Jafnræði gildir meðal nemenda og kennara

11.01.2017 | Skólinn

Jafnræði gildir meðal nemenda og kennara

„Kostirnir við fámenna skóla eru vissulega margir, miklu fleiri en ókostirnir. Þetta er í flestum tilvikum góður kostur fyrir krakkana, hérna er hægt að gera svo margt og frjálsræðið er mikið,“ segir Inga Sigrún Atladóttir, sem ráðin var skólastjóri Valsárskóla haustið 2013. Hún er guðfræðingur og kennari og lauk meistaraprófi í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands í lok árs 2012. Karl Eskil hitti Ingu Sigrúnu að máli síðasta haust.

Grunnskólinn Valsárskóli og leikskólinn Álfaborg í Svalbarðsstrandarhreppi í austanverðum Eyjafirði voru sameinaðir á síðasta ári og á þessu ári bættist við tónlistarskóli sveitarfélagsins. Nemendur leikskólans eru 24, nemendur grunnskólans eru 50 og starfsmenn eru samtals um tuttugu. Allt skólahald fer fram í sameinuðu húsnæði á Svalbarðsströnd en skólahverfið liggur frá Veigastöðum í suðri til ­Garðsvíkur í norðri. Frá Akureyri til Svalbarðsstrandar eru um 12 ­kílómetrar.

„Frá því ég tók við skólanum hefur verið unnið að því að innleiða hugmyndafræði sem byggir á leiðtogahæfni, tilfinningagreind og nemendalýðræði og ég hef unnið að því að móta námið eftir þessari hugmyndafræði. Við náum líka að halda þétt utan um nemendur, því sérkennslan er öflug og eftirfylgni í námi er rík. Hérna er unnið samkvæmt lotukerfi, hver lota er sjö ­vikur og í lokin fer fram mat á árangri hvers og eins. Þetta á bæði við um leikskólann og grunnskólann. Vissulega er þessi leið nokkuð kostnaðarsamari en hefðbundið skólastarf, en ég er sannfærð um að á endanum skili þeir fjármunir sér til baka.

Eins og lög gera ráð fyrir, þá fylgja því á stundum ókostir að fáir séu í hverjum árgangi, en við reynum að leysa úr því vandamáli með ýmsum leiðum. Að mínu mati hefur sú vinna í flestum tilvikum skilað jákvæðum árangri. Kostirnir eru með öðrum orðum miklu fleiri en ókostirnir,“ segir Inga Sigrún.

Hvernig líkar starfsfólki að starfa í svona ­fámennum skóla?

„Það hefur gengið mjög vel og hérna ríkir góður starfsandi. Starfsfólkið er samhent og starfsmannavelta næstum engin sem segir ákveðna sögu. Ég innleiddi strax hugmyndafræðina um Leiðtogasamfélagið, sem eðlilega kallaði á umtalsverðar breytingar á starfsháttum allra, jafnt nemenda sem starfsfólks. Að sjálfsögðu er hugmyndafræði Leiðtogasamfélagsins samofin ­grunnþáttum gildandi aðalnámskrár. Ég lít svo á að gildandi Aðalnámskrá boði í raun hugmyndafræði Leiðtogasamfélagsins með áherslu á lýðræði og mannréttindi, skapandi og gagnrýna hugsun og ábyrgð nemenda á eigin námi,“ segir Inga Sigrún.

Hún segist þakklát samstarfsfólki fyrir að ganga jákvætt til verka, sem sé svo sem ekkert sjálfgefið þegar skólastarfinu er breytt svo mikið. „Í fyrsta lagi má segja að jafnræði gildi meðal nemenda og kennara og það er auðvitað hrein og klár kerfisbreyting, sem hefur ekki verið auðvelt fyrir allt starfsfólk,“ útskýrir Inga Sigrún, þegar hún er innt eftir nánari útskýringum á hugmyndafræði Leiðtogasamfélagsins.

Ef ég man rétt, var einelti vandamál hérna í skólanum fyrir nokkrum árum síðan, ekki satt?

„Já, það er rétt. En Leiðtogasamfélagið byggir að hluta til á Olweusarverkefninu gegn einelti og hér er einelti ekki liðið. Þess í stað byggjum við upp samfélag þar sem við lærum að þekkja okkur sjálf og hjálpum öðrum.“

Útgangspunktur Olweusar er að þeir einstaklingar sem kjósa að koma sjálfum sér áfram með því að níðast á öðrum verði alltaf til í öllum samfélögum. Besta leiðin til að vinna gegn slíkum einstaklingum er að breyta lögmálum samfélaga með því að virkja hinn þögla meirihluta og veita þeim viðurkenningu og framgang sem vinna að hagsmunum heildarinnar. Til þess að hægt sé að byggja upp jákvæða, uppbyggilega menningu þar sem allir standa saman þarf að styrkja þennan þögla meirihluta. Gefa hinum almenna nemanda rödd og sterka stöðu, fá alla nemendur til að hafa trú á eigin getu og fá þá til að trúa því að þeir hafi kraft til að breyta því sem þeim finnst að betur megi fara. Það er stórt skref fyrir marga að líta á sjálfa sig sem leiðtoga og stundum þarf mikla hugarfarsbreytingu. En hugmyndin byggir á því að það sé ekki bara einn eða tveir leiðtogar í samfélaginu heldur eigi allir að vera leiðtogar, hver á sínu sviði.

„Áður en ég hóf störf hér hafði ég verið deildarstjóri í öðrum skóla og séð þar um aga- og eineltismál. Þar tók ég eftir því hve viðhorf kennara til nemenda skiptir miklu máli og hve mikilvægt það er fyrir skólamenninguna að nemendur og kennarar fái aðstoð til að leysa úr samskiptavanda sem upp kann að koma á milli þeirra. Starfsmennirnir eru stór hluti af samfélagi skóla og þeir geta rétt eins og börnin viðhaldið eða jafnvel stuðlað að neikvæðum skólabrag. Þess vegna er jafnræði milli nemenda og starfsmanna mikilvægt, ekki bara í ákvarðanatökum heldur einnig í úrvinnslu samskiptamála.

Þessi tvö atriði, að styrkja hinn þögla meirihluta og auka jafnræði nemenda og starfsfólks eru grundvöllurinn að Leiðtogasamfélaginu og að mínu mati lykillinn að því hve vel hefur tekist að bæta menninguna í skólanum,“ segir Inga Sigrún.

Allir hafa tillögurétt
Í Leiðtogasamfélaginu er hlutverk kennara að hafa frumkvæði að breytingum á skólastarfi og stuðla að því að nemendur verði virkir þátttakendur. Mikilvægt er að skipuleggja starfið þannig að nemendur læri að tengja saman viðfangsefni og sjái þannig tilgang í því starfi sem fram fer í skólanum.

„Við höldum reglulega skólaþing sem allir sitja og þar er starfsemi skólans á dagskrá. Allir hafa tillögurétt og málin eru rædd á jafnréttisgrundvelli. Að loknum umræðum er kosið um leiðir eða aðferðir varðandi viðkomandi mál sem eru til umræðu. Stundum verða kennarar undir í slíkum atkvæðagreiðslum, en meirihlutinn ræður einfaldlega. Ég sem skólastjóri reyni að taka fæstar ákvarðanir. Á föstudögum fara nemendur í svokallaða leiðtogaþjálfun, þá bjóða þeir öðrum í smiðju þar sem fengist er við margvísleg viðfangsefni. Einn er kannski góður í einhverjum tölvuleik og þá einfaldlega býðst hann til að hjálpa öðrum í sinni smiðju að ná færni í þessum tölvuleik. Annar nemandi gæti tekið upp á því að bjóða upp á gítarnám, myndbandagerð eða bara nánast hvað sem er. Og svo eru reglulega haldnir bekkjartímar, þar sem grundvallarhugmyndir Leiðtogasamfélagsins eru ræddar.“

Skýrar reglur
Inga Sigrún segir að verkefnið krefjist þess að allir séu virkir og sjálfstæðir. Eðlilega gangi það misjafnlega.

„Já, auðvitað. Á yngsta stigi og miðstigi eru krakkarnir nokkuð opnir fyrir þessu en nemendurnir á efsta stigi eru ekki eins opnir, eins og eðlilegt er. Krökkunum í 10. bekk hefur þó gengið afskaplega vel að halda sínar eigin smiðjur, svo ég taki dæmi. Smiðjurnar hafa gert krakkana sjálfstæðari á margan hátt og kennt þeim að trúa á sínar eigin hugmyndir og getu til að starfa í hópum.“

Þessi hugmyndafræði kallar á visst frjálsræði, nýta nemendur sér það og reyna þannig á þanþol kennara og starfsfólks?

„Já, já, það kemur vissulega fyrir. En þá geta kennararnir líka sagt stopp og þegar sú staða kemur upp verður að ræða hlutina hispurslaust. Og sama regla gildir ef nemendum finnst kennarar ganga of langt. Reglurnar eru alveg skýrar í þessum efnum.“

Þegar þú kynntir Leiðtogasamfélagið fyrir sveitarstjórn, hvernig var þér tekið?

„Hún var mjög jákvæð og sömu sögu er að segja um skólanefndina. Sjálfsagt fannst ýmsum hérna í sveitarfélaginu þetta allt saman hálf kjánalegt, en ég fékk leyfi til að keyra þetta í þrjú ár og núna er einmitt það síðasta að hefjast og svo sjáum við til með framhaldið.“

En foreldrar, hvernig tóku þeir þessu?

„Ég fékk ekki mikla gagnrýni, opinberlega að minnsta kosti. Það eru mörg framandi orð notuð í þessari hugmyndafræði, þannig að ég skil vel að margir hafi verið efins. Í dag er staðan sú að agamálin eru í góðu lagi, krökkunum líður vel og árangur í námi er nokkuð góður. Þannig að ég sem skólastjóri get ekki annað en verið sátt við árangurinn.“

Tilraun sem er að ganga upp
Inga Sigrún segir að Leiðtogasamfélagið hafi vakið nokkra athygli skólafólks og áhugafólks um skólamál.

„Já, þetta spyrst út og ég fæ töluvert af fyrirspurnum. Við erum líka að ná sýnilegum árangri og nemendum líður vel í skólanum. Þetta er líka umtalsverð kerfisbreyting á skólastarfinu, ekki afmarkað verkefni sem stendur yfir í skamman tíma í einstökum bekkjum. Hlutverki kennara var breytt og nemendurnir taka þátt í svo til öllum starfsháttum skólans. Ég er ekki frá því að þessi hugmyndafræði verði innleidd í fleiri skólum, en þó kannski ekki í heilu lagi. Fyrir mér er þetta tilraun sem er að ganga upp,“ segir Inga Sigrún Atladóttir, skólastjóri Valsárskóla.

Greinin birtist fyrst í Skólavörðunni, 2. tbl. 2016.

Viðfangsefni: Grunnskólinn, Leiðtogasamfélagið