Grunnskólanemar lásu af krafti

15.06.2018 | Stutt

Grunnskólanemar lásu af krafti


IÐNÚ útgáfa í samstarfi við skólasöfnin í landinu stóð fyrir lestrarátaki nú í vor. Viðtökurnar við lestrarátakinu voru afar góðar og skólar um allt land tóku þátt. Með það að markmiði að allir nemendur gætu verið með í lestrarátakinu, óháð því hvar þau væru stödd í lestri, var ákveðið að hafa þema átaksins þrískipt. Þátttakendur gátu valið um að Lesa, Lita og Skapa þar sem leysa þurfti mismunandi verkefni fyrir hvern hluta.

IÐNÚ veitti verðlaun til allra skóla sem skiluðu inn og fyrir hvern hluta átaksins, svo hver skóli gat fengið allt að þrjá vinninga. IÐNÚ hefur aldrei staðið fyrir svo viðamiklu lestrarátaki áður en mikil ánægja ríkir með viðtökurnar.
Rúmlega 40 skólar tóku þátt í átakinu og alls lásu þátttakendur um 2500 bækur, annan eins fjölda lituðu þeir af myndum og um helmingur skólanna sendi inn framlög til Skapa.

Meginmarkmið átaksins var að hvetja krakka til lesturs og vekja hjá þeim áhuga á ævintýrabókum, sem vonandi hefur tekist með því að hafa valmöguleika lestrarátaksins fjölbreytta svo allir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi.

Nánari upplýsingar og myndir.