Gönguferðirnar tíu

12.10.2016 | Skólinn

Gönguferðirnar tíu

Í grunnskólum landsins tíðkast víðast hvar að nýta góða veðrið að hausti til útivistar. Í Þelamerkurskóla í Hörgársveit hefur skapast hefð fyrir gönguferðum nemenda og starfsfólks á sérstökum göngudegi í skólabyrjun. Einn skóladagur í lok ágústmánaðar er undirlagður ferðunum sem orðnar eru að árvissum viðburði í skólastarfinu. Verkefnið gengur undir nafninu Gönguferðirnar 10. Er þar vísað í fjölda gönguferða sem nemandi fer í á sinni skólagöngu, að því gefnu að hann stundi nám við skólann öll árin. Sérstaða skólans felst m.a. í góðri aðstöðu til útikennslu og nálægð við fallegar náttúruperlur og sögufræga staði. Auk hreyfingarinnar sem fæst með gönguferðunum eru þær hluti af grenndarkynningu þar sem hinar ýmsu námsgreinar koma við sögu, svo sem samfélags- og náttúrufræði. Þá er Þelamerkurskóli þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi skóli þar sem lögð er áhersla á nærsamfélagið. Útivist og grenndarkennsla skipa þannig stóran sess í starfi skólans.

Skólastæðið og byggingarnar kannast margir landsmenn við þar sem þær blasa við þeim sem aka um þjóðveg nr. 1. Nú þegar göngudagur yfirstandandi skólaárs er að baki lék Brynjari Karli Óttarssyni, útsendara Skólavörðunnar á Norðurlandi, forvitni á að vita meira um tilurð, tilgang og framkvæmd gönguferðanna 10. Ingileif Ástvaldsdóttir er skólastjóri Þelamerkurskóla en hún, ásamt Unnari Eiríkssyni aðstoðarskólastjóra, ýtti verkefninu úr vör á sínum tíma og heldur utan um það í dag. Við settumst yfir kaffibolla í fallegu haustveðrinu á skrifstofu skólastjóra.

Skólinn þjónar stóru svæði
Við hefjum spjall okkar á því að ræða um sögu skólans. Unnar verður fyrir svörum. „Þelamerkurskóli var stofnaður árið 1963. Fimm hreppar á svæðinu komu að stofnun skólans sem upphaflega var heimavistarskóli. Heimavistin lagðist af árið 1986. Í skólanum er 71 nemandi sem er með minnsta móti - alla jafnan eru nemendur á bilinu 85-90. Í vetur eru 19 starfsmenn við skólann. Um helmingur þeirra er búsettur hér í sveitarfélaginu, aðrir koma frá Akureyri. Hér ríkir mikill stöðugleiki þegar kemur að starfsfólkinu og lítil hreyfing er á fólki svo við erum með starfsmenn sem hafa starfað lengi við skólann. Við lítum svo á að það sé til marks um að fólki líði vel hérna. Stærð skólans er að mörgu leyti ákjósanleg og á sinn þátt í að skapa fjölskylduvænt samfélag. Hér þekkjast allir vel, sem getur reyndar bæði haft sína kosti og galla. Svæðið sem skólinn þjónar er hins vegar stórt. Til marks um það eru fimm skólabílar sem keyra börnin í skólann.“

Tíu gönguferðir í heimabyggð
En hvenær var farið að leggja drög að Gönguferðunum 10? Ingileif rifjar upp aðdragandann: „Rekja má verkefnið sjö ár aftur í tímann. Áður en það kom til skjalanna var alltaf farin ein ferð á skólaári og þá með allan nemendahópinn. Þetta var höfuðverkur á hverju hausti að finna út hvert væri hægt að fara með alla krakkana úr 1. – 10. bekk. Nemendum, stórum sem smáum, var smalað upp í rútu og reynt að sjá til þess að allir hefðu jafn gaman af. Gjarnan var farið að Baugaseli eða upp að Hraunsvatni. Í Dalvíkurskóla þar sem ég starfaði áður og mikil hefð var fyrir haustgönguferðum hafði ég kynnst því hvernig hver árgangur var með sína eigin gönguferð. Á þessum tíma vorum við með nokkur verkefni í grenndarkennslu og okkur þótti tilvalið að sameina þau Dalvíkurleiðinni. Við fórum í samstarf við ferðafélagið Hörg og fengum styrk frá Sprotasjóði til að þróa verkefnið áfram. Afraksturinn var Gönguferðirnar 10 þar sem valdar voru 10 mismunandi gönguferðir í heimabyggð. Nemandi sem stundar nám við Þelamerkurskóla öll grunnskólaárin fer þannig í 10 gönguferðir í sveitarfélaginu.“

Hefðbundinn göngudagur
Ingileif og Unnar segja frá því hvernig hefðbundinn göngudagur gengur fyrir sig. „Göngudagurinn hefst á því að krakkarnir koma með rútunni að morgni. Elstu krakkarnir byrja á að fá sér næringarríkan morgunmat í skólanum, smyrja sér svo nesti fyrir gönguna í mötuneytinu og fara síðan upp í rútu og keyra á áfangastað. Yngri krakkarnir gera slíkt hið sama þegar unglingarnir eru lagðir af stað. Við horfum ekki í það þó þetta kosti rútur. Við erum rútuskóli og ef við myndum horfa í það þá værum við bara alltaf í skólanum. Allir fá hreyfingu og upplifunina af því að vera saman úti í náttúrunni en sumir fá einnig kennslu á staðnum í sögu, landafræði, náttúrufræði o.s.frv. Krakkarnir koma svo aftur í skólann eftir hádegi, þau yngri á undan. Þau fá hádegismat og fá að fara í sund og heita pottinn á eftir, um það leyti sem elstu krakkarnir eru að koma úr göngunni. Þau fá líka að fara í sund og svo fara allir heim með skólarútunni kl 16:00 eftir létta síðdegishressingu.“

Umfang göngudagsins mikið
Ingileif segir að fyrstu árin, meðan verið var að festa verkefnið í sessi, hafi einn skóladagur verið undirlagður gönguferðunum. „Vegna umfangsins var tíminn of knappur og það brá gjarnan við að hópar væru ekki búnir að skila sér til byggða þegar skóladegi lauk. Fyrir tveimur árum var ákveðið að taka aukadag í verkefnið en spyrða þá saman, þannig að nú fara gönguferðirnar fram á svokölluðum „tvöföldum degi“. Þá fer ýmis konar vinna af hálfu nemenda fram í tengslum við gönguferðirnar dagana fyrir og eftir göngudag. Daginn áður er haldið sérstakt útivistarnámskeið fyrir nemendur þar sem þeir fá leiðsögn frá reyndum göngugörpum áður en haldið er af stað. Farið er yfir praktísk atriði þegar kemur að fjallgöngu og útivist, hvernig nota skal kort og skoðuð sérkenni og saga þeirra staða sem verða heimsóttir. Þá undirbúa kennarar hvers árgangs sína nemendur sérstaklega áður en kemur að gönguferðinni. Eftir göngudaginn fá nemendur svo verkefni til úrvinnslu sem tengjast gönguferðunum.“

Margt að sjá og læra í heimabyggð
Unnar segir ferðirnar vera fjölbreyttar, allt frá þægilegri útiveru á láglendi upp í meira krefjandi gönguferðir upp um fjöll og firnindi. „Yngstu nemendurnir fara í skógarferð við Dagverðareyri en hafa einnig á göngu sinni meðfram Hörgá lært um vatnafiska, dragár og fleira í þeim dúr. Nemendur í 5. og 6. bekk ganga að Baugaseli í Barkárdal þar sem gott tækifæri gefst fyrir krakkana að sjá húsakynni fyrri tíma. Krakkarnir í 7. og 8. bekk fara í fjallgöngu þar sem Reistarárskarð er klifið. Þar eru gamlir herbraggar frá stríðsárunum sem hægt er að tengja við samfélagsfræði. Elstu nemendurnir eru einnig í hæstu hæðum, klífa Litla hnjúk og Stóra hnjúk í nágrenni skólans þar sem gefst tækifæri til að þjálfa þá í að lesa úr hæðarlínum. Meðal sögufrægra staða í Hörgárbyggð sem gengið er um og nýta má til kennslu má nefna Möðruvelli og Gásir, sem og Hraunsvatn þar sem faðir Jónasar Hallgrímssonar drukknaði árið 1816. Fleiri slóðir sem nemendur og starfsmenn Þelamerkurskóla ganga um eru Krossastaðagil og Staðarhnjúkur.“

Óaðskiljanlegur hluti af skólastarfinu
Göngudegi yfirstandandi skólaárs er nýlokið. Hvernig meta þau Ingileif og Unnar stöðuna í dag, þegar sjö ára reynsla er komin á verkefnið? Unnar segir göngudaginn og vinnuna honum samfara alltaf hafa gengið vel og að mikil ánægja ríki með fyrirkomulagið. „Mér finnst jákvætt að með gönguferðunum fá börnin tækifæri til að kynnast því hvað heimabyggðin býður upp á mörg tækifæri – hvað hægt er að gera og sjá margt á heimaslóðum. Það þarf ekki alltaf að fara burt og sækja vatnið yfir lækinn. Hér eru margar skemmtilegar gönguferðir og sagan drýpur af hverju strái. Göngudagurinn er orðinn óaðskiljanlegur hluti af skólastarfinu og það er bara jákvætt.“ Ingileif tekur í sama streng. „Ég er ánægðust með tvennt. Annars vegar hvað krakkarnir sýna þessu mikinn áhuga. Unglingarnir eru farnir að spyrja í lok göngunnar hvað taki við að ári: „Förum við upp á þetta fjall næst? Förum við upp í 1000 metra eftir ár?“ Þetta eru spurningar sem við fáum, sem sýnir hversu spennt þau eru orðin fyrir stígandanum í þessu. Þau eru farin að skilja um hvað málið snýst. Hins vegar er það frumkvæðið sem þau sýna ef fresta þarf gönguferð t.d. vegna veðurs. Þau eru mörg hver farin að koma til okkar daginn eftir til að spyrja hvort nú sé ekki tækifæri til að klára gönguna.“ Eitt er það þó sem stjórnendur Þelamerkurskóla segja að geti hamlað verkefni sem þessu. „Svona tekst ekki nema allir séu sveigjanlegir, bæði hvað varðar tíma og plön. Það riðlast allt og því þurfa allir sem að málinu koma að sýna ákveðinn sveigjanleika til að þetta gangi upp. Við höfum verið svo lánsöm að þetta hefur aldrei verið vandamál hjá okkur,“ segir Ingileif.

Útsendari Skólavörðunnar lætur þetta verða lokaorðin og þakkar viðmælendum sínum fyrir spjalliðog rýkur út í sólina með Hraunsvatn á hægri hönd, Möðruvelli á þá vinstri og Stóra hnjúk beint af augum.

Brynjar Karl Óttarsson

Viðfangsefni: Skólastarf, Grunnskólinn, Útivist