dag sendum við bókina í alla þá grunnskóla sem hafa áhuga, þeim að kostnaðarlausu. Bókinni fylgir síðan stuðningsefni sem hægt er að nálgast á vefnum okkar, www.fjarmalavit.is, m.a. spurningar sem hægt er að leggja fyrir nemendur og auðvitað svör við þeim. Einnig er á vefnum hægt að finna verkefni, myndbönd og alls konar áhugavert efni sem ég hvet áhugasama kennara til að skoða,“ bætir Kristín við.

Áhersla á gott námsefni
Forsvarsmenn Fjármálavits hafa frá upphafi gert sér grein fyrir að besta leiðin til að auka við fjármálakennslu í skólakerfinu sé að styðja áhugasama kennara. „Það er ástæðan fyrir því að við höfum lagt svona mikla áherslu á að búa til aðgengilegt námsefni, sem fjölmargir kennarar um land allt eru þegar farnir að nýta sér. En við vildum gera meira og niðurstaðan var að bjóða skólum og þar með kennurum upp á að fá starfsmenn fjármálafyrirtækja í heimsókn.“

Það verður að segjast að við fyrstu sýn hljómar sú aðferðafræði frekar langsótt enda eru skólar landsins ekki beint opnir fyrir fyrirtækjum eða öðrum sem hafa áhuga á að kynna sig eða sína þjónustu. Forstöðumenn Fjármálavits áttuðu sig á þessu og mikil áhersla var því lögð á að tryggja hlutleysi verkefnisins, sem og útfærslu þess. „Þessar heimsóknir eru þannig að við sendum tvo fulltrúa á okkar vegum í hverja þeirra. Við leggjum mikla áherslu á gott samstarf við kennara og erum alltaf búin að setja okkur í samband við þá fyrirfram. Þeir undirbúa komu okkar með því að taka til ákveðin verkfæri en við komum með annað kennsluefni með okkur. Okkar fulltrúar fá tvær kennslustundir í tíunda bekk til að leggja fyrir nemendur stöðluð verkefni og ræða almennt við þá um fjármál og fjármálalæsi.

Við erum með fjögur verkefni sem við getum lagt fyrir og velur kennarinn hvert þeirra verður fyrir valinu. Eitt fjallar um að setja sér markmið í fjármálum, í öðru spyrjum við nemendur hvað þeir haldi að þeir kosti, í því þriðja er farið yfir hefðbundinn launaseðil og í því fjórða er fjallað um traust fjármál. Mikil áhersla er lögð á hlutleysi og til að mynda tilgreinum við ekki hjá hvaða fyrirtæki við störfum og erum augljóslega ekkert að selja eða kynna þá þjónustu sem fyrirtækin sem við vinnum hjá bjóða. Það er líka rétt að taka það fram að okkar reynsla er að það skipti höfuðmáli að kennararnir séu með okkur í kennslustundunum. Þeir þekkja nemendurna best og sjá til dæmis um að skipta þeim t.d. í hópa, enda er um að ræða hópavinnu, og aðstoða okkur.

Við erum ekki kennarar og reynslan sýnir að ef þeir eru ekki í kennslustofunni með okkur… ja, eigum við ekki bara að segja það eins og það er… þá er oft fjandinn laus.“

Markmiðið að verða óþörf
Kristín segir verkefnið njóta góðs af því að hafa aðgang að stórum og öflugum hópi starfsmanna í bönkum, lífeyrissjóðum, tryggingafélögum, verðbréfafyrirtækjum og kortafyrirtækjum. „Það þýðir í fyrsta lagi að við getum boðið upp á skólaheimsóknir um allt land. Í öðru lagi þá finnst okkur þetta svo skemmtilegt að flestir taka þátt ár eftir ár auk þess sem alltaf eru einhverjir nýjir sem vilja prófa. Hópurinn fer því stöðugt stækkandi sem þýðir að í dag getum við t.d. tryggt að það fari aldrei tveir starfsmenn frá sama vinnuveitanda í einstaka heimsókn, en það gerum við til að tryggja enn betur hlutleysi verkefnisins. Einnig pössum við að ef einhver er að fara í fyrsta sinn í heimsókn á vegum Fjármálavits sé alltaf einhver með reynslu sendur með. Allt þetta þýðir að síðustu misseri hefur byggst upp þekking í verkefninu sem nemendur njóta auðvitað góðs af."

En hvernig var að hafa samband við skólana í upphafi verkefnisins og spyrja hvort ekki væri tilvalið að fá tvo starfsmenn úr fjármálageiranum í heimsókn til að ræða við nemendur um fjármál?

„Já, það er von að þú spyrjir. Það var einmitt verkefni mitt fyrstu mánuðina að hringja í skóla landsins og kynna mig sem starfsmann Samtaka fjármálafyrirtækja og bera upp þetta erindi – viljið þið ekki fá okkur í heimsókn? Það varð oft smá hik en þegar skólarnir áttuðu sig á að þetta er í grunninn samfélagslegt verkefni og markmiðið með því væri að bæta fjármálalæsi hjá ungu fólki þá var mér undantekningarlaust vel tekið. Í dag hafa um 300 starfsmenn fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða heimsótt um 12.000 nemendur í tengslum við verkefnið og ég hef ekki enn heyrt af heimsókn sem gekk illa.

En að öllu þessu sögðu vil ég taka sérstaklega fram að það er fullt af kennurum um allt land sem gera frábæra hluti í fjármálakennslu. Hún er þá oft fléttuð inn í aðra kennslu, stærðfræðikennarar kenna prósentureikning, heimilisfræðikennarar fara yfir heimilisfjármálin og svo mætti lengi telja. Við viljum styðja við þessa kennara, koma fjármálalæsi inn í aðalnámskrá og verða að lokum óþörf.“

Greinin birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. 2018. Lesið blaðið hér.

Aðalbjörn Sigurðsson

blaðamaður