​Rödd nemenda verður að heyrast við skipulagningu skólastarfs

13.10.2017 | Viðtöl

​Rödd nemenda verður að heyrast við skipulagningu skólastarfs

Hópur ungmenna situr umhverfis borð og ræðir opinskátt um reynslu sína af skólakerfinu, hvað er gott og hvað slæmt. Þátttakendur eru frá þremur löndum, Kanada, Finnlandi og Noregi. Hópur fólks situr í hring umhverfis unga fólkið og hlustar af athygli á það sem þau hafa að segja. Í þeim hópi eru kennarar, skólastjórar og fræðimenn frá löndunum þremur en einnig frá Íslandi.

Umrætt samtal átti sér stað á ráðstefnu sem haldin var á Flúðum dagana fimmta til áttunda október. Félag grunnskólakennara tók þátt í og sá um að skipuleggja ráðstefnuna. Sú sem stjórnaði umræðum umræddan dag heitir Penelope Jean Stiles og starfar sem skólastjóri í Albertafylki í Kanada. „Okkar markmið er að nemendur taki virkan þátt í að breyta því hvernig við hugsum um skóla og nám. Áherslan hér, eins og á sambærilegum fundum sem haldnir hafa verið síðustu árin, er að fá nemendur til að lýsa því hvað þarf að hafa í huga þegar skólastarf er skipulagt og hvert skuli stefna. Spurningin sem við spyrjum okkur er hvernig við náum að virkja nemendur í umræðu um hvernig skólar eigi að vera og hvernig við náum að láta nemendur hafa áhrif á stefnu skóla og skólayfirvalda,“ segir Penelope.

Nemendur eru ekki allir eins

Til viðbótar við nemendurna, sem voru átján talsins, tóku þátt í ráðstefnunni kennarar, skólastjórnendur og fræðimenn frá Kanada, Finnlandi, Noregi og Íslandi ásamt fulltrúum stéttarfélaga kennara frá löndunum fjórum. „Við vinnum með ákveðin þemu en við erum alltaf í grunninn að vinna með spurninguna „hvernig búum við til góðan skóla fyrir alla nemendur?“ Við leggjum áherslu á að þegar kemur að því að skipuleggja skólastarf þurfi að horfa til annarra þátta en OECD mælikvarða og PISA mælinga. Við heyrum of oft frá stjórnmálamönnum útskýringar á þörfum nemenda, en á sama tíma grunar mig að þeir viti ekki hverjar þessar þarfir eru, enda höfum við sem nú erum orðin fullorðin aldrei upplifað þann veruleika sem blasir við ungu fólki í dag. Vegna þess er sérstaklega mikilvægt að við hlustum á raddir sem flestra ungmenna því í skólunum er ekki bara ein tegund nemenda. Ég held að þeir sem móta menntastefnu víðsvegar um heiminn falli alltof oft í þá gryfju að halda að allir nemendur séu eins og nálgist viðfangsefnið nánast eins og þeir séu að markaðssetja ákveðna tegund af vöru. Þeir gleyma því að nemendur eru jafn ólíkir og þeir eru margir, hver með sína hæfileika og væntingar.“

Umræðan þarf að halda áfram

Löng hefð er fyrir slíkum ráðstefnum en þetta er í fyrsta skipti sem slík er haldin hér á Íslandi. Ástæðan fyrir því að hópurinn kom hingað er meðal annars að Jón Torfi Jónasson, prófessor við Menntavísindasvið HÍ, hefur síðustu ár unnið talsvert með skipuleggjendum ráðstefnunnar en einnig kviknaði áhugi á samstarfi eftir heimsókn fulltrúa Félags grunnskólakennara til Alberta í Kanada síðasta vor. Aðspurð um hverju ráðstefnan muni skila segir Penelope að unnar verði skýrslur og samantektir að henni lokinni, en ekki síst muni umræðurnar sem farið hafi fram smitast út í skólana og að lokum vonandi hafa áhrif á skólastarf í einstökum skólum og þá sem móti stefnu í menntamálum. „Á svona ráðstefnum er alltaf hópur af kennurum og skólastjórnendum sem hefur áhuga á að skoða skólakerfið með það að markmiði að breyta því og bæta. Þetta er fólk sem á það sameiginlegt að vera óhrætt að ræða það að einstakir skólar og skólakerfið í heild séu ekki fullkomin, og þar með tilbúið að ræða hvað betur mætti fara. Það er von mín að þessi hópur muni halda áfram að tjá sig, ekki bara í skólunum heldur í raun hvar og hvenær sem er og að það hafi síðan áhrif á það hvernig við skipuleggjum skólastarf til framtíðar.“

Viðfangsefni: Grunnskólar, Grunnskóli, Nemendur, Leiðtogar