Það þarf að hlúa betur að kennurum

13.07.2018 | Skólinn

Það þarf að hlúa betur að kennurum

„Væntingar mínar til námsins voru í upphafi frekar litlar. Ég vissi eiginlega ekki alveg hvað ég væri að fara út í. Svo þegar leið á árin jukust væntingar mínar meira og meira og ég myndi segja að ég hafi búist við því að kennaradeildin myndi undirbúa mig fyrir að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem kennarar mæta daglega,“ segir Sveinn Leó.

„Kennarastarfið er einfaldlega þannig að nám getur aldrei undirbúið kennara fyrir allt sem mun koma upp á í starfinu sjálfu.“

Sveinn Leó Bogason ólst upp á Akureyri og flutti til Reykjavíkur ásamt móður sinni árið 2006. Hann fór í Menntaskólann við Sund og þaðan í Háskóla Íslands en hóf nám í hagfræði haustið 2011. Hann ákvað hins vegar vorið 2012 að fara í kennaranám og hóf það nám um haustið við kennaradeild Háskóla Íslands og lagði áherslu á stærðfræðikennslu.

„Það sem heillaði mig við kennarastarfið var hversu lifandi og aktívt það er. Það og að vinna með fólki var eitthvað sem heillaði mig töluvert meira en að sitja fyrir framan tölvuskjá allan daginn. Ég get ekki sagt að þetta hafi verið draumur lengi en ég hafði alveg hugsað til þess.“

Væntingarnar jukust
Sveinn Leó segir að væntingar sínar til námsins hafi í upphafi verið frekar litlar.

„Ég vissi eiginlega ekki alveg hvað ég væri að fara út í. Svo þegar leið á árin jukust væntingar mínar meira og meira. Ég myndi segja að ég hafi búist við því að kennaradeildin myndi undirbúa mig fyrir að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem kennarar mæta daglega og gefa mér innsýn í það hvað felst í starfi kennara ásamt því að gera mig ekki eingöngu í stakk búinn að tækla þau viðfangsefni sem fengist er við innan stærðfræðinnar, fræðigreinar minnar, heldur einnig að vera vel að mér um til hvers er ætlast til af nemendum á hverju stigi skólagöngunnar.“

Stærðfræði á unglingastigi
Sveinn Leó vildi helst kenna á unglingastigi. „Það er einfaldlega vegna þess að mér þykir skemmtilegast að vinna með unglingum og finnst það stærðfræðinám sem fer fram á unglingastigi áhugaverðara en á öðrum stigum. Einnig hafði ég sérhæft mig að unglingstigskennslu í náminu. Lítið var um stærðfræðikennarastöður á Akureyri en ég var einnig tilbúinn að kenna á miðstigi í skóla þar sem ég sá fram á að fá tækifæri til að kenna stærðfræði á unglingastigi. Ég leit á það sem þrep á leið minni í starfið sem mig dreymir um og að ef ég myndi standa mig vel í því starfi fengi ég tækifærið fyrr en seinna.“

Kennari á miðstigi
Hann fékk vinnu sem umsjónarkennari á miðstigi, sem og stærðfræðikennari á sama stigi, í Glerárskóla og flutti norður eftir útskrift í fyrra og segist hann kunna vel við sig.

„Þegar kom að skólasetningu var ég frekar spenntur en stressaður. Auðvitað var smástress því ég vissi ekkert í hvað ég var kominn. Allt í einu var ég orðinn umsjónarkennari á miðstigi þó ég hefði aldrei farið í vettvangsnám á öðrum stigum en unglingastigi og fannst ég einhvern veginn ekki þekkja þann heim. Það var samt mikil tilhlökkun og ég var í raun staðráðinn í að standa mig vel. Hins vegar var ég örlítið órólegur með að fara að kenna greinar sem ég hafði ekki kennt áður og hafði jafnvel aldrei lesið mér til um hluta þeirra í aðalnámskrá grunnskóla. Svo þegar nemendur ásamt foreldrum voru komnir inn í stofuna og sestir í sætin þá leið mér bara frekar vel og var spenntur. Það var í raun ekkert sem kom á óvart nema kannski hvað allir voru eitthvað spenntir að fá nýjan, tiltölulega ungan kennara.“

Mætti laga ýmsa þætti
Sveinn Leó segir að kennarastarfið sé einfaldlega þannig að kennaranám geti aldrei undirbúið kennara fyrir allt sem mun koma upp á í starfinu sjálfu.

„Það er að mínu mati hluti af ástæðunni fyrir því að starfið er skemmtilegt en það gerir það líka að verkum að kennaranámið verður að einhverju leyti ekki fullnægjandi til þess að undirbúa verðandi kennara til að sinna starfinu. Kennaranám getur hins vegar boðið nemendum upp á að sjá hversu fjölbreytt og margbreytilegt kennarastarfið er og ég tel að kennaradeild Háskóla Íslands hafi gert það nokkuð vel.

Vissulega eru þættir sem mætti laga og til dæmis held ég að kandídatsár þar sem nemendur fá einfaldlega að vinna sem kennarar í heilt ár sé risastórt skref í þá átt að bæta kennaranámið. Hvað agamál varðar eru mismunandi skólar með mismunandi leiðir til að taka á slíkum málum, hversu alvarleg sem þau eru, svo erfitt getur reynst fyrir Kennaradeild Háskóla Íslands að fara yfir allar þær mismunandi leiðir. Hið sama má segja um eineltismál, foreldrasamskipti og margt fleira. Kennaranámið verður að gefa nemendum tækifæri til að átta sig á því að hlutunum er háttað á mismunandi vegu og að það sé að mörgu leyti undir kennurunum sjálfum komið að bregðast við slíkum aðstæðum.

Svo er vert að taka það fram að með ­sterkri stjórnun skólastjórnenda eiga nýútskrifaðir kennarar að geta leitað til þeirra og fengið ráð ef eitthvað kemur upp á. Í mínu tilfelli er ég til að mynda ævinlega þakklátur fyrir þær móttökur sem ég hef fengið á mínum vinnustað. Þar virðast allir vilja róa í sömu átt og hjálpast að við þau mál sem koma upp á borð. Hvort sem það eru skólastjórnendur, ritari skólans eða samkennarar hef ég alltaf getað leitað til þeirra og fengið ráð, alveg sama hvort er til dæmis um agamál að ræða eða einfaldlega hvernig hægt er að setja upp verkefni eða skrá í Mentor.“

Aukið sjálfstraust
Sveinn Leó segir að hann sé nú miklu meðvitaðri um það starf sem fer fram innan skólans en þegar hann hóf þar störf og nefnir agamál og samskipti við foreldra sem dæmi.

„Einnig finnst mér ég einhvern veginn hafa meira sjálfstraust til að fara út fyrir rammann og prófa nýja hluti. Starfsþróunin felst kannski að einhverju leyti í því að hafa meiri trú á sjálfum sér og vera þar með frekar tilbúinn að prófa nýja hluti.“

Hann segir að ef eitthvað hafi komið sér á óvart í kennslunni sé það helst hversu sterk skólamenning getur verið. „Ég tel það jákvætt að skólar eigi sínar hefðir sem þeir viðhalda eftir bestu getu. Einnig get ég nefnt hversu takmarkaður undirbúningstími kennara getur verið og tel ég að það ætti að vera ofarlega í forgangsröðun þeirra sem semja fyrir hönd kennara í komandi kjaradeilum að auka þann tíma eins mikið og mögulegt er.

Mig langar líka að nefna úrræðaleysi fyrir þá nemendur sem þrífast illa inni í 24 manna bekk. Það kom mér örlítið á óvart hversu fá úrræði eru oft og tíðum fyrir þá nemendur og hvernig kennarar standa stundum einir á báti hvað þá varðar.“

Stærðfræði
Þegar Sveinn Leó er beðinn um að lýsa sér sem kennara segir hann: „Áhugasamur, skemmtilegur, fyndinn og uppátækjasamur.“

Hver eru svo framtíðarsýn og markmið hans sem kennara?

„Framtíðarsýn mín og markmið eru að mörgu leyti þau að verða kennari sem er ekki sama um nemendur sína og hefur áhuga á því sem hann er að gera. Mig dreymir um að vera sá kennari sem nemendur muna eftir frá skólaárum sínum. Með það að leiðarljósi langar mig að vera kennari sem þorir að fara öðruvísi leiðir til að ná markmiðum sínum og vekja áhuga nemenda. Áhugi á námi, og þá sérstaklega stærðfræði, er mér mjög hugleikinn og mig langar að reyna að vekja áhuga nemenda minna á stærðfræði og hversu frábær, skemmtileg og frumleg fræðigrein hún er í raun og veru.“

Mætti bæta þjónustu
Sveinn Leó segir að ýmislegt megi bæta í skólakerfinu.

„Það mætti bæta þá þjónustu sem er í boði fyrir nemendur sem eru á sitt hvorum enda hins akademíska litrófs; það er nemendur sem ætla sér ekki að stefna á bóklegt framhaldsnám og eru ekki sterkir í bóknámi og þá nemendur sem standa öðrum framar og teljast til afburðanemenda. Við verðum að haga hlutunum þannig að þessir nemendur fái tækifæri til að að blómstra á sínum eigin grundvelli án þess þó að gleyma þeim sem á milli þeirra eru. Einnig mættum við hlúa betur að kennurum svo þeir endist betur og lengur í starfi. Svo mætti skólakerfið einnig vera töluvert betur statt hvað tæknilegar hliðar varðar; að skólar fái fjármagn til að geta fjárfest í tölvum, spjaldtölvum, snúrum og öðrum tæknibúnaði sem gerir þeim kleift að sinna þeirri vinnu sem þeim er skylt að gera. Það á einnig við um viðhald og stjórnun á þeim hlutum sem gæti meðal annars verið í formi þess að hver skóli fengi fjármagn til að vera með tölvu- eða tækniumsjónarmann í fullu starfi.“

Greinin birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2018. Lestu blaðið hér.

Svava Jónsdóttir

blaðamaður
Viðfangsefni: Grunnskólinn, Kennaranám