Járnkarlar vekja athygli á starfi leikskólanna

22.05.2018 | Stutt

Járnkarlar vekja athygli á starfi leikskólanna

Járnkarl er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar hugsað er um leikskólakennara en í raun passar orðið vel við stéttina því það getur merkt vinnuþjarkur eða þrekmenni.

Tveir nemar á meistarastigi í leikskólakennarafræði við Háskólann á Akureyri tóku höndum saman í byrjun þessa árs og lögðu af stað með verkefnið „Járnkarlarnir“ á samfélagsmiðlum. Þetta eru þeir Eysteinn Sindri Elvarsson og Magnús Hilmar Felixson, búsettir í Reykjanesbæ og á Dalvík. Þeir fjalla um leikskólastarfið á samfélagsmiðlum frá ýmsum hliðum á fjölbreyttan, lifandi og fræðandi hátt. Þeir gefa fylgjendum innsýn í störf sín þar sem fróðleikur og léttleiki eru í fyrirrúmi. Einnig taka þeir fyrir hin ýmsu viðfangsefni sem tengjast leikskólastarfinu með það fyrir augum að vekja athygli á starfinu.

Ástæða þess að þeir Eysteinn og Magnús fóru af stað með verkefnið er að Félag leikskólakennara bauð styrk til að auka fjölda karlmanna í kennslu yngri barna. Þeim þótti upplagt að sinna slíku verkefni samhliða meistaranáminu og vildu þeir gera leikskólakennslu áhugaverða fyrir þá sem eru að velta fyrir sér framtíðar starfsmöguleikum.

Góð viðbrögð og mikið spurt
Þeir félagar segja að viðbrögð við verkefninu hafi verið góð. Margir fylgjast með því sem þeir eru að fást við í daglegu starfi og leik á samfélagsmiðlunum. Samfélagsmiðlar eru frábær vettvangur til að koma skilaboðum á auðveldan, þægilegan og hraðan hátt á framfæri. Þá er ánægjulegt að aðrir starfsmenn á leikskólum eru að uppgötva kennsluefni sem þeir hafa sýnt frá. Einnig koma spurningar um starfið og námið sem er megintilgangur verkefnisins og sýnir aukinn áhuga á bæði starfinu og náminu.

Eysteinn og Magnús vilja leyfa fólki að gægjast inn í heim leikskólakennarans og upplifa alla þá gleði sem er þar við völd. Þeir eru þeirrar skoðunar að leikskólinn þurfi jákvæðari umfjöllun en hefur verið ráðandi hingað til. Umræðan og nýliðun í stéttinni helst í hendur og ef einu skilaboðin út í samfélagið eru neikvæð þá er ekki hægt að ætlast til að fólk flykkist í námið. Þessu vilja þeir breyta og eru sannfærðir um að gleðin og jákvæðnin sem ríkir á leikskólum smiti út í samfélagið og hafi áhrif á aðsókn í leikskólakennaranám.

Líflegar umræður um starfið
Verkefnið hefur verið kynnt víða. Eysteinn og Magnús hafa kynnt það og námið í leikskólakennarafræðinni á Háskóladeginum, í Háskólaherminum og á Starfamessu Akureyrar. Auk þess hafa þeir farið með kynningar í framhaldsskóla og á næsta skólaári ætla þeir að bæta í og heimsækja enn fleiri framhaldsskóla, sem og grunnskóla, og kynna leikskólastarfið fyrir nemendum.

Fylgstu með Járnkörlunum á Facebook og Snapchat: jarnkarlarnir

Greinin birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2018. LESTU BLAÐIÐ HÉR.

Viðfangsefni: Leikskólinn, Járnkarlar