Kennarasambandið í Borgartún

07.05.2019 | Stutt

Kennarasambandið í Borgartún

Starfsemi Kennarasambands Íslands flyst í ný húsakynni í Borgartúni 30, sjöttu hæð, í sumar. Aðdragandinn hefur verið langur en um þessar mundir eru fimmtán ár síðan markvisst var farið að leita leiða við að leysa úr húsnæðisvanda Kennarasambandsins. Húsnæðismál KÍ hafa verið viðfangsefni allra þinga sambandsins síðan árið 2005.

Hið nýja húsnæði mætir nútímakröfum félagsmanna en aðgengismál fyrir fatlaða og hreyfihamlaða hafa aldrei verið í lagi í Kennarahúsinu. Þá verður aðstaða til funda afar góð í hinu nýja húsnæði sem og vinnuaðstaða starfsfólks.

Samræður við forsætis­ráðherra um framtíð Kennara­hússins standa yfir og mun Kennarasambandið leita allra leiða til að halda húsinu í sinni vörslu áfram. „Það verður verkefni til framtíðar að marka Kennarahúsinu hlutverk við hæfi þótt ljóst sé orðið fyrir löngu að húsið sé ófullnægjandi sem höfuðstöðvar stéttarfélags,“ sagði Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ, í bréfi til félagsmanna KÍ þegar kaupin voru kunngjörð.

„Það er býsna stór stund í sögu KÍ að færa starfsemina úr Kennarahúsinu. Þetta er þó nauðsynleg breyting svo byggja megi upp starfsemi sambandsins til framtíðar enda var ályktun frá síðasta KÍ þingi alveg skýr í þessu máli og þar með vilji félagsmanna,“ segir Ragnar Þór.