Röddin er aðalmálið

05.03.2019 | Stutt

Röddin er aðalmálið

Röddin er atvinnutæki kennara, því án hennar er lítið hægt að kenna. Söngvarar hugsa afar vel um rödd sína, hita hana upp, gera raddæfingar og slökunaræfingar og ótal margt fleira. Kennarar ættu sömuleiðis að huga að rödd sinni og undirbúa hana fyrir kennslu dagsins. Ef röddin fer þarf kennari að skipta um starfsvettvang. Hér eru nokkrar hugmyndir að því hvernig verja má röddina álagi og eymslum. Frekari upplýsingar má fá á vefnum www.rodd.is.

Þeir sem þurfa að tala mikið yfir daginn ættu að:

Hita röddina upp t.d. með því að humma lag, segja RRRR og PTK til skiptis og ÍÍÍ-ÚÚÚ með ýktum varahreyfingum og puðra svo slakni á andlitsvöðvum.

 1. – Gæta þess að tala eða lesa með nægu lofti.
 2. – Tala alltaf með slakan kjálka svo tungan liggi aðeins á milli tanna í öllum öðrum hljóðum en /S/
 3. – Drekka reglulega vatn yfir daginn.
 4. – Liðka kjálka, tungu, kinnar og varir þegar tækifæri gefst.
 5. – Slaka á talfærunum með því að blása fast út í kinnar, snúa upp á varir, slaka á kjálkum og hreyfa þá.
 6. – Láta tungu liggja slaka út úr munni í smástund.
 7. – Tala hægt og leggja áherslu á hvert atkvæði ef rödd er veik.
 8. – Forðast að spenna röddina.
 9. – Forðast að kalla. Betra er að ganga til þess sem er ávarpaður.

Er röddin komin í þrot?
Raddþrotseinkenni eða álagseinkenni má finna með því að fara yfir eftirfarandi lista. Lestu hann og merktu við ef þú finnur fyrir einhverju oft eða að staðaldri.

 • – Þurrkur í hálsi
 • – Erting eða kitltilfinning
 • – Særindi
 • – Kökktilfinning
 • – Ræskingarþörf
 • – Röddin brestur
 • – Röddin endist illa
 • – Viðvarandi hæsi án kvefs
 • – Viðvarandi ræma
 • – Röddin er eintóna
 • – Raddþreyta við upplestur
 • – Raddþreyta við söng
 • – Raddþreyta við samræður

Ef þú finnur fyrir þremur eða fleiri einkennum af listanum hér að ofan er kominn tími til að fara til háls-, nef- og eyrnalæknis. Ef þú finnur stundum fyrir einhverjum einkennum ættirðu að huga að raddheilsunni því viðvarandi álag getur valdið raddþroti.

Góðir og slæmir raddsiðir
Ýmsar líkamsstöður geta haft áhrif á gæði raddar. Það að bíta eilíft á jaxlinn, gnísta tönnum, spenna tungu og halla stöðugt höfði getur haft áhrif á raddheilsu. Slæmir raddsiðir geta stuðlað að raddveilum eða óþægindum í radd- og talfærum. Gott er að lesa eftirfarandi lista og athuga hvort einhver atriði hans eiga við þig:

 1. – Skekkir þú höfuðið þegar þú talar?
 2. – Lest þú, talar eða syngur án þess að hafa til þess nægilegt loft?
 3. – Talarðu hratt?
 4. – Talarðu óskýrt?
 5. – Talarðu með samanbitna kjálka?
 6. – Gnístir þú tönnum og skekur til kjálka?
 7. – Spennirðu röddina upp?
 8. – Spennirðu tungu út í tennur?
 9. – Ertu með tungukæki?
 10. – Talar þú á innsoginu?
 11. – Syngur þú í tónhæð sem þér er ekki eiginleg?
 12. – Reynirðu að yfirgnæfa hávaða með röddinni?
 13. – Hvíslarðu með spenntri röddu, t.d. með kvef?
 14. – Öskrarðu?

Ef einhver þessara atriða eiga við þig er gott að afla sér upplýsinga um hvernig laga megi stöðuna á einfaldan hátt. Á heimasíðu KÍ undir flipanum vellíðan í vinnu (ki.is/um-ki/annad/vellidan-i-vinnu) má finna ýmsar mikilvægar upplýsingar, m.a. um hávaða. Þar má einnig finna bæklinga um hvernig hlúa má að röddinni.

Er röddin í lagi?
Til eru ýmsar aðferðir til að gæta að hvort röddin sé í lagi. Hér á eftir fara nokkrar æfingar sem gera má með þá rannsókn í huga.

Renndu tóni hægt upp frá dýpsta tóni til þess efsta. Styddu fingrum á bringubein þegar þú myndar dýpsta tóninn. Þar á að vera titringur. Ef ekki er eitthvað að. Hlustaðu eftir hvort tónninn helst heill án þess að brotna frá neðsta tóni til þess efsta. Ef röddin brestur eða hleypur yfir tóna er eitthvað að.

Haltu tóni um stund. Hlustaðu eftir hvort hann heldur styrk og hljómi. Ef hann hverfur, er skjálfandi eða hleypur til bendir það til raddveilu.

Líttu í spegil og kannaðu stöðu höfuðsins. Hallast það fram eða til hliðar? Lýtur það fram eða hallar aftur? Okkur hættir til að festa höfuð í rangri stöðu ef við festum okkur á of háu eða lágu raddsviði. Ef höfuð er skakkt gæti það bent til vöðvafestu eða vöðvabólgu sem hefur líka áhrif á raddbeitingu.

Leggðu fingur á barkakýli og segðu ydd. Skýst barkinn upp? Leggðu fingur á barkakýli og segðu dönn. Skýst barkinn niður? Ef ekki er þar mögulega að finna festumein sem þarf að meðhöndla.

Ertu með stífar axlir og grunna öndun? Styddu annarri hönd á öxl og hinni á kvið og andaðu eðlilega inn og út. Hvor höndin hreyfist? Ef sú á öxlinni hreyfist andarðu grunnt og axlir stífna. Ef magahöndin hreyfist er allt í stakasta lagi.

Brestur röddin eða þreytistu í venjulegu tali? Ertu rám(ur) eða mis hás? Ertu hætt(ur) að geta sungið? Þetta eru einkenni sem þarf að láta háls-, nef- og eyrnalækni athuga.

Ef hugað er að röddinni rétt eins og öðru í lífinu má bæta lífsgæði og vinnuumhverfi til muna. Röddin skiptir alla máli – sérstaklega kennara.

Sigrún Birna Björnsdóttir

sérfræðingur í vinnuumhverfis- og jafnréttismálum hjá KÍ