Læsishugtakið svolítið óljóst

12.10.2017 | Stutt

Læsishugtakið svolítið óljóst

„Það að læra að lesa er eins og spretthlaup, maður lærir stafina og verður læs í þeim skilningi að geta komist í gegnum texta einhvern tímann þegar maður er lítill, sumir eftir nokkra mánuði í skóla, aðrir eftir nokkur ár, og það er eins og að vera kominn í mark; við höfum náð færni sem við ráðum síðan til hvers við notum; nóg til að geta verið „virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem [við lesum]“ á hinum ýmsu kjaftaklöppum internetsins, snjáldru, instagram eða twitter, allan daginn, og geta komist nokkurn veginn gegnum skólabækurnar,“ skrifar Baldur Sigurðsson, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, á vefinn Skólaþræðir.

Grein Baldurs er áhugaverð en hann veltir fyrir sér hugtakinu læsi í drögum að Menntastefnu Reykjavíkur. Baldur segir skipta töluverðu máli hvaða skilningur er lagður í læsishugtakið.

„Í þeim drögum að menntastefnu Reykjavíkur sem fyrir liggja, virðist læsi geta merkt hvað sem er, eins og stundum verður þegar margir höfundar koma að og reynt að hafa alla góða. Niðurstaðan verður svolítið óljós, vissulega í góðum tilgangi en kröftunum er dreift til þess að ná yfir flesta þætti menntandi uppeldis og skólastarfs,“ skrifar Baldur í grein sinni.

Grein Baldurs ber yfirskriftina Punktar um læsi (í víðum skilningi) og hægt er að lesa hana í heild á vefnum Skólaþræðir.

Fleiri áhugaverðar greinar sem nýlega hafa verið birtar er að finna í Skólaþráðum -- svo sem grein um jafnréttisfræðslu í Borgarholtsskóla, MÍÓ-skimun í stærðfræði og lýðræðisverkefni í leikskólanum Árbæ.

Útgefandi Skólaþráða eru Samtök áhugafólks um skólaþróun sem voru stofnuð árið 2005. Félagar voru í byrjun þess árs tæplega 800 talsins.

Viðfangsefni: Lestur, Læsi, Menntastefna