Verkefnadagar í stað prófadaga

19.05.2016 | Skólinn

Verkefnadagar í stað prófadaga

Í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ ríkir góður vinnuandi. Nemendur eru þar sjálfir í ­bílstjórasætinu varðandi nám sitt og hlutverk kennaranna er að styðja þá í því. Steinunn Stefáns­dóttir kynnti sér skólann og tók Jón Eggert Bragason, settan skólameistara, tali.

Það er einstaklega hlýlegt að ganga inn í anddyri Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Það er bjart, hátt til lofts og vítt til veggja og við blasa stigar upp á efr hæðir hússins. Útsendari Skólavörðunnar fann sig þess vegna knúinn til að biðja Jón Eggert Bragason, settan skólameistara skólans, um að hefja heimsóknina í skólann á hringferð um skólabygginguna. Meginefni heimsóknarinnar var þó að fræðast um skólastarfið og þá einkum þá þætti innra starfs sem eru ólíkir því sem þekkist í meginþorra íslensra framhaldsskóla. Þegar betur er að gáð er það eiginlega ekki útúrdúr að byrja á því að skoða skólabygginguna því hún er byggð utan um þá hugmyndafræði sem birtist í kennsluháttunum.

Skólinn er á þremur hæðum og samanstendur af sex klösum, einum á fyrstu hæð, þremur á annarri og tveimur á þeirri þriðju. Með klösum er átt við einingar sem allar eru svipaðrar stærðar og hafa sömu þrískiptu uppbygginguna, þ.e. þær hafa tvö stór kennslurými, yfirleitt þrjú minni kennslu- eða fundarrými og svo opin svæði á milli. Engir tveir klasanna eru eins, og húsbúnaðurinn í kennslurýmunum er afar mismunandi, en þar geta verið borð og stólar, eingöngu stólar og engin borð þar sem markmiðið er fyrst og fremst að tala saman, eða sófi og lágir stólar. Þá eru opnu svæðin mjög ólík og sums staðar er að finna litla ranghala þar sem ríkir mikill friður og þegar best lætur er friðurinn skreyttur með mögnuðu útsýni til Esjunnar.

Fjölbreyttir kennsluhættir
Þegar inn á skrifstofu skólameistara er komið víkur Jón Eggert beint að því sem liggur honum mest á hjarta: „Við erum hér með afar samstæðan og áhugasaman starfsmannahóp og það er helsta skrautfjörður skólans,“ segir hann. „Nánast allir kennarar skólans hafa lokið mastersgráðu og áhugi þeirra á því að þróa sig í starfi er áberandi. Eitt af markmiðunum er að koma því inn hjá nemendum að þeir þurfi sjálfir að vinna að sínu námi til þess að ná árangri.“

Á heimasíðu skólans kemur fram að kennsluhættir einkennist af því að ­„nemendur verði virkir þátttakendur í eigin námi og öðlist þannig sjálfstæði og frumkvæði. Til að ná þessu fram verða notaðar fjölbreyttar verkefnamiðaðar ­kennsluaðferðir þar sem hugmyndafræðin gengur út á að nemandinn tileinki sér námsefnið í gegnum verkefni sem hann vinnur eða umræður sem hann tekur þátt í.“

Það blasir því við að spyrja Jón Eggert hvernig þetta sé raungert í daglegu skólastarfi og hvernig kennslustundir í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ séu byggðar upp. Jón Eggert svarar því til að uppbygging kennslustunda sé mismunandi eftir kennurum en mikil verkefnavinna nemenda sé alger þungamiðja námsins og þeirri vinnu stýri kennarinn ýmist með innlögnum eða leiðbeiningum til nemenda, hvort sem um er að ræða einstaklings- eða hópaverkefni.

Með þessum kennsluaðferðum er, að mati Jóns Eggerts, mun hægara að koma við einstaklingsmiðuðu námi þar sem hver nemandi eigi þess kost að glíma við verkefni sem falla að getu hans og áhugasviði. Þarna kemur húsaskipanin að góðum notum þar sem misstórir hópar geta dregið sig í hlé inn í minni stofurnar eða komið sér fyrir á opnum svæðum. Kennsluhættir í skólanum eru þannig fjölbreyttir og kennarinn er ekki alltaf í hlutverki verkstjórans heldur er nemendunum sjálfum iðulega treyst til að stýra vinnu sinni.

Skil verkefnanna eru einnig með margvíslegum hætti og alls ekki bara á skriflegu formi. Nemendur kynna til dæmis oft verkefni sín fyrir öðrum nemendum á fjölbreytilegan máta. Þar getur verið um að ræða leikræna framsetningu, myndband eða jafnvel hreyfimynd. Námsmatið fer svo fram jafnt og þétt frá upphafi til loka annarinnar og gegnir ekki aðeins því hlutverki að leggja mat á frammistöðu nemandans heldur ekki síður að leiðsegja honum á þann hátt að það nýtist honum við næsta verkefni.

Leiðsagnarmat
Þá erum við komin að öðrum þætti þar sem Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hefur markað sér sérstöðu. Það er á sviði námsmatsaðferða þar sem skólinn notar alfarið svokallað leiðsagnarmat: „Leiðsagnarmat er ekki bara matsaðferð heldur kennsluaðferð,“ segir Jón Eggert. „Kennsluhættirnir í skólanum eru fjölbreyttir og kennararnir eru mjög frjálsir þegar kemur að því að velja aðferðir og leiðir í kennslu. Hver áfangi verður samt að enda á einkunn í tölustöfum, við erum bundin af því,“ segir hann og það er greinilegt að hann er ekki alls kostar ánægður með skorðurnar sem hugmyndafræði skólans eru settar með þessu. „Hið raunverulega námsmat liggur þó ekki í þessum tölum heldur í endurgjöfinni sem nemandinn hefur fengið á önninni. Svo hefur þróunin meira að segja verið sú að munnleg endurgjöf er að aukast á kostnað skriflegrar.“ Munnleg endurgjöf á sér stað í samtali milli nemanda og kennara þar sem verkefnið er til umræðu. Með því að kennarinn skili námsmati í slíku samtali á nemandinn þess kost að bregðast við og til dæmis spyrja ef honum finnst eitthvað óljóst. „Nokkrir kennarar eru að þróa svokallaðar vörðuvikur þar sem kennari sest niður með hverjum og einum nemanda, metur stöðuna með honum og nemandinn setur sér ný markmið.“

Misserunum í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ lýkur ekki með tveggja vikna prófatörn eins og flestir framhaldsskólar hafa skipulagt fram að þessu, en það skipulag er raunar að taka breytingum þessi misserin þar sem skil á milli kennslu- og prófadaga hafa verið aflögð samkvæmt nýjum kjarasamningum. „Við erum ekki með nein formleg próf í annarlok en kennarar geta samt sem áður lagt fyrir próf hvenær sem er á misserinu. Hins vegar eru síðustu átta dagar hvers misseris verkefnadagar. Þá er kennslan brotin upp og hver grein kennd í lengri lotum, en það eru engin formleg próf. Þetta er uppgjörstími, ekki prófatími.“

Kennsluhættirnir í skólanum eru fjölbreyttir og kennararnir eru mjög frjálsir þegar kemur að því að velja aðferðir og leiðir í kennslu

Jón Eggert bendir á að þetta fyrirkomulag námsmats geri kröfu til þess að nemendur vinni jafnt og þétt yfir alla önnina. „Það er nauðsynlegt að vinna frá viku til viku til að ljúka sínum áföngum, það dugar ekki að slá slöku við fram eftir misseri og ætla svo að bjarga sér á lokasprettinum. Það er einfaldlega ekki hægt.“

Jón Eggert segir aðspurður að bæði kennslu- og námsmatsaðferðir skólans mælist vel fyrir bæði meðal nemenda og foreldra þeirra. Hann segir að vitanlega eigi þetta kerfi misvel við nemendur en fullyrðir þó að sá munur tengist ekki námshæfileikum nemenda, því að leiðsagnarmat henti vel bæði þeim sem auðvelt eiga með nám og hinum sem þurfa meira aðhald og leiðsögn.

Auðlindir og umhverfi
Auk kennsluaðferða og námsmats hefur Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ markað sér þá sérstöðu að hann kennir sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi og fléttast þær áherslur saman við skólastarfið. Með auðlindum er bæði átt við auðlindir í náttúrunni og mannauð sem leiðir til áherslu á lýðheilsu og menningarlegar auðlindir. Til að undirstrika þessa áherslu eru umhverfismennt og lýðheilsa kjarnagreinar í skólanum.

Sjálft skólahúsnæðið styður við umhverfisáherslurnar. Það var byggt með vistvæn sjónarmið að leiðarljósi og grasið á þaki hússins hefur skírskotun í náttúruna. Í skólanum er leitast við að draga úr notkun einnota umbúða og ekki þarf að taka fram að sorp er flokkað. Sem stendur er unnið að því að skólinn fái viðurkenningu sem Grænfánaskóli.

Skólastarf í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ hófst haustið 2009 í Brúarlandi og þar var bætt við lausum kennslustofum eftir því sem nemendum fjölgaði. Skólinn fluttist svo í nýja húsnæðið í ársbyrjun 2014. Nú eru um 370 nemendur í skólanum og eru þeir til muna fleiri en meðan skólinn var í Brúarlandi. Um helmingur nemenda skólans er úr Mosfellsbæ og hefur hlutfall Mosfellinga vaxið ár frá ári. „Skólinn annar ekki lengur eftirspurn. Auðvitað vildum við helst vera með eins marga nemendur og húsnæðið getur borið, eða 500 til 550, en við höfum ekki fjárveitingu fyrir fleiri nemendum enn sem komið er,“ segir Jón Eggert og bætir því við að hlutfall nýnema sem komi beint úr grunnskóla fari stöðugt hækkandi.

Skólinn annar ekki lengur eftirspurn. Auðvitað vildum við helst vera með eins marga nemendur og húsnæðið getur borið, eða 500 til 550, en við höfum ekki fjárveitingu fyrir fleiri nemendum enn sem komið er

Ræktun mannauðs
Eins og fram kom í upphafi er Jón Eggert afar ánægður með starfsmannahópinn í skólanum. Að hans mati er andrúmsloftið þar gott og einkennist af virðingu fyrir nemendum og einlægum áhuga á velferð þeirra og námi.

Undir þetta er sannarlega tekið í grein Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar og Valgerðar S. Bjarnadóttur í Critical ­Studies in Education sem birtist á vefritinu Taylor & Francis Online, og ber titilinn Meaningful education for returning-to-school students in a comprehensive upper secondary school in Iceland. Í rannsókninni að baki greininni er rætt við nokkra nemendur ­Framhaldsskólans í Mosfellsbæ sem eiga það sameiginlegt að hafa fallið brott úr framhaldsskólanámi í öðrum skólum. Þessum nemendum ber öllum saman um að hvergi hafi þeir fundið fyrir jafneinlægum áhuga kennara á velferð þeirra eins og í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ, og einn þeirra segir til að undirstrika þessa skoðun sína: „Þetta er greinilega stefna þeirra… það er augljóst að þau halda einhvers konar starfsmannafundi eða eitthvað, þar sem þau koma sér saman um þetta.“

Þegar gengið er um húsakynni Framhaldsskólans í Mosfellsbæ dylst engum að þessi stefna sem nemandinn talar um liggur í loftinu. Hún finnst í gegnum lágværan vinnukliðinn bæði í kennslustofum og opnum rýmum og í glaðværðinni sem er við völd í matsal skólans þegar útsendari Skólavörðunnar yfirgefur hann skömmu fyrir hádegi á annasömum skóladegi.

Mynd: Kennsluhættir í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ eru fjölbreyttir og nemendur stýra að miklu leyti vinnu sinni sjálfir. Ljósmynd Anton Brink.

Greinin birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2016.

Anton Brink tók myndir í skólanum. Sjón er sögu ríkari.