Eru nemendur sérfræðingar í sínu vinnuumhverfi?

11.01.2019 | Skólinn

Eru nemendur sérfræðingar í sínu vinnuumhverfi?

Manstu eftir illa lyktandi klósetti í skólanum þar sem allt var á rúi og stúi? Klósetti sem þig langaði ekki vitund inn á en varðst vegna þess að þetta var eina salernið í nágrenni við stofuna þína og þú varst í spreng? Ég man.

Skólar eru fjölmennir vinnustaðir og þar, eins og annars staðar, skiptir vinnuumhverfið máli. Við leiðum kannski ekki hugann að því daglega en meirihluti þeirra sem dvelur langdvölum við leik og störf í skólum eru nemendurnir. Skólastjórinn er ábyrgur fyrir vinnuumhverfi skólanna og öryggi inni í og utan við skóla en hver og einn hefur ábyrgð líka. Í skólanum eru reglur sem allir eiga að fylgja og flestir gera það. Reglurnar eru bæði skráðar og óskráðar og lærast með tímanum. Við göngum vel um og vöndum samskipti, svona flesta daga, gleymum okkur stundum en það gerist á bestu bæjum.

Samkvæmt Lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum 46/1980, 65. grein ber atvinnurekandi ábyrgð á að unnin sé áætlun um heilsuvernd og öryggi á vinnustaðnum. Í áætluninni er áhættumat. Áhættumatið greinir vinnuumhverfi eftir fyrirfram gefnum þáttum, s.s. félagslegum, andlegum, líkamlegum og umhverfislegum. Áhættumatið er mjög mikilvægt svo meta megi alla þætti vinnuumhverfisins. Samkvæmt 20. grein Reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006 er matið unnið af atvinnurekanda í samvinnu við öryggisnefnd, öryggistrúnaðarmann, öryggisvörð eða félagslegan trúnaðarmann, allt eftir stærð vinnustaðarins. En hvað með skóla? Þar er unnið áhættumat og farið yfir alla þætti - en hafa nemendur rödd?

Vissulega er víða hlustað eftir hugmyndum nemenda og settar upp aparólur og körfuboltaspjöld á skólalóðum en hvað um allt hitt? Hafa nemendur verið spurðir um líðan, hljóðvist, loftgæði og hreinlæti í skólanum? Ef svo er er það gott en líklega má alltaf gera gott betra. Svíar, sem eru mjög framarlega í vinnuumhverfismálum, hafa brugðið á það ráð að óska eftir að skipaðir séu tveir vinnuverndarfulltrúar nemenda í hverjum skóla frá og með 7. bekk og eiga nemendur að tilnefna þá. Tilkynna verður hverjir vinnuverndarfulltrúarnir eru og eiga nemendur greiðan aðgang að þeim með sínar ábendingar. Þeir vinna með öryggistrúnaðarmanni eða öryggisverði skólans og fara reglulega um skólann og gera úttekt á umhverfinu og öryggi þess. Enn fremur fá vinnuverndarfulltrúar nemenda að vita um öll breytingaáform í skólanum og mega gera athugasemdir við þau. Í ljós hefur komið að hugðarefni nemenda og starfsfólks fara saman þannig að það sem skiptir nemendur máli í þeirra vinnuumhverfi hefur einnig áhrif á vinnuumhverfi starfsfólks.

Ef vel á að vera ættu nemendur að fá að skoða vinnuumhverfi sitt árlega. Gera mætti úr þessu fjölþætt hópverkefni þar sem margar námsgreinar ynnu saman. Rannsókn nemenda þarf ekki að vera flókin og það má laga listann að aldri og getu hópsins hverju sinni. Eftirfarandi lista má hafa í huga þegar farið er á stúfana:

 • – Er loftið gott í kennslustofunni?
 • – Er hitastigið í kennslustofunni þægilegt?
 • – Er hávaði í kennslustofunni? Eru margir nemendur í stofunni? Er hávaði þegar stólar og borð eru færð til? Er hávaði í loftræstingu?
 • – Eru klósettin hrein?
 • – Eru öll tækin í íþróttasalnum örugg og rétt samsett?
 • – Kanntu vel á þau tæki sem þú notar í smíðastofunni? Ertu örugg(ur) þar?
 • – Eru hættuleg efni í efnafræðistofunni sem þarf að ganga vel frá?
 • – Er vinnuaðstaða þín í lagi? Passa borðið og stóllinn fyrir þig?
 • – Er hávaði í matsalnum? Hversu mikill frá 1-10? Væri hægt að skipuleggja matartíma öðruvísi til að minnka hávaða??
 • – Er skólalóðin söltuð eða settur á hana sandur í hálku?
 • – Ertu örugg(ur) alls staðar í skólanum?
 • – Líður þér vel í skólanum?
 • – Tekur skólinn á átökum og deilum?
 • – Er virk eineltisáætlun í skólanum?
 • – Eru öll tækin á skólalóðinni í lagi?
 • – Eru gluggar skólans í lagi?
 • – Veistu hvað þú átt að gera ef kviknar í?
 • – Listann má nýta að vild og honum má breyta og við hann bæta.

Nemendur hafa sterkar skoðanir á því sem betur má fara og hvað þarf að vera í lagi. Umboðsmaður barna í Svíþjóð gerði könnun meðal nemenda í Svíþjóð og spurði um margt í vinnuumhverfinu. Í ljós kom að nemendum þykir mikilvægast að skólinn:

 • – hafi virka eineltisstefnu sem má treysta á að virki
 • – bjóði upp á góðan og næringarríkan mat
 • – hugi að því að hafa rólegt andrúmsloft, nemendum er illa við stress
 • – passi að fullorðnir séu sýnilegir og hjálpsamir
 • – hlusti á nemendur
 • – sé þrifalegur

Ljóst er að nemendur eru sérfræðingar í vinnuumhverfi sínu og vita hvað þeir vilja enda dvelja þeir langdvölum á staðnum. Margt af því sem nemendur benda á er á valdi stjórnenda en almennar umgengnisreglur eru alls staðar og þær virðum við.

Byggt á:
Lindell, Johanna og Karin Nilsson. 2015. Arbetsmiljö, så funkar det. Arena skolinformation. http://arbetslivskoll.se/wp-content/uploads/sites/...
Arbetsmiljön i skolan. Arbetsmiljöverket. https://www.av.se/globalassets/filer/publikationer...

Grein Sigrúnar Birnu birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. 2018.

Sigrún Birna Björnsdóttir

sérfræðingur í vinnuumhverfis- og jafnréttismálum hjá KÍ
Viðfangsefni: Vinnuumhverfismál