Besti kennarinn

26.03.2018 | Stutt

Besti kennarinn

Andria Zafirakou, textíl- og myndmenntakennari við Alperton-skólann í Brent í London, er besti kennari á heimsvísu að mati Varkey-stofnunarinnar. Það þykir allt annað en auðvelt að vera kennari í Brent, fátækt er þar mikil, há glæpatíðni og nemendur í skólanum tala 35 tungumál.

Andria hefur farið sínar eigin leiðir í kennslunni og breytt námskránni þannig að hún þjóni nemendum betur. Hún hefur lagt á sig að læra grunnatriði í fjölmörgum tungumálum nemenda, kynnt sér bakgrunn þeirra og menningarheim. Þannig hefur henni tekist að skapa traust og aðstoða fjöldamarga nemendur sem áttu við námsörðugleika að stríða.

Hér segir Andria Zafirakou frá starfi sínu.

Það er til mikils að vinna þegar kennari ársins er annars vegar; verðlaunaféð er ein milljón dala. 30 þúsund kennarar voru tilnefndir þetta árið og af þeim komust 50 á lista og síðan voru valdir tíu bestu. Hér má kynna sér þá.

Tilgangur Varkey er að efla kennslu og skólahald í heiminum – markmiðið að hvert einasta barn í veröldinni fá notið þess að hafa góðan kennara.

Kennari ársins 2017 var Maggie MacDonnell frá Kanada.

Kennari ársins 2016 var Hanan al-Hroub frá Palestínu.