Landaleit og spurningastund

11.09.2017 | Stutt

Landaleit og spurningastund

Skólabekkir á öllum Norðurlöndunum geta á nýjan leik tekið þátt í Norræna skólaspjallinu og haldið í könnunarleiðangur um Norðurlönd. Spjallið fer fram á kennsluvef Norræna félagsins 20. september næstkomandi. Þetta árið verður boðið upp á Landaleit fyrir 4. til 7. bekk kl. 8 til 10 (íslenskur tími) auk Spurningastundar fyrir 8. til 10. bekk frá kl. 12 til 14 (íslenskur tími).

Spjallið fyrir 4.-7. bekk felst í svokallaðri Landaleit. Nemendur eiga að giska á hvar á Norðurlöndunum hinir nemendurnir á spjallinu eru staddir - einungis með því að spyrja já-/nei-spurninga. Með þeim hætti gefst nemendunum tækifæri til að æfa sig í að skilja nágrannatungurnar norsku, sænsku og dönsku, um leið og þeir fræðast um norræna landafræði, menningu landanna og tungumál þeirra.

Spjallið fyrir 8.-10. bekk er hin svokallaða Spurningastund. Það er nýjung þar sem nemendur frá öllum Norðurlöndunum hittast og spyrja hvern annan spurninga, sem gefa þeim innsýn í líkindi og mun á milli Norðurlandanna. Fyrir Spurningastundina undirbúa nemendur spurningar handa jafnöldrum sínum á Norðurlöndunum og efninu ráða þeir alfarið sjálfir. Að Spurningastundinni lokinni geta nemendur svo sagt frá því, sem þeir hafa lært um það hvernig það er að vera ungur í nágrannalöndunum.

Nánari upplýsingar hér.


Viðfangsefni: Norðurlöndin, Norræna skólaspjallið