Vinátta á Sólhvörfum

19.11.2018 | Skólinn

Vinátta á Sólhvörfum

„Að kenna börnunum okkar frá upphafi að vera góður félagi og sýna vináttu, umhyggju, virðingu og hugrekki skiptir okkur hér í leikskólanum Sólhvörfum miklu máli. Það er ástæðan fyrir því að við tókum upp ástralskt verkefni sem heitir Vinátta og höfum verið að tileinka okkur hugmyndafræði þess síðustu fjögur ár,“ segir Gerður Magnúsdóttir, leikskólastjóri Sólhvarfa. Barnaheill leitaði til Kópavogsbæjar til að fá leikskóla í tilraunaverkefni og sló leikskólinn Sólhvörf strax til. Verkefnið gerir ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér fyrrnefnd grunngildi við vinnu og í samskiptum innan skólasamfélagsins. Vinátta er forvörn gegn einelti og vinnan gengur út á að styrkja börnin hvert og eitt þannig að þau öðlist hugrekki til að vera læs á aðstæður og takast á við þær.

Gerður bendir á að fyrir utan það að vinna með þolanda og geranda í eineltismálum sé mikilvægt að efla börnin þannig að þau geti staðið fyrir sig sjálf og tekið á aðstæðum þar sem annar er í vandræðum. Hópurinn sem oft stendur hjá og aðhefst ekkert öðlast nú hugrekki til að skerast í leikinn, en þetta er oft stærsti hópurinn.
Verkefnið er mjög aðgengilegt og því fylgir taska sem inniheldur allt námsefnið. Verkefni og annað efni er ætlað börnum, foreldrum, kennurum og öðru starfsfólki og á í raun erindi við alla. Hver skóli getur útfært efnið út frá eigin stefnu og sérstöðu og segir Gerður að mikill kostur við verkefnið sé að það sé ekki verið að flækja hlutina um of og það þarfnast ekki mikils undirbúnings kennara. Þau hafa ekki rekist á neinar hindranir og sér Barnaheill um að mennta starfsfólkið og verkefnið er í sífelldri þróun. Á Sólhvörfum voru elstu börnin fyrst þátttakendur en nú eru börn niður í þriggja ára með og Vinátta mun fylgja krökkunum áfram þar sem nú er verið að þýða efnið fyrir grunnskóla yfir á íslensku. Áskorunin er ekki að halda börnunum við efnið því sífellt koma inn nýir árgangar sem eru að upplifa verkefnið í fyrsta skipti og því þreytast þau ekki. Áskorunin er frekar að passa upp á að starfsfólk fái góða endurmenntun og þrói verkefnið áfram þannig að það sé lifandi og taki breytingum.

Gerður segir að áhrif Vináttu séu ótvíræð en fyrst og fremst skynjar hún að svokölluð vinastund hafi gefið börnunum orðaforða sem þau séu ekki vön og passi við ýmsar aðstæður sem geta verið flóknar. Sem dæmi má nefna að þau skilja vel þýðingu þess að skilja ekki útundan og að standa fyrir sig sjálf. Færni til að leika við fleiri hefur aukist, þau koma vel fram og sýna öðrum virðingu. Í samfélaginu er umburðarlyndi dvínandi og þar erum við fullorðna fólkið fyrirmyndir barnanna. Gerður bendir í lokin á að verkefnið eigi fullt erindi við fullorðna og þar þurfi líka að passa upp á að orðræðan sé boðleg, umburðarlynd og beri með sér virðingu.

GILDI SÓLHVARFA

  1. Umburðarlyndi Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.
  2. Virðing Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða margbreytileikann innan hópsins.
  3. Umhyggja Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
  4. Hugrekki Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

Greinin birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. 2018. LESIÐ BLAÐIÐ HÉR.Viðfangsefni: Leikskólar