Nemendur áhugasamir um menningararfinn

20.12.2018 | Skólinn

Nemendur áhugasamir um menningararfinn

Nemendum í sjötta bekk í grunnskólum býðst að skoða sýninguna Lífsblómið sem er í Listasafni Íslands og fjallar um fullveldi Íslands. Safnkennari frá Árnastofnun tekur á móti nemendum og leggur áherslu á handritahluta sýningarinnar sem samanstendur af sex handritum úr safni Árna Magnússonar (1663−1730). Skólavarðan fékk að fylgja 6.S úr Laugarnesskóla í Listasafn Íslands þar sem Svanhildur María Gunnarsdóttir, safnkennari Árnastofnunar, tók á móti hópnum og svaraði nokkrum spurningum Skólavörðunnar.

Nemendum í sjötta bekk í grunnskólum býðst að skoða sýninguna Lífsblómið sem er í Listasafni Íslands og fjallar um fullveldi Íslands. Safnkennari frá Árnastofnun tekur á móti nemendum og leggur áherslu á handritahluta sýningarinnar sem samanstendur af sex handritum úr safni Árna Magnússonar (1663−1730). Skólavarðan fékk að fylgja 6.S úr Laugarnesskóla í Listasafn Íslands þar sem Svanhildur María Gunnarsdóttir, safnkennari Árnastofnunar, tók á móti hópnum og svaraði nokkrum spurningum Skólavörðunnar.

Takið þið á móti öllum skólahópum sem óska eftir að koma?
„Já, ég tek á móti skólahópum frá miðstigi að háskólastigi – auk hvers kyns námshópa – á handritahluta sýningarinnar og þar sem hægt er að skoða handrit úr eigu Árna Magnússonar.“

Þegar sýningunni í Listasafninu lýkur 16. desember nk. flyt ég mig og mitt hafurtask um set yfir í Safnahúsið við Hverfisgötu þar sem ég tek upp þráðinn frá því sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim var opnuð í mars 2015 en í einu rými hússins eru handrit úr eigu Árna Magnússonar einnig á sýningu (auk handrita úr fleiri söfnum). Í Safnahúsinu mun ég sum sé taka á móti skólahópum frá og með næstu áramótum en á jarðhæð hússins hef ég aðgang að fyrirtaks móttöku- og kennsluherbergi sem hentar vel undir ítarefnið sem ég ber á borð fyrir gesti mína, myndasýningar, ritun eigin handrita o.fl.

„Ég legg mjög mikið upp úr því að kynna fræðsluna sérstaklega fyrir umsjónarkennurum 6. bekkja og sendi þeim/skrifstofum grunnskóla á Stór-Reykjavíkursvæðinu kynningar- og boðsbréf með tölvupósti bæði á haust- og vorönn með það að markmiði að fá sem flesta kennara til að koma með nemendur sína í fræðslustund til mín þegar þeir eru komnir svolítið áleiðis í námsefninu um Íslandssöguna frá 930−1262 í samfélagsfræði og lestur Snorra sögu í því sambandi.“

Finnst þér nemendur almennt áhugasamir um efnið?

„Um áhuga nemenda á efninu get ég fullyrt að þessi 22 ár sem ég hef sinnt starfi safnkennara við stofnunina hef ég svo gott sem undantekningarlaust fengið til mín ákaflega áhugasama, forvitna og fróðleiksfúsa nemendur sem kunnað hafa að meta fyrirkomulag fræðslunnar og miðlun mína á stórmerkum menningararfi íslensku þjóðarinnar. Þetta gildir hvort sem umfjöllunarefnið er innihald handritanna, handverkið við gerð þeirra og varðveislusagan fram á okkar tíma eða handleiðsla við lestur úr ævafornum skræðum, útskýringar á ólíkum leturgerðum og styttingartáknum, umbroti texta á síðum og svona mætti lengi telja.

Við það að fá að sjá þessar merku menningarminjar okkar – Handritin – með eigin augum, hvort sem það eru eftirlíkingar sem nemendurnir að auki fá að handfjatla eða hin raunverulegu í gegnum gler, verða margir afar uppnumdir og oft og tíðum eitt spurningarmerki og velta gjarnan vöngum yfir því hvernig það hafi eiginlega verið mögulegt að gera svona glæsilega gripi í gamla daga; blekið, litina, skrifa svona þráðbeint og fallega og þar fram eftir götum – já og hvernig fólk hafi yfir höfuð nennt þessari miklu „handavinnu“ sem býr að baki gerð eins einstaks handrits – hvað þá fleiri?! Og ekki minnkar áhuginn og einbeitingin þegar nemendum býðst í lok heimsóknarinnar að setja sig í spor formæðra okkar og -feðra, sem fyrir mannsöldrum skráðu á skinnblöð texta á móðurmálinu og gerðu úr þeim bækur, og skrifa sjálf hér og nú á kálfskinn með fjöðurstaf og heimalöguðu jurtableki sitt eigið handrit.“

Geta kennarar á landsbyggðinni fengið efni frá ykkur til að sýna skólabörnum?
„Vegna nemenda á landsbyggðinni þá hef ég ekki verið með neinn sérstakan kynningarpakka – fyrir utan að hafa á árunum 2014-2016 heimsótt nemendur miðstigs í 46 grunnskólum víðs vegar um landið með fræðsluna mína – en hef bent kennurum á fræðsluvefinn Handritin heima. Hugmyndin að þeim vef má með nokkru sanni segja að sé rakin til fræðslustarfsins sem ég fór af stað með í litlum sýningarsal í Árnagarði í október 1996 (að frumkvæði og hvatningu Stefáns Karlssonar þáverandi forstöðumanns stofnunarinnar) og hef sífellt verið að þróa og endurhugsa síðan.“

Hvaða gildi hefur það fyrir Árnastofnun að rækta tengslin við skólana?
„Árnastofnun er rannsóknastofnun sem hefur jafnframt ríkar skyldur til miðlunar. Þar sem stofnuninni hefur verið falið að varðveita bæði handrit frá miðöldum, söfn Orðabókar Háskóla Íslands og fleiri mikilvæg gagnasöfn er henni lífsnauðsynlegt að miðla þessum sömu hlutum til eigenda sinna, nefnilega íslensku þjóðarinnar.

Með því að rækta tengsl við skólana er Árnastofnun að kynna sig fyrir því fólki framtíðarinnar – hvað svo sem það tekur sér fyrir hendur – sem vonandi á eftir að sjá möguleika í þeim gríðarlega fjársjóði sem felst í íslenskri menningu og láta sér detta eitthvað nýtt og stórkostlegt í hug til að þróa menningararfinn áfram eins og hefur verið gert síðan á dögum Snorra Sturlusonar.

Nemendur á yngstu skólastigunum eru yfir höfuð gífurlega áhugasamir um heiminn og í margvíslegum gögnum Árnastofnunar er geymdur heill heimur sem unga fólkið þarf að fá að kynnast.“

Með þeim orðum kveðjum við Svanhildi Maríu sem höfðaði heldur betur til nemendanna í 6.S og kvaddi alla með handabandi eftir fróðlega og skemmtilega stund í Listasafni Íslands.NEMENDUR RITA SÍN EIGIN HANDRIT Á SKINN
Árnastofnun býður nemendum að skoða handrit og fræðast um þau. Auk þess sem nemendur skoða gömul handrit er

sagt frá óþreytandi elju og ástríðu Árna Magnússonar við söfnun handritanna, sem og annarra nafnkunnra manna frá 17. öld sem gerðu sér grein fyrir dýrmæti þeirra og björguðu þar með miklu menningargóssi frá því að enda í glatkistunni. Með myndasýningu fá nemendur innsýn í mismunandi leturgerðir sem finna má í handritum í aldanna rás; útskýrð eru styttingatákn og önnur skammstafanatækni, sem skrifarar handritanna beittu óspart í ritsmíðum sínum, og lesin eru textabrot úr ólíkum handritum allt frá 12. öld og fram undir 1700.

Mikill metnaður er lagður í að kynna fyrir nemendum sjálft handverkið við gerð og ritun handritanna en ríkulegur hluti safnfræðslunnar felst í að leiða þá inn í heim verkmenningar miðalda með fræðslu um bókagerðina og það sem henni fylgdi. Útskýrt er með sýnikennslu hvernig verkun skinns í bókfell til að rita á fór fram og úr hverju hlífðarkápur handritanna voru gerðar. Bleksuðunni eru gerð skil og hvernig blekið var samansett úr jurtum, berjum o.fl. úr lífríkinu og fjölbreytilegir litir til skreytinga fengnir úr náttúruefnum — að því ógleymdu hvernig fjaðrapennar voru skornir til forðum daga og fleiru merkilegu sem tilheyrði skrifarastofum / ritstofum miðalda.

Að síðustu fá nemendur að spreyta sig við skriftir með tilskornum fjöðurstaf og heimalöguðu jurta- og krækiberjableki á sérverkað bókfell (kálfskinn) og geta þannig sett sig í spor forfeðra og -mæðra sem skráðu hinar fornu bækur. Ritsmíðarnar, nemendanna eigin handrit, taka þeir með sér í skólann að heimsókn lokinni.

Markmið og tilgangur fræðslustarfsins er að veita nemendum fræðslu við hæfi um fornan kvæða- og sagnaarf, munnmenntir og ritlist — svo og rúnamenninguna sem fær sinn sess í fræðslunni — með það að leiðarljósi að vekja athygli ungu kynslóðarinnar á þeim mikilvæga og fjölbreytta menningararfi sem handritin geyma. Handritasýningin og safnfræðslan fellur mjög vel að námsefni 6. bekkjar í samfélagsfræði þegar Íslandssögunni (930 til 1262) eru gerð skil og í tengslum við lestur Snorra sögu eftir Þórarin Eldjárn.


MYNDATEXTI: Svanhildur María Gunnarsdóttir, safnkennari Árnastofnunar, útskýrir fyrir nemendum handritagerð fyrri alda. MYND: Anton Brink

Greinin var birt í Skólavörðunni, 2. tbl. 2018. Lesið blaðið hér.