Grunnskólakrakkar keppa um Siljuna

15.03.2016 | Skólinn

Grunnskólakrakkar keppa um Siljuna

Barnabókasetur stendur fyrir myndbandasamkeppninni Siljjunni fyrir nemendur í 5. til 10. bekk grunnskóla. Keppt er í tveimur flokkum, 5. til 7. bekk og 8. til 10. bekk.

Markmið myndbandakeppninnar er að hvetja börn og unglinga til að lesa og tjá sig um bækurnar sem þau lesa. „Með því að gera lestur barna og unglinga sýnilegri og virkja hina ungu lesendur til jafningjafræðslu getum við fjölgað lestrarhestunum – fengið fleiri til að brokka af stað – og gert lestur að spennandi tómstundaiðju,“ segir í tilkynningu Barnabókaseturs.

Reglur keppninnar eru einfaldar. Fjalla skal um eina barna- eða unglingabók að eigin vali í hverju myndbandi. Bókin þarf að hafa komið út á íslensku á árunum 2014-2015. Hvert myndband skal vera 2 til 3 mínútur að lengd. Vista skal myndböndin á netinu, til dæmis á Youtube, og senda slóðina ásamt upplýsingum á netfangið barnabokasetur@unak.is. Skilafrestur rennur út 20. mars.

Öll myndböndin verður hægt að skoða á netinu og þá verða valin myndbönd tengd við einn fjölsóttasta vef landsins, gegnir.is, þar sem þau munu koma að góðum notum þegar börn og unglingar leita sér að lesefni.

Verðlaunin eru glæsileg; 1. verðlaun eru 25 þúsund krónur, 2. verðlaun 15 þúsund krónur og þriðju verðlaun 10 þúsund krónur. Að auki færi skólasafn í skóla sigurvegarans 100 þúsund króna bókaúttekt frá Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Börn hvetji önnur börn til lesturs

Siljan hóf göngu sína í fyrra en þá var keppnin bundin við Eyjafjörð. Brynhildur Þórarinsdóttir, sem er ein þeirra sem leiðir starf Barnabókaseturs, sagði í viðtali við Skólavörðuna í desember 2015 að keppnin hafi tekist afar vel, þátttaka hafi verið góð og krakkarnir sýndu mikið hugmyndaflug og kunnáttu við gerð myndbandanna.

„Markmiðið var auðvitað að hvetja börn til að lesa, tala um bókina sína og nota jafningjafræðslu ti að fá önnur börn til að lesa. Það hefur sýnt sig að það er mjög virk leið til að efla lestraráhuga að krakkarnir sjálfir togi aðra krakka áfram,“ sagði Brynhildur.

Siljan er kennd við Silju Aðalsteinsdóttur bókmenntafræðing og ritstjóra.

Verðlaunahafar Siljunnar í fyrra voru þeir Adam Ingi Viðarsson og Jón Páll Norðfjörð. Þeir gerðu myndband sem ber titilinn: Brosbókin the Movie og fjallar um Brosbókina eftir Jónu Valborgu Árnadóttur.


Viðfangsefni: Lestur, Læsi, Siljan, Myndbandakeppni, Grunnskólar