Lesskilningur er lykill að lífsgæðum

27.12.2016 | Skólinn

Lesskilningur er lykill að lífsgæðum

Stóra upplestrarkeppnin þjónar þýðingarmiklu hlutverki vegna þeirrar þjálfunar sem nemendur fá í upplestri þegar þeir eru að undirbúa keppnina og vegna þeirrar skólunar sem í því felst að lesa upp fyrir stóran hóp af fólki. Það er út af fyrir sig ærinn árangur að nemendurnir séu betri upplesarar og hafi öruggari framkomu að keppninni lokinni en fyrir hana. Annar, og ekki eins augljós, ávinningur við að undirbúa vandaðan upplestur eins og gert er í aðdraganda Stóru upplestrarkeppninnar er hins vegar að svo virðist sem tengsl gætu verið milli lesskilnings og vandaðs upplesturs og hlýtur sú aukatekja að teljast nokkurs um verð. Þessi tengsl hafa átt hug Baldurs Sigurðssonar undanfarin ár og flutti hann meðal annars erindi um málið á málþingi sem haldið var í tilefni 20 ára afmælis Stóru upplestrarkeppninnar í maí síðastliðnum. Yfirskrift erindisins var Túlkandi upplestur og tengsl við lesskilning.

Efnið vakti forvitni Skólavörðunnar og Baldur var því sóttur heim á skrifstofu sinni á Menntavísindasviði Háskóla Íslands við Stakkahlíð nú á haustdögum.

Þegar orkan fer ekki í umskráningu
„Lesskilningur er lykill að lífsgæðum,“ segir Baldur og líklega geta flestir tekið undir það. En hvernig er lesskilningur hjá börnunum sem eru ekki fulllæs heldur þurfa að berjast í gegnum ritmálið til þess að skilja það. Jafnvel eftir að börnin eru orðin læs í venjulegum skilningi ráða þau ekki við að lesa sjálf jafn flókinn texta og þau geta skilið þegar einhver les hann fyrir þau.

„Skilningarvitin hafa miklu meiri tíma og orku til þess að velta hlutunum fyrir sér jafnóðum þegar lesið er fyrir mann, heldur en þegar maður eyðir orku í að lesa og þetta er alþekkt í lestrarfræðunum. Þess vegna er svona mikil áhersla lögð á að koma börnunum yfir þann hjalla sem umskráningin er, að breyta bókstöfum ritmálsins í hljóð talmálsins. Lykilhugtökin hér eru hraði, öryggi og sjálfvirkni til að maður lesi ósjálfrátt og hugarorkan fari ekki í þennan tæknilega hluta heldur geti hún beinst að merkingunni, inntakinu. Það skiptir svo miklu máli að hafa hugarorkuna afgangs fyrir merkinguna. Það sama gildir raunar um fullorðna. Svo dæmi sé tekið uppgötvuðum við konan mín hvað það er gaman að hlusta á góðar bókmenntir í upplestri. Við byrjuðum á Góða dátanum Svejk í upplestri Gísla Halldórssonar og höfum fikrað okkur yfir í fornbókmenntirnar. Og þá uppgötvum við þetta sama á okkur sjálfum hvað maður skilur miklu betur þegar lesið er upphátt og hvað góður upplestur skiptir miklu máli fyrir merkinguna. Þótt við teljumst fulllæsar fullorðnar manneskjur þá gefur upplesturinn okkur samt betri skilning – og þá getur maður ímyndað sér hvaða þýðingu hann hefur fyrir börnin.“

Frá umskráningu til merkingar
Lengi vel náði skilgreiningin á læsi eða lesfærni sem nú er yfirleitt nefnt lesfimi bara til hraða og nákvæmni. „Síðan hafa fræðimenn og kennarar áttað sig á því að þetta er ekki alls kostar nóg. Skilgreining á lesfimi nær núorðið líka til skilningsins, að lesið sé fallega og af skilningi, en ekki með lestóni eins og við ólumst upp við í skólanum. Allir hafa reynslu af þessum hræðilega lestóni sem er mjög langt frá venjulegu töluðu máli. Lesturinn þarf að vera eins og venjulegt mælt mál.“

Ljóst er að lestur er til lítils gagns ef inntak þess sem lesið er kemst ekki til skila. Að sama skapi liggur fyrir að til þess að inntakið komist til skila verður sá sem les að hafa öðlast tæknilega færni í því að umskrá stafina í orð og skilja merkinguna. „Samkvæmt formúlunni í hinu svokallaða einfalda lestrarlíkani sem kennt er hér þá er lesskilningurinn margfeldi af umskráningu og málskilningi eða hlustunarskilningi. Það þýðir að til þess að hafa lesskilning þá þarf að hafa umskráningarfærni og hlustunarskilning. Á fyrstu árum lestrarnámsins er umskráningarferlið algert lykilatriði, að komast yfir þröskuldinn þannig að lesturinn verði sjálfvirkur. Síðan fer hlustunarskilningurinn, eða það sem við myndum bara kalla málskilning, að skipta meira og meira máli. Hvernig kemur hann til? Hvernig ­öðlumst við þannig skilning? Jú, við ­öðlumst hann af umgengni við tungumálið, af því að hlusta og tala, og þeim mun auðugra tungutak sem barn elst upp við þeim mun meiri skilning fær það. Lesturinn hefur líka áhrif, það er að segja bæði að lesið sé fyrir börnin og að þau lesi sjálf, því það er svo mikill orðaforði í bókum. Það skiptir líka máli að talað sé við þau, að þau búi í auðugu málumhverfi. Þannig sprettur skilningurinn smám saman. En það hefur aldrei verið skoðað beinlínis hvort það að lesa upp sé í sjálfu sér framlag til þessa málskilnings.“

Á fyrstu árum lestrarnámsins er umskráningarferlið algert lykilatriði, að komast yfir þröskuldinn þannig að lesturinn verði sjálfvirkur.

Hænan eða eggið
Baldur bendir á að menn séu sammála um að til að geta lesið fallega upp þá verði skilningur á textanum að vera fyrir hendi, sem sagt að lesskilningur sé í raun forsenda þess að hægt sé að lesa upphátt á vandaðan hátt. Hitt hafi minna verið skoðað, hvort verið geti að það ferli sem á sér stað til undirbúnings vönduðum og fallegum upplestri stuðli beinlínis að betri lesskilningi.

„Þegar ég fór að hugsa um þetta fyrst fyrir nokkrum árum var ég hissa á því að þetta hafði ekkert verið rannsakað en kannski er það einmitt vegna þess hversu erfitt er að rannsaka það. Það er svo erfitt að búa til þær aðstæður að hægt sé að mæla með óyggjandi hætti hvort þjálfun í upplestri skili einhverju inn í lesskilninginn.“

Seinni árin hafa lestrarfræðingar þó verið að þreifa sig aðeins áfram með rannsóknir á þessu sviði. „Og það hefur auðvitað mælst ákveðin fylgni – barn sem hefur góðan lesskilning, það les líka upphátt af skilningi. Það segir hins vegar ekkert um orsök og afleiðingu. Það hefur verið sagt sem svo að skilningurinn hljóti að vera forsenda þess að geta lesið af skilningi en mín pæling er einmitt að snúa þessu við og spyrja hvort það að þjálfa upplestur geti haft áhrif til baka á lesskilninginn.“

Meira en að lesa upp með stæl
Markmið Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk og Litlu upplestrarkeppninnar í 4. bekk er að auka vægi vandaðs upplestrar í skólastarfi. „Þegar komið er í 7. bekk eru flestir kennarar löngu hættir að hugsa um lestur sem viðfangsefni,“ segir Baldur og um upplesturinn sem þjálfaður er í ­aðdraganda upplestrarkeppninnar segir hann:. „Við köllum þennan lestur útvarpslestur. Þetta er vandaður skýr lestur sem miðlar merkingunni, upplestur sem gæti gengið í útvarpi. Við höfum viljað líta þannig á að þetta sé ekki bara skemmtunin að njóta þess að hlusta á krakkana lesa heldur höfum við líka verið að velta fyrir okkur þeim áhrifum sem upplesturinn gæti hugsanlega haft á lesfærnina. Ástæðan fyrir því að við höfum farið að velta þessu fyrir okkur í alvöru er að margir kennarar hafa sagt að þetta bæti svo lestur krakkanna, eða læsi þeirra.

Þessi góðu áhrif á lestur barnanna koma auðvitað fyrst og fremst til vegna starfsins í bekknum þegar verið er að undirbúa keppnina. Samt er ekki alveg ljóst hvað fólk á við með bættum lestri eða læsi. Jú, börnin verða kannski betri í að lesa upp því það er jú það sem þau eru þjálfuð í, en spurningin er hvort þau verða betri í einhverjum öðrum þáttum læsis heldur en bara því að geta lesið upp með svolitlum stæl. Og þá kemur þetta með lesskilninginn inn. Hann snýst ekki bara um orðaforða eða að hafa þekkingu á heiminum og geta dregið ályktanir, sett sig í spor annarra og hugsað rökrétt og allt þetta sem maður þarf til að hafa góðan skilning á umhverfi sínu. Hann snýst líka um að breyta þessari sérkennilegu setningafræði ritmálsins í eitthvað sem hefur merkingu fyrir manni.“

Baldur segir að eftir því sem krakkarnir fari að lesa meiri fullorðinstexta þá verði setningafræðin alltaf erfiðari og flóknari. „Það er hægt að segja sem svo að á sama hátt og það að umskrá stafina í orð verður lykill að því að skilja orðin þá verði þessi túlkandi upplestur, það er að ljá heilu setningunum merkingu, sá hlekkur sem þarf til að tengja merkingu setninganna í ritmálinu við eitthvað sem við getum kallað merkingu í talmáli. Þegar maður hugsar út í þetta út frá grundvallaratriðum lestrarfræðinnar þá blasir við að þessi tenging þarf að vera fyrir hendi.“

Og þá kemur þetta með lesskilninginn inn. Hann snýst ekki bara um orðaforða eða að hafa þekkingu á heiminum og geta dregið ályktanir, sett sig í spor annarra og hugsað rökrétt og allt þetta sem maður þarf til að hafa góðan skilning á umhverfi sínu.

Áhrif upplestrarþjálfunar
Sigurlaug Sævarsdóttir vann í vor meistaraverkefni hjá Baldri þar sem reynt var að komast nær því að svara spurningunni um það hvort vera kunni að þjálfun í vönduðum upplestri geti aukið lesskilning. Hún byggði verkefnið á lítilli rannsókn sem hún gerði meðal grunnskólanemenda í 4. bekk á Sauðárkróki.

Um 50 börn tóku þátt í rannsókninni og var þeim skipt í tvennt, rannsóknarhóp og samanburðarhóp. Báðir hópar þreyttu lesskilningspróf fyrir og eftir rannsóknartímabilið. Börnin í rannsóknarhópnum voru tekin út úr tíma einu sinni í viku í tólf vikur og fengu svolitla þjálfun í vönduðum upplestri sem fólst í því að þau voru látin lesa upphátt hvert fyrir annað í þriggja til fimm manna hópum, eina mínútu hvert í hvert sinn. Í kjölfar upplestursins ræddu börnin svo saman um vandaðan upplestur og túlkun. Samtals tók þetta inngrip um 10 mínútur í senn. Niðurstaðan úr rannsókn Sigurlaugar var að nemendurnir í rannsóknarhópnum reyndust hafa bætt lesskilning að tímabilinu loknu en samanburðarhópurinn ekki. Munurinn er ekki tölfræðilega marktækur en gefur engu að síður vísbendingu.

„Þetta var í rauninni eins lítið inngrip og hugsast getur. Nemendurnir reyndust til dæmis lítið eða ekkert hafa undirbúið upplesturinn sem þó var lagt upp með að þeir ættu að gera. Þótt munurinn hafi ekki náð því að vera marktækur vegna þess hve hópurinn var lítill og miklar sveiflur voru milli einstaklinga, þá kom fram ákveðin vísbending um að þetta hefði haft einhver áhrif og í ljósi þess hvað þetta var í rauninni pínulítið inngrip, aðeins einnar mínútu upplestur og um 10 mínútur sem þetta tók í heildina í hverri viku, þá fannst mér ánægjulegt að sjá að þetta var í áttina.“

Baldur nefnir hér einnig rannsókn Young og fleiri frá 1996 sem ber að sama brunni. Rannsóknin var gerð í 5. bekk og var nemendum skipt í fjóra hópa: einn hópurinn átti að hlusta á upplestur, annar að lesa upphátt með fullorðnum upplesara, sá þriðji átti að lesa upphátt án hljómfalls og sá fjórði átti að lesa upphátt með hljómfalli. Allir hóparnir fóru þrisvar sinnum í gegnum textann sem notaður var til þjálfunar. Textinn sem prófað var úr var ólesinn en tengdist textanum sem þjálfað var í. Á prófinu var mældur leshraði, nákvæmni, tjáning í upplestri og lesskilningur.

„Og þá kom í ljós að þau sem höfðu lesið upphátt með hljómfalli skildu seinni hluta textans betur en hinir þrír hóparnir. Þarna virðist sem sagt hljómfallsþátturinn hafa haft afgerandi þýðingu, það að börnin þurftu sjálf að túlka textann. Það var sem sagt ekki eins áhrifaríkt að hlusta á aðra gera það.“

Úr söngli í taut
Upplestrarþjálfun innan veggja skólans hefur breyst nokkuð í tímans rás og Baldur er í raun hvorki sáttur við þá aðferð sem notuð var áður né hina sem nú tíðkast. „Við sem eldri erum ólumst upp við að lesa upphátt fyrir allan bekkinn, hvert á eftir öðru. Þá skiptust á góðir og slæmir og svo áttu allir að fylgjast með og vera tilbúnir þegar nafn þeirra var nefnt. Þetta var náttúrlega óþolandi því þeir sem voru hraðlæsir voru alltaf komnir langt á undan í lestrinum og vissu svo ekki hvaðan á þá stóð veðrið þegar þeir áttu að lesa og voru skammaðir fyrir það. Þessi aðferð, sem var útbreidd um hinn vestræna heim, var svo lögð af fyrir 20 til 30 árum af því að þetta hafði neikvæð áhrif á lestraráhuga.

Við ólumst upp við að maður ætti að lesa með þessum lestóni og margir hafa örugglega fengið þá hugmynd að það að lesa upphátt væri einhvers konar merkingarlaust söngl. Kosturinn við þessa aðferð var samt að börnin lásu þó að minnsta kosti hvert fyrir annað en nú kemur nemandinn upp að kennaraborðinu og les sinn bút bara fyrir kennarann. Þetta er ekki upplestur sem kallar á flutning eða túlkun, þvert á móti, þetta er bara taut. Svona lestur þarf að vera í lágum hljóðum til að trufla ekki hina nemendurna. Slíkur lestur hefur engin áhrif á þetta sem við erum að tala um og það er sannarlega ekki svona lestur sem við erum að leitast við að ná fram í upplestrarkeppnunum.“

Við ólumst upp við að maður ætti að lesa með þessum lestóni og margir hafa örugglega fengið þá hugmynd að það að lesa upphátt væri einhvers konar merkingarlaust söngl.

Einhæfum lestóni sagt stríð á hendur
Baldri finnst að lestur með hljómfalli eða tjáningu ætti að fá meiri athygli í lestrarkennslu. „Ég held að það þurfi að fylgja því mun betur eftir sem gert er í upphafi lestrarkennslunnar, í þessum hluta sem snýr að umskráningu, hraða og nákvæmni. Við getum lagt miklu meiri áherslu á skilning, þ.e. að börnum sé kennt frá fyrstu stundu að lesa af skilningi og túlkun. Og við verðum að segja þessum einhæfa lestóni stríð á hendur, en það er ekki nóg.

Við þurfum að fylgja lestrinum eftir upp allan skólann. Það má segja að ­lestrarkennslan lyppist svolítið niður eftir að lestækninni er náð. Það að lesa fallega og af skilningi og túlkun er eitthvað sem við getum haldið áfram með og ræktað alveg upp úr. Unglingarnir hafa gaman af að lesa upp af innlifun og með túlkun ef þeir fá tækifæri til þess. Börnin vaxa fljótt upp úr því að lesa upphátt fyrir kennarann, en við vöxum aldrei upp úr því að lesa upp – við njótum þess bæði sem flytjendur og áheyrendur meðan við höldum sjón og heyrn.“

Baldur bendir einnig á mikilvægi endurtekningarinnar í lestrarþjálfun og vísar til þess að til dæmis geri allir sem lært hafi á hljóðfæri sér grein fyrir áhrifamætti endurtekningar og æfingar. Hann er þó fyllilega meðvitaður um að erfitt geti verið að virkja áhuga nemenda á því að lesa sama textann aftur og aftur. „Þeim finnst það leiðinlegt og það er skiljanlegt því endurtekningin út af fyrir sig hefur ekki tilgang nema verið sé að æfa fyrir eitthvað sérstakt, einhvern viðburð. Það fer enginn á svið til að lesa án þess að æfa sig, ekki einu sinni vanur leikari.“

Að mati Baldurs ættu þess vegna að vera upplestrarviðburðir á öllum önnum í öllum bekkjum grunnskólans. Það ætti að láta nemendur lesa hvern fyrir annan í smærri hópum og ræða um leið túlkun og flutning eftir því sem þroski þeirra gefur tilefni til. Með því móti myndi skapast eðlilegt umhverfi fyrir nemendur að æfa og endurtaka upplestur á sama textanum með túlkun og hljómfalli, eins og gerist þegar nemendur undirbúa þátttöku sína í Stóru og Litlu upplestrarkeppninni, eða æfa leikrit fyrir skólaskemmtun. Baldur telur því að hægt sé að skapa þau skilyrði í skólastarfinu að æfingar og endurtekningar í upplestri yrðu nemendum bæði til gagns og gleði. „Ég hef í það minnsta ekki fyrir hitt þann krakka sem ekki hefur gaman af því að túlka eða flytja texta ef hann fær að leika.“

Greinin birtist fyrst í Skólavörðunni, 2. tbl. 2016.

Viðfangsefni: Upplestur, Stóra upplestrarkeppnin, Lesskilningur