Rafræn leikjabók um vísindi

22.08.2018 | Stutt

Rafræn leikjabók um vísindi

Nýverið kom út íslenska rafræna leikjabókin Stjörnuskífan: Ævintýri og vísindi, sem er nýjung á íslenskum spjaldtölvu- og bókamarkaði. Rafbókin er sérhönnuð og myndskreytt rafbók fyrir Apple-spjaldtölvur þar sem skáldskapur blandast við þrautir og fróðleik; spennandi ævintýri og saga vísindanna renna saman. Helsti efniviðurinn er sóttur til gullaldar íslams en það var tímabil á miðöldum þegar vísindi og menning blómstruðu í löndum múslima. Margir uppfinningamannanna voru langt á undan sinni samtíð. Til að mynda reyndi Abbas ibn Firnas að fljúga fyrstur manna árið 875, um það leyti sem Ísland byggðist. Margt af því sem fram kemur hefur lítið sem ekkert verið skrifað um á íslensku áður, til dæmis um nokkrar vísindakonur á gullöld íslams. Eitt helsta markmið verkefnisins er að draga fram þekkingu um hlutverk múslima í vísindasögunni, á hlutlægan hátt, því þekking spornar við fordómum. Fjallað er um allt sem tengist trúarbrögðum af hlutleysi, vísindin eru í forgrunni.

Sagan fjallar um tvo unglinga í samtímanum, hinn íslenska Gunnar og hina íröksku Leylu, ævintýri þeirra og tímaflakk. Í kjallara skóla í Teheran finna þau skrítna klukku sem þeim tekst að gera við og hefst þá svaðilförin. Þau flakka til ársins 1206 þar sem þau hitta uppfinningamanninn Al-Jazari. Hann biður þau um hjálp við að ljúka meistaraverki sínu með því að safna hugmyndum forvera hans í sérstaka stjörnuskífu, sem er tímavél. Gunnar og Leyla flakka meðal annars til Húss viskunnar í Bagdad, til Sikileyjar þar sem þau hitta landkönnuðinn Al-Idrisi, til Aleppo þar sem þau hitta stjörnufræðikonuna Mariam al-Ijliya, þau lenda í klónum á illskeyttum töfraanda og margt fleira.
Í hverjum kafla liggur fyrir þraut sem tengist sögunni og uppfinningunum. Alls eru þetta fjórtán litlir tölvuleikir, sérhannaðir fyrir leikjabókina. Auk þess inniheldur Stjörnuskífan mikinn fróðleik sem hægt er að veiða úr textanum.

Í Stjörnuskífunni bregður stundum fyrir fyrirbærum sem eru ekki til í raun og veru, til dæmis tímavélum, töfradrykkjum og töfraöndum. Það er vegna þess að sagan er í grunninn fantasíusaga með fróðleiksívafi.

Leikjabækur eru gagnvirkar rafbækur, sem er sérstakur flokkur af öppum eða forritum fyrir spjaldtölvur og snjalltæki. Sjón, hljóð og snerting er notuð til að magna upplifun notenda á söguþræði bókarinnar. Í slíkum gagnvirkum rafbókum er margmiðlun nýtt til að skapa upplifun sem ekki er möguleg á prentformi. Gagnvirk sögubók getur innihaldið þrautir, verkefni, upplestur, hreyfimyndir og jafnvel leiki. Sá sem les bókina getur þurft að leysa þrautir til að sagan haldi áfram.

Með því að blanda myndskreytingum, hljóðum og þrautalausnum við söguna fer hugarflug og áhugi þátttakenda af stað. Þrautirnar og verkefnin í leikjabókinni eru mikilvægur þáttur í því að auka og kanna lesskilning nemandans.

Stjörnuskífan er samstarfsverkefni rithöfundarins Emils Hjörvars Petersen og hugbúnaðagerðarinnar Gebo Kano ehf., sem í senn er útgefandinn. Verkefnið hlaut tvívegis styrk úr Þróunarsjóði námsgagna.

Kynningarmyndband
Kennsluleiðbeiningar