Kennari ársins á heimsvísu

15.06.2017 | Stutt

Kennari ársins á heimsvísu

Maggie MacDonnell er heimsins besti kennari að mati Varkey-stofnunarinnar. MacDonnell tók við verðlaununum í Dubai síðla vetrar – verðlaunaféð er um 100 milljónir króna.

MacDonnell er grunnskólakennari í Salluit í Quebec-fylki í Kanada. Íbúar Salluit er um 1.350, og þangað liggur enginn vegur – aðeins hægt að fara með flugvél. Salluit er eitt nyrsta samfélag inúíta í Kanada og þarna er lífið erfitt, félagsleg og samfélagsleg vandamál af margvíslegum toga, svo sem eiturlyfjaneysla, fátækt og mikil sjálfsvígstíðini ungra karla. Hún hefur upplifað yfir 10 sjálfsvíg ungmenna frá því hún hóf störf í Salluit og segir alltaf jafn erfitt að sjá autt borð í kennslustofunni eftir slíkan voðaatburð.

Kennarar hafa yfirleitt ekki enst lengi í grunnskólanum í Salluit, skólinn er til dæmis án skólastjóra því sá síðasti gafst upp vegna álags eftir sex vikur í starfi og kennarar hafa oft gefist upp á miðjum vetri.

En ekki Maggie MacDonnel sem þykir hafa unnið frábært starf í skólanum síðustu sex árin, hún hefur tekið á ójafnrétti kynjanna í samfélaginu með sérsniðinni kennslu í lífsleikni fyrir stúlkur. Hún hefur eflt íþróttaiðkun í samfélaginu með því að stofna líkamsræktarmiðstöð. Sköpun og listkennsla er í hávegum í kennslustofunni.

Nálgun Maggie MacDonnel í kennslu er að færa fókusinn frá „vandamálum“ yfir í „lausnir“. Þannig taka krakkarnir til dæmis þátt í rekstri eldhúss fyrir samfélagið, læra að annast ung börn í leikskólanum og læra á hið stórfenglega umhverfi Salluit.

Varkey-stofnunin verðlaunar árlega „heimsins besta kennara“ og hér má lesa um þá 40 kennara sem komust á blað þetta árið. Magnaðar sögur af flottum kennurum um heim allan. Alls voru 20 þúsund kennarar í 179 löndum tilnefndir til verðlaunanna.

Tilgangur Varkey er að efla kennslu og skólahald í heiminum – mottóið er að hvert einasta barn í veröldinni njóti þess að hafa góðan kennara. Kennari ársins í fyrra var Hanan al-Hroub frá Palestínu.

Hér er fimm mínútna áhrifaríkt myndband um Maggie MacDonnell.


Viðfangsefni: Varkey, Kanada, Heimsins besti kennari