Forrit fylgist með athöfnum nemenda í prófi

26.03.2018 | Skólinn

Forrit fylgist með athöfnum nemenda í prófi

Nítján danskir framhaldsskólar taka um þessar mundir þátt í sérstöku tilraunaverkefni sem ætlað er að koma í veg fyrir að nemendur geti notað tölvur til að svindla í prófum.

Til eru margar sögur af tilraunum sem örvæntingarfullir og á stundum hugmyndaríkir nemendur hafa gert í þeirri von að ná viðunandi árangri í prófum. Áður fyrr voru þær tilraunir miðaðar við afmarkaða þætti; svo sem erfið formúla skrifuð í lófann, mikilvæg ártöl á litlum miða í pennaveskinu. Laumumiðaaðferðin var líka þekkt, að senda miða milli sæta. Þá þurfti að velja sæti hjá betur lesnum sem vissi um hvað málið snerist og tók þátt í svindlinu.

Stundum var brugðið á það ráð að gramsa í ruslatunnum bakvið skólann eftir að dimma tók, í þeirri von að finna þar stensilinn sem notaður var til að fjölrita prófið. Þess voru líka dæmi að brotist væri inn í skóla til að reyna að finna prófið sem átti að leggja fyrir daginn eftir. Þessar sögur og margar aðrar þekkja flestir. Fáum sögum fer af árangri þessara tilrauna en sögurnar eru margar hverjar skemmtilegar og bera vott um hugmyndaauðgi „tilraunafólksins“.
Þetta var þá. Síðan hefur margt breyst.

Símar og tölvur
Í dag á nánast hver einasti maður tölvu eða farsíma, flestir báða þessa hluti. Með þeim tækjum er hægt að finna upplýsingar um nánast allt milli himins og jarðar. Flestir eru sammála um að þessi tæki séu hin mestu þarfaþing, hafi „opnað víddir veraldarinnar“ er stundum sagt. Tölvutæknin og netið hafa haft í för með sér miklar breytingar á öllu skólastarfi. Skólarnir voru misfljótir að tileinka sér þessa nýju tækni en í dag eru tölvur og netnotkun sjálfsagður hlutur í öllu skólastarfi. Margir skólar hafa átt í hálfgerðum vandræðum varðandi alla þessa tækni, ekki síst með símana. Þótt þeir séu þarfaþing eru þeir líka friðarspillar. Sums staðar hafa skólayfirvöld einfaldlega bannað alla símanotkun á skólatíma, annars staðar gildir bannið í kennslustundum, nemendum gert að skilja símann eftir á tilteknum stað í stofunni, reglurnar eru mismunandi.

Tölvur og próf
Tölvurnar og netið eru eins og áður sagði orðin ómissandi þáttur í öllu skólastarfi. Þar er námsefni og margs konar ítarefni, þar skrifa nemendur glósur, skila verkefnum og fá til baka frá kennurum.

Tilkynningar um allt mögulegt sem við kemur skólastarfinu er sömuleiðis á netinu og svo mætti áfram telja. Tölvunum og netinu getur þó fylgt ákveðinn vandi. Próf eru sem kunnugt er mælitæki til að vega og meta kunnáttu nemenda. Þar eiga nemendur að sýna kunnáttu sína og færni, einir og óstuddir. Án aðstoðar annarra. Og þá vandast málið. Víða er það svo í skólum að beinlínis er gert ráð fyrir að nemendur noti tölvuna í prófum. Noti en misnoti ekki. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Með tölvunum hefur nefnilega myndast möguleiki á að fá „aðstoð. Nemendur hafa, margir hverjir, ekki hikað við að notfæra sér „aðstoðarmöguleikann“ og þá er ekki lengur að marka mælitækið, prófið sýnir ekki kunnáttu og færni nemandans. Þetta hefur skapað ákveðinn vanda. Öllum er þessi vandi ljós, en ekki hefur reynst auðvelt að bregðast við honum.

Danska tilraunin
Margir danskir framhaldsskólar eru mjög „tölvuvæddir“. Með aukinni tölvunotkun hefur alls kyns misnotkun aukist að sama skapi. Skólarnir hafa verið í vandræðum með að finna lausnir, sem koma í veg fyrir misnotkun og svindl, en koma ekki í veg fyrir notkun innan þeirra marka sem heimilt er.

Fyrirtækið ExamCookie hefur hannað sérstakt eftirlitskerfi sem þessa dagana er í tilraunanotkun hjá nítján framhaldsskólum en þar standa nú yfir svokölluð tímabils- eða hlutapróf (terminprøver). Áhugi fyrir þessari tilraun er mikill að sögn talsmanns ExamCookie og rúmlega áttatíu skólar hafa óskað eftir að fá að nota eftirlitskerfið í vor. Þegar hefur reynt á kerfið við hlutapróf í sumum tilraunaskólanna, í einum þeirra þóttu einkunnir nokkurra nemenda í ósamræmi við fyrri frammistöðu þeirra. Í ljós kom að þessir tilteknu nemendur höfðu farið inn á vefsíður sem óleyfilegt var að opna í þessu tiltekna prófi. Nemendurnir báru því við að þeir hefðu ekki vitað að þessi síða væri „bönnuð“ og skólayfirvöld tóku að hluta undir með nemendum og sögðu að kannski hefði ekki verið nógu skýrt hvað mætti og hvað ekki. Það þyrfti að laga.

 1. ExamCookie kerfið virkar í stuttu máli þannig:
  1. Nemendur, skrá sig inn og hlaða niður sérstöku forriti
  2. Á meðan prófið stendur yfir fylgist forritið með öllu sem fram fer á tölvuskjánum og tekur mynd af myndin á skjánum breytist skyndilega.
  3. Forritið skráir hvaða vefsíður nemandinn skoðar, og hvað hann skoðar á síðunum og tekur með skömmu millibili myndir af skjánum.
  4. Þegar prófinu er lokið sendir tölva skýrslu til tölvudeildar skólans. Þar kemur fram hvort, og þá hve oft, nemandi hefur aðhafst eitthvað sem talist gæti athugavert. Þar á meðal hvort viðkomandi hefur farið inn á Facebook eða haft samband við einstaklinga með einhverjum hætti.
  5. Þegar prófinu er lokið eyðist forritið sjálfkrafa.
  6. Upplýsingarnar er hægt að geyma í eitt ár.

Stjórnendur sumra þeirra skóla sem taka þátt í þessari tilraun segja að þeir viti að nemendur hafi svindlað, sumir margoft. Fram til þessa hafi ekki fundist ráð til að koma í veg fyrir svindlið, nema beinlínis banna tölvurnar en slíkt sé útilokað.

Forsvarsmenn ExamCookie segja mjög mikilvægt að nemendum sé ljóst að eftirlitið nær aðeins til viðkomandi prófs og að nemendur geti sjálfir gengið úr skugga um að forritið og allt sem því við kemur verði ekki lengur til staðar í tölvunni þegar prófinu er lokið.

Borgþór Arngrímsson

Blaðamaður Skólavörðunnar í Kaupmannahöfn