Hjálpa stúlkum að bæta samskipti og félagslega færni

18.03.2016 | Skólinn

Hjálpa stúlkum að bæta samskipti og félagslega færni

Guðbjörg Edda Hermannsdóttir félagsráðgjafi og Halla Magnúsdóttir deildarstjóri vinna að bættum samskiptum í Grandaskóla, einkum meðal stúlkna. Þær leggja áherslu á samráð nemenda, kennara og ekki síst foreldra og forráðamanna við að leysa úr málum.

„Markmiðið er að öllum börnum í skólanum líði vel og þau eigi góð samskipti sín á milli,“ segir Guðbjörg Edda Hermannsdóttir, félagsráðgjafi í Grandaskóla og Selásskóla, en hún hefur ásamt Höllu Magnúsdóttur, deildarstjóra Olweus, unnið að því að leysa úr eineltismálum og samskiptavanda í Grandaskóla. Blaðamaður Skólavörðunnar heimsótti Grandaskóla til þess að fræðast um hvernig tekið er á samskiptavanda, einelti og félagslegum vandamálum sem upp koma í skólanum.

„Samstarf okkar Höllu virkar þannig að við bregðumst í sameiningu við þeim málum sem koma upp í bekkjum. Þessi vandi getur verið innan hóps eða milli tveggja einstaklinga. Orsökin getur verið samskiptavandi, vanlíðan eða einhverjir erfiðleikar sem hrjá nemendurna. Flest málanna sem koma á okkar borð tengjast samskiptavanda meðal stúlkna. Það þarf ekki að vera um einelti að ræða heldur geta erfiðleikarnir verið af ýmsum toga,“ segir Guðbjörg.

Halla segir fyrsta skrefið ávallt að setjast niður með umsjónarkennara og fara vel og vandlega yfir þá stöðu sem komin er upp. „Umsjónarkennararnir vinna allir frábært starf og beita ýmsum ráðum til að bæta samskiptin milli nemenda, en þegar mál eru send til okkar þá er það vegna þess að umsjónarkennarinn er búinn að reyna margt.“


Meiðandi orðanotkun og útilokun
Þær Halla og Guðbjörg segjast vinna vel saman en þær hafa svolítið ólíka nálgun; Halla er kennari með margra ára reynslu úr skólastofunni og Guðbjörg er félagsráðgjafi.

„Það fer eftir eðli vandans hverju sinni hvernig tekið er á málinu en við leggjum mikla áherslu á að leita lausna í samráði við kennara, nemendur og ekki síst foreldra og forráðamenn. Stundum þarf að stíga inn í ákveðinn hóp og við tökum krakkana í einkaviðtöl en um leið erum við alltaf í sambandi við foreldra sem nánast undantekningalaust vilja vinna með okkur. Foreldrar vilja að sjálfsögðu að börnum þeirra líði vel í skólanum,“ segir Guðbjörg.

Halla hefur sem fyrr segir mikla reynslu af samskiptamálum barna og hefur unnið með Olweus-eineltisáætlunina í áratug. „Við erum alltaf að leita nýrra leiða í þessum efnum. Þróunin hefur verið sú að stúlkur eiga í meiri vanda en áður. Þegar við hófum að vinna í anda Olweus var meira verið að kljást við sýnilegt ofbeldi og strákar skoruðu hærra þegar kom að einelti. Það hefur tekist vel að draga úr þess háttar einelti en á sama tíma virðast vandamál meðal stúlkna hafa aukist, þótt ekki sé um sýnilegt ofbeldi að ræða heldur frekar aðra hluti, svo sem meiðandi orðanotkun og útilokun. Stúlkur tala oftar um einelti og nota þá þessi hugtök; að þær verði fyrir munnlegu aðkasti og fái ekki að vera með innan hópsins. Þessar stelpur sitja kannski hljóðar í kennslustundum og fara út í frímínútur en svo hringja foreldrarnir og segja okkur að hlutirnir séu ekki í lagi,“ segir Halla. Einelti og samskiptavandi af þessu tagi er að sögn Höllu falinn og mikilvægt að kennarar og foreldrar haldi vöku sinni og fylgist vel með.

Þjálfun í gagnrýninni hugsun
Erfið samskipti stúlkna – leið til lausna er einmitt heiti námskeiðs sem þær Halla og Guðbjörg sækja þessar vikurnar. Námskeiðið er upprunnið í Háskólanum á Akureyri og lýtur stjórn Ingibjargar Auðunsdóttur, sérfræðings á menntasviði HA. „Markmið námskeiðsins er að hjálpa stúlkum að bæta samskiptin sín á milli og efla félagslega færni þeirra með því að vinna bæði með æskilega hegðun og óæskilega hegðun. Lögð er áhersla á að stúlkur fái tækifæri til að ræða saman um mikilvægi félagstengsla og sjálfsvirðingar og að þær fái þjálfun í að hugsa á gagnrýnni hátt um samskipti sín,“ segir Guðbjörg og bætir við að námskeiðið hafi fært þeim góðan „verkfærakassa“ til að vinna með.

„Þessi áætlun felur í sér ákveðið skipulag – svo sem einkaviðtöl við stúlkurnar við upphaf máls, og fund með foreldrum og viðkomandi kennurum. Síðan tölum við gjarnan við stúlkurnar í hóp og förum yfir afleiðingar slæmrar hegðunar og gefum þeim tækifæri til að tala um reynslu sína um leið og þær læra hvernig best er að takast á við samkeppni við skólafélagana. Ýmis verkefni eru lögð fyrir hópinn og farið í leiki þar sem stúlkurnar líta í eigin barm og skoða samskipti sín við aðra,“ segir Guðbjörg.

Lausnir á samskiptavanda geta falið margt í sér að mati þeirra Höllu og Guðbjargar. Samskipti stúlkna geta verið afar flókin og margbreytileg. Stundum eru bekkjafundir, hópefli eða kennslustund í lífsleikni nægilegt en í öðrum tilfellum þarf frekari aðgerðir. „Okkar reynsla er sú að umræðufundirnir með stúlkunum hafa reynst afar gagnlegir og við teljum reynslu verkefnisins Erfið samskipti stúlkna – leið til lausna hafa verið afar góða og eigum eftir að nýta áfram þær leiðir og aðferðir sem þar eru í boði,“ segir Halla.

Halla og Guðbjörg eru sammála um að grípa þurfi strax til aðgerða þegar samskiptavandi kemur upp og þær telja mikilvægt að byrja snemma að fylgjast með þessum málum, við upphaf skólagöngunnar og jafnvel á leikskólastiginu. „Það er svo mikilvægt að byggja upp grunn að góðum samskiptum – því markmiðið er auðvitað að öllum börnum líði vel innan veggja skólans og að þau eigi í góðum samskiptum hvert við annað,“ segir Guðbjörg Edda Hermannsdóttir.

Hægt er að kynna sér verkefnið Erfið samskipti stúlkna – leið til lausna á vef Háskólans á Akureyri.