Nægur tími fyrir hvern nemanda

11.01.2017 | Skólinn

Nægur tími fyrir hvern nemanda

Nemendum við grunnskólann á Borgarfirði eystra hefur fækkað hratt að undanförnu. Þeir voru sextán á vorönn 2015, nú í haust voru þeir orðnir sex og þegar fjölskylda í bænum tók sig svo upp og flutti í lok september fækkaði þeim enn meira, eða niður í fjóra. Nemendurnir í vinalega timburhúsinu í hjarta Borgarfjarðar eystra eru reyndar fleiri, því grunn- og leikskóli bæjarins eru reknir saman.

Útsendari Skólavörðunnar hitti á dögunum skólastjórann, grunnskólakennarann og leikskólakennarann á Borgarfirði til að ræða um stöðuna og skólastarfið. En fyrst var spurt hvaða áhrif þessi mikla fækkun í grunnskólanum hefði á nemendur og starfsfólk skólans.

„Þetta er sérstaklega erfitt fyrir eldri nemendurna sem hafa þurft að kveðja hvern vin sinn á fætur öðrum,“ segir skólastjórinn, María Ásmundsdóttir Shanko. „Í aðdraganda brottflutnings nemendanna mánaðarmótin september og október varð stemmningin heldur lágstemmt, sérstaklega hjá drengjunum. Þá kom í ljós að þeir voru að endurupplifa missinn sem reyndist okkur öllum erfitt. En síðan hefur þetta jafnað sig enda eru allir staðráðnir í að láta starfið og kennsluna ganga sem best“. María segir engan bilbug að finna á sveitarfélaginu, eða samfélaginu öllu. Allir átti sig á hversu mikilvægt það sé að halda úti öflugu skólastarfi.

Ókeypis skóli
„Nú er boðið upp á frían grunn- og leikskóla, ekki þarf að greiða fyrir mat og útvegar skólinn öll skólagögn. Því til viðbótar er tónlistarskólinn gjaldfrjáls, en bæði leik- og grunnskólabörn fá tónlistarkennslu á skólatíma. Samfélagið í heild stendur mjög þétt að baki skólanum. Við njótum góðs af því að skólinn á sérstaka velunnara. Þetta eru t.d. bændur sem gefa okkur kjöt og sjómenn sem gefa fisk. En við tengjumst líka samfélaginu á annan hátt. Hér í skólanum verður bráðlega haldin félagsvist og þá koma bæjarbúar og fólk í sveitinni til að taka þátt. Þegar er haldin jólagleði í skólanum þá taka allir sem geta þátt, þannig að skólinn er að vissu leyti félagsheimili fyrir samfélagið hér í kring,“ segir María.

„Samfélagið í heild stendur mjög þétt að baki skólanum. Við njótum góðs af því að skólinn á sérstaka velunnara.“

Krefjandi kennsluhættir
Grunnskólakennarinn við Grunnskóla Borgarfjarðar eystra heitir Hólmfríður Jóhanna Lúðvíksdóttir. Hún segir að fækkun nemenda hafi haft bein áhrif á hennar starf. „Í kennaranáminu valdi ég enskukennslu sem kjörsvið ásamt kennslufræði unglingastigs, og hef ég kennt á unglingastiginu meira og minna fram að þessu. Síðasta vor útskrifuðum við þrjá 10. bekkinga og þar með var unglingadeildin farin, því elsti nemandinn í skólanum í dag er í 6. bekk. Þetta er því mikil áherslubreyting og áskorun fyrir mig sem kennara. Sem dæmi þá erum við í dag með fjóra nemendur í fjórum bekkjum. Samkennt er í öllum námsgreinum og það krefst töluverðrar útsjónarsemi að láta þetta ganga upp. Ég er að prófa mig áfram í þemakennslu og það hefur gengið ágætlega fram að þessu. Í þemanámi gefst nemendum tækifæri til að fjalla um afmarkað efni, þvert á aldur og færni. Mitt hlutverk er að stýra vinnunni þannig að hver og einn fái viðfangsefni við hæfi,“ segir Hólmfríður.

Í sama streng tekur leikskólakennarinn Jóna Björg Sveinsdóttir, sem auk þess að leiða starfið á leikskólanum hefur lengi kennt á grunnskólastiginu. „Þú ert kannski með nokkrar stærðfræðibækur í gangi í sömu kennslustundinni því í samkennslu er þremur til fjórum árgöngum kennt saman og svo ertu með einhverja nemendur sem fylgja ekki því grunnefni sem lagt er upp með að hausti. Þetta krefst þess að maður sé á tánum og sé með verkefni við hæfi. Hugsunin er alltaf sú að allir, frá þeim getuminnsta í hópnum upp í þann getumesta, fái eitthvað út úr verkefninu“.

Fátt í kennaranáminu undirbýr kennara fyrir slíka kennslu. „Þannig að ég hef verið að viða að mér þekkingu varðandi samkennslu í gegnum netið,“ segir Hólmfríður. „Ég geri mitt besta við að finna leiðir sem styðja við samkennsluna. Samkennslukennarinn þarf að vera mjög skipulagður til að allir nemendur séu virkir í tímum. Það er því mikill misskilningur að það að vera með fá börn sé óskaplega lítil vinna og það sé ekkert að gera hjá okkur. Þetta er bara allt annað form“.

Strax tekið á málunum
„Það er mikil umhyggja borin fyrir nemandanum hér,“ heldur Hólmfríður áfram. „Það er séð til þess að nemendur fái námsefni eftir þörfum, hvort sem þeir eru bráðgerir eða eiga í erfiðleikum. Fámennið og nálægðin gerir okkur kleift að grípa strax inn í og taka á málunum ef eitthvað kemur upp á, sem ég get ímyndað mér að sé mjög erfitt að gera í stærri skólum með fjölmennum bekkjum. Það hlýtur að valda miklu álagi á kennara í þess háttar skólaumhverfi.“

María skólastjóri tekur í sama streng. „Sem umsjónarkennari í tuttugu nemenda bekk í Reykjavík fór ég oft heim með hálfgert samviskubit. Þar komu iðulega upp mál sem ég hafði ekki tíma til að vinna úr og svo byrjaði nýr dagur með ný verkefni og mikilli keyrslu. Hérna er það þannig að ef einhver mál koma upp, t.d. agamál, þá er tekið á þeim strax og þau afgreidd.“

„Það er því mikill misskilningur að það að vera með fá börn sé óskaplega lítil vinna og það sé ekkert að gera hjá okkur. Þetta er bara allt annað form.“

Vinna vel saman
Aðspurð um vinnustaðinn og hvernig kennurum takist að vinna saman milli skólastiga eru þær stöllur sammála. „Við höfum náð að nýta hæfileika og þekkingu kennarahópsins mjög vel,“ segir Hólmfríður. „Ég er mikil tungumálamanneskja og hef séð m.a. um tungumálakennsluna og íslenskuna. Jóna Björg hefur kennt stærðfræði í mörg ár samhliða leikskólakennslunni. Fyrir utan háskólamenntunina er María skólastjóri menntuð í dansi, jóga og pílates, þannig að hún tekur m.a. að sér íþróttakennsluna. Skólaliðanum okkar, Jóhönnu Óladóttur, er ýmislegt til lista lagt og gengur hún í ýmis störf sem til falla. Hún er einnig matráður og nemendur og starfsfólk njóta góðs af hæfileikum hennar við að galdra fram ljúffengan og hollan heimilismat. Það er leitun að öðrum eins skólamatráði. Við náum semsagt að nýta styrkleika hvers og eins í starfsmannahópnum.“

Jóna Björg segir að það hafi verið áskorun að aðlaga skólastigin hvort öðru og í fyrsta skipti í vetur kenni allir á báðum skólastigunum. Þannig nýtist mannaflinn sem best og allir nemendur fái að njóta hæfileika hvers kennara. Kjarasamningar geti stundum sett strik í reikninginn en með góðum vilja sé leyst úr því þannig að allir séu sáttir. „Við erum alltaf að reyna að láta okkur detta í hug verkefni sem við getum unnið saman. Við erum til dæmis með tíma þar sem grunnskólabörnin lesa fyrir leikskólabörnin. Þetta gera líka sex ára börnin sem kannski eru lítið sem ekkert farin að lesa, en þá velja þau sér bara bækur við hæfi og segja sögur út frá myndum. Leikskólabörnin eru alveg sátt enda ætlast þau ekki til þess að lesturinn sé lýtalaus. Sama má segja um uppsetningu á árshátíð, litlu jól o.s.frv. Þá hafa nemendur allt niður í 4 ára tekið þátt í dagskránni við hliðina á nemendunum í grunnskólanum. Dæmin eru fleiri, þannig að það er margt sem er hægt að gera. Maður þarf bara að láta sér detta það í hug."

Viðfangsefni: Grunnskólinn, Nemendur, Fámenni