Tónsnillingar framtíðarinnar í Eldborg

15.04.2016 | Skólinn

Tónsnillingar framtíðarinnar í Eldborg

Tónlistarnemendur af öllu landinu, á öllum aldri og á öllum stigum tónlistarnámsins komu fram og léku listir sínar á lokahátíð Nótunnar 2016 sem haldin var í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 10. apríl.

Það er óhætt að segja að ferskir vindar hafi leikið um Eldborg þar sem Nót-ungar frá öllum landshornum tóku stóra sviðið með trompi eins og enginn væri morgundagurinn. Sólargeislar lýstu upp umhverfið – og framtíðin var björt.

Menning og listastarf barna og ungmenna, einnar dýrmætustu auðlind þjóðarinnar, er undirstaða heilbrigðar og skapandi framtíðar sem okkur ber skylda að leggja rækt við.

Um 140 tónlistarnemendur frá tuttugu og tveimur tónlistarskólum tóku þátt í lokahátíð Nótunnar og sýndu svo sannarlega að starf tónlistarskóla út um land allt ber ríkulegan ávöxt í þágu jákvæðrar samfélagsþróunar.

Hver hlekkur, hver nóta og hver skóli hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Það er vegna þessa nets tónlistarskóla út um allt land sem tónlistarskólakerfið á Íslandi hefur vakið verðskuldaða eftirtekt langt út fyrir landsteinana.

Fyrir tilstuðlan samlegðaráhrifa þessa kerfis „grasrótar tónlistarsköpunar“ skilar tónlistarfræðsla á Íslandi svo arðbærri afurð sem raun ber vitni.

Okkur ber að leggja rækt við menningu og listastarf barna og ungmenna - ungir skapandi Íslendingar eru vaxtarsprotar sjálfbærrar framtíðar. Til hamingju Ísland!

Um Nótuna

Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskóla er samstarfsverkefni Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, Samtaka tónlistarskólastjóra, Tónastöðvarinnar, Töfrahurðar og Tónlistarsafns Íslands. Á Nótunni 2016 bættist Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í hóp samstarfsaðila.

Tónlistarskólar landsins eru um níutíu talsins og um 15.000 nemendur stunda nám innan tónlistarskólakerfisins. Með uppskeruhátíðinni er kastljósinu beint að samfélagi tónlistarskóla og tónlistarnemendum veittar viðurkenningar fyrir afrakstur vinnu sinnar.