Við hoppuðum bara yfir kennaraborðið

06.01.2017 | Skólinn

Við hoppuðum bara yfir kennaraborðið

Marta Ólafsdóttir kenndi líffræði í 40 ár, lengst af í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Hún hætti að kenna í fyrra og unir hag sínum sem eftirlaunamaður vel.

Tveir glaðlegir krakkar taka á móti blaðamanni Skólavörðunnar þegar hann knýr dyra hjá Mörtu Ólafsdóttur í raðhúsi við Elliðavatn. „Þetta eru sonardóttir mín og frændi hennar,“ segir Marta og bætir við að hún skilji eiginlega ekki hvernig ungt fólk færi að því að púsla saman hvunndeginum ef ekki væru til staðar ömmur og afar sem hafa lokið störfum.

Marta hætti að kenna í fyrrahaust að loknum tæpum fjögurra áratuga ferli sem líffræðikennari, lengst af við Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Hún var þá 65 ára gömul. „Þetta er alveg dásamlegt,“ segir hún um lífið á eftirlaunum og bætir því við að hún leiði hugann sjaldan að kennslunni. „Ég var bara alveg tilbúin og hætti glöð. Ég var líka orðin næstelsti kennari skólans og þá er nú kominn tími til að hætta,“ segir hún hlæjandi. Foreldrar Mörtu komust báðir yfir nírætt svo hún segist ekki hafa ástæðu til annars en að búast við að eftirlaunaárin verði mörg og gjöful.

Marta segir að það hafi komið sér á óvart að hún nenni varla í heimsókn í gamla skólann sinn þrátt fyrir hvað hún var ánægð á vinnustaðnum. Þegar að er gáð kemur þó í ljós að hún er í heilmiklum samskiptum við fyrrum starfsfélaga. „Hópur starfandi og fyrrum kennara spilar bridge vikulega í skólanum,“ segir hún. „Svo erum við nokkrar konur saman í leshring. Þar að auki eru starfsmenn sem hafa lokið störfum farnir að hittast nokkrum sinnum á ári sem er mjög skemmtilegt.“

Hefur alltaf lent í kennslu
Marta var í fyrsta stúdentsárgangi Menntaskólans við Hamrahlíð og segir að skólaárin þar hafi verið afar skemmtileg. Hún lét ekki duga að velja nýstofnaðan menntaskóla heldur hóf hún að honum loknum nám í líffræði sem þá var nýleg kennslugrein við Háskóla Íslands. Hún lauk BS-prófi í líffræði árið 1974 og stökk þá beint yfir kennaraborðið, eins og hún orðar það sjálf, og fór að kenna í aðfararnámi til stúdentsprófs í Kennaraskólanum. Meðfram kennslunni vann hún 30 eininga rannsóknarverkefni til viðbótar við BS-prófið í líffræði og hélt svo til Uppsala í Svíþjóð vorið 1979 og tók kennsluréttindanámið þar. Þar lærði hún kennslu- og skólamálafræði, eða pedagogik – utbildnings- och undervisningsplanering, við Uppsalaháskóla, auk þess bætti hún við sig námi í vatnalíffræði.

Þegar Marta kom heim frá Svíþjóð 1983 fór hún að kenna við Kennaraháskólann. Þar starfaði hún í þrjú ár og kenndi samhliða því kennslufræði raungreina í kennsluréttindanáminu í Háskóla Íslands. Síðan hóf hún kennslu við Fjölbrautaskólann í Garðabæ þar sem hún átti eftir að kenna í 28 ár. „Og það er alveg nóg,“ segir Marta með áherslu en jafnframt brosi á vör.

„Ég hef alltaf lent í að kenna,“ segir Marta þegar hún er spurð að því hvenær hún hafi ákveðið að gera kennslu að ævistarfi sínu. „Þennan stutta tíma sem ég var ekki í námi meðan ég var í Svíþjóð var ég plötuð til að kenna Svíum íslensku í kvöldskóla og kenna börnum á píanó.“

Marta segist halda að hún hafi í raun alltaf haft hug á að leggja fyrir sig kennslu þó að hún hafi ekki farið rakleitt í kennaranám. „Mamma geymdi mynd sem ég hafði teiknað þegar ég var átta ára. Viðfangsefnið var: Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Og þá ætlaði ég að verða kennari.“

Það virðist þannig hafa legið í loftinu alveg síðan Marta var kornung að hún myndi leggja fyrir sig kennslu. „Við erum sjö systkini og öll höfum við fengist eitthvað við kennslu,“ segir hún. „Ætli maður sé ekki bara svo stjórnsamur,“ bætir hún við og skellir upp úr.

„Mamma geymdi mynd sem ég hafði teiknað þegar ég var átta ára. Viðfangsefnið var: Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Og þá ætlaði ég að verða kennari.“

„Annars hafði ég fyrst og fremst áhuga á líffræðinni og á þeim árum þegar var almennilegt sumarfrí hjá kennurum vann ég við líffræðirannsóknir á sumrin og kennslu á veturna,“ segir Marta og vísar þá til fyrri hluta kennsluferilsins.

Líffræðin heillandi vísindagrein
Marta segist enn hafa faglegan áhuga á líffræðinni. Hún er í samtökum líffræðikennara og hefur haldið áfram að stunda endurmenntunarnámskeið. „Ég var til dæmis á námskeiði um ónæmisfræði í sumar. Maður hættir ekki að vera til þótt maður hætti að kenna og hættir ekki að hafa áhuga á faginu sínu.“

Meðal þess sem heillar Mörtu við líffræðina er að hún er vísindagrein í stöðugri þróun. „Þegar ég var að byrja að læra líffræði þekktu menn bara rétt grunnbyggingu og störf DNA og RNA,“ nefnir hún sem dæmi um það hversu mikil þróun hefur átt sér stað innan erfðafræðinnar. „Maður hefur stöðugt verið að læra, sem er mjög gaman. Í raun hefði maður þurft að hafa miklu meiri tíma til að bæta við sig þekkingu. Ég fékk aðeins einu sinni námsleyfi á starfsævinni til endurmenntunar en notaði sumrin til að sækja símenntunarnámskeið í líffræði.“

Leiddist aldrei í vinnunni
Starfsumhverfið í skólanum heillaði Mörtu hins vegar öll árin í kennslunni. „Mér hefur alltaf fundist gaman að vinna með unglingum og mér finnst mikilvægt að fólk viti eitthvað um náttúruna og eigin líkama. Svo er skemmtilegt að fylgjast með unga fólkinu þroskast og fullorðnast. Þetta er lifandi og fjölbreytt starf og manni leiðist aldrei í vinnunni.“ Þegar Marta er spurð hvort hún myndi gera eitthvað öðruvísi ef hún væri að byrja að kenna í dag þá er hún fljót að svara: „Að sjálfsögðu, af því að þetta er allt öðruvísi samfélag en það samfélag sem ég byrjaði að kenna í og auðvitað er allt annað að kenna nú. Til dæmis er maður iðulega með tölvuna milli sín og nemandans.“

„Unglingarnir eru alltaf svipaðir, kannski heldur frakkari og opnari nú en áður, og tæknin hefur breytt miklu,“ segir Marta um breytt landslag í umhverfi kennara. „Annars fannst mér menn ofmeta áhrif tækninnar á kennslunni í byrjun. Ég man að þegar fyrstu myndvarparnir komu til sögunnar trúðu menn að kennarar yrðu að mestu óþarfir. Sama hefur komið upp í hvert sinn sem ný tækni hefur komið fram en ég tel að kennarar hafi aldrei verið mikilvægari en nú, en þó á annan hátt en áður. Stóra byltingin í kennslu og námi kom með internetinu sem er hægt að nýta á margan hátt í kennslunni. Það er mikil hjálp að því að geta sýnt kvikmyndir eða myndbrot af Youtube í staðinn fyrir að reyna að útskýra flókna ferla með því að teikna á töfluna eða jafnvel reyna að leika þá,“ segir Marta. „Og internetið býður líka upp á fjölbreytt og verkefnamiðuð vinnubrögð.“

Samt sem áður telur Marta að sömu grunngildin eigi við nú og þá. „Maður reynir að vera almennileg manneskja en auðvitað nær maður aldrei til allra nemenda,“ segir hún hugsi. „Annars hef ég alltaf haft lag á því að taka þessu svolítið létt. Ef illa gekk og nemendur voru ódælir þá var ég ekkert að hafa áhyggjur af því en reyndi að átta mig á því hvort ég væri að gera eitthvað rangt eða hvort eitthvað bjátaði á hjá nemendunum.“

Umgjörð kennarastarfsins í stífum skorðum
Mörtu finnst að mörgu leyti erfiðara að vera kennari nú en þegar hún var að byrja. „Ekki í kennslustundunum heldur allt þetta sem er í kringum kennsluna, reglugerðir, nákvæmar námskrár, námsmat, flóknar einkunnagjafir og svo bætast foreldrarnir við, tölvurnar og gemsarnir. Þetta kostar miklu meiri vinnu en áður.“ Þetta stífa kerfi finnst Mörtu að mörgu leyti heftandi fyrir kennarastarfið. „Kennurum leyfist ekki að nota dómgreindina og sköpunargleðina með sama hætti og áður. Það er svo mikil skráning og nákvæmni, sem kannski þarf að vera, en kennslan snýst nú fyrst og fremst um vekja áhuga nemenda á efninu og að reyna að koma krökkum til manns, hún snýst ekki um eitthvert kerfi,“ segir Marta.

„Ég hef alltaf sagt við nýja kennara að þeir verði að læra að dingla sér svolítið og taka sjálfa sig ekki of alvarlega ef þeir ætla að lifa í kennslunni.“ Og svo tekur líffræðingurinn í Mörtu til máls: „Taugasérfræðingar þykjast vera að komast að því að framheilinn sé ekki fullþroskaður fyrr en um 21 árs aldur svo það er nú ekki skrýtið að ungt fólk á framhaldsskólaaldri geti stundum verið svolítið vanstillt. Svo var alltaf verið að stækka hópana, ég kenndi stundum mörgum kröftugum íþróttastrákum í einum hóp og þá er nú eins gott að geta dinglað sér svolítið en samt haldið stjórn. Þetta gátu verið miklar orkusugur svo maður var oft dauðþreyttur þegar maður kom heim,“ rifjar Marta upp. „Þeir hlýddu mér samt en það var stundum asskollans fyrirgangur í þeim.“

„Ég hef alltaf sagt við nýja kennara að þeir verði að læra að dingla sér svolítið og taka sjálfa sig ekki of alvarlega ef þeir ætla að lifa í kennslunni.“

Best að vera maður sjálfur
Marta ber mikið traust til þeirra sem feta í fótspor hennar í kennslunni og telur að kennarar samtímans komi betur undirbúnir til leiks heldur en tíðkaðist fyrir fjórum áratugum. „Mér finnst krakkarnir sem hafa komið úr kennaranáminu flottir og vel undirbúnir. Við hoppuðum bara yfir kennaraborðið, nei, nei, en mér finnst þetta hafa batnað mikið.“

Þegar Marta er spurð að því hvort hún eigi í fórum sínum hollráð til ungra og óreyndra kennara þá finnst henni svarið krefjast inngangs: „Mér finnst mikið ábyrgðarstarf að vera kennari. Mér finnst þetta mikilvægt lífsstarf og er ánægð með að hafa valið mér það. Þó að það sé bara pínulítið sem maður leggur inn hjá hverjum nemanda þá er það mikilvægt.“

Svo heldur hún áfram: „Eitt besta ráðið sem ég fékk þegar ég var að byrja að kenna, ráð sem ég hef miðlað til kennaranema, fékk ég frá Guðmundi Eggertssyni prófessor í líffræði. Hann sagði við mig: „Marta mín, ég veit að það eru allir að gefa þér ráð en ég ætla samt að gefa þér eitt: Vertu þú sjálf því krakkarnir sjá alltaf í gegnum annað.“ Marta segist alltaf hafa haft þetta ráð í huga þegar hún var að glíma við nemendahópana sína. „Þá er maður heill í þessu. Ég man til dæmis illa mannanöfn en ég geri alltaf strax grein fyrir því. Ég útskýri fyrir nemendunum að þótt ég geti ekki ávarpað þá með nafni fyrr en í lok annar þá þekki ég þá fljótt.“

Það er samt ekki eina ráðið hennar Mörtu að vera maður sjálfur í kennarastarfinu. „Ég myndi líka gefa það ráð að undirbúa sig fyrir kennslustundir eins og maður sé að kenna námsefnið í fyrsta sinn og reyna að tengja efnið við eitthvað sem nemendur þekkja, en það breytist með breyttum tímum. Í fyrstu gat ég tengt margt við landbúnað eða sjávarútveg en nú heyrir það til undantekninga ef nemendur hafa unnið í fiski eða verið í sveit. Samt þarf maður að vera viðbúinn að breyta skyndilega um kúrs ef eitthvað kemur upp á.

Þótt maður hafi kennt efnið margoft skiptir góður undirbúningur og æfing miklu máli því kennarinn er alltaf á sviði og þarf að ná að vekja áhuga nemenda á námsefninu og virkja þá til náms. Ef það tekst vel er lítil hætta á kulnun í starfi.“

Einkasýning í undirbúningi
Það kemur í ljós að þótt kennslan og kennslugreinin hafi átt hug og hjarta Mörtu gegnum árin þá á hún sannarlega ýmis önnur hugðarefni. „Ég tel mjög mikilvægt fyrir alla, ekki síst kennara, að fást við eitthvert hugðarefni annað en starfið til þess að hreinsa hugann og hlaða batteríin. Ég söng í áratugi í kór en fátt er hollara og meira gefandi en söngur með góðu fólki,“ segir Marta.

Seinni árin hefur myndlistin svo orðið fyrirferðarmeiri í lífi Mörtu. „Fyrir um 10 árum fór ég í myndlistarskóla til að læra teikningu svo ég yrði færari að teikna á töfluna. “ Og það mátti nú nærri geta að upphafið var að Marta vildi auka færni sína í kennslunni. „Þetta varð til þess að ég varð gagntekin af myndlistinni og hélt áfram og endaði í vatnslitamálun. Ég hef sótt ótal námskeið hjá frábærum kennurum og er nýbúin að myndskreyta tvær lestrarbækur fyrir börn sem Sigríður systir mín skrifaði og komu út nú í haust. Í febrúar á næsta ári ætla ég að manna mig upp í að halda mína fyrstu einkasýningu á vatnslitamyndum.“

„Ég tel mjög mikilvægt fyrir alla, ekki síst kennara, að fást við eitthvert hugðarefni annað en starfið til þess að hreinsa hugann og hlaða batteríin."

Marta og eiginmaður hennar eiga svo sumarbústað sem þau smíðuðu sjálf ásamt syni sínum sem bæði er verkfræðingur og húsasmiður. „Þar erum við fjölskyldan mikið að dunda okkur við ýmsar framkvæmdir og viðhald.“ Það er því sannarlega ekkert aðgerðarleysi sem hefur tekið við eftir starfslok hjá Mörtu „Ég lít ekki á starfslokin sem nein endalok heldur upphaf á nýju æviskeiði þar sem maður getur látið eftir sér að glíma við ný viðfangsefni. Það er aldrei of seint að læra.“

Viðtalið við Mörtu birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. 2016.

Viðfangsefni: Kennari, Framhaldsskólinn, Líffræði