Myndbandasamkeppni um bækur fyrir börn

24.01.2017 | Skólinn

Myndbandasamkeppni um bækur fyrir börn

Barnabókasetur stendur nú þriðja sinn fyrir Siljunni, myndbandasamkeppni um bækur fyrir börn. Keppt er í tveimur flokkum, 5. til 7. bekk og 8. til 10. bekk. Keppnin er á landsvísu.

Verðlaun verða veitt fyrir þrjú bestu myndböndin í hvorum flokki. Aðalverðlaunin eru þó þau að skólabókasafn sigurvegaranna fær 100 þúsund króna bókaúttekt frá Barnabókasetri og Félagi íslenskra bókaútgefenda. Í kynningu samkeppninnar segir að það muni um minna enda hafa skólasöfnin búið við fjársvelti hin síðustu ár.

Markmið Siljunnar er að hvetja börn og unglinga til að lesa og tjá sig um bækurnar sem þau lesa. Það er mat forráðamanna Barnabókaseturs að með því að gera lestur barna og unglinga sýnilegri og virkja unga lesendur til jafningjafræðslu með fjölga lestrarhestum og gera bóklestur að spennandi tómstundaiðju.

Þátttaka í Siljunni hefur verið góð og krakkarnir hafa sýnt mikið hugmyndaflug og kunnáttu við gerð myndbandanna.

Sigurvegarar síðasta árs voru nemendur í Ingunnarskóla í Reykjavík og Brekkuskóla á Akureyri og nutu skólabókasöfn þeirra góðs af árangrinum. Myndbönd Siljunnar eru aðgengileg á YouTube. KrakkaRúv fylgist með Siljunni og hér er frétt um keppnina frá í fyrra.

Skilafrestur á myndböndum er 10. mars. Nánari upplýsingar er að finna á vef Barnabókaseturs.

Siljan er kennd við Silju Aðalsteinsdóttur bókmenntafræðing og ritstjóra.


Verðlaunamyndband Ingunnarskóla 2016.


Verðlaunamyndband Brekkuskóla 2016.

Viðfangsefni: Lestur, Siljan, Grunnskólar, Lestrarhestar