Tölvutek færði Þelamerkurskóla 25 fartölvur

13.12.2018 | Stutt

Tölvutek færði Þelamerkurskóla 25 fartölvur

Þelamerkurskóli hlaut í haust verðskuldaða fartölvugjöf eða 25 fartölvur frá Tölvuteki. Tölvutek auglýsti síðasta vor eftir skólum til að taka við slíkri tölvugjöf og skráðu yfir 50 skólar sig til leiks. Í rökstuðningi Tölvuteks fyrir valinu kom meðal annars fram að Ingileif Ástvaldsdóttir, skólastjóri og umsóknaraðili Þelamerkurskóla, hafi farið á Boot Camp með „Edtech Team“ í notkun verkfæra Google í skólastarfi. Því sem hún lærði þar hefur verið miðlað til annarra kennara í skólanum og líka á bloggi hennar www.barabyrja.is en það er vinsælt meðal kennara víðs vegar um landið.

Þelamerkurskóli stóð fyrir Google for Education námskeiði fyrir sína kennara auk þess sem þangað var boðið 20 kennurum úr nálægum skólum. Í innleiðingarferli Google for Education hafa kennarar í Þelamerkurskóla hist reglulega til að ræða saman um hvað þeir hafa verið að gera með Chromebook tölvunum og Google for Education umhverfinu og deila upplýsingum sín á milli.

Nú þegar hafa kennarar Þelamerkurskóla nýtt sér vefþjálfun Google til að öðlast fyrstu viðurkenninguna sem „Google Certified Educator“ og nokkrir þeirra hafa þegar fengið hana. Markmiðið er að allir kennarar skólans þjálfist í notkun verkfæra Google for Education og nýti þau með nemendum.

Síðsumars fóru fulltrúar frá Tölvutek norður til að afhenda tölvurnar og fengu í leiðinni kynningu á skólanum. Ingileif segir þessa gjöf hafa mikla þýðingu fyrir nemendur og kennara skólans. Gjöfin hefur gert þann draum að veruleika að allir nemendur skólans, frá 1.-10. bekk, hafi aðgang að fartölvu. Gjöfin gefur því öllum nemendum skólans jafna möguleika á að nýta verkfæri Google í skólastarfi (G Suite for Education) í námi sínu. Reynslan sýnir að aukið aðgengi að tækjum er forsenda þess að innleiðing á notkun slíkra verkfæra verði árangursrík. Við afhendinguna kom fram að nemendur og kennarar skólans munu gera sitt besta til að nýta tölvurnar sem best og miðla til annarra reynslu sinni af notkun þeirra og Google umhverfisins í skólanum.

MYND: Starfsmenn Tölvuteks heimsóttu Þelamerkurskóla og færðu nemendum og kennurum 25 fartölvur að gjöf.

Fréttin birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. 2018. Lesið blaðið hér.