Húmor og umburðarlyndi bestu eiginleikarnir

05.12.2016 | Stutt

Húmor og umburðarlyndi bestu eiginleikarnir

Steinunn Inga Óttarsdóttir hóf störf sem sérfræðingur hjá Félagi framhaldsskólakennara síðsumars. Hún er ættuð að norðan og hefur bæði unnið sem kennari og stjórnandi í framhaldsskóla og gegnt ýmsum trúnaðar- og félagsstörfum fyrir KÍ.

Steinunn Inga kemur meðal annars að kjara- og réttindamálum kennara, sinnir greiningarvinnu og upplýsingasöfnun fyrir samninganefnd FF og mun vinna fyrir stjórn Vísindasjóðs FF og FS.

Hver: sérfræðingur hjá Félagi framhaldsskólakennara, bókmenntagagnrýnandi, lestrarhestur og vog með ríka réttlætiskennd, ferðalangur, nautnabelgur og eilífðargelgja.

Helstu verkefni fram undan hjá FF? Það er aðallega kjarasamningurinn framundan, ansi stórt og ábyrgðarmikið verkefni. Nú þarf að ríghalda í árangurinn sem náðist með síðasta samningi og hvika hvergi.

Hvaða þekktu persónu hefðirðu viljað hafa sem kennara? Dalai Lama, það má margt af honum læra um eðlimanneskjunnar. Og ég væri til í að tileinka mér þá staðfestu og æðruleysi sem Malala Yousafzai sýnir í baráttu fyrir rétti kvenna til menntunar.

Hvað finnst þér best í eigin fari? Húmor og umburðarlyndi. Svo er ég ágætur hlustandi sem er að verða sífellt sjaldgæfari eiginleiki meðal fólks.

Ertu í klúbbi? Ég elska klúbba og finnst gaman að umgangast fólk. Er í leshring sem hefur starfað frá því á síðustu öld, snyrtibudduklúbbi sem samanstendur af 15 frænkum, hlaupahópi sem ég hef reyndar ekki mætt lengi í, ölklúbbi þar sem ég mæti alltaf, ferðafélagi og aðdáendaklúbbi auk nokkurra leyniklúbba...

Hvaða bók lastu síðast? Ég les viðstöðulaust og er alltaf með a.m.k. þrjár í gangi í einu. Núna er ég að lesa Kompu eftir Sigrúnu Pálsdóttur, Verndargrip eftir Roberto Bolaño og Forystufé eftir Ásgeir Jónsson. Allt frábærar bækur, hver á sinn hátt.

Hver er uppáhalds sögupersónan þín? Ástríkur, svo snjall og mikill sjarmur, hugdjarfur og ráðagóður, orðheppinn og vinmargur. Allt eftirsóknarverðir eiginleikar.

Sjónvarpsþættir? T.d. Seinfeld (Elaine er uppáhalds) og Parks and Recreation (Ron), og bara allir svona léttgeggjaðir þættir. Og danskir þættir – Danir og reyndar allar Norðurlandaþjóðirnar eru með svo góða leikara, fagmennskan er í fyrirrúmi og samfélagsádeilan á hreinu.

Hundur eða köttur? Hundur, það er bara þessi skilyrðislausa ást og glaðlyndi sem þeim fylgja. Ég átti gullfallega og bráðgáfaða Doberman-tík sem fór á hinar eilífu veiðilendur 2014 og er enn sárt saknað. Tek fúslega að mér hundapössun ef semst um kaup og kjör.

Hvernig færðu útrás? Með hurðaskellum.

Ef þú mættir taka íslensku þjóðina í eina kennslustund, hvað myndirðu kenna? Siðferði, heiðarleika og gagnrýna hugsun. Taka svo nokkrar jógastöður í lokin.

Hver er uppáhaldsstjórnmálamaðurinn þinn? Steingrímur frændi.

Facebook eða Twitter? Twitter, þar er allt stuðið.

Uppáhaldsmatur? Siginn fiskur með hamsatólg, nýjar kartöflur og rúgbrauð með þykku lagi af smjöri.

Best í heimi? Morgunstund, snarpheitt te, brauð í ofni og Rás eitt.


Steinunn Inga Óttarsdóttir var Félaginn í Skólavörðunni, 2. tbl. 2016.


Viðfangsefni: Félaginn