​Foreldrasamtöl fara fram síðdegis og fram á kvöld

01.03.2016 | Viðtöl

​Foreldrasamtöl fara fram síðdegis og fram á kvöld

Það var bjartur og stilltur haustdagur þegar útsendari Skólavörðunnar lagði braut undir barða og ók sem leið lá frá Kaupmannahöfn til Norður- Sjálands. Tilgangur ökuferðarinnar var að hitta að máli íslenskan kennara sem starfar við Nordstjerne skólann, grunnskóla í smábænum Helsinge. Nordstjerne skólinn varð til árið 2012 þegar tveir skólar í sveitarfélaginu Gribskov voru sameinaðir. Skólinn hefur aðsetur á tveimur stöðum (Ramlöse og Helsinge) og nemendafjöldinn er tæplega eitt þúsund, þar af 730 í Helsinge. Kynjaskiptingin er nokkurn veginn jöfn, drengir þó aðeins fleiri.

Viðmælandinn, Guðfinna Emma Sveinsdóttir (ætíð kölluð Emma), tók á móti útsendara Skólavörðunnar í haustblíðunni að loknum skóladegi þegar nemendur voru að halda heim á leið. Eftir að hafa gengið um skólabygginguna og drukkið einn kaffibolla var ekki eftir neinu að bíða. Fyrst var, að íslenskum sið, spurt um uppruna.

„Ég er borgarbarn, Reykvíkingur,“ var svarið. „Fædd í Reykjavík og uppalin í Garðastræti 14, foreldrar mínir úr Eyjafirði og frá Stokkseyri. Skólagangan hófst í gamla stýrimannaskólanum, þaðan lá leiðin í Melaskólann og loks Hagaskólann þar sem ég tók landspróf. Mig langaði að fara í Menntaskólann við Hamrahlíð, en fékk ekki pláss þar og fór þá í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þar stúdentsprófi. Öfugt við marga þótti mér MR ekki skemmtilegur skóli þótt það væru auðvitað ákveðin forréttindi að vera í þessu gamla sögufræga húsi og Þrúðvangi. Þegar ég var fjórtán ára var ég búin að ákveða að verða kennari. Eftir stúdentspróf sótti ég um í Kennaraháskólanum en fékk ekki pláss.“

Af hverju var það?

„Ég hef sjálfsagt ekki verið með nógu góðar einkunnir, enda mjög margir umsækjendur. En ég komst svo inn í Kennaraháskólann ári síðar.“

Með tvær ferðatöskur til Þýskalands
„Í MR hafði ég hins vegar kynnst strák, sem ég fór að búa með 1980. Hann hét Þorvaldur Kolbeins Árnason og var tveimur árum eldri en ég. Hann lauk prófi í byggingaverkfræði frá HÍ 1982 og stefndi á meistaranám í Þýskalandi. Ég var þá búin með eitt ár í Kennaraháskólanum en komst inn í Kennaraháskólann í Karlsruhe og þangað fórum við, nýgift, haustið 1982 með tvær ferðatöskur. Okkur þótti sérstakt að við komuna til Þýskalands þurftum við að fara í lungnamyndatöku til að sýna fram á að við værum ekki með berkla.“

Og þarna voruð þið svo?

„Já, þarna vorum við í þrjú ár. Árið 1985 lauk Þorvaldur sínu námi, og ég var komin langt áleiðis í mínu námi og orðin ófrísk. Við fluttum heim og ég lauk Kennaranáminu í Reykjavík hálfu öðru ári síðar, í júní 1987.“

Voru þetta góð ár?

„Mjög góð, við ferðuðumst talsvert og dvölin í Þýskalandi kenndi mér margt.“

Byrjaði kennsluferilinn í Mýrarhúsaskóla
„Vorið 1987 byrjaði ég svo að kenna í Mýrarhúsaskóla, þótt ég væri þá ekki komin með prófið. Til að gera langa sögu stutta þá var ég þar til 1999, kenndi reyndar líka þýsku í Valhúsaskóla, en flutti mig þá í Austurbæjarskólann þar sem ég var til 2004. Í millitíðinni (2001) fór ég í fjarnám við Kennaraháskólann, í upplýsinga- og tæknimennt og fjölmenningarkennslu. Í desember 2003 lést Þorvaldur maðurinn minn úr krabbameini og ekki þarf að hafa mörg orð um hvílíkt áfall það var, ég skyndilega orðin ekkja með tvo syni. Haustið 2004 fékk ég starf sem deildarstjóri unglingastigs við Ingunnarskóla í Grafarholti, litlum skóla sem stækkaði mjög hratt. Það var mikil vinna en mjög skemmtileg. Þarna var ég til ársins 2011.“

Og nú ertu hér. Hvernig atvikaðist það?

Smá hlátur. „Varð skotin í manni. Það byrjaði þannig að ég fór ásamt bekkjarfélögum Þorvaldar úr verkfræðinni og fleirum í gönguferð sumarið 2008, Laugaveginn svonefnda. Í þessum hópi var einn Dani, Henrik Schjonning. Afleiðing gönguferðarinnar varð sú að ég flutti hingað til Danmerkur sumarið 2011 og nú er ég hér. Og bý með honum Henrik.“

„Við komuna til Þýskalands þurftum við að fara í lungnamyndatöku til að sýna fram á að við værum ekki með berkla.“

Mörg störf í boði
Eftir smá krókaleiðir á danska vinnumarkaðinum hóf Emma störf við Nordstjerne skólann í ársbyrjun 2013. Þá höfðu verið miklar deilur milli kennara og stjórnvalda. Kennarar voru afar ósáttir við ný grunnskólalög, einkum ákvæði um fastbundna viðveru, og margir höfðu hætt störfum. Þess vegna voru mörg störf í boði en vinnumórallinn ekki góður því fólk var reitt og sárt. Þetta minnti um margt á Ísland.

„Nordstjerne skólinn, eldri deildir, skiptist í þrjú svið: vísindasvið, íþróttasvið og svið sem heitir á dönsku Global linje, við kannski köllum hana alheimssvið, eða alþjóðasvið. Úr Kennaraháskólanum útskrifaðist ég á sínum tíma með samfélagsfræði, sögu og þýsku. Ég kenni hér samfélagsfræði, ensku, sögu, landafræði og þýsku, alls fimm greinar. Það eru mörg fög að setja sig inn í, þótt þetta séu sömu greinar og ég kenndi heima. Hér þurfa kennarar að standast sérstakt próf til að fá leyfi til að kenna viðkomandi grein. Samkvæmt nýju grunnskólalögunum eiga kennarar einungis að kenna greinar sem þeir höfðu sem grunngreinar á prófi.“

Mikil áhersla á munnleg próf
„Hér er mun meira lagt upp úr munnlegum prófum en gert er heima. Hér er það fastlagt að á lokaári taki nemendur munnlegt próf í ensku, en taki líka bæði munnleg og skrifleg próf í dönsku og stærðfræði. Um aðrar greinar gildir að nemandi dregur hvort hann fari í próf í greininni og ef hann fer ekki í próf gildir árseinkunn. Ef nemandi dregur til dæmis þýsku úr hattinum, kemur utanaðkomandi prófdómari og metur frammistöðuna. Nemandinn veit með alllöngum fyrirvara að hann kemur upp í þýsku og þarf að skila greinargerð yfir efnið, sem kennari og prófdómari staðfesta. Prófin koma frá ráðuneytinu. Danir leggja mikla áherslu á munnlega færni og tjáningu.“

Er mikill munur á því að kenna hér og heima á Íslandi?

„Munurinn er að hér er miklu meira framboð af námsefni á því tungumáli sem þú talar, þ.e. dönsku. Bækurnar, sem manni finnst þó gamlar, eru helmingi nýrri en heima. Auk þess er hægt að sækja á netinu efni á dönsku. Efnið er sem sé miklu fjölbreyttara, og það gildir líka um myndefni. Mann vantar eiginlega tíma til að velja hvað maður ætlar að nota. Heima þurfti maður að vinna svo mikið upp og svo finnst mér algjör lúxus að geta prentað og ljósritað í lit. Samt er fjarri því að hér sé bruðl.“

Hvað með bekkjarstærðirnar?

„Bekkirnir geta verið fjölmennir, allt upp í 30 en aldrei stærri en það.“

Kennsluskyldan er mikið mál
Hvernig er svo þessi fræga kennsluskylda, eða kannski réttara sagt vinnuskylda?

„Kennsluskyldan er mjög mikið mál hér. Hún er 27 kennslustundir á viku, en hver kennslustund er 45 mínútur. Það er ekki mikill tími til að undirbúa sig, leiðrétta verkefni o.þ.h. Mér fannst erfitt þegar ég byrjaði, en þá kenndi ég 23 tíma. Ég vann öll kvöld og allar helgar og var náttúrlega að læra margt nýtt.

„Bækurnar, sem manni finnst þó gamlar, eru helmingi nýrri en heima.“

Vinnuskyldan er 39,25 klukkustundir, og ef funda þarf sérstaklega með foreldrum er það tekið af undirbúningstíma. Eitt þeirra atriða sem mikið var deilt um í nýju lögunum var viðveran. Sveitarfélagið Gribskov hefur bakkað með að kennarinn skuli vera 39,25 tíma í skólanum, en miðar við 33 tíma og ef yfirmaður leyfir máttu nota 6 tíma heima. Fjórum sinnum á ári erum við með kvöldfundi, tvo til tvo og hálfan klukkutíma, þar sem miðað er við að allt starfsfólkið geti tekið þátt.

Foreldrasamtöl fara einnig fram síðdegis og fram á kvöld, eftir því sem foreldrum hentar. Þessir fundartímar ganga svo á móti jóla- og páskafríi. Mér finnst trúnaðarmaðurinn gegna stærra hlutverki hér en heima, en kannski finnst mér þetta bara vegna þess að ég hef meiri þörf fyrir hann. Trúnaðarmaðurinn heldur fundi með kennarahópnum einu sinni í mánuði, tekur púlsinn ef svo má segja. Vinnuálagið er mjög mikið, kennsluskyldan var þangað til á þessu ári 25 stundir (45 mínútur) og þessi tveggja kennslustunda viðbót finnst.“

Hvað með haust- og vetrarfrí?

„Haustfríið er á sínum stað og nemendur fá vetrarfrí á vorönn en kennararnir ekki. Sumarfríið er fjórar vikur, í júlí. Jólafríið byrjar í ár 18. desember og kennsla hefst aftur fyrsta virka dag eftir áramót. Skóladagurinn í Nordstjerneskólanum hefst kl. 8.10 og lýkur kl 15.55. Stundaskráin er fljótandi ef svo má segja, sagan er ekkert endilega á sömu dögum og tímum í næstu viku og hún var í þessari. Þessi skóli er með svokallaða fagdaga, þá er kannski einn daginn bara sögukennsla o.s.frv.

Þumalputtareglan er jafn margir fagdagar og þú hefur kennslustundir í faginu, 3 landafræðitímar = 3 fagdagar í landafræði. Þetta gefur t.d. möguleika á safnaferðum, án þess að aðrar greinar missi tíma sinn, en Danir eru mjög uppteknir af því að nemandinn fái þann tímafjölda í faginu sem lög kveða á um. Ef þú ert ekki með fagdag geturðu notað tímann til undirbúnings.“

Faðmast og heilsa með nafni

„Það vakti strax athygli mína hvað nemendur hafa mikinn áhuga fyrir mat, það var nýtt fyrir mér. Og faðmast mikið! Vinnufélagar og nemendur heilsa manni með nafni: góðan daginn, Emma.”

Að lokum er spurt um launin.

„Ég hef auðvitað ekki nýrri samanburð að heiman en frá árinu 2011. En miðað við hver kennaralaunin voru þá á Íslandi og hvað varð úr þeim get ég sagt að hér eru þau miklu betri, bæði í krónum talið og hvað fæst fyrir þau. Þar er mikill munur. En maður getur líka sagt að ég vinni meira hérna en heima.”

Greinin birtist í Skólavörðunni, 7. tbl. 2015.

Borgþór Arngrímsson

Blaðamaður Skólavörðunnar í Kaupmannahöfn