Nemendur vaxa, verða að eldflaugum!

05.09.2018 | Skólinn

Nemendur vaxa, verða að eldflaugum!

Námsgreinarnar sem eru undir eru íslenska, náttúrufræði og samfélagsgreinar og upplýsingatæknin er nýtt í gegnum allt ferlið hjá nemendum. Mikil áhersla er á ritun og fjölbreytta notkun íslenskunnar í allri vinnunni. Þetta er fyrsti veturinn sem verkefnið fer formlega í gang og taka níundi og tíundi bekkur þátt. Þeir tímar sem áður voru merktir sem íslenska, samfélagsfræði og náttúrufræði í stundatöflu eru nú undir heitinu Smiðja og telja 15 tíma á viku. Inn í þetta bætast tímar sem voru bundið val áður. Verkefnið í heild sinni ber nafnið Smiðja í skapandi skólastarfi en orðið Sprellifix er notað yfir þemabundnu loturnar sem námið fer fram í. Erfitt er að útskýra orðið sjálft en það hefur sérstaka merkingu fyrir alla þá sem koma að Smiðjunni.

Kennararnir vildu nota nýtt orð sem hefði ekki fyrir fram gefið gildi í skólastarfi. Þeir vildu t.d. hvorki nota orðin þema eða lota enda hefur Sprellifix merkingu sem inniheldur hvort tveggja og meira til. Sprellifix er tveggja til fjögurra vikna lota þar sem unnið er eftir ákveðnu þema. Nú á vordögum eru nemendur að vinna í Sprellifixinu stuð, stuð, stuð í 10. bekk þar sem þemað er rafmagn og hljóð og fókusinn er í grunninn á eðlisfræðiþáttinn þó að samfélag, hönnun og listir fléttist þar inn. Í níunda bekk er í Sprellifixinu heimsyfirráð eða dauði með áherslu á síðari heimsstyrjöldina. Út frá þessum þemum eru unnin fjölbreytt verkefni, rannsóknir og tilraunir sem þjálfa ýmsa og ólíka færni.

Björgvin Ívar Guðbrandsson, kennari í Langholtsskóla, er hluti af teymi kennara ásamt Hjalta Halldórssyni, Söndru Ýr Andrésdóttur og Dögg Láru Sigurgeirsdóttur sem eru að innleiða nýja kennsluhætti undir heitinu Smiðja. Björgvin var í viðtali við Skólavörðuna fyrir fimm árum þar sem hann fjallaði um tengsl sköpunar og upplýsingatækni í Langholtsskóla. Á þessum fimm árum hefur þróunin orðið mikil og í raun má segja að skipulagið í dag sé sprottið úr vinnunni sem fjallað var um þá, þeirri vinnu sem farið hefur fram í skólanum við innleiðingu á nýrri námskrá og nýju námsmati og öðrum verkefnum sem aðrir kennarar við Langholtsskóla hafa þróað og sett í gang og hafa á einn eða annan hátt gengið út á samþættingu námsgreina og teymisvinnu kennara. Í Smiðju er þetta allt sett saman í einn heildarpakka.

Við erum að búa nemandann undir að vera stafrænn borgari. Við kennum nemendum að virða siðferði við notkun tækja og miðla.

Fyrir fimm árum lagði Björgvin áherslu á að nýta upplýsingatækni í kennslu og láta hana renna saman við annað nám. Í dag er upplýsingatæknin tekin inn í aðrar námsgreinar og lykillinn að þeirri vinnu er að nemendur hafi góðan aðgang að nýjustu tækni. Nemendur í níunda og tíunda bekk í Langholtsskóla eru allir með iPad og á næsta ári verður öll unglingadeildin komin með þá. Allt er rafrænt í Smiðju og kennslukerfið er Google Classroom en í því eru verkefnin lögð fyrir og þeim skilað.

Nemandinn temji sér skapandi og gagnrýna hugsun
„Um er að ræða verkefnatengda nálgun en hvert Sprellifix nær yfir 2-4 vikur. Nemendur fá ákveðinn fjölda skylduverkefna en einnig útbúa kennarar 15-20 valverkefni og þurfa nemendur að velja að lágmarki tvö þeirra. Í vinnunni er áhersla lögð á að nemandinn öðlist skilning á þeim hugtökum og þeim efnisatriðum sem liggja fyrir og vinni fjölbreytt verkefni. Verkefnin reyna á lausnamiðaða nálgun, öflun upplýsinga, úrvinnslu og miðlun. Áhersla er lögð á að nota fjölbreytta verkferla í vinnunni t.d. við greiningu og notkun heimilda, við rannsóknir og hönnun, í samvinnu og umræðum og við þá fjölbreyttu miðlun sem á sér stað. Nemendur voru í einni lotunni að vinna með erfðafræði. Þá var farið í heimsókn í Íslenska erfðagreiningu og einhverjir nemendur höfðu sjálfir samband við sérfræðinga, spurðu spurninga og öfluðu sér þannig upplýsinga um efnið og lærðu að leita nýrra leiða í heimildaleit.

Reynslan af Sprellifixum er mjög jákvæð. Nemendur hafa fleiri tíma í vikunni til að vinna verkefnin en tímabilin eru styttri, áður var kannski verið að vinna í mörgum verkefnum og ótengdu efni undir mismunandi námsgreinum á sama tíma. Nú starfa nemendur að einu verkefni sem tengist ákveðnu efni og vinnan verður mun markvissari. Í hverju Sprellifixi reynum við að virkja tengingar milli sviða og sem dæmi má nefna að þegar lotan fjallar um erfðafræði er kvikmynd um efnið undir í bókmenntum og fókusinn er ekki bara á erfðafræði eins og hún kemur fyrir í náttúrufræði heldur líka áhrif erfðatækni á samfélagið og þær siðferðilegu spurningar sem vakna.“ segir Björgvin.Björgvin vísar í mynd af heildarferlinu og útskýrir hana: „Markmiðið er að allir þessir þættir skili sér hjá nemendum. Hæfniviðmið úr aðalnámskrá eru metin beint og öll verkefni skipta jafn miklu máli, allt ferlið telur. Mikið er lagt upp úr að nemandi temji sér skapandi og gagnrýna hugsun, að hann geti tjáð sig og miðlað upplýsingum. Í þessu námi eru engin takmörk. Nemandinn hefur alltaf svigrúm til að taka verkefni lengra og í þá átt sem hann vill. Hann sér kannski nýjan vinkil á efninu og vinnur það áfram í samvinnu við kennarana. Einhverjir hafa haft áhyggjur af því að námsefnið skili sér ekki en þær áhyggjur eru óþarfar. Þau hugtök sem nemandinn þarf að þekkja eru listuð upp og það er ekki hægt að þjálfa upp hæfni nemenda nema byggja vinnuna á góðum grunni, efninu sjálfu. Umræðan og viðbrögð við þessari nýju námsleið hafa verið mjög jákvæð og ég get sagt að margir nemendur hafi tileinkað sér hugarfar sigurvegarans – að gera ávallt sitt besta miðað við tímann sem í boði er.“

Sér stundatöfluna hverfa
Smiðjan er tilraunaverkefni til þriggja ára en nú þegar er mikil vinna að baki sem snýr t.d að því að búa til verkefni og verkefnahefti. „Við kennararnir sjáum nemendur vaxa, vera eins og eldflaugar. Það eru engin takmörk, ekkert þak og það er stórkostlegt að sjá hvað sumir nemendur eru nýta sér það. Framtíðar­sýnin mín er heildstæður vinnudagur þar sem allar námsgreinar eru inni í Smiðju. Við getum með þessu móti þjálfað nemendur á fjölbreyttan hátt og þurfum ekki að vera eins föst við greinarnar. Stundataflan myndi hverfa en einn af göllunum við hana er sá að það er erfitt að bæta nýjungum við og þróa skólastarfið ef við ætlum alltaf að búa til nýja námsgrein inn í 40 mínútna tímaskipulag þegar eitthvað nýtt verður mikilvægt.

Skóladagurinn væri líkt og vinnudagur sem hægt er að þróa með samfélaginu, þó hann byggi á námskrá þar sem grunnefnið er alltaf til staðar. Með þessari aðferð öðlast nemendur mun meiri færni til framtíðar að mínu mati,“ segir Björgvin og fróðlegt verður að fylgjast með hvar þetta verkefni verður statt eftir fimm ár.

Greinin birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2018