Leikur býr nemendur undir óþekkta framtíð

11.05.2017 | Skólinn

Leikur býr nemendur undir óþekkta framtíð

Kristín Einarsdóttir og Jón Karlsson hafa sett fram kennsluaðferð sem ætlað er að stemma stigu við aukinni kyrrsetu barna.

Það veit sá sem allt veit að börnum er eðlislægt að hreyfa sig en með sífellt auknu aðgengi að stafrænni afþreyingu, tölvuleikjum og samfélagsmiðlum minnkar hreyfingin sífellt. Börn, eins og hinir fullorðnu, þurfa ekki lengur að standa upp til að hafa eitthvað við að vera. Það þarf ekki annað en að rétta barni síma til að halda því uppteknu tímunum saman. Sitjandi.

Það eru ekki bara foreldrar sem hafa áhyggjur af þessari þróun því málið er mikið rætt meðal kennara og í skólakerfinu almennt. Meðal þeirra sem láta sig málið varða eru Kristín Einarsdóttir og Jón Karlsson (Nonni) sem standa á bak við kennsluaðferðina Leikur að læra. Sjálf lýsa þau hugmyndafræðinni á bak við verkefnið sem svo að það sé hugsað sem svar við aukinni kyrrsetu barna.

„Leikur að læra er kennsluaðferð þar sem börnum á aldrinum tveggja til tíu ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum leiki og hreyfingu á skemmtilegan, líflegan og árangursríkan hátt,“ segja þau þegar útsendari Skólavörðunnar settist niður með þeim á dögunum.

„Með leiknum er áhugi barnanna á náminu aukinn og það gert aðgengilegt fyrir hvern aldurshóp, enda eru þarfir og hæfileikar nemenda í hverjum bekk mjög mismunandi. Hreyfing er börnum eðlislæg og rannsóknir á heilastarfsemi barna sýna að þegar barn lærir í gegnum hreyfingu og skynjun man það námsefnið betur og á auðveldara með að endurkalla það og bæta við þekkingu. Upplifunin sem af skynjuninni hlýst hjálpar heilanum að mynda ný taugamót og frá þeim myndast nýjar brautir sem ná að virkja óvirkar stöðvar sem þar eru til staðar.“

Með leiknum er áhugi barnanna á náminu aukinn og það gert aðgengilegt fyrir hvern aldurshóp, enda eru þarfir og hæfileikar nemenda í hverjum bekk mjög mismunandi.

Fjarlægjum borð og stóla
Það er Kristín sem er höfundur Leikur að læra. Hún er íþrótta- og grunnskólakennari að mennt og fór árið 2006 að leitast við að nýta leik við kennslu á stærðfræði. Árangurinn var það góður að hún þróaði aðferðafræðina áfram til að nýta við kennslu í öðrum greinum. Niðurstaðan er aðferðafræði sem er ólík þeirri sem kemur upp í huga flestra þegar talað er um skóla. Ekki er gert ráð fyrir að kennari standi upp við töflu og kenni nemendum sem sitja við borð með bók fyrir framan sig og fylgjast með.

„Við erum ekki bara að taka bókina frá kennaranum í Leikur að læra, við erum líka að taka borðið og stólinn en komum með önnur verkfæri í staðinn. Kennarar sem eru að stíga sín fyrstu spor í Leikur að læra tileinka sér ákveðna lykilleiki. Kennarinn setur mismunandi bóklega námsþætti inn í leikinn eins og passar hverju sinni út frá þeim markmiðum sem unnið er með. Það má líkja þessu við að kennarinn læri eitt lag en það fari svo eftir getu og aldri nemenda hvaða texti er sunginn við. Kennarinn þarf í byrjun ekki að kunna marga leiki en þegar hann hefur öðlast færni í einum lykilleik getur hann haldið áfram að læra fleiri leiki eða þróað nýja með sínum nemendum með þarfir þeirra að leiðarljósi.“

Ýtt undir sköpun og sjálfstæði
Miklar breytingar hafa orðið á skömmum tíma á samfélaginu í heild og skólarnir hafa ekki farið varhluta af því. Kristín og Nonni trúa að Leikur að læra aðferðafræðin búi nemendur betur undir þau verkefni sem bíða þeirra þegar skóla sleppir. „Leikurinn gefur svo margt, svo sem samskipti, tungumálið, vináttu og samvinnu auk þess sem hann bætir bekkjarbrag og í raun skólabraginn í heild. Tengingin milli nemenda verður allt öðruvísi og það er svo gleðilegt að verða vitni að því þegar kennarar átta sig á að Leikur að læra gefur allt þetta en er ekki bara stór verkefnabók. Það er afar dýrmætt. Með því að nýta þau tæki sem við erum að smíða er hægt að vekja áhuga nemenda á námi með öðrum áherslum en áður og nýta önnur skynfæri en tölvutæknin krefst.

Við teljum að þarna sé að finna verkfæri fyrir kennara til að undirbúa nemendur fyrir óþekkta framtíð. Börn nútímans munu mörg hver vinna störf sem ekki enn hafa verið fundin upp og því þarf menntakerfið að bregðast við því með því að ýta undir sköpun, samskiptahæfni og sjálfstæði nemenda. Alla þessa eiginleika er hægt að þjálfa með hugmyndum Leikur að læra, auk þess sem eðlilegri þörf nemenda til að hreyfa sig er gefið gott rými.“

Leikurinn gefur svo margt, svo sem samskipti, tungumálið, vináttu og samvinnu auk þess sem hann bætir bekkjarbrag og í raun skólabraginn í heild.

Rekin áfram af ástríðu
Leiðin sem þau Kristín og Nonni fóru til að þróa kennsluaðferðina áfram og koma henni á framfæri við sem flesta var að stofna fyrirtæki og selja skólum aðgang að því efni sem þau vinna og þeirri þekkingu sem þau hafa viðað að sér. „Ástæðan fyrir því að við förum þessa leið er trú okkar á verkefninu og ástríða fyrir því að koma því á framfæri sem víðast. Við vildum því helga okkur verkefninu sem væri útilokað ef við værum í fullu starfi við kennslu. En við þurfum auðvitað líka að eiga fyrir salti í grautinn og því fórum við þessa leið.

Viðbrögðin við þeirri vinnu sem við höfum lagt á okkur eru afar góð. Þetta er mikil og skemmtileg vinna og eitt af því sem við höfum gert til að láta reksturinn ganga upp er að bjóða upp á endurmenntunarferðir fyrir kennara. Þannig náum við að halda þessu gangandi. En það verður að viðurkennast að í svona starfi þá kemur alltaf upp sá tímapunktur, þegar maður er búinn að vinna ótal mörg kvöld og helgar, að maður veltir fyrir sér hvort það sé ekki best að hætta þessu. En eins og við sögðum áðan þá er það þessi ástríða fyrir verkefninu og jákvæð viðbrögð kennara og nemenda sem hvetja okkur áfram.“

Greinin birtist í prentútgáfu Skólavörðunnar, 1. tbl. 2017.


Jón Karlsson og Kristín Einarsdóttir.
Viðfangsefni: Námsefni, Leikur, Hreyfing barna