Verkefni sem auka víðsýni og starfsánægju

20.06.2017 | Skólinn

Verkefni sem auka víðsýni og starfsánægju

Kolbrún Svala Hjaltadóttir er að eigin sögn í mjög skemmtilegu starfi, en hún vinnur sem kennsluráðgjafi í tölvu- og upplýsingatækni í Flataskóla í Garðabæ. Kolbrún hefur unnið ötullega að Evrópuverkefnum, einkum á sviði eTwinning en það eru verkefni og samstarf sem fara fram á netinu.

Alls hafa 43 eTwinning-verkefni verið unnin í Flataskóla síðustu níu árin og fjögur í viðbót eru í gangi á þessari önn. eTwinning er stór skólaheimur og verður ekki útskýrður í einni setningu.

Það eru um 460 þúsund kennarar skráðir á vefinn og tæplega 18 þúsund skólar sem taka þátt í eTwinning. Frá upphafsárinu 2005 hafa verið unnin um 58 þúsund verkefni innan eTwinning.

Á vef eTwinning segir að um sé að ræða „aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum með hjálp upplýsingatækninnar.“

Tveir eða fleiri skólar vinna saman að ákveðnu verkefni og segir Kolbrún Svala að verkefnin geti verið allt frá því að standa yfir í einn dag og upp í kannski tvö ár.

„Eitt vinsælasta eTwinning-verkefnið í Flataskóla er án vafa söngvakeppnin sem ber yfirskriftina Schoolovision og er í sama dúr og Eurovision. Við erum svo heppin að vera þátttakendur í keppninni því aðeins einn skóli í hverju Evrópulandi fær að taka þátt. Verkefnið er í raun þannig að þátttökuskólarnir senda lag á myndbandi og greiða hinir þátttökuskólarnir öllum atkvæði og svo er bein útsending á föstudeginum fyrir lokakeppni Eurovision um hvaða röð er á skólunum. Stigagjöf er í anda Eurovision og krakkarnir hafa mjög gaman að þessu. Þetta varð til þess að við höldum undankeppni hér í skólanum til að velja framlag skólans,“ segir Kolbrún.

Fyrstu bekkingar senda refinn til Evrópu
Hún tekur dæmi af öðru verkefni sem er í gangi í 1. bekk en þar eru börnin að læra um villt dýr. „Þau eru að læra um refinn og hafa búið til upplýsingaspjald með mynd af refnum og ýmsum upplýsingum. Í þessu tilfelli sendum við myndefnið í pósti til þeirra tuttugu skóla sem taka þátt í verkefninu víðs vegar um Evrópu. Spennan er alltaf mikil þegar pósturinn berst og börnin skoða hvaða villt dýr er til umfjöllunar, frá hvaða landi það kemur og hvað er sérstakt við það. Það er heilmikið nám í þessu verkefni.“

Aðspurð hvort það sé flókið ferli að fara inn í eTwinning-samfélagið þá segir Kolbrún að svo sé alls ekki. „Leiðirnar eru nokkrar og engin þeirra sérlega flókin. Kennari getur tengt sig við annan skóla og kannað grundvöll á samstarfi um verkefni, það þarf alltaf tvo til. Hann getur fundið verkefni á vefnum og beðið um að fá að taka þátt í því eða búið til nýtt með öðrum kennara/skóla. Þá þarf að skrá niður lýsingu á verkefninu, markmið, hvað á að gera og hvernig. Þegar það er klárt er verkefnalýsingin send til Rannís og það tekur mjög stuttan tíma að fá það samþykkt, oftast ekki meira en sólarhring. Þegar verkefnið hefur verið samþykkt þá er hægt að bjóða fleiri skólum í Evrópu að taka þátt,“ segir Kolbrún.
Verkefni innan eTwinning kosta auðvitað oft töluverða vinnu en Kolbrún segir einn kostinn þann að þegar kennarar hafa tekið þátt í nokkrum slíkum verkefnum þá séu þeir oft tilbúnir að taka þátt í stærri verkefnum, svo sem Comeniusar- og Erasmus-verkefnum sem njóta oft verulegra styrkja frá Evrópusambandinu.

Kolbrún segir engan vafa leika á að þátttaka í eTwinning sé gagnleg fyrir kennara. „Samvinna af þessu tagi víkkar sjóndeildarhringinn og getur verið hin besta endurmenntun. Kennarar kynnast öðrum starfsháttum, hugmyndir að nýjum verkefnum og vinnuaðferðum kvikna og þeir eignast nýja félaga í hópi kollega. Þá má ekki gleyma nemendum sem fá nýja sýn á heiminn, verða víðsýnni og átta sig á hverju er hægt að áorka þegar unnið er að saman að einu markmiði.“

Mjög gefandi fyrir kennara og nemendur
Nemendum finnst spennandi að vinna eTwinning verkefni og geta fylgst með hvernig aðrir vinna samskonar verkefni og þeir. Allt efni verkefnisins er hægt að geyma á sérstöku vinnusvæði sem fylgir verkefninu (TwinSpace). Netið gefur einnig möguleika á að tengjast beint inn í skólastofur samvinnuskólanna og spjalla og eiga myndræn samskipti við hina nemendurna.

„Það hefur auk þess gildi fyrir nemendur að búa til hluti eða leysa verkefni sem eru ekki bara fyrir kennarann og bekkjarfélaga heldur jafnaldra í skólum í öðrum löndum.“
Þá er það frekar nýtilkomið að kennarar geta sótt um að stofna verkefni á íslensku.

„Það er til mikilla bóta því sumir kennarar víluðu fyrir sér að leggja út í verkefni vegna þess að þeim fannst þeir ekki nógu góðir í ensku.“

Kolbrún er mjög áfram um að hvetja kennara til þátttöku í eTwinning-verkefnum. Hún hefur eins og fram hefur komið mikla reynslu í þessu efni og því ekki úr vegi að enda spjallið á að biðja hana um fáein góð ráð til kennara sem hafa áhuga á að prófa eTwinning.

„Já, það fyrsta sem ég mæli með er að kennarar skrái sig í eTwinning og skoði sig um á umræðusvæðinu, sem kallast forum, en þar detta inn umræðuþræðir og hugmyndir að verkefnum á hverri mínútu. Kennari getur varpað fram hugmynd án skuldbindinga og séð hver viðbrögðin verða. Það er mikilvægt að hafa efnislínuna skýra og áhugaverða. Svo er annað sem kennarar þurfa að gæta að og það er aðlaga eTwinning-verkefni að því námsefni sem þeir eru að vinna með. Það er ekki skynsamlegt að bæta miklu við sig, betra að sleppa einhverju, og reyna að fella verkefnið að markmiðum sem þegar hafa verið sett. Það er engin spurning að þessi verkefni geta verið mjög gefandi fyrir kennara og nemendur, en munum að lítið og einfalt er oftast vænlegast til árangurs,“ segir Kolbrún Svala Hjaltadóttir.

eTwinning í hnotskurn

  1. eTwinning býður endurgjaldslaust upp á stuðning, rafræn verkfæri og þjónustu til þess að skólar geti stofnað til samstarfs í lengri eða skemmri tíma á sem einfaldastan hátt.
  2. Skráningu kennara og skóla fylgir aðgangur að eigin vefsvæði þar sem auðvelt er að finna samstarfsaðila.
  3. eTwinning verkefni eru unnin af tveimur eða fleiri kennurum frá mismunandi Evrópulöndum. Verkefni geta verið hvernig sem er, stór eða smá og til lengri eða skemmri tíma, svo framarlega að þau falli að kennsluskrá og uppeldismarkmiðum hvers skóla.
  4. TwinSpace er eins konar rafræn kennslustofa sem auðveldar vinnuna við verkefnin og að halda utan um þau. TwinSpace er öruggt svæði sem einungis viðkomandi nemendur og kennarar hafa aðgang að.
  5. Allar kennslugreinar eru gjaldgengar í eTwinning.
  6. Frír aðgangur að ýmis konar veftækjum fylgir þátttöku í eTwinning.
  7. Sveigjanleiki í fyrirrúmi! Engir umsóknarfrestir, engar skýrslur og (nánast) engar reglur. Einkunnarorð eTwinning eru:
  8. KISS – Keep it Small and Simple.
  9. Heimild: vefsíða Flataskóla, www.flataskoli.is

Greinin birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2017.

Viðfangsefni: Evrópusamstarf, eTwinning, Samskiptaverkefni